Síle efnahagslífið,
Flag of Chile


SÍLE
EFNAHAGSLÍFIÐ
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Efnahagur landsins byggist á fiskveiðum, fiskverkun, landbúnaði, skógarnytjum og námuvinnslu.  Upphaflega þróaðist efnahagslífið í kringum landbúnað og námugröft og útflutning afurða eins og tíðkaðist víðast í Rómönsku-Ameríku.  Margar framleiðsluvörur varð að flytja inn og land, auður og völd voru í höndum fámenns aðals.  Margar breytingar hafa orðið í efnahagslífinu og landi verið skipt en enn þá eimir eftir af gamla skipulaginu og vandræðum því samfara.

Á nítjándu öld vænkaðist efnahagur Síle vegna útflutnings landbúnaðarafurða, saltpéturs og kopars.  Eftirspurn eftir saltpétri minnkaði verulega í fyrri heimsstyrjöldinni og efnahagslægðin varð dýpri vegna heimskreppunnar, sem kom í kjölfarið.  Þessi þróun varð til þess að stjórn landsins varð sósíalískari og ríkið tók að sér stjórn efnahagsmálanna í heild.  Gerð var tilraun til að framleiða helztu innflutningsvörurnar innanlands og Þróunarstofnun (Corporación de Fomento de la Producción) falin umsjón iðnvæðingar og þróunar.  Hafizt var handa með umbætur í landbúnaði og ríkið hélt fastar utan um iðnaðinn, einkum á valdatíma Pedro Aquirre Cerda (1938-41) og Salvador Allende Gossens (1970-73), þegar margir bankar, koparnámur og fyrirtæki voru þjóðnýtt.  Í fyrstu brá fyrir efnahagsbata, minnkandi verðbólgu og aukinni vergri þjóðarframleiðslu.  Ríkinu tókst ekki að koma upp eðlilegri skattlagningu í samræmi við batann.  Árið 1973 var farið að halla verulega undan fæti og herinn tók völdin.  Nýja ríkisstjórnin beitti enn íhaldssamari frjálshyggju og vék af vegi margra aðgerða fyrri ríkisstjórna.  Efnahagsvandinn og verðbólga héldu áfram, stefnan í milliríkjaviðskiptum var óstöðug, atvinnuleysi var viðvarandi og aðaláherzlan var lögð á útflutning kopars á óstöðugum heimsmarkaði.

Náttúruauðæfi.  Allt frá upphafi hefur námugröftur og vinnsla verið undirstaða efnahags Síle, hvati milliríkjaviðskipta og uppbyggingar iðnaðar innanlands.  Stór hluti verðmæta útflutningsafurða liggur í kopar, molybdenum, járni, saltpétri og öðrum jarðefnum.  Málmana ber þar hæst og Síle er mesti framleiðandi kopars í heiminum.  Koparnámurnar eru í norðurhlutanum (Chuquicamata og El Salvador) og suður með Andesfjöllum í miðnorðurhlutanum (El Teniente, Andina o.fl.).  Einstaklingar grafa einnig eftir kopar í nokkrum mæli í norðurfjöllunum og í strandfjöllunum í miðju landinu.  Fyrirtæki með mikinn fjárfestingarmátt stunda einnig námugröft og vinnslu.  Fjárfestingar Bandaríkjamanna hleyptu af stokkunum mikilli starfsemi á þessu sviði í upphafi 20. aldar.  Koparframleiðslan tók við stöðu saltpétursins í efnahagslífinu eftir fyrri heimsstyrjöldina.  Síðla á sjöunda áratugnum voru stóru, bandarísku fyrirtækin gerð að almenningshlutafélögum og síðan þjóðnýtt á áttunda áratugnum og ríkisstofnun tók við rekstri þeirra.  Óstöðugt heimsmarkaðsverð á kopar og sölusveiflur valda miklum erfiðleikum í efnahagslífinu.

Járnnám og vinnsla í El Tofo og El Romeral í miðnorðurhlutanum er mikilvæg og mangan, silfur, gull og molybdenum (málmur, sem verður til við koparvinnslu) eru einnig grafin úr jörðu og unnin.  Önnur jarðefni, sem skipta minna máli, eru brennisteinn, gips, lítíum og kalk.  Saltpétur er unninn í norðureyðimörkunum.  Efnahagslegt mikilvægi hans á 19. öld hefur dvínað en framleiðsla joðs, sem er aukaafurð, er mikilvæg.

Orkumál.  Orkulindir landsins felast í vatnsafli, kolum og lítils háttar vinnslu olíu og náttúrugass.  Stöðugt rennsli ánna í Andesfjöllum er virkjað á vegum ENDESA (Landsvirkjun) og virkjanir hafa verið byggðar í strandfjöllunum.  Áður en kerfi vatnsaflsvirkjana var byggt var mestur hluti rafmagns unninn úr mjúkum kolum frá námum við Arauco-flóa, sunnan Concepción.  Olía og gas er unnið á Eldlandi og meðfram norðurströnd Magellansunds og flutt til hreinsunarstöðva í Mið-Síle.  Þessi framleiðsla uppfyllir u.þ.b. helming innanlandsþarfa.

Skóganýting.  Sunnan Bío-Bío-árinnar eru loftslagsskilyrði hagstæð náttúrulegum skógum.  Helztu trjátegundir, sem eru nýttar til vinnslu, eru coique, eik, rauli (sedrus), ulmo, tepa (lárviður) og araucaria araucana.  Fura til pappírsvinnslu og viðardeigs er felld í skógum miðhlutans og á Bío-Bío-svæðinu.

Fiskveiðar.  Eftir að fiskiðnaðurinn hrundi í Perú 1974 varð Síle aðalfiskveiðiþjóð Suður-Ameríku og í hópi aðalfiskveiðiþjóða heims.  Mikilvægustu fiskitegundirnar fyrir flota landsins eru sardínur, makríll, kolmúli og ansjóvía.  Aðalútflutningsafurðir sjávarútvegsins eru fiskimjöl og lýsi, sem eru fluttar að mestu til BNA og Evrópu til framleiðslu dýrafóðurs og iðnaðarolíu.  Fiskvinnsluverin, sem eru öll einkarekin, eru aðallega í borgunum Iquique, Arica og Antofagasta.

Landbúnaður.  Aðstæður til landbúnaðar í Síle eru góðar, gott loftslag og nægt vatn, en úrelt leiguliðakerfi, óstjórn og kolvitlaust verðlagningarkerfi gera þessa atvinnugrein hina óarðbærustu í efnahagskerfinu.  Í kringum 17% vinnuafls landsins er bundinn í landbúnaði en greinin stendur aðeins undir 10% vergrar þjóðarframleiðslu.  Herstjórnin, sem tók völdin 1973, hvatti til aukingar framleiðslu í landbúnaði til að geta staðið við afborganir erlendra skulda og við það jókst útflutningur ferskra ávaxta og niðursoðinna og víns.

Í tempraða beltinu er byggist uppskeran korn (hveiti), vínberjum, kartöflum, maís, eplum, baunum, hrísgrjónum og grænmeti.  Einnig er ræktað mikið af sykurrófum og sólblómum (matarolía).

Kvikfjárrætkin hefur verið meðal vanþróuðustu atvinnugreinar landsins vegna mjög takmarkaðrar vélvæðingar og stöðnunar í ræktun.  Nautgriparæktin er mikilvægust en hænsna-, sauðfjár- og svínarækt hefur aukizt talsvert.

Iðnaður.  Nálægt 15% vinnuaflsins eru bundin í iðnaði, sem stendur undir 20% vergrar þjóðarframleiðslu.  Verksmiðjur eru aðallega í stærstu borgunum, Santiago, Valparaíso og Concepción.  Í léttiðnaði eru aðalframleiðsluvörurnar heimilistæki, efnavörur, matvæli, vefnaður og fatnaður og byggingarefni.

