Bólivía íbúarnir,


BÓLIVÍA
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Helztu þrjú búsetusvæði landsins eru  Altiplano-hásléttan, Valles (Dalirnir) og Santa Cruz-svæðið í Oriente-héraði.

Altiplano-hásléttan nær yfir tæplega 10% landsins.  Hún liggur hátt yfir sjó og er vindasöm og köld.  Inkarnir komust að því, að þetta var ræktanlegt land og mun heilsusamlegra til búsetu en rök og heit láglendissvæðin í hitabeltinu.  Norðurhlutinn er þéttbýlasta svæði landsins og þar eru borgirnar La Paz og Oruro auk margra minni borga og þorpa.

Mestur hluti landbúnaðar byggist enn þá á sjálfsþurftarbúskap, þótt miklar breytingar hafi orðið síðan í byltingunni 1952.  Fram að þeim tíma var mestur hluti lands undir stjórn stórra búgarða en nokkur svæði voru sameign indíána.  Í kjölfar umbóta í landbúnaði 1953 var stórbýlunum skipt og skikum úthlutað til indíána, sem eru nú kallaðir campesinos (smábændur) fremur en indios, sem er álitið fremur niðrandi.  Talsverður glundroði skapaðist við hraða framkvæmd umbótanna, sem olli samdrætti í framleiðslu og markaðsóreiðu.  Engu að síður urðu þær til þess að glæða landbúnaðinn nýjum anda og tilgangi í hugum smábændanna.  Merki umbótanna sjást m.a. í þróun nýrra markaðsborga á norðanverðri hásléttunni, þar sem smábændur selja umframafurðir sínar auk margs konar annars varnings.  Þeir flytja vörur sínar fótgangandi, á reiðhjólum eða pallbílum frá dölum Yungas.  Aðrir koma frá La Paz með ýmsan varning.  Eftir byltinguna var gerð áætlun um aukna framleiðslu matvæla og smábændur voru hvattir til að flytja frá hinum þéttbýlustu svæðum Altiplano og Valles.  Þrjú landsvæði voru valin til nýbyggðar, Yungas (NA La Paz), Chaparé-hlíðarnar neðan Cochabamba og sléttur Oriente-héraðs í kringum Santa Cruz.  Opnun Cochabamba-Santa Cruz hraðbrautarinnar var mjög mikilvæg fyrir síðasttalda landsvæðið, því hún opnaði samgöngur milli Andesfjalla og sléttnanna.  Innan 25 ára höfðu u.þ.b. 65.000 fjölskyldur flutzt til þessara svæða.  Þessar ráðstafanir dugðu þó ekki til að draga úr álagi á þéttbýlustu svæðum landsins, þar sem fjölgunin varð nærri tíföld á við fjölda landnemanna í nýbyggðunum.

Þjóðflokkar og tungumál
.  Íbúum landsins má skipta í þrjá flokka:  Indíána, mestizos (kynblendinga indíána og Spánverja) og afkomendur Spánverja.  Eftir fjögurra alda blöndun er orðið ókleift að meta með fullri vissu hverjir tilheyra hverjum hópi.  Áætlað er, að indíánar séu 60-70% íbúanna (quechua fjölmennastir).

Indíánar skiptast í tvær aðalfylkingar, þá, sem búa á norðanverðri Altiplano-hásléttunni og tala hið gormælta tungumál aymara og hina, sem tala quechua, tungumál inka.  Quechua-indíánar eru búsettir  mun víðar á Andessvæðinu, einkum í Valles.  Fámennir hópar sléttu- og skógaindíána búa í Oriente-héraði.  Mikill meirihluti indíána er bændur, námuverkamenn eða starfandi í verksmiðjum og í byggingarstarfsemi.  Aymara og quechua hafa bætzt við spænskuna sem opinber tungumál í landinu en spænskukunnátta indíána, sem starfa í borgum og bæjum, eykst stöðugt.

Mestizos (kynblendingar) starfa mikið á skrifstofum, í viðskiptum og smærri fyrirtækjum í borgunum.  Minnihluti afkomenda Spánverja hefur löngum verið æðsta stétt landsins.  Áhrif þessarar yfirstéttar eru enn þá mjög áberandi, þótt talsvert hafi dregið úr þeim eftir byltinguna 1952.

Fáir útlendingar hafa flutzt til landsins eða búa þar.  Nokkur fjöldi Þjóðverja settist að í lok 19. aldar og í upphafi hinnar tuttugustu.  Þeir komu sér flestir vel fyrir sem áberandi umboðsmenn og framkvæmdamenn, verzlunareigendur og endurskoðendur.  Japanar og bændur frá Okinawa voru meðal happasælustu landnema á Santa Cruz-svæðinu.  Fámennur hópur þeirra settist að í landinu á sjötta og sjöunda áratugi 20. aldar og flestir voru sérfræðingar, sem hafa skilað sínu framlagi til efnahagslífs þjóðarinnar.

MENNING
Hefðbundin menning.  Menning landsmanna er blanda áhrifa frá indíánum og spænskri Miðjarðarhafsmenningu.  Á trúarhátíðum eru enn við lýði heiðnar hefðir, sem Indíánarnir túlka í dansi og song.  Þá klæðast Indíánarnir gjarnan táknrænum fatnaði, sem sýna skilning þeirra á hegðun Evrópumanna.  Dansarnir palla-palla eða loco palla-palla skopstæla evrópsku innrásarmennina, waka-tokoris-dansinn gerir grín að nautaati og morenada-dansinn hæðist að hvítum mönnum, sem ganga í fararbroddi innfluttra, afrískra þræla.  Hljóðfæri indíána eru notuð við þessar athafnir.  Tónlistin sjálf er blanda beggja heima.  Algengustu hljóðfærin eru sicu eða zampona og kena, tarka og pinkillo (flautur).  Ýmsar stærðir ásláttarhljóðfæra eru notaðar, skinntrommur, bronshylki og koparbjöllur.  Búningarnir eru mikið skreyttir útsaumi og litskrúðugir í anda indíána fyrir daga Kólumbusar og 16. aldar Spánverja.  Spænsk áhrif koma skýrt fram í strengjahljóðfærinu charango, sem er einkennandi fyrir Bólivíu.  Á því eru fimm tvöfaldir strengir og það líkist gítar í útliti, en mun minna.  Hljómbox þess er úr hylki beltisdýrsins.

Daglegur klæðnaður hálendisindíánakvenna til sjávar og sveita er hefðbundinn.  Þær klæðast þykkum pilsum (polleras) og sveipa um sig litskrúðugum herðadúkum, sem eru venjulega fullir af vörum, sem þær eru með á leið á markaðinn eða heim þaðan.  Þar geyma þær líka aukafatnað, stundum börn eða eitthvað annað til að hafa hendurnar frjálsar.  Hattarnir eru ómissandi og eru mismunandi í laginu eftir landshlutum.

Menning indíána hefur blómstrað allt frá fjórða áratugi 20. aldar.  Þeir höfðu reynt að herma eftir Evrópubúum í háttum og klæðaburði fram að því.  Snemma á áttunda áratugnum höfðu indíánar endurskoðað gildi sín og tónlist þeirra komst á flug.  Listmálarar hættu að einblína á evrópskar fyrirmyndir og tízku og mörg einkenni indíánamenningarinnar birtust á ný í almennum lífsháttum fólksins.  Aymara-tungumálsskólinn í La Paz er tileinkaður varðveizlu þessarar tungu.

Listir
.  Þjóðlistaskólinn í La Paz býður námskeið í tónlist, listmálun, höggmyndagerð og leirmunagerð.  Í Þjóðlistasafninu og Fornminjasafninu (Museo Tiahuanaco) eru tvær myndrænar deildir með föstum sýningum.  Skartgripir úr silfri og gulli, smíðaðir og skreyttir að hætti fólksins áður en Kólumbus kom til Ameríku, hafa verið smíðaðir allt frá upphafi nýlendutímans.  Markaðir um allt land bjóða gífurlegt úrval ýmiss konar handverks og fagurlega útskornar tréstyttur.

Í Potosi-borg var Konunglega Minthúsið (Casa Real de Moneda; stofnað á 16. öld og endurb. á 18. öld) endurbyggt og hinir stóru salir þess eru notaðir til sýninga á fögrum málverkum frá nýlendutímanum.  Mörg gömul hof hafa einnig verið endurreist.  Þjóðarsynfónían í La Paz og San Andrés háskólakórinn sérhæfa sig í söngvum og tónlist indíána.

Afþreying.  Margs konar hátíðir eru haldnar reglulega.  Kjötkveðjuhátíðin í Oruro er líklega hin mikilvægasta.  Þar keppa margir hópar indíána í dansi og hljóðfæraslætti, sem gefur tilefni til gífurlegra skreytinga og fjölbreytni í klæðaburði.  Knattspyrna er þjóðaríþrótt og Bólivía tekur þátt í alþjóðlegum keppnum á því sviði.  Aðrar kunnar áhorfendaíþróttir eru einnig stundaðar og stundum er boðið upp á nautaat.

Fjölmiðlar eru virkir og frjálsir í landinu, þótt einræðisstjórnir hafi stundum dregið úr því.  Allar héraðshöfuðborgirnar (nema Cobija, Pando) gefa út dagblöð.  El Diario (elzt), Presencia (katólskt), Hoy og Ultima Hora, sem eru öll gefin út í La Paz, eru útbreiddust.  Dagblaðið í Sucre, Correo del Sud, var stofnað síðla á 20. öldinni.  Útvarpsstöðvar, margar á viðskiptagrunni, eru útbreiddar í landinu.  Þær útvarpa á spænsku, aymana og quechua.  Ríkissjónvarpið (Empresa Nacional de Televisión) fjallar um innlend og erlend málefni, íþróttir, listir, sýnir heimildarmyndir og almennt afþreyingarefni.  Það rekur stöðvar í flestum aðalborgum landsins.  Sjónvarpsstöð háskólanna leggur áherzlu á fræðsluefni.  Á níunda áratugnum áttu fæstir landsmenn sjónvarpstæki.  Áhorfendahópurinn í borgum landsins er mun stærri en í sveitunum.

NÁTTÚRAN
Loftslag
.  Bólivía er að öllu leyti innan hitabeltisins en hitafarið nær yfir allan skalann.  Uppi í Andesfjöllum fer hitastigið og úrkoman eftir hæð yfir sjó fremur en nálægð miðbaugs.  Kaldir vindar leika um Altiplano-hásléttuna án mikilla umskipta milli sumars og veturs og úrkoman er í lágmarki, fylgir aðallega þrumuveðrum á sumrin í desember og janúar.  Sumarhitinn er á milli 7°C og 11°C og á veturna fer hann vel niður fyrir frostmark.  Nætur eru kaldar á hásléttunni allt árið.  Í norðurhlutanum hefur Titicaca-vatnið verulega mildandi áhrif á veðurfarið.  Þegar sólin skin skært á veturna getur hitinn farið upp í 21°C.  Í heiðríku veðri er útsýnið hreint ótrúlegt á hásléttunni í tæru fjallaloftinu.

Rakt loft frá Amasónsvæðinu í norðaustri fyllir dali Yungas allt árið og anganin frá skóginum er sterk.  Meðalárshitinn þar er 16°C-19°C.  Meðalársúrkoman er 1350 mm.  Það rignir allt árið en mest á tímabilinu desember til febrúar.  Í Dölunum (Valles) er öllu bjartara og úrkoman minni en í Yungas og einnig nokkru hlýrra.

Á sléttum Oriente er loftslagið heitt, 23°C-25°C í suðurhlutanum og allt að 27°C í norðurhlutanum.  Einstöku sinnum blæs kaldur surazos-vindurinn úr suðri, hlaðinn sandi og ryki, í nokkra daga í senn, þannig að hiti lækkar verulega og skyndilega.  Úrkoman er á milli 1000 og 1750 mm eða meira nyrzt og mest rignir á sumrin.

Flóran
.  Gríðarstór svæði á sunnanverðri Altiplano-hásléttunni eru sölt og gróðurvana en gróft þúfnagras er algengt í norðurhlutanum, þar sem lamadýrum er beitt.  Meðal algengustu jurta á þessum slóðum eru tola (runni) og yareta (líkt mosa), sem eru notaðar sem eldsneyti, auk lágvaxinna kaktusa.  Tortorarunnar, sem vaxa á bökkum Titicaca-vatns, eru notaðir til þakgerðar og byggingar indíánabáta (balsas).  Altiplano-hásléttan státar ekki af náttúrulegum trjágróðri en víða í skjólgóðum dölum má finna tröllatré, sem hafa verið gróðursett og dafna vel.
 
Yungas er þéttvaxið fjallaregnskógi með miklum fjölda harðviðartegunda, litunartrjáa, lækningajurta og ávaxtatrjáa.  Mest ber á grænni furu, aliso (runnatré), lárviði, sedrusviði, tarco (stór króna, gulhvít blóm) og saúco (ávöxtur notaður til að framleiða lækningasíróp).  Kíníntréð og kókarunninn hafa vaxið þarna frá örófi alda.  Í Dölunum (Valles) í suðri er víðast þekja af þurrlendisgrösum, runnum og litlum trjám.  Á sunnanverðu fjallsrótasvæðinu er laufskógarræma með valhnetu og quebracho (litarefni og timbur).  Á lægri svæðum í Oriente fer flóran mikið eftir því, hve mikið jarðvegurinn er vatnsgrafinn og lengd þurrkatímans.  Á sunnanverðu Chaco vaxa runnar og dreifðir skikar með quebracho til norðurs, þar sem þeir víkja fyrir hálfgerðum laufregnskógi.  Nyrzt í Oriente ber mest á grösum, pálmum steppumýrargróðri, sem teygist alla leið inn í Beni, þar sem regnskógaræmur vaxa meðfram ánum og stærri skógarsvæði meðfram rótum Andesfjalla og í Austur-Bólivíu.  Allranyrzt, í Pando-héraði, er hluti Amasónregnskógarins (selva).  Trjátegundir skipta þúsundum og meðal þeirra eru gúmmítré, brasilíuhneta og mahóní.

Fánan.  Uppi á hálendinu eru nokkrar tegundir dýra úr kamelfjölskyldunni, lama, alpaca, guanaco og vicuna.  Lamadýrin og alpacadýrin hafa verið tamin og gerð að húsdýrum.  Lamadýrin eru stærstu dýrin á Altiplano-hásléttunni og finnast sjaldan neðar en í 2300 m hæð yfir sjó.  Þau eru hefðbundin burðardýr og voru og eru notuð til fæðu.  Ull þeirra og skinn eru notuð til vefnaðar og fatnaðar.  Þau gefa líka af sér mör og tað þeirra er þurrkað og notað sem eldsneyti.  Alpaca er minna dýr og ræktað vegna mjúkrar ullarinnar.  Vicunadýrin, sem eru villt og orðin sjaldgæf, gefa af sér enn þá mýkri ull.  Meðal villta nagdýra er chincilla, viscacha, mara og cavy (oft ræktað vegna kjötsins og stundum sem gæludýr).  Andesgammurinn er stærstur fugla í Latnesku-Ameríku.  Hann verpir í 3000-5000 m hæð yfir sjó en flýgur alla leið niður til sjávar vestan Andesfjalla í leit að æti.  Meðal aragrúa smærri fuglategunda við og á Titicaca-vatni eru goðar, blesendur og aðrar andategundir, dílaskarfar, gæsir og mávar.  Miklu sunnar, við Poopó-vatn, er mikill fjöldi flamingóa.

Mikið er af fiski í ánum á austurhluta sléttnanna, aðallega á vatnasviði Amasónfljótsins.  Þar þrífast einnig margar tegundir froska, kartna og eðlna auk aragrúa skordýrategunda.  Beltisdýr, mauraætur, villisvín (peccary), púmur og mýrardádýr lifa á sléttunum.  Þar eru einnig capybara (stærsta nagdýr heims) og rhea (ófleygur fugl, líkur strút en miklu minni). 

Meðal fjölbreyttrar fánu norðurskóganna eru jaguar (stærsta, villta kattardýr Ameríku), letidýr, apar og tapír.  Stærsta skriðdýrið er caiman (krókódíll; alligator) og meðal margra tegunda fiska er caribe (pírana).  Slöngutegundir eru margar, s.s. kyrkislöngur og eitraðir snákar.  Fjöldi litskrúðugra fugla, páfagaukar o.fl., eru í skógunum og setjast sjaldan á skógarbotninn.  Hátt uppi hnita kóngagammar og svartgammar í leit að æti.

STJÓRN
Bólivía var lýst sjálfstætt ríki 1825 og fékk sína fyrstu stjórnarskrá árið eftir.  Þrátt fyrir margar breytingar á henni og byltingar, hefur landið notið þingbundinnar stjórnar, annaðhvort með kosningum eða fyrir tilhlutan herstjórna, sem hafa átt drjúgan hlut í sögu landsins.  Samkvæmt stjórnarskránni frá 1947 er forseta landsins falið framkvæmdavaldið.  Hann er kosinn í beinum kosningum til fjögurra ára.  Fái enginn frambjóðandi meirihluta atkvæða, skal þingið velja hann úr hópi þriggja atkvæðamestu frambjóðendanna.  Forseti getur ekki boðið sig fram til annars kjörtímabils en getur gefið kost á sér aftur eftir það.  Þingið starfar í tveimur deildum og þingmenn eru kosnir í almennum kosningum til fjögurra ára í senn.  Hæstiréttur stýrir dómskerfinu.  Í honum sitja 12 dómarar, sem þingið skipar til 10 ára í senn.

Landið skiptist í níu héruð.  Hvert þeirra er undir stjórn héraðsstjóra, sem forseti landsins skipar.  Héruðunum er skipt niður í hreppa undir stjórn hreppstjóra og hreppunum er skipt í sóknir með sveitastjórum (corregidors).

Eftir byltinguna 1952 var efnt til almennra kosninga í fyrsta skipti í sögu landsins.  Áður máttu allir, sem kunnu að lesa og skrifa og áttu eignir, kjósa.  Þessar takmarkanir gerðu það að verkum að kjósendahópurinn var mjög lítill.  Landsmenn skiptast í margar stjórnmálalegar fylkingar, sem ná yfir allan skalann frá hægri til vinstri.

Menntun
.  Grunnskólamenntun frá 6 ára aldri til 14 er frí og skyldunám (opinberlega), þótt erfitt sé að framfylgja því í sumum hlutum landsins.  Framhaldsnám í allt að 4 ár er í boði.  Síðla á 20. öldinni sóttu u.þ.b. 80% barna á skólaskyldualdri skóla, en einungis 25% þeirra, sem áttu kost á framhaldsnámi.  Flestir skólar eru ríkisstyrktir en einkaskólar eru leyfðir.  Katólikkar, mótmælendur og gyðingar reka grunn- og framhaldsskóla.  Læsi fullorðinna hefur aukizt gífurlega síðan á sjötta áratugnum.  Á hinum sjöunda voru u.þ.b. 75% landsmanna ill- eða ólæs en á níunda áratugnum var hlutfallið komið niður í þriðjung.  Æðri menntun sækja stúdentar í ríkisháskólana, sem eru í höfuðborgum héraðanna, nema Pando.  Auk þeirra eru tækniháskólar og einn katólskur háskóli.  Stærsti háskólinn er San Andrés í La Paz.  Bókasafn hans og Þjóðarbókhlaða þingsins eru stór að sniðum.

Heilbrigðismál.  Heilsugæzlunni má skipta í þrennt, ríkisstyrkta (alm. tryggingakerfið), fyrir sértryggða og einkarekna.  Almennt séð er þjónustan fullnægjandi í borgum landsins.  Í sveitunum skortir lækna, hjúkrunarkonur og lyf.  Heilbrigðisstarfsmenn, sem eru á stöðugum ferðum um landið sinna frumþörfunum og ráðleggja um hreinlæti og næringu í dreifbýlinu.  Stærstu vandamálin í sveitunum eru smitsjúkdómar (malaria og chagas, sem er banvænn sjúkdómur).  Öndunarsjúkdómar eru útbreiddir og vannæring mikil.

Trúarbrögð.  Rómversk-katólsk trú á flesta fylgjendur (95%) í Bólivíu.  Kardínálaráðið í Sucre er í fararbroddi hennar.  Kirkjur og dómkirkjur, sem flestar voru byggðar á nýlendutímanum, eru þjóðarminnismerki byggingarlistarinnar.  Þær eru yfirleitt yfirhlaðnar skreytingum í barokstíl, en sumar í endurreisnarstíl (dómkirkjan í La Paz) og aðrar í öðrum stílum.  Frá fimmta áratugi 20. aldar hefur katólska kirkjan sótt fram á sviði félagslegrar aðstoðar og menntunar.

Indíánasamfélögin á Altiplano-hásléttunni viðhalda nokkru af trúarsiðum forfeðranna.  Guðir þeirra voru m.a. sólguðinn, sem er sagður hafa skapað fyrsta keisara inka, Manco Capac og systur hans, Mama Ocllo, sem var einnig eiginkona hans á Eyju sólarinnar í Titicaca-vatni.  Katólskan hefur blandast nokkrum siðum indíánatrúarinnar um aldir í þessum samfélögum.  Trúflokkar mótmælenda eru einnig nokkrir auk fámenns hóps gyðinga.  Stjórnarskrá landsins á að tryggja þegnunum algert trúfrels.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM