Anchorage er stærsta
borg Alaska. Hún er í suðurmiðhluta fylkisins við mynni Cookfjarðar.
Flugtíminn þangað frá Seattle er u.þ.b. 3 klst.
Árið 1741 komu rússneskir
sæfarar undir stjórn Danans Vitus Bering til meginlands Alaska.
Síðan komu brezkir, spænskir og bandarískir landkönnuðir. Árið 1867 keyptu BNA Alaska af Rússum. Gullfundurinn árið 1887 og síðar (1922) inni landi var aðalhvati
þróunarinnar á Anchoragesvæðinu.
Árið 1914 hófst lagning járnbrautar frá hafnarbænum Seward,
208 km sunnan Anchorage, um kolasvæðin inni landi til gullsvæðanna
við Fairbanks, 591 km norðar. Framkvæmdum
við miðhluta járnbrautarinnar var stjórnað frá Anchorage og í júlí
1915 voru komnar þangað þúsundir manna í atvinnuleit.
Þetta fólk bjó í tjöldum á bökkum Shipárinnar rétt hjá
núverandi miðbæ borgarinnar. Í
þessum mánuði fór hin svokallaða „Stóra lóðasala” fram.
Á henni byggðist framtíð borgarinnar og alls seldust 655 lóðir
fyrir $148.000.-, eða $225.- hver.
Mánuði síðar var ákveðið í kosningum að nefna borgina
Alaskaborg en sambandsstjórnin neitaði að breyta nafninu úr
Anchorage. Fimm árum
seinna sleppti Bandaríkjastjórn stjórntaumunum og bæjarstjórnarkosningar
voru haldnar í fyrsta skipti. Þessi hraðvaxandi bær liggur norðar
en Helsinki í Finnlandi og 571 km sunnan heimsskautsbaugs.
Á árabilinu 1939-57 stækkaði borgin hratt vegna framkvæmda
hersins og ríkisstjórnarinnar við lagningu vega, byggingar flugvalla
og hafna vítt og breitt um fylkið.
Höfnin var tilbúin snemma á sjöunda áratugnum.
Snemma
morguns á föstudaginn langa 27. marz 1964 reið gríðarlegur jarðskjálfti
yfir og stór hluti miðbæjarins í Anchorage hrundi til grunna. Hundruð heimila, fjölbýlishúsa og fyrirtækja voru í rúsum
og margir týndu lífi. Íbúðarhverfin umhverfis, sérstaklega
Tunagain, og nærliggjandi borgir urðu fyrir miklu tjóni.
Enduruppbyggingin hófst strax með undraverðum hraða.
Á áttunda áratugnum kom aftur fjörkippur, þegar vinnsla olíu
í Prudhoeflóalindunum og Alaskaolíuleiðslan var lögð.
Á tíu ára tímabili þrefaldaðist íbúafjöldinn, íbúðar-
og skrifstofuhúsnæði.
Icelandair
flýgur til Anchorage
borgar.
Ferðatímabil 14. maí til
28. október 2014.
ALASKA |