Stóriðja er í kringum höfnina San Vicente við Concepción.  Þar eru Huachipato-stálverksmiðjurnar, fiskvinnsluver og olíuhreinsunarstöð tengd efnaverksmiðju.  Önnur slík stöð er í Concón við ósa Aconcagua-árinnar.  Viðardeigs- og pappírsverksmiðjur eru í nágrenni við Bío-Bío- og Laja-árnar.

Fjármál og viðskipti.  Helztu markaðir fyrir útflutningsvörur landsins eru Evrópa, BNA og Austur-Asía.  Mest er flutt inn frá BNA, Brasilíu, Japan, Argentínu, Þýzkalandi og Frakklandi.  Allar götur síðan 1950 hefur viðskiptajöfnuðurinn verið óhagstæður vegna aukins kostnaðar erlendis og afborgana af erlendum lánum.

Seðlabanki landsins (1925) sér um að stefnunni í bankamálum sé fylgt og annast erlend viðskipti.  Árið 1989 varð hann sjálfstæður og að fullu ábyrgur fyrir stefnunni í fjár- og gengismálum.  Ríkisbankinn starfar á sviði almennra viðskipta.  Einka- og alþjóðlegir bankar (evrópskir, bandarískir og asískir) starfa á frjálsum markaði í landinu.

Á efnahagssviðinu starfa einka- og ríkisrekin fyrirtæki og stofnanir saman og einkageirinn tekur æ meiri þátt í fjárfestingum.  Einkafyrirtækin eru í flestum tilfellum hlutafélög (líkt og í BNA).

Samgöngur.  Lengd landsins og landfræðileg lega koma í veg fyrir venjulegar tengingar og flæði umferðar.  Flutningar á sjó var eina hraðleiðin, sem var notuð til hins hins ítrasta á 19. öld, þegar Sílé átti stærsta kaupskipaflota Rómönsku-Ameríku.  Hnignun efnahagslífsins og færsla flutninga á vega- og járnbrautakerfin á fyrri hluta 20. aldar leiddi til mikillar fækkunar kaupskipa.  Aðalhöfn landsins er Valparaíso.  San Antonio, hafnarborg Santiago, sér um útflutning kopars og landbúnaðarafurða.  Aðrar mikilvægar hafnarborgir eru Antofagasta og Arica (bólivísk viðskipti), chanaral, Huasco, Guayacán og Tocopilla (jarðefni).  Hafnarborgin Talcahuano annast viðskipti með iðnaðarvörur frá Concepción.

Þróun flutninga á landi hófst með lagningu tveggja járnbrautakerfa um aldamótin 1900.  Norðurleiðin, milli La Calera (nærri Valparaíso) og Iquique, er lítið notuð nú.  Suðurleiðin, milli La Calera og Puerto Montt.  Járnbrautirnar í báðar áttir eru rafvæddar og bjóða því hagstæðari flutninga en landflutningabílar.  Járnbrautirnar eru ríkisreknar.  Járnbrautir landa á milli liggja um Arica (til La Paz, Bólivíu), Antofagasta (til Oruro, Bólivíu) og Los Andes (til Mendoza, Argentínu).  Lítil járnbraut þjónar farþegum milli Arica og Tacna í Perú.

Ör bílavæðing landsmanna hefur aukið farþega- og vöruflutninga um vegakerfið.  Meginstoð vegakerfisins er Pan-American-hraðbrautin, sem tengir Arica við Quellón á Chiloé-eyju, u.þ.b. 3500 km sunnar.  Fjöldi borga og landsvæða, innanlands og utan, er tengdur þessari aðalumferðaræð.

Loftflutningar milli borga og svæða landsins eru í höndum ríkisflugfélagsins LAN (Línea Aérea Nacional de Chile) og Ladeco (Línea Aérea del Cobre; Koparflugfélagsins).  LAN flytur ferðamenn milli Santiago og Páskaeyjar og Papeete á Tahítí.  Öll helztu flugfélög Suður-Ameríku, bandarísk og evrópsk sjá um millilandaflugið til og frá Arturo Mernina Benítez-flugvelli við Santiago.  Norðaustan Arica er annar meginflugvöllur landsins, Chacalluta.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM