Landið.
Síle er að mestu fjalllent og þar ráða Andesfjöllin ríkjum.
Vegna þess, hve landið er langt, er loftslagið mjög
mismunandi. Náttúra
landsins er einnig mjög fjölbreytt.
Jarðskjálftar og eldgos eru tíð og risaflóðbylgjur í kjölfar
skjálftamiðja á brotabeltum fyrir ströndinni ríða oft yfir.
Syðst í landinu geisa oft vetrarstórviðri og norðar eru víða
miklir þurrkar á sumrin.
Mestur
hluti Norður-Síle er eyðimörk.
Miðhlutinn er temprað svæði og þar býr lungi landsmanna.
Miðhluti Suðurlandsins er tempraður og úrkomusamur og hentar
vel til kornræktar. Þar
er fjöldi stöðuvatna og skóga.
Syðsti þriðjungur landsins er fjörðum skorinn. Þar er kalt, rakt og stormasamt og afkomumöguleikar fáir.
Efnahagur landsins byggist á frumvinnslugreinum, s.s. landbúnaði,
fiskveiðum og vinnslu, kopar, járni og saltpétri.
Spánverjar
námu landið og settu menningarstimpil sinn á það, þannig að
upprunalegrar menningar indíána gætir lítt.
Íbúarnir blönduðust að mestu og urðu mestizo og fámennur hópur
efnafólks réði mestu. Landsmenn
voru ekki eins háðir landbúnaði og námuvinnslu og mörg önnur
latnesk-amerísk lönd og þróuðu framleiðslugreinar samhliða.
Af þeim sökum er meira um borgarsamfélög í landinu en annars
staðar í álfunni og meira um miðstéttarfólk, sem leiddi til þess,
að landsmönnum tókst að skapa stöðugra lýðræðisþjóðfélag
en víðast annars staðar í þessum heimshluta, ef frá er talið tímabil
herstjórnar frá 1973-90.
Landslag
og náttúra.
Landslagsformin þrjú liggja samsíða frá norðri til suðurs.
Andesfjöllin eru austast, þá miðlægðin og strandfjöllin
vestast. Síðan er þessum
lengdaröxli skipt í fimm breiddarsvæði frá norðri til suðurs.
Nyrzt er Norte Grande (að 27°S), miðnorðursvæðið Norte
Chico (27°-33°S), miðhlutinn Zona Central (33°-38°S), miðsuðurhlutinn
La Frontera og Vatnasvæðið (38°-42°S) og suðursvæðið Sur (42°-
Hornhöfði).
Síle liggur á og meðfram flekaskilum Kyrrahafsins, sem valda bæði
jarðskjálftum og eldgosum. Kyrrahafsplatan gengur inn undir
Afríku- og Suður-Ameríkuplötuna og veldur fellingamyndun Andesfjalla. Fyrir ströndinni milli Concepción og
Santiago hófst jarðskjálftahrina á 500 km löngu brotabelti hinn 27.
febrúar 2010. Fyrsti skjálftinn mældist 8,8 á Richter kvarðanum
og eftirskjálftar voru misstórir. Mann- og eignatjón varð mikið.
Andesfjöllin
teygjast næstum eftir landinu endilöngu og um þau liggja að mestu
landamærin að Argentínu. Þessi
fellingafjöll byrjuðu að myndast á júratímanum fyrir 190 miljónum
ára, þegar land- og sjávarset safnaðist í Andessamhverfuna og
Kyrrahafsflekinn fór að ganga yfir Suður-Ameríkuflekann.
Snemma á tertíertímanum (fyrir 65 miljónum ára) hófst
eldvirkni, sem myndaði ríólít- og dasítlög með kopar, járni,
silfri, molybdenum og magnesíumæðum.
Kolabirgðirnar í miðhlutanum eru einnig frá þessum tíma.
Fellingamyndunin hélt áfram á síðtertíer og eldvirkni jókst.
Þessi aukna virkni skildi Andesfjölli frá eldri strandfjöllunum
og miðlægðin myndaðist. Í
upphafi kvartertímans voru Andesfjöllin orðin hærri en þau eru núna.
Fyrir 2½-3 miljónum ára kólnaði um allan heim og jöklar
mynduðust á hæstu tindum. Stöðuvötnin
í suðurhlutanum eru afleiðing bráðnunar jökla, sem hófst fyrir u.þ.b.
17.000 árum, og síðan þá hafa engar stórbreytingar orðið á
Andessvæðinu, þótt fellingahreyfingum og eldgosum sé ekki lokið.
Norðurhluti
fjallgarðsins,
að 27°S, er breiður og þurrviðrasamur og 5-6 þúsund
metra hár. Flestir hæstu
tindanna eru útbrunnin eldfjöll (Llullaillaco, 6700m; Licancábur,
5880m; Oios del Salado, 6853m). Í
lok síðasta jökulskeiðs safnaðist leysingarvatn í grunnar lægðir
hádalanna. Þessi söltu vötn,
s.s. Atacama-saltsléttan, eru að þorna upp og hverfa. Sunnar lækka fjöllin nokkuð en í miðhluta landsins (32°-34°30’S)
hækka þau á ný (Mt Tupungato, 6532m; Maipo, 5233m). Allir þessir tindar eru þaktir jöklum. Vetrarskíðasvæðin í grennd við Santiago eru vinsæl.
Flest hæstu fjallanna á svæðinu 34°30’-42°S eru 2600-3500
m há. Sum þeirra eru útbrunnin
eldfjöll og önnur eru virk (Copahue, Llaima, Osomo Tronador, 3480m).
Þau eru keilulaga og auka enn á fegurð Vatnasvæðisins í suðurhluta
landsins, þegar þau speglast í vatnsfletinum.
Sunnan 42°S lækka Andesfjöllin og tindarnir standa aðskildir
vegna jökulrofsins á kvartertímanum.
Enn
sunnar er Síleska-Patagónía, sem er ekki nákvæmlega skilgreind, og
nær yfir Magellan-svæðið og jafnvel Eldland.
Þar eru nokkur há fjöll, s.s. San Valentín, rúmlega 3600m og
Darwin á Eldlandi, u.þ.b. 2400m. U-dalir og hvassar fjallabrúnir, stöðuvötnin og 18.000 km²
jökulbreiður minna á jökulskeiðin.
Suðurjökullinn, milli 48°30’S og 51°30’S, er hinn stærsti
á suðuhveli jarðar utan Suðurskautslandsins.
Miðlægðin
milli Andesfjalla og strandfjallanna liggur að mestu milli misgengissvæða.
Hún hefur löngum tekið við seti frá Andesfjöllunum, jökulruðningum
og áfoki. Í norðurhluta
landsins lítur hún út eins og háslétta í 700-1400 m hæð yfir sjó.
Sölt setlög, sem urðu til á tertíer- og kvartertímanum,
fengu saltbirgðir sína frá Tamarugal- og Carmen saltsléttunum, þar
sem var fyrrum unnið mikið salt og bæirnir María Elena, Pedro de
Valdivia og Baquedano iðuðu af lífi.
Í miðnorðurhlutanum, suður að eyðimörkunum, liggja þverfjallgarðar
yfir miðlægðina og mynda frjósama dali.
Aconcagua-árdalurinn, sem er þverdalur nokkru sunnar, er á mörkum
miðhluta landsins.
Ársetið
í miðhluta landsins er mjög frjósamt og gerir landsmönnum kleift að
stunda þar svipaðan landbúnaða og við erum vön í Miðjarðarhafslöndum.
Jarðvegurinn, nægilegt vatn og temprað loftslag gerir Miðdalinn
að þéttbýlasta og afurðaríkasta svæði landsins.
Miðsuðurhluti landsins er hentugt svæði til ræktunar korns
og beitar fyrir nautgripi, enda er mjólkurframleiðsla þar mikil.
Sunnan Bío-Bío-árinnar taka þéttir skógar við af runnavöxnum
jökulöldum og stöðuvötnum og miðlægðin lækkar niður að sjávarmáli
við Puerto Montt. Allrasyðst
sjást einungis Andestindar og strandfjöllin, því að miðlægðin
liggur þar undir sjávarmáli.
Strandfjöllin.
Nyrzt og um miðbik landsins mynda strandfjöllin hrygg milli miðlægðarinnar
og Kyrrahafsstrandarinnar. Þessi
fjallgarður, sem er óvíða hærri en 2000 m, er ávalur eða flatur,
enda talsvert eldri en Andesfjöllin.
Í miðnorður- og miðhluta landsins er berggrunnur fjallanna
granít eða umbreytt berg, sem þrýstist upp á yfirborðið, þegar
fellingamyndun Andesfjallanna var sem mest.
Í miðsuður- og suðurhlutum landsins er byggingarefnið aðallega
umbreytt berg og eldfjallaafurðir, sem gefa til kynna mun eldri
fellingahreyfingar. Strandfjöllin
voru aldrei þakin ísaldarjöklum og ríkulegur gróður þeirra hvarf
fyrir tilstilli manna. Þar
sem mikill landbúnaður var stundaður, er jarðvegseyðing mikil og lítið
eftir af lífrænum efnum. Einu
staðirnir, þar sem jarðvegurinn hefur ekki rýrnað, eru sígrænu skógarsvæðin
í Nahuelbuta-fjöllum sunnan Concepción og í fjöllunum sunnan
Valdivia.
Í
vesturhlíðum strandfjallanna er sjávarset frá hærri sjávarstöðu
á tertíertíma. Á
kvartertímanum lækkaði sjávarstaðan og meginlandið reis, þannig að
upp komu stallar frá tertíertímanum.
Þá tók við sjávarveðrun meðfram ströndinni, þannig að fátt
er um góðar, náttúrulegar hafnir.
Vatnasvið.
Flestar ár landsins í Andesfjöllum renna til Kyrrahafs.
Um þær fer vatn úr miðlægðinni og strandfjöllunum og þær
eru langflestar tiltölulega stuttar.
Þær renna víða hvítfyssandi niður brattar hliðar og henta
mjög vel til raforkuframleiðslu.
Þær eru ekki skipgengar nema að litlum hluta í miðsuðurhluta
landsins. Þar sem hætta
er á árstíðabundnum flóðum, sem ollu skaða á landbúnaðarsvæðum,
hafa verið byggðar stíflur til að jafna rennslið og framleiðslu
raforku. Ár landsins eru
mismunandi eftir loftslagssvæðum.
Á þurrkasvæðunum í Norður-Síle fá þær vatn af
sumarregnsvæðum Altoplano. Vatnsmagn
þeirra er svo lítið, að þær hverfa annaðhvort í jörðu eða
gufa upp áður en þær ná til sjávar.
Loa, lengsta á landsins (455 km), er hin eina á þessum slóðum,
sem nær alla leið til Kyrrahafsins.
Árnar í miðhluta landsins eru mun stöðugri.
Á veturna (maí-ágúst) nærast þær á miklum rigningum, sem
valda oft usla á árbökkunum. Síðla
vors (október-nóvember) fá þær leysingavatn ofan úr Andesfjöllum
og það er víða nýtt til áveitna.
Í miðsuðurhluta landsins, sunnan Bío-Bío-árinnar, valda
miklar rigningar stöðugu vatnsmagni, þótt aðeins dragi úr því
yfir sumarið (desember-marz). Í
Patagóníu og á Eldlandi er mikil úrkoma allt árið (regn, snjór),
þannig að árnar eru alltaf vatnsmiklar en víðast falla þær beina
leið niður brattar fjallahlíðar til sjávar, svo að þær eru til lítils
gagns.
Loftslagið.
Síle nær yfir u.þ.b. 38 breiddarbauga og nær því yfir flest
loftslagsbeltin nema hitabeltið. Mestu
áhrifavaldar loftslagsins eru Kyrrahafið, kaldi Humbolt- (Perú-)
straumurinn, lægðasvæði Suður-Kyrrahafsins og Andesfjöllin.
Í norðanverðu landinu og miðhlutanum ráða
Humbolt-straumurinn og suðvesturvindar lægðanna í Suður-Kyrrahafi
mestu um loftslagið. Syðsti
hluti landsins er með öllu óháður þessum áhrifavöldum og þar ríkir
kalt og rakt loftslag. Ársmeðalhiti
á nokkrum stöðum er sem hér segir:
Arica 18°C, Antofagasta 16°C, Santiago 14°C, Puerto Montt 11°C
og Punta Arenas 6°C. Á
veturna, þegar köld pólskilin færast norðar, lækkar hitastigið
minna en ella vegna áhrifa hafsins.
Snjór, sem fellur á miðbik landsins, hverfur að skömmum tíma
liðnum. Á sumrin leika
svalir vindar frá hafinu um landið og draga úr hitanum.
Hæsti meðalhiti landsins er í eyðimörkunum í norðurhlutanum.
Úrkoman
er mjög mismunandi milli hins þurra norðurhluta og blauta suðurhluta.
Norðan 27°S er tæpast nokkur úrkoma.
Í miðnorðurhlutanum rignir nokkuð á veturna (Copiapó >21
mm). Í Santiago er meðalúrkoman
332 mm og hún eykst eftir því sem sunnar dregur í miðlægðinni og
nær 1860 mm í Puerto Montt, þar sem úrkoman er ekki árstíðabundin.
Meðfram ströndinni í mið- og miðsuðurhlutanum er úrkoman
meiri en í miðlægðinni. Í
Valparíso er meðalársúrkoman 383 mm, 1326 mm í Concepción og 2300
mm í Valdivia. Enn sunnar,
þar sem vestanvindarnir ná hámarki og pólskilin eru stöðugur þáttur,
er úrkoman svo mikil, að hún hefur mælzt meiri en á nokkrum stað
í hitabeltinu. Á San
Pedro-skaga er meðalársúrkoman 4080 mm.
Í regnskugga Andesfjallanna sunnar, í Patagóníu, dregur mikið
úr úrkomunni, sem fellur aðallega sem snjór á veturna (46 mm).
Flóra
í
Síle fer eftir loftslaginu og jarðveginum á hverju breiddarbelti og hæðarmunurinn
í Andesfjöllum hefur einnig sín áhrif. Í norðureyðimörkunum vex gróður, sem þarfnast lítils
vatns og hefur aðlagast söltum jarðveginum.
Tamarugo-akadían dafnar þar vel.
Nærri ströndinni vaxa nokkrar kaktustegundir og runnagróður,
sem nærast á þokunni þar. Á
hásléttunum í norðurhlutanum þrífast harðgerðar tegundir
(ilareta; ichu; tola), sem índíánar og lamahjarðir þeirra lifa á.
Í hálfeyðimörkunum í miðnorðurhlutanum er nokkuð um
kaktus, harðviðartré (espino, algarrobo) og runnagróður (adesmia).
Á rakari og tempraðri svæðum í miðhlutanum er sérstakt gróðursamfélag
(matorral), þar sem vex harðviður, runnar, kaktus og grænt gras. Þessi þétti gróður er að hverfa vegna aukins þéttbýlis
og ofnýtingar til eldiviðar. Sunnan
Bío-Bío-árinnar eru blandaðir laufskógar og sígræn tré.
Margar einstæðar tegundir finnast í þessum röku skógum
(rauli-sedrustré, roble-beyki, ulmo = sígrænn runni og lárviður).
Í vesturhlíðum Andesfjalla vex hin stóra Sílefura.
Á Vatnasvæðinu vaxa þéttir regnskógar með fjölda trjátegunda,
s.s. suðurheimskautsbeyki, Sílesedrus og risavaxin arerce-tré.
Á úrkomusömum eyjum Patagóníu og Eldlandi kemur stormasamt
og kalt veðurfarið í veg fyrir að stór tré dafni.
Þar vaxa einungis dvergtegundir beykis og harðgerðar
grasategundir. Í
Austur-Patagóníu vex að mestu gras á köldum steppunum, sem eru notaðar
til beitar.
Fána
landsins er ekki eins fjölbreytt og annars staðar í álfunni.
Andesfjöllin hafa komið í veg fyrir flæking dýrategunda og
norðureyðimörkin hefur haldið dýrategundum í norðri í skefjum.
Mest ber á fjölda tegunda nagdýra og sum þeirra eru fræg
fyrir skinning (chincilla, degu og fjalla-viscacha).
Pokadýrið monito de monte lifir í lauf- og regnskógunum í suðurhlutanum.
Vatnsrottan nutria (coypu; coipo) er algeng í ám landsins.
Meðal jórturdýra er einn forfeðra drómedaranna, guanaco, og
skyldar tegundir, sem hafa verið gerðar að húsdýrum (lama, alpaca
og vicuna). Vicuna er þekkt
fyrir silkimjúka hágæðaull, sem indíánarnir á Altiplano nýttu sér.
Guanaco finnst enn þá um allt landið.
Tvær dádýrategundir lifa í landinu.
Önnur þeirra er huemul, sem er sjaldgæfur íbúi Suður-Andesfjalla
og er í skjaldarmerki landsins. Hin
er pudi, sem er minnsta þekkta dádýr heims.
Fátt er um kjötætur. Púman
er þeirra stærst. Auk
hennar finnast guina og colocolo. Uppi
í Andesfjöllum eru líka úlfar og refir.
Fuglategundir eru fjölbreyttari, því að fjöldi tegunda
farfugla fer um landið ár hvert.
Í mið- og norðurhluta landsins eru páfagaukar og flamingóar.
Kondórinn lifir enn þá, þótt honum hafi fækkað verulega.
Ránfuglinn carancha er í Patagóníu og er þekktur fyrir að ráðast
á lömb. Mikið er af láðs-
og lagardýrum. Hið
athyglisverðasta er e.t.v. darwinfroskurinn.
Landfræðleg einangrun landsins skýrir þá staðreynd, að þar
eru engin eitruð skriðdýr eða köngullær. |