Lítt
rofin saga þingbundins lýðræðis hófst í Síle árið 1821 og
landið var og er rómað fyrir pólitískt frelsi, þótt herinn hrifsaði
völdin 1973 og héldi þeim til 1990 undir stjórn Augusto Pinochet
Ugarte, hershöfðingja. Þetta
einræðistímabil er hið lengsta í sögu landsins.
Landinu er stjórnað í samræmi við stjórnarskrána frá
1981. Pinochet lét breyta
stjórnarskránni frá 1925 og efndi til þjóðaratkvæðagreiðslu um
hana. Nýja stjórnarskráin
kvað á um forsetaveldi og gerði honum kleift að halda völdum til
1990. Forsetinn skipar ráðherra
ríkisstjórna, sem njóta algerrar þinghelgi og bera ábyrgð gagnvart
honum einum. Forsetaframbjóðandi
skyldi valinn af herstjórninni og fá samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu,
sem gæfi honum heimild til setu til ársins 1997.
Herinn tilnefndi Pinochet, sem var hafnað 1988.
Fyrstu forsetakosningarnar eftir valdatöku hersins voru haldnar
í desember 1989.
Þingið
var rofið við hallarbyltinguna 1973 og herstjórnin tók að sér löggjafarvaldið
með aðstoð löggjafarráðs. Nýja
stjórnarskráin gerði ráð fyrir tveggja deilda þingi, öldunga- og
fulltrúadeild, sem skyldi kosið í beinum kosningum, en það var ekki
kallað saman fyrr en eftir kosningarnar 1989.
Forseti
landsins skipar dómara og saksóknara hæstaréttar og áfrýjunardómstóla
í samræmi við tillögur hæstaréttar.
Dómsmálaráðuneytið ræður þá til lífstíðar á sama hátt
og dómara á lægri dómstigum.
Landið
skiptist í 12 stjórnsýslueiningar auk höfuðborgarinnar, Santiago. Héruðin skiptast í sýslur, sem síðan skiptast í
sveitarfélög. Forsetinn
skipar héraðsstjóra, sem stjórna með aðstoð héraðsráða. Forsetinn skipar einnig sýslumenn og sveitarstjórar eru í
fararbroddi sveitastjórna. Forsetinn
skipar borgarstjóra stórborga. Sveitarstjórnarmenn
eru kosnir í beinum kosningum til fjögurra ára í senn.
Þegar
herstjórnin hefti alla starfsemi stjórnmálaflokka í september 1973
og bannaði marxíska flokka, náði starfsemi þeirra yfir allt pólitíska
litrófið frá hægri til vinstri.
Lengst til hægri var Þjóðarflokkurinn (Partido Nacional), sem
var sameiningarflokkur fyrrum Frjálslynda- og Íhaldsflokksins, Róttækra
demókrata og hægri vængs Róttæka flokksins, sem klauf sig frá
honum 1969. Miðflokkurinn
var Kristilegir demókratar, stærsti flokkurinn eftir kosningarnar
1965. Róttækir sósíaldemókratar
voru miðflokkur embættismanna til 1965, þegar hann hallaði sér til
vinstri. Helztu vinstri
flokkarnir voru Sósíalistaflokkurinn og Kommúnistaflokkurinn, sem
dansaði eftir sovézkum línum. Nokkrir
hópar marxista voru fylgiflokkar vinstri flokkanna, þ.m.t. Vinstri
byltingarhreyfingin.
Pinochet
losaði svolítið um höftin eftir 1980 og nokkrir pólitískir útlagar
fengu að snúa heim næsta ár. Hægri
menn fylktust um Bandalag demókrata.
Miðflokkarnir sameinuðust í Sameiningarflokki demókrata undir
forystu fyrrum Kristilegra demókrata.
Leiðtogar vinstri manna, sem höfð verið útlægir, mynduðu
Samrunaflokk sósíalista, sem sameinaðist Sósíalistaflokki Síle árið
1983, og Þjóðarhreyfingu demókrata, sem var undir stjórn Kommúnistaflokks
Síle. Kristilegi demókrataflokkrurinn
var ófús til samstöðu með Samrunaflokki sósíalista um andstöðu
við Pinochet og greindi sig frá hægri og vinstri flokkunum.
Þessi afstaða veikti andstöðuna.
Sameiningarflokkur demókrata og Þjóðarhreyfing demókrata
leystust upp 1985.
Í
þjóðaratkvæðagreiðslunni 1988 sameinuðust 16 mið- og vinstri
flokkar undir heitinu Krafan um nei, sem varð stærsti andstöðuflokkurinn
eftir ósigur Pinochets og var skírður Sameinaði lýðræðisflokkurinn.
Í júlí 1989 voru stjórnarskrárbreytingar, sem ríkisstjórnin
vann að með andstöðuflokkunum, samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Meðal breytinganna var grein 8, sem bannaði marxíska flokka.
Tveimur mánuðum síðar tilkynnti stjórnin, að öllum pólitískum
útlögum væri heimilt að snúa heim með ákveðnum skilyrðum.
Menntun.
Menntakerfi landsins byggist að mestu á hinum frönsku og þýzku
frá 19. öld og í hávegum haft í Rómönsku-Ameríku.
Frí skólaskylda er 8 ár síðan koma fjögurra ára framhalds-
eða verkmenntaskóli og æðri menntastofnanir.
Langflest börn njóta frummenntunar, enda er ólæsi lítið
(4%) meðal fólks, sem er eldra en 12 ára.
Eftir valdatöku hersins urðu skólayfirvöld að fylgja reglum
stjórnarinnar varðandi fræðslu í kristnifræðum og predika andmarxískar
kenningar. Trúar- og þjóðernishópar
reka einkaskóla, sem eru vel sóttir.
Háskólamenntun
í Síle nýtur talsverðs álits í Rómönsku-Ameríku.
Ríkisháskólinn (1738) er rekinn í Santiago, Arica, Talca og
Temuco. Santiagoháskóli
og Federico Santa Maria-tækniháskólinn í Valparaíso eru reknir
eftir þýzkri fyrirmynd. Einkareknir
háskólar eru Katólski háskólinn í Santiago, Katólski háskólinn
í Valparaíso, Norðurháskólinn í antofagasta, Concepción-háskóli
og Suðurháskólinn í Valdivia.
Heilbrigðis-
og velferðarmál.
Vinnu- og velferðarlöggjöf þróaðist fyrr í Síle en öðrum
rómönskum löndum Suður-Ameríku.
Snemma á 20. öldinni voru sett lög um samninga á vinnumarkaði
og heilbrigðis- og tryggingamál launþega.
Síðan þessi lög voru sett hefur verið keppt að frekari umbótum
á vinnulöggjöfinni og að því kom, að allir launþegar nutu þjónustu
Tryggingarstofnunar ríksins, sem er fjármögnuð með framlagi
vinnuveitenda, launþega og ríksins.
Eftir 1973 breytti herstjórnin almenna tryggingakerfinu í
einkasöfnunarsjóð launþega, sem nýttur er til fjárfestingar í
einkafyrirtækjum.
Á
fyrri hluta 20. aldar þróaðist heilsugæzla hratt og vel í anda
stefnu stjórnvalda. Menntuðu
starfsfólki, velbúnum sjúkrahúsum, og stofnunum fjölgar stöðugt,
þannig að dregið hefur úr dánartíðni og barnadauða, berklum
hefur verið útrýmt og náðst hefur stjórn á smitsjúkdómum.
Á valdatíma Pinochet hófst einkavæðing heilbrigðiskerfisins
árið 1980.
Menning.
Sameiginleg tunga og saga hefur skapað eina menningu í landinu,
sem indíánar deila líka með þjóðinni, þótt þeir eigi sér
eigin menningu og hefðir, sem þeir rækta jafnframt.
Sílémenn hafa ætíð unað minnihlutahópum ræktun eigin
menningar og trúarbragða. Líkt
og víða annars staðar í Rómönsku-Ameríku halda íbúarinir margar
litríkar, þjóðlegar og staðbundnar hátíðirár hvert, sem draga
til sín gesti víð að.
Listir.
Bókmenntir, einkum ljóðagerð, er meðal mest áberandi
skapandi lista í landinu. Ljóðskáldin
Gabriela Mistral og Pablo Neruda fengu Nóbelsverðlaunin 1945 og 1971
og ljóð Vincente Huidobro og Nicarnor Parra (20. öld) eru kunn víða
um hinn rómanska heim. Skáldskapur
hefur átt erfitt uppdráttar, líklega vegna þess, hve hann er staðbundinn.
Manuel Royjas naut nokkurrar alþjóðlegrar hylli á sjötta og
sjöunda áratugnum og síðar skáldverk Isabel Allende.
Listalíf
er hvað líflegast í Santiago og mestu menningarviðburðirnir eiga sér
stað milli marz og nóvember. Frægusti
tónlistarmaður landsins hefur löngum verið píanóleikarinn Claudio
Arrau. Tónskáld eins og
Enrique Soro og Juan Orrego eru kunnir um Rómönsku-Ameríku en lítt
annars staðar. Synfóníuhljómsveit landsins og fleiri tónlistarhópar
halda uppi merki evrópskrar tónlistar.
Borgarballettinn og óperan auk háskólaballettsins flytja
listdans og óperur. Ljóðasöngvar
voru vinsælir á sjöunda og fyrri hluta áttunda áratugarins (Violeta
Parra †1969).
Höfuðborgin
er einnig vettvangur flestra listaverzlana og listagallería landsins.
Nafntogaðir myndlistarmenn voru og eru fáir og einna hæst ber
listmálarann Roberto Matta Echaurren og myndhöggvarann Marta Colvin.
Menningarstofnanir
eru víða en flestar í Santiago.
Í söfnum höfuðborgarinnar er mikið úrval listaverka frá öllum
sögulegum skeiðum, og þar er gott náttúrugripasafn og Þjóðminjasafnið,
sem er mjög áhugavert, og Náttúruvísindasafnið.
Þjóðarbókhlaðan er meðal hinna stærstu í Rómönsku-Ameríku.
Afþreying.
Víða er hægt að stunda ýmsar íþróttir líkt og í vestrænum
löndum. Strendurnar við Kyrrahafið eru margar og fagrar en sjórinn
er víðast of kaldur til baða. Helzti
baðstaður landsins er Vina del Mar og Vatnasvæðið laðar til sín
æ fleiri gesti. Knattspyrna
er þjóðaríþróttin líkt og í öðrum löndum Rómönsku-Ameríku.
Skíðaíþróttin er víða iðkuð uppi í fjöllum (Portillo
og Farellones ófjarri Santiago og skíöasvæði í grennd Chillán í
suðurhlutanum).
Fjölmiðlar.
Vegna þess, hve margir landsmenn eru læsir, er útgáfa dagblaða
og tímarita fjölbreytt. Fyrir
valdatöku hersins 1973 gáfu hér um bil öll stjórnmálasamtök
landsins út málgögn en eftir þann tíma var sett á strong ritskoðun
og einungis fjölmiðlar, sem gagnrýndu ekki ríkisstjórnina, fengu að
starfa. Eftir 1981 var óheft
bókaútgáfa leyfð nema efnið væri á marxískum nótum.
Útvarps- og sjónvarpsstöðvar einbeittu sér að því að
beina athygli almenninga frá döpru efnahagslífinu og pólitískum
vandamálum. Þessar stöðvar
hafa frá upphafi verið reknar af háskólunum á hörðum viðskiptagrundvelli.
Árið 1967 var stofnað ríkisútvarp og sjónvarp, sem var óspart
notað til áróðurs. |