Bólivía efnahagsmál,


BÓLIVÍA
EFNAHAGSMÁL

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Bólivía er land náttúruauðlinda.  Hár framleiðslukostnaður, skortur á stofnfé, erfiðar samgöngur og landlukt landið hafa dregið úr þróuninni.  Meðaltekjur eru lágar, þannig að þjóðin er meðal hinna fátækustu í álfunni.

Hin róttæka umbótaáætlun 1952-53 innifól skjót viðbrögð í landbúnaði með skiptingu stórra búgarða og þjóðnýtingu námanna.  Þessar aðgerðir ollu samdrætti í framleiðslu landbúnaðarafurða, hrapi í námuvinnslu og launahækkunum.  Á þessum tíma var mikill pólitískur órói og ríkisstjórnin reyndi að mæta kröfum hinna nýju verkalýðsfélaga með því að fækka ekki verkamönnum í námunum og fresta niðurskurði í öðrum greinum efnahagslífsins.  Efnahagur landsins var mjög á reiki síðla á 20. öld vegna lækkaðs heimsmarkaðsverðs á tini, uppskerubrests, erlendra skulda og logandi verðbólgu.  Landið fékk neyðaraðstoð, tækniaðstoð og lán frá Alþjóðabankanum.  Árið 1993 létu Perúmenn Bólivíu eftir 162 ha spildu eftir, sem gaf Bólivíu aðgang að sjó eftir að landið hafði verið landlukt í rúmlega öld.  Landið hafði og hefur enn þá tollfrjálsan aðgang að Atlantshafi um Paragvæ, Brasilíu og Argentínu.

Náttúruauðæfi.  Málmar í jörðu eru mestu náttúruauðæfi landsins.  Það er meðal mestu framleiðenda tins, á miklar birgðir af sínki, anrímóní, tungsten, silfri, blýi og kopar og smábirgðir af gulli.  Mest áherzla er lögð á framleiðslu tins en samkeppnin er mikil á heimsmarkaði og Suðaustur-Asíulönd framleiða það með miklu minni tilkostnaði.  Námufélag ríkisins, Comibol, tilkynnti mikið tap og minni framleiðslu á níunda áratugnum, þegar offramboð var á heimsmarkaði.  Rúmlega tveir þriðjungar verkamannanna í náumunum urðu atvinnulausir.

Olía.  Nýting olíusvæða í landinu hófst upp úr 1920, þegar Standard Oil Company í New Jersey, BNA, fékk leyfi til rannsókna og olíunýtingar við rætur Andesfjalla í suðaustanverðu landinu.  Þar fundust mörg lítil olíusvæði, sem voru síðan þjóðnýtt árið 1937.  Um miðjan sjötta áratuginn voru bandarísk fyrirtæki hvött til að hefja starfsemi á ný og árið 1956 hóf Bolivian Gulf Oil Company, dótturfélag Gulf Oil Corporation, árangursríka leit að olíu og gasi næsta áratuginn á Santa Cruz-svæðinu.  Árið 1966 hóf fyrirtækið útflutning olíu til Suður-Kaliforníu um olíuleiðslu að Kyrrahafi (Arica í Síle) og efldi sölu ríkisolíufélagsins á heimamarkaði og til Argentínu.  Stjórnmálalegur óstöðugleiki hefur margtruflað þessa atvinnugrein og árið 1969 þjóðnýtti ríkisstjórnin Gulf Oil Corporation.  Þrátt fyrir að Bólivía reyndi að hvetja erlend olíufélög til þátttöku á ný árið 1972, fór framleiðslan minnkandi vegna skorts á fjármagni til endurnýjunar borholna og tækja.  Mikil aukning eldsneytisnotkunar heima fyrir hefur valdið því, að landsmenn hafa orðið að flytja inn olíu.

Náttúrugas.  Framleiðsla náttúrugass hefur tekizt betur og síðla á 20. öldinni, þegar verð á tini á heimsmarkaði hrundi, varð það mikilvægasta, löglega útflutningsafurð landsins um miðjan níunda áratuginn. Argentína var stærsti kaupandinn.  Gassvæðin eru eingöngu á Santa Cruz-svæðinu og þar er nóg af gasi.  Landið býður upp á gífurlega, lítt nýtta möguleika til nýtingar vatnsorku til rafmagnsframleiðslu.

Landbúnaður.  Næstum helmingur vinnuafls landsins er bundinn í landbúnaði en afrakstur hans mælist ekki nema 27% af vergri þjóðarframleiðslu.  Kartöflur og oka (ætileg súrurót) eru mikið ræktaðar á norðurhluta Altiplano-hásléttunni, þar sem þeirra er neytt þurrkaðra (chuno eða tunta).  Tvær mjög næringarríkar korntegundir ná þroska í þessari hæð yfir sjó, quinoa og canahu.  Lamadýr og alpaca (lamategund) eru ræktuð til margs konar nota í landbúnaðnum en notkun þeirra sem burðardýr hefur dregizt mjög saman eftir að vörubílar komu til sögunnar.

Ótrúlegur fjöldi jarðávaxta er ræktaður í Yungas, frábært kaffi, kakó, sítrusávextir, avocado, ananas, mango, papæja, melónur, sterkur pipar, kartöflur (yams) og maniok.  Bágar samgöngur standa í vegi fyrir frekari þróun í þessari ræktun.  Eina jurtaafurðin, sem er eftirsótt á heimsmarkaði, er blöð kókajurtarinnar (kókein) og þau gefa gott í aðra hönd.  Í heitu og þægilegu loftslagi Valles (Dalanna) er ræktað hveiti, maís, bygg, alfalfa, vínber, ferskjur og grænmeti auk sauðfjár og mjólkurkúa.  Þessi landshluti er kallaður „Garður Bólivíu”.  Auka mætti uppskeru og framleiðslu þar með bættum áveitum.

Í Oriente-héraði, í kringum Santa Cruz, er ræktaður sykurreyr, hrísgrjón, baðmull og nautgripir til kjötframleiðslu (heimamarkaður).  Einnig eru stórir nautgripabúgarðar í Beni.  Harðviðartré vaxa í hitabeltinu í quebracho-skógunum í Chaco og í norðurregnskóginum en nýtingin takmarkast af vegalendunum til markaðanna og samkeppninni frá svæðum, sem liggja betur við flutningum utanlands.

Iðnaður.  Iðnvæðing hefur aukizt síðan um miðja 20. öldina en er enn þá tiltölulega smár í sniðum, þrátt fyrir aðild landsins að Andeshópnum, sem er viðskiptabandalag Andeslandanna.  Námugröftur, olíuvinnsla og vinnsla landbúnaðarafurða eru hefðbundnar greinar í landinu.  Á áttunda áratugnum krafðist iðnaðurinn u.þ.b. 10% vinnuafls landsins en þetta hlutfall minnkaði á níunda áratugnum.

Bólivíska tinið er aðallega sótt inn í fjöllin um gong, sem eru oft mjög djúp.  Þessar námur eru aðallega á erfiðum og afskekktum svæðum í austurfjöllunum í mikilli hæð yfir sjó.  Tingrýti með allt niður í 1% tininnihald var unnið allt fram í lok 20. aldar.  Tinverksmiðjurnar gera venjulega ekki meira en að hálfvinna hráefnið og senda það til lokavinnslu í verksmiðjur erlendis.  Matvælaiðnaðurinn nær yfir hveitimyllur, mjólkur- og mjólkurvöruframleiðslu, sykurvinnslu, bjórverksmiðjur og eimingu áfengis.  Á öðrum sviðum er framleiddur vélbúnaður, vefnaðarvörur, skór, gler, múrsteinn, sement, pappír og fjöldi annarra smávara fyrir takmarkaðan heimamarkaðinn, þar sem kaupgeta almennings er lítil.  Tæplega 70% allrar framleiðslu landsins fer fram í La Paz og nágrenni borgarinnar.  Mestur hluti þess, sem eftir er, er framleiddur í Cochabamba-héraði.  Samkeppnin við innfluttar vörur frá Brasilíu, Argentínu og Perú er mikil og miklu er smyglað inn í landið af ýmsum vörum, einkum neyzluvörum frá nágrannalöndunum og BNA.  Þessar vörur eru seldar á lágu verði, þar sem ekki eru greiddir skattar og tollar af þeim.

Landið býr yfir mikilli orku, sérstaklega vatnsorku, en orkunotkun á hvern einstakling er lítil.  Landsvirkjun Bólivíu (Empresa Nacional de Electricidad) sér aðallega helztu borgunum og námunum fyrir rafmagni.  Vatnsorkuver þjóna La Paz, Cochabamba og Oruro.  Stærsta orkuverið er við Corani-ána í Cochabamba-héraði.  Santa Cruz, Sucre, Tarija og Trinidad fá rafmagn frá olíuorkuverum.  Litlir rafalar, bæði í eigu hins opinbera og einkaaðila, framleiða rafmagn fyrir afskekkta staði í Oriente-héraði.

Ferðaþjónustan er ekki stór bógur í efnahagslífinu en lögð hefur verið áherzla á uppbyggingu hennar á völdum svæðum og umbætur í gistiaðstöðu, einkum í La Paz.  Í lok 20. aldar var Bólivía kominn á kortið meðal landa Suður-Ameríku, sem ferðamenn frá BNA, Evrópu og Japan heimsóttu í ferðum sínum um álfuna.  Aðaláherzlan er lögð á svæðið umhverfis Titicaca-vatnið, rústir inkabyggða á Sólareyju, rústir í Tjahuanaco frá því fyrir daga inka, veiðimenn, líf indíána á Altiplano-hásléttunni og La Paz.  Aukaferð með rútum yfir fjöllin Cordillera Real og niður í Yungas-regnskóginn næst La Paz er spennandi og vinsæl og býður upp á gífurlega fallegt fjallalandslag og loftslagsbreytingar á nokkrum klukkustundum.

Viðskipti.  Útflutningur málma (aðallega tins, en einnig sinks, silfurs og wolfram) hefur verið eftstu á lista yfir útflutningsvörur landsins um aldir.  Náttúrugas komst í fyrsta sætið, þegar verð á tini hrundi á heimsmarkaði á níunda áratugnum vegna offramboðs.  Verðmæti útflutnings þess og málma nemur u.þ.b. 80% af heildarútflutningi.  Meðal landbúnaðarafurða, sem eru fluttar út, er kaffi, sykur og timbur auk lítils magns af gúmmíi, brasilíuhnetna, húða og skinna.  Innflutningurinn byggist aðallega á vélbúnaði og tækjum fyrir iðnaðinn og samgöngur.  Hráefni, neyzluvörur og matvæli eru líka flutt inn í talsverðum mæli.  Helztu viðskiptalönd Bólivíu er Argentína og BNA en landið á einnig mikil viðskipti við önnur lönd Suður-Ameríku, Bretland, Þýzkaland og Japan.

Ólögleg viðskipti með kókein eru orðin veigamikill þáttur í efnahagslífi landsins.  Lauf kókórunnans hafa verið munntóbak indíánanna í Andesfjöllum um aldir, tuggið gegn kulda og þreytu.  Kókólaufið hefur löngum verið flutt út í smáum stíl á löglegan hátt til lyfjaframleiðslu.  Á sjöunda áratugnum jókst ræktun kókórunnans gífurlega í Yungas, einkum á Chaparé-svæðinu norðaustan Cochabamba, vegna mikillar eftirspurnar á hinum ólöglega heimsmarkaði eftir kókeini.  Þegar eftirspurnin náði hámarki í Norður-Ameríku og Evrópu á áttunda og níunda áratugnum, komust smábændurnir að því, að engin önnur uppskera væri ábatasamari.  Þeir fengu greitt í reiðufé fyrir uppskeruna og það er auðvelt að rækta runnann.  Í lok aldarinnar var áætlað að þriðjungur kókólaufs í heiminum væri ræktað í Bólivíu, fjórðungur þess á Chaparé-svæðinu.  Ríkið hefur barizt gegn þessari þróun með því að kynna aðrar plöntur til ræktunar en æ stærri svæði eru tekin undir ræktun kókórunnans.  Á áttunda áratugnum var verðmæti kókeinútflutningsins frá landinu áætlað 5 miljarðar US$ á ári.  Þessi viðskipti með eiturlyf hafa aukið verulega verga þjóðarframleiðslu í landinu og fjármunirnir hafa skilað sér til ríkisins, bændanna og ólöglegra sölumanna.  Við þessar aðstæður er ólíklegt, að hægt verði að koma í veg fyrir þessi viðskipti.

Samgöngur.  Aðalhindranir framþróunar í Bólivíu eru þær, að landið er landlukt, þótt það hafi samið um aðgang að Kyrrahafi við Perú og Atlantshafi við Brasílíu, Paragvæ og Argentínu, og erfiðu landslagi, háum, og bröttum fjöllum og sléttum, sem vatnsflóð flæða um árstíðabundið.  Aðaljárnbrautakerfið í vesturhlutanum var byggt upp á tímabilinu frá 1890 fram á þriðja áratug 20. aldar.  Það tengir helztu borgir á Andessvæðinu og námusvæði við hafnirnar í Antofagasta og Arica í Síle og Matarani í Perú.  Tengingin við Matarani fer um Titicaca-vatnið.  Santa Cruz er ekki tengd þessu neti en er miðstöð austurkerfisins, sem tengdist Corumbá í Brasilíu og Argentínu um Yacuiba á sjötta áratugi 20. aldar.  Umferð um austurbrautirnar er fremur lítil.

Vegakerfið.  Flutningar á vegum hálendissvæða landsins hafa aukizt verulega og í kringum Santa Criz síðan um miðjan sjötta áratuginn.  Malbikaðar hraðbrautir tengja La Paz-Oruro, Cochabamba-Santa Cruz, Santa Cruz-Montero og aðrar byggðir á Santa Cruz-svæðinu.  Pan-American hraðbrautin liggur um hálendi Bólivíu milli Perú og Argentínu og flutningabílar og rútur aka um malarvegi milli margra borga á Andessvæðinu.  Ferðalög á þeim eru tímafrek og stundum hættuleg.  Þar sem flóða gætir mest í Oriente-héraði, liggja slóðar, sem eru notaðir, þegar flóðin sjatna.  Þar er í rauninni ekkert vegakerfi.  Hið stóra vatnakerfi landsins rennur vítt og breitt um háslétturnar en umferð um það er takmörkuð.  Litlir fljótabátar eru mikilvæg samgöngutæki á ánum í regnskógunum í norðurhlutanum.

Flugsamgöngur.  Samgöngur í lofti milli aðalborga landsins bjóða fljótlegustu ferðirnar.  Mörg afskekkt svæði í Oriente-héraði byggja samband sitt við umheiminn á þeim.  Nokkrir þýzkir viðskiptajöfrar stofnuðu flugfélagið Lloyd Aéreo Boliviano (LAB) árið 1925 og á síðari hluta aldarinnar.  Dagblöðum og öðrum upplýsingum er dreift á fljótlegan hátt með flugvélum til að íbúar hinna dreifðu byggða geti fylgzt með þróun mála innan- og utanlands.  LAB flýgur til höfuðborga annarra ríkja Suður-Ameríku auk Sao Paulo, Rio de Janeiro og Manaus (Brasilía), Panama City og Miami (Fla; BNA)

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM