Bólivía meira,

ÍBÚARNIR     EFNAHAGSMÁL

BÓLIVÍA,
MEIRA


.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Bólivía er álitið fjalllent land, þótt aðeins þriðjungur þess sé á Andessvæðinu, en þar eru þéttbýlustu hlutar þess.  Landið er söguríkt.  Það var fyrrum hluti af ríki inka og síðar hluti af varakonungsdæminu Perú, sem sótti mikil silfurauðæfi þangað.  Spænska og indíánatungurnar aymara og quechua eru opinber tungumál Bólivíu og langflestir íbúanna eru rómversk-katólskir.  Hin miklu auðæfi landsins í jörðu eru vannýtt og efnahagslífið byggist aðallega á landbúnaði og útflutningi hráefna, gasi og tini.

Hinn fjalllendi vesturhluti, sem er meðal hæstu byggðra bola á jörðinni, er hjarta landsins.  Á  þessum slóðum eru Andesfjöllin hvað fegurst og flóknust.  Fjallakerfið í Bólivíu byggist aðallega á tveimum miklum og samhliða fjallgörðum. 

Hinn vestari, meðfram landamærum Síle, er Cordillera Occidental með fjölda virkra eldfjalla og hæsta tindi landsins, Sajama, sem er 6523 m hár.  Austurfjallgarðurinn kallast Cordillera Oriental.  Mikilfenglegasi hluti hans, norðantil í grennd við La Paz, nefnist Cordillera Real (Konunglegi fjallgarðurinn).  Þar eru margir snævi þaktir tindar, sem teygja sig upp fyrir 6000 m hæð, og meðalhæð fjallgarðsins, sem er meira en 330 km langur, er rúmlega 5500 m.  Milli þessara fjallgarða er hin óvistlega háslétta Altiplano.  Hún er tiltölulega slétt lægð, u.þ.b. 820 km löng og 125 km breið, í 3600-3800 m hæð yfir sjó.  Yfirborð hennar er aðallega árframburður og áfok úr fjöllunum í kring og því hallar lítillega til suðurs.  Hryggir og hæðir rjúfa landslagsmyndina á nokkrum stöðum.  Jaðrar Altiplano einkennast af fjölda útkjálka og samtengdum ársetsbreiðum við fjallsræturnar.

Við austurhluta sléttunnar eru Cordillera Real mjög hlíðabrött og skorin giljum og gljúfrum niður um þétt og úrkomusamt skógabelti, sem kallast Yungas (aymaramál = Heitt land).  Yungas myndar suðurmörk óslitins svæðis, sem nær suður til Kólumbíu við Austur-Andesfjöll, Ekvador og Perú og alla leið til Santa Cruz í Bólivíu.  Sunnan Yungas breiða Andesfjöllin úr sér og eru mynduð úr háum fellingum, sem kallast Puna, með bröttum vesturhlíðum og meira aflíðandi austurhlíðum niður á slétturnar.  Aðaleinkenni þessa svæðis er kerfi dala og lægða, sem kallast Valles og eru yfirleitt stærri og opnari en dalirnir í Yungas.  Hæð þeirra er 1800-2900 m.y.s.  Þar eru hinar svonefndu garðaborgir, Cochabamba, Sucre og Tarija.  Svæðið er þekkt fyrir frjósama dali og mikinn og fjölbreyttan landbúnað.

Oriente er handan Andesfjalla í norðri og austri og nær yfir rúmlega tvo þriðjunga landsins.  Landslag þessa stóra svæðis nær yfir ársetssléttur (Ilanos), fenjasvæði, flæðlönd, steppur og regnskóga.  Allra syðst er hluti Gran Chaco, slétt svæði, sem er mjög breytilegt milli árstíða.  Á regntímanum verður þessi hluti að alvörufenjasvæði en hina sjö til átta mánuði ársins er þarna þurr hálfeyðimörk.  Norðan Chaco eru drættir landslags Santa Cruz-svæðisns fjölbreyttari og hallar lítið eitt til norðurs.  Innan Oriente eru héruðin Beni og Pando, þar sem lágar slétturnar eru þaktar steppugróðri og lengst í norðri eru regnskógar.  Stærstur hluti Beni verður fyrir miklum flóðum í byrjun marz eða apríl þar til regntímanum lýkur.

Vatnasvið.  Árnar í Bólivíu skiptast í þrjú greinileg vatnakerfi, Amasón í norðaustri, Río de la Plata allra suðaustast og Titicaca-vatnið á Altiplano-hásléttunni.  Mörg stöðuvötn eru á austurláglendi landsins, flest lítið þekkt nema úr lofti.

Á hinum stóru fenjasvæðum meðfram ánum Beni og Mamoré, sem eru upptakaár Amasón, er fjöldi stöðuvatna og lóna. Hið stærsta er Rogoaguado.  Upptakakvíslarnar skerast djúpt niður í Andesfjöllin og jafnvel La Paz, langt í vestri, er á vatnasviði Amasón.

Í grennd við Paragvæána, sem rennur með austustu landamærum Bólivíu, eru mörg grunn stöðuvötn.  Hin stærstu eru Cáceres, Mandioré, Gaiba og Uberaba.  Norðan þeirra eru hin stóru Xarayes-fenjasvæði.  Mikil flóð verða á þessum svæðum á sumrin líkt og norðausturhlutanum.

Þriðja og stærsta vatnasvið Suður-Ameríku er á Altiplano-hásléttunni.  Þar er Titicaca-vatnið nyrzt.  Desaguadero-áin er affall þess til suðausturs til Poopó-vatns.  Lacajahuira-áin rennur til vesturs, niður á Coipasa saltsléttuna.  Uyuni saltsléttan er óháð hinum hlutum vatnasviðsins.  Hún fær vatn frá stóru svæði sunnantil í vatnasviðinu, sem er venjulega þurrt.  Margar stuttar ár frá nærliggjandi hæðum falla um þetta svæði.  Altiplano-hásléttan er afrennslislaus til sjávar, því allt vatnið sem um hana fellur annaðhvort hverfur í jörðu eða gufar upp.

Titicaca-vatnið er 8300 km², 200 km langt og 82 km breitt. Mesta dýpi þess er 273 m og það er þakið eyjum.  Það er stærsta stöðuvatn Suður-Ameríku.  Það er á landamærum Bólivíu og Perú í 3810 m hæð yfir sjó.  Vatns þess er að mestu ferskt, þrátt fyrir mikla uppgufun og fær nægilega mikið vatn úr nágrenninu til viðhalds.  Poopó-vatn er allfrábrugðið Titicaca-vatni.  Það er mjög salt og situr í mjög grunnri lægð, sem er aðeins nokkrum metrum lægri en sléttan umhverfis.  Það er óvíða dýpra en 3 m við venjulega stöðu.  Við lága stöðu er flatarmál þess nálægt 2600 km².  Þar sem umhverfi vatnsins er mjög slétt, nær það næstum 50 km leið til Oruro-borgar í norðri, þegar vatnsstaðan er há.  Lacajahuira-áin er eina sýnilega afrennsli Poopó-vatns.  Hún hverfur í jörðu niður að hluta og hverfur endanlega á Coipasa saltsléttunni.  Þar getur myndast stöðuvatn, sem er svipað að stærð og Poopó-vatnið í lægstu stöðu, en venjulega myndast þar aðeins fen með pollum og tjörnum á lægstu svæðum hennar.  Uyuni saltsléttan, sunnan Coipasa saltsléttunnar, er svipuð en mun stærri.  Hún nær yfir 10.400 km² svæði, sem er skraufaþurrt og vindbarið.

Jarðvegur Altiplano-hásléttunnar er þunnur, aðallega leir, sandur og möl, þurr og laus í sér.  Vinbarðar og vatnsnúnar fjallahlíðarnar eru mjög veðraðar.  Jarðvegurinn sunnan hásléttunnar er mjög saltur en í norðurhlutanum er þykkt vatnaset við Titicaca-vatnið, þar sem vatnið hefur smáminnkað um aldir og vatnsbotninn komið í ljós.  Líklega hefur Tiahuanaco, fornleifasvæði frá því fyrir daga inka, verið hafnarborg við sunnanvert Titicaca-vatn.  Jarðvegurinn í bröttum hlíðum Yungas veðrast hratt, þar sem skógum er eytt og þær eru ekki stöllóttar.  Í hinum breiðu og sólbakaðri Dölum (Valles), einkum umhverfis Cocabamba, er jarðvegurinn mun frjósamari og hentugur til áveitna.  Austan Andesfjalla er jarðvegur Oriente lakur, næringarsnauður og vatnsgrafinn.

Íbúar. Í upphafi 20. aldarinnar var íbúafjöldi landsins í kringum 1,8 miljónir og næstu 25 árin var fjölgunin hæg (2,3 miljónir).  Á árabilinu 1925-50 varð örari fjölgun, þrátt fyrir manntjón í tapaðri Chaco-styrjöldinni.  Hún nam u.þ.b. 750.000, þannig að árið 1950 voru landsmenn orðnir fleiri en 3 miljónir.  Næstu 25 árin fjölgaði landsmönnum um u.þ.b. 2.250.000, aðallega vegna minnkandi dánartíðni og stöðugrar og hárrar fæðingatíðni.  Í lok 20. aldar hafði Íbúafjöldinn frá 1950 meira en tvöfaldazt.

Fjölgun íbúa í þéttbýli helzt í hendur við heildarfjölgun landsmanna.  Í upphafi 20. aldar bjuggu færri en 10% íbúanna í borgum en um miðja öldina hafði sá fjöldi rúmlega tvöfaldazt.  Í lok aldarinnar var hlutfallið komið í kringum 50%.

La Paz er stærsta og mikilvægasta borg landsins.  Hún er í stóru og stórkostlegu gljúfri neðan Altiplano-hásléttunnar.  Þar völdu Spánverjar henni stað 1548 í góður skjóli við aðalsilfurleiðina að Kyrrahafsströndinni.  Fátt er eftir af upprunalegum byggingum.  Borgin óx hratt á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta hinnar tuttugustu sem miðstöð járnbrauta og raunveruleg höfuðborg landsins.  Aðaliðnaðar- og láglaunasvæði borgarinnar eru hátt uppi í hlíðunum og verzlunarhverfin miðhlíðis.  Miðstéttarfólkið býr aðallega í lægri hlutunum.

Hinar stórborgirnar á Altiplano-hásléttunni, Oruro, Uyuni og Tupiza, eru líka miðstöðvar járnbrautasamgangna og tengdar námuvinnslunni.  Potosi, austan Altiplano, er heimsóknar virði.  Hún var stofnuð árið 1545 í hlíðum Potosi-fjalls (Cerro Rico = Ríkafjall), sem var auðutasta silfurnáman, sem Spánverjar fundu.  Þar bjuggu u.þ.b. 160.000 manns um miðja 17. öld, þegar Potosi var stærst borga í Latnesku-Ameríku.  Jafnvel nú er Potosi hæst liggjandi borg af sinni stærð í heiminum (4050m).  Talsvert hefur varðveitzt af gömlum byggingum í borginni.

Mikilvægustu borgirnar í Valles (Dölunum) voru stofnaðar á 16. öld.  Þeirra á meðal eru Cochabamba, Sucre og Tarija.  Þær eru allar umkringdar landbúnaðarsvæðum, ávaxtagörðum og nautgripabúgörðum.  Cochabamba er stærst og umsvifamest og greiðar leiðir liggja að henni.  Tarija er einangruðust.  Fjallvegirnir að henni eru erfiðir yfirferðar og hún hefur aldrei verið tengd járnbrautakerfinu.

Oriente-hérað er hið stærsta í landinu og þar er strjálbýlast.  Santa Cruz er eina stóra borgin þar.  Hún er við rætur Andesfjalla en samt sléttuborg.  Hún hefur vaxið hraðast vegna aukins landbúnaðar og er miðstöð olíu- og gasframleiðslu.  Á sjöunda áratugnum var hún orðin íbúafleiri en Cochabamba og því næststærsta borg landsins.  Trinidad er aðalborgin í  afskekkta nautgriparæktarsvæðinu Beni og enn norðar í Oriente eru nokkrar litlar borgir á árbökkum í regnskóginum.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM