Borgarmyndin.
Götur borgarinnar eru breiðari en í öðrum borgum í Alaska.
Í miðbænum eru Z.J. Loussac bókasafnið, tónlistarhöll
borgarinnar, veitingahús, hótel, leikhús, alríkisbyggingin, ráðhúsið
og pósthúsið. Efnahagur
borgarinnar byggist aðallega á þjónustu við ríkisstjórnina og
herinn. Bygging Elmendorf
flughersstöðvarinnar og Fort Richardson í síðari heimsstyrjöldinni
gerði Anchorage að miðstöð hervarna og ýtti undir grózku hennar.
Hernaðarlegt mikilvægi og lega borgarinnar gerðu hana að miðstöð
flugsins. Alþjóðaflugvöllurinn
þjónar nokkrum innlendum og erlendum flugfélögum.
Umferð sjó- og vatnaflugvéla er líka mikil og litlar flugvélar
þjóna farþegum, sem ætla til afskekktra staða.
Aðalstöðvar járnbrautanna eru í Anchorage og höfnin var
opnuð 1961. Hún er orðin
hin stærsta í miðsuðurhluta landsins.
Vöruflutningar landleiðina eru líka mikilvægir fyrir borgina,
því að hún hefur beint vegasamband við annarra borga, m.a. um
Alaskahraðbrautina. Borgin
er miðstöð vörudreifingar, viðskipta, fjármálastarfsemi og olíuiðnaður
hefur vaxið hraðfara.
Íbúarnir
og menningin.
Menntakerfi borgarinnar er mjög gott.
Þar eru allar gerðir skóla.
Aðalhátíð borgarinnar er Skinnahátíðin í febrúar ár
hvert. Þá er margt til
gamans gert, s.s. inúítadansar, listsýningar, skrúðgöngur og
heimsmeistarakeppnin í hundasleðaakstri.
Íbúafjöldinn var u.þ.b. 227.000 árið 1990.
Borgin er alþjóðleg, íbúarnir eru flestir aðfluttir og eiga
því mismunandi menningarlega bakgrunn.
Í borginni eru rúmlega 160 almenningsgarðar, þ.m.t. 10 stór
verndarsvæði. Skíðaferðir,
íshokkí, golf og sund eru vinsælar íþróttir og margir njóta þess,
að fara í tjaldferðir í hinni stórkostlegu náttúru landsins.
Margir sækja afþreyingu á George Sullivan-íþróttaleikvanginum,
leiklistarmiðstöðinni, Eganráðstefnumiðstöðinni og víðar.
Atvinnulífið.
Anchorage er viðskiptamiðstöð fylkisins. Höfuðstöðvar margra stórra og smárra fyrirtækja eru í
borginni, s.s. olíu- og gasiðnaðarins, fjármála- og fasteignafyrirtækja,
samgangna, vöruflutninga og ríkistjórnarinnar.
Framboð ferðaþjónustu er mikið og vex stöðugt. Rúmlega 9000 manns tengjast herstöðvunum í fort
Richardson og Elmendorf AFB. Atvinnuleysi
er lítið en svolítið árstíðabundið.
Alls hafa 924 veiðikvóta, þótt fiskiðnaðurinn eigi sér
ekki höfuðstöðvar í borginni, enda stunda veiðikvótahafar aðallega
veiðar annars staðar, s.s. frá Bristol Bay, Kodiak eða Cordova.
Samgöngur.
Ríkið rekur alþjóðaflugvöllinn í Anchorage og Lake
Hood flugbátasvæðið, innanlandsvöllinn Merrill Field og
flugvelli flughersins. Anchoragehöfn
tekur við u.þ.b. 85% allrar vöru, sem er síðan flutt landveginn með
járnbrautum. Nokkur pramma- og flutningabílafyrirtæki eru í fullum
gangi. Járnbrautin tengir
Anchorage, Seward, Whittier og Fairbanks.
Loftslagið
er mismunandi eftir landshlutum. Á
veturnar er hiti mismunandi mikið neðan frostmarks og á sumrin víða
svipaður því, sem við eigum að venjast hér heima.
Meðalársúrkoman er u.þ.b. 4125 mm, ekki ósvipað og víða
á suðurstönd Íslands.
Neyzluvatn er leitt
alla leið frá Chugachfjöllum, uppistöðulóni Shipárinnar,
frá djúpum borholum og vatnshreinsunarstöðinni Gridwood.
Enstar Natural Gas Company sér íbúunum fyrir náttúrulegu
gasi, sem er algengasta og ódýrasta orkulindin til húshitunar. Rafmagn skaffa Anchorage Municipal Light & Power og
Chugach Electric Association, sem kaupa það bæði frá Eklutna Hydro
Facility, sem er í eigu alríkisstjórnarinnar, og ríkisreknum
orkuverum Lake Hydro Facility. Fyrstnefnda
rafmagnsfyrirtækið á 8 orkuver, sem eru drifin með díselolíu og olíu.
Chugach Electric á 17 orkuver á Cookfjarðarsvæðinu, flest
drifin með gasi, og tvö eru í eigu Cooper Lake Facility.
Opinber- og einkafyrirtæki annast sorphirðu. |