Göngugatan
Strikið (Strøget) teygist 1,8
km á milli Ráðhússtorgs og Kongens Nytorv.
Það er upplagt að hefja göngu um gamla miðbæinn frá gamla
dómshúsinu, sem er líklega hreinasta dæmið um danska, klassíska
byggingu.. Þaðan er haldið
yfir Kongens Nytorv um Nørregade að Frúarkirkjunni. Norðan kirkjunnar, handan Biskupstorgs (minnismerki um siðbótina),
er aðalháskólabyggingin, sem Kristján I stofnaði 1478 og var
endurskipulagður árið 1537. Núverandi
bygging frá 1831-36 er
blanda af nýklassískum og síðgotneskum stílum undir áhrifum frá
enskum háskólabyggingum. Í
anddyri eru freskur með þjóðsagnaverum eftir Constantin Hansen.
Hægra megin háskólans er gamla bókasafnið. Handan Nørregade er elzta kirkja borgarinnar, kirkja hl. Péturs,
sem var upprunalega byggð í síðgotneskum stíl og endurnýjuð 1816.
Turn hennar frá 1756 er 78 m hár.
Síðan 1586 hefur hún verið sóknarkirkja þýzkra íbúa
borgarinnar. Við hana er
fallegur blómagarður með grafsteinum
Gönguferð frá ráðhúsinu,
austur Strikið, sem er þverskorið mörgum stuttum götum, leiðir til
Kongens Nytorv. Við Strikið eru margar verzlanir, veitinga- og kaffihús.
Skammt austan Ráðhússtorgsins breikkar göngugatan og heitir
þar Gamla torg og Nýja torg, þar sem standa gömul aðalsmannahús frá
því um 1800. Vinstra
megin Striksins er Heilagsandakirkjan, þar sem var eitt sinn Klaustur
og því tilheyrandi Heilagsandahúsið, sem stendur enn þá. Það er eina miðaldahús borgarinnar. Hús nr. 6 við Amagertorg er líklega elzta einbýlishús
borgarinnar. Hansen
borgarstjóri lét byggja það í hollenzkum barokstíl árið 1616.
Í fallegum sandsteinsaðalinngangi þess er verzlun Konunglegu
postulínsverksmiðjanna. Í
húsi nr. 10 er verzlunarhús Illums, sem verzlar með danska listmuni.
Handan Storkabrunnsins er Kongens Nytorv, sem var lagt í lok 17.
aldar og nær yfir 3,3 hektara. Í
miðju þess er riddarastytta af Kristjáni V.
Við torgið sunnanvert er Konunglega leikhúsið, sem var byggt
í síðendurreisnarstíl á árunum 1872-74.
Framan við inngang þess eru bronsminnismerki skopleikjahöfundarins
Ludwig Holberg og harmleikjaskáldsins Adam Ørenschläger.
Höllin
Charlottenborg er við austurenda torgsins.
Þar hefur Konunglega tónlistarakademían verið til húsa síðan1754.
Bak við höllina sést til gömlu gaflhúsanna við Nyhöfn, þar
sem stendur risaakkeri til minningar um fallna danska sjómenn.
Skemmtiferðabátar bíða eftir farþegum í Nýhöfn, þar sem
var áður lastabæli borgarinnar.
Litskrúðug, lítil húsin á vinstri skurðbakkanum gera þennan
borgarhluta mjög aðlaðandi. Þar
eru gistiheimili, krár, húðflúrsstofur o.fl.
Skíðabátar flytja fólk á milli Nýhafnar og Malmö á 35 mínútum.
Efst við Nýhöfn er Bredgade, sem leiðir göngumanninn fram hjá
gamalli höll að Marmara- eða Friðrikskirkjunni.
Bygging hennar var hafin árið 1749 en ekki lokið fyrr en 1894
vegna fjárskorts. Kúpull
kirkjunnar er 84 m hár og að utanverðu er hún skreytt styttum af mönnum
úr biblíunni og kirkjusögunni, þ.á.m. postula Norðurlanda, Ansgar
og siðbótarmanninum Grundtvig. Inni
í kirkjunni er m.a. kross úr fílabeini, þýzk eikarlágmynd af
Kristi, þegar hann var tekinn af krossinum og hinn sjöarma
gullkertastjaki Grundtvigs.
Beint á móti
Marmarakirkjunni, í gegnum Frederiksgade, er Amalienborgarhöll, setur
dönsku drottningarinnar. Þessi átthyrnda og breiða höll geislar frá sér fjórum
álmum, sem voru fyrrum sérstæð hibýli aðalsmanna.
Á miðju torginu er riddarastytta af Friðriki V (1771).
Suðaustan þess er höll Kristjáns IX, sem nú er heimili
drottningarfjölskyldunnar. Við
hliðina er höll Friðriks VIII, þar sem drottningarmóðirin, Ingrid,
bjó til dauðadags í nóv. 2000.
Þá kemur höll Kristjáns VIII og höll Krisjáns VII, þar sem
konunglegar móttökur fara fram og hátíðarsalir fyrir ýmis tilefni.
Drottningin er viðstödd vaktaskipti lífvarðarins á hádegi
á hverjum degi. Lífvörðurinn,
sem er klæddur bláum búningi og háum bjarnarskinnshöttum, er orðinn
að einu kennimerkja borgarinnar.
Nú snúum við okkur
aftur að Bredgade, þar sem við finnum Alexander Newskij kirkjuna með
þremur gylltum laukkúplum. Þá
kemur Landsrétturinn, fyrrum óperuhús og herakademía með herbúðum.
Eftir að Kristjánsborg brann árið 1884 varð húsið aðsetur
þingsins til 1918. Handan
götunnar er Ansgarkirkjan, elzta katólska kirkja borgarinnar.
Hún hefur verið biskupakirkja síðan 1942.
Við hlið hennar er Listiðnaðarsafnið með munum frá flestum
heimshornum, bæði gömlum og nýjum.
Tréskurðarmunir frá 16. og 17. öldum eru athyglisverðir.
Bredgade endar í Esplanade (Virkisflöt).
Áður en haldið er til Kastell til hægri er heillaráð að stíga
nokkur skref til vinstri til að kíkja á Nyboder-hverfið, sem státar
af lágreistum, gulum húsum, sem voru byggð fyrir háseta á herskipum
hans hátignar á 17. og 18. öldum.
Húsin við Sct. Paulsgade 20-40 eru elzt.
Kastell var áður
virkið Frederikshavn. Elztu
hlutar þess voru byggðir árið 1625.
Þegar Danir misstu ítök sín austan Eyrarsunds árið 1658 og
Kaupmannahöfn varð að útverði landsins í austri, varð að efla
varnir borgarinnar. Innri
mannvirki virkisins hafa staðizt tímans tönn, þ.á.m. fallegu hliðin
tvö. Í skemmtigarðinum
við hlið virkisins er Frelsissafnið, sem stofnað var í tilefni af
baráttunni gegn nasismanum á árum síðari heimsstyrjaldarinnar,
enska kirkjan Sct. Alban og Gefionbrunnurinn, sem var byggður árið
1908. Stytturnar í
brunninum sýna gyðjuna Gefion plægja eyjuna Sjáland frá Svíþjóð
með uxum sínum. Þá
liggur leiðin niður á strandgötuna Löngulínu, að litlu
hafmeyjunni, sem Edv. Eriksen skapaði eftir ævintýri H.C. Andersens.
Þar er líka smábátahöfn.
Við vesturhorn Kastellvirkisins er Østerport brautarstöðin og
andspænis henni er Den frie Udstilling, listasafn.
Norðvestan skemmtigarðsins er Stokkhólmsgata.
Í húsi nr. 20 er myndasafnið Hirschsprungske billedersamling,
þar sem lögð er áherzla á danska myndlist frá 19. öld.
Þaðan liggur Dag Hammarskjölds Allé að Falled garðinum (íþróttaleikvangur).
Við vestanverðan Háskólagarðinn er Dýrafræðisafnið
(Zoologisk Museum).
Norðan og vestan
gamla borgarhlutans eru margir stórir skemmtigarðar, sem gaman er að
skoða. Norðvestan Ráðhússtorgsins
er hinn rómantíski Ørstedsgarður, sem var gerður á rústum virkis
og er þess vegna svolítið hæðóttur.
Þá er haldið áfram um Rømersgade, fram hjá Ísraelstorgi,
þar sem er flóamarkaður á laugardögum, að Grasagarðinum, Plöntusafninu,
Pálmahúsinu, Jarðfræðisafninu og Tækniskólanum. Gothersgade tekur við og þá Konungsgarðurinn (Rosenborg
Have), þar sem Kaupmannahafnarbúar slappa af á sumrin. Þar er fjöldi styttna og Herkúlesarskálinn, þar sem er
brúðuleikhús á sumrin. Í
efri hluta garðsins er Rosenborgarhöll, sem Kristján IV lét reisa
sem lystihöll. Þar dvöldu
dönsku konungarnir vor og haust þar til höllin var gerð að
konunglegu fjölskyldusafni 1833 og opnuð almenningi.
Marmarasalur Friðriks III er einn athyglisverðasti hluti
hallarinnar auk krónuskartgripanna, ríkisinnsiglin og dans- eða
riddarasalurinn.
Skáhallt gegnt norðurinngangi
garðsins er annar garður með Listasafni ríkisins (Statens Museum for
Kunst; 1891-96). Í málverkasafninu
eru sýnishorn af evrópskri list frá 13. – 18. aldar.
Í ítölsku deildinni eru frábær verk Tizians og Tintoretto,
í hinni hollenzku og flæmsku eftir Rubens og Rembrandt, í hinni þýzku
eftir Lucas Cranach, auk fjölda danskra verka frá fyrstu tugum 20.
aldar, en samt ekki nútímalistaverk.
Í einkasafni, sem Listasafn ríkisins fékk að gjöf má finna
verk eftir Braque, Matisse og Picasso. Í koparstungusafninu, sem er hluti Konunglega bókasafnsins,
eru u.þ.b. 100.000 síður.
Frá
Nørregade er farið um eina þvergötuna að Fiolstræti, sem liggur
samsíða Nørregade. Þar
er fjöldi bóka- og forngripaverzlana.
Við Kristalgötu er guðshús gyðinga (synagóga) úr gulum múrsteini.
Handan þess er Købmagergade (göngugata), sem er vinsæl
verzlunargata. Þar er
„Regensen” (1623), stúdentaheimili með fallegum bogagangi og beint
á móti er Sívaliturn.
Næst
liggur leiðin um Grábræðratorg frá Skindergade og Kejsergade.
Þetta er eitt mest aðlaðandi torg borgarinnar með gömlum og
litríkum húsum frá 18. öld. Á fögrum sumardögum hittast stúdentar, draumóramenn og
annað fólk hér. Svo er
haldið eftir Strikinu að Nýjatorgi aftur.
Tívolí.
Sé haldið yfir H.C. Andersens Boulevard er komið að hinu nýlega
núsi samtaka iðnaðarins (listiðnaðarsafn).
Á bak við það er hinn heimskunni skemmtigarður Tívolí með
aðalinngang frá Vesterbrogade.
Við
H.C. Andersens Boulevard er einnig að finna Vaxmyndasafnið (Tussaud
Museum) og bezta listasafn borgarinnar Nýja Carlsberg höggmyndasafnið
við Dantetorg með Dantesúlunni, sem var gjöf frá Rómarborg.
Andspænis höggmyndasafninu
er gengið eftir Nýju Vesturgötu að Þjóðminjasafninu, sem er
fallega í sveit sett við Frederikholms skurðinn.
Handan skurðarins, á Hallareyjunni, er Kristjánsborgarhöll,
setur ríkisstjórnar og þingssins (Folketinget).
Undir höllinni er hægt að skoða rústir virkis Absalons frá
árinu 1167.
Handan Tøjhusgade er
Áhaldahúsið með Hersafninu og við hliðina er Konunglega bókasafnið
með tæplega 2 milljónir binda og 52 þúsund handrit, sem eru sýnd
á skiptisýningum. Þarna
var áður hluti hafnarinnar.
Norðvestan
hallarinnar er Thorvaldsenssafnið með verkum þekktasta myndhöggvara
Dana, sem var af íslenzkum ættum (1770-1844).
Það var byggt eftir teikningum Gottliebs Bindesbølls á árunum
1839-48. Myndirnar á húshliðinni
skurðarmegin sýna endurkomu Thorvaldsens frá Róm 1838.
Í safninu er líka einkasafn Thorvaldsens og vinnuaðferðir
hans eru sýndar.
Handan skurðarins,
við Gammel Strand, er stytta gamallar fisksölukonu.
Þar er nú rekin flóamarkaður alla morgna.
Suðaustan Kristjánsborgar,
í áttina að höfninni, er kauphöllin (1619-20).
Þetta er falleg bygging í hollenzkum endurreisnarstíl með 54
m háan turn. Fjórir
drekahalar snúast upp turnspíruna.
Holmenskirkjan, sem
var byggð í upphafi 17. aldar þar sem var akkerasmiðja, er á hinum
skurðbakkanum.
Sé haldið áfram
yfir Knippelsbrúna (reisibrú; 29 m span) blasir við borgarhlutinn
Kristjánshöfn. Fjöldi
skurða sker hann og minnir helzt á Amsterdam.
Frelsarakirkjan er við götu hl. Önnu. Í gömlu hermannaskálunum
við Bådsmands Stræde er Fríríkið Kristjanía.
Íbúar þess lýstu yfir sjálfstæði sínu árið 1971.
Þar fór fram opinber félagsleg tilraunastarfsemi á árunum
1973-1975. Síðan hefur þetta
samfélag liðist án afskipta yfirvalda, þótt þarna sé höndlað með
eiturlyf og þeirra neytt. Yfirvöld
hafa getað rýmt svæðið lögum samkvæmt en hafa látið það ógert,
þótt dönsk yfirvöld hafi ekki verið kunn fyrir tilslakanir og umburðarlyndi
í ýmsum félagslegum málum.
Í
vesturhluta borgarinnar er Frederiksberg og samnefndur garður með höll
í ítölskum stíl, dýragarðurinn með útsýnisturni.
Þangað liggja göturnar Vesterbrogade og Frederiksberg Allé.
Carlsberg verksmiðjurnar, sem bjóða gestum í skoðunarferðir,
eru í úthverfinu Valby. Fílaturninn
við Carlsberg Vej er kæliturn, sem stendur á fjórum fílum úr graníti.
Í Bispebjerg, 6 km norðvestan miðborgarinnar, stendur
Grundtvigskirkjan (P.V. Jensen-Klint; 1921-40) í stíl danskra
sveitakirkna. Hún er byggð
úr gulum múrsteini og vesturhliðin líkist einna helst risaorgeli.
Kirkjuskipið er hátt, bjart og rúmgott og hentar vel til tónleikahalds
vegna góðs hljómburðar, enda á kirkjan stærsta orgel á Norðurlöndum. |