Bahrain meira,

LANDIÐ EFNAHAGSMÁL SAGAN  

BAHRAIN
MEIRA

Map of Bahrain
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

STJÓRNSÝSLA  Emírinn (konungurinn) er æðsti maður ríkisins.  Hann nýtur aðstoðar ráðherra, sem eru gjarnan úr röðum fjölskyldu hans.  Stjórnarskráin frá 1973 kveður á um þjóðþing með ríkisstjórn og þingmönnum, sem eru kosnir í almennum kosningum.  Eftir tímabil mótmæla verkamanna og pólitísks óróa leysti konungurinn þingið upp árið 1975.  Gamla arabíska kerfið var þá tekið upp á ný, þannig að íbúarnir verða að leggja beiðnir og bænaskrár fyrir ráðgjafa konungs til að koma málum sínum fram.  Árið 1993 stofnaði konungur 30 manna ráðgjafaráð (stækkað í 40 árið 1996).  Emírinn skipar meðlimi þess, sem þjóna í fjögur ár í senn.  Stjórnmálaflokkar eru bannaðir.

FÉLAGSMÁL  Menntun er frí fyrir nemendur í barna-, gagnfræða- og framhaldsskólum og skólaskylda nær til barna á aldrinum 6-17 ára.  Einkaskólar starfa samhliða hinum opinberu.  Bahrain-háskóli og Arabaflóaháskólinn eru æðstu menntastofnanir þjóðarinnar.  Langflestir íbúanna eru læsir.  Heilsugæzla er góð og frí og félagslega kerfið, sem er að flestu leyti líkt hinum vestrænu, er einnig á vegum ríkisins (ellilífeyrir, veikindagreiðslur, slysatryggingar, atvinnleysisbætur, mæðralaun og fjölskyldubætur).  Barnadauði er tiltölulega lágur, ef miðað er við önnur lönd í Miðausturlöndum.  Ríkið stendur fyrir uppbyggingu félagslegra íbúða og nýtur til þess fjárstyrks frá nágrannalöndunum.

ÍBÚARNIR  Meirihluti íbúanna býr nú í borgum en nyrzt og norðvestast á Bahrain-eyju, þar sem áveitur hafa verið nýttar öldum saman, eru smáþorp og stakir bóndabæir.  Þessi landshluti stingur mjög í stúf við eyðimerkurnar í mestum hluta landsins.  Hús þorpanna eru víðast byggð úr múrsteinum eða steinsteypu með flötum þökum.  Sumar bráðabirgðabyggðir fiskimanna og fátæklinga eru enn þá byggðar úr greinum döðlupálma (barasti).  Varanlegar byggðir eru fáar á suðurhluta eyjarinnar og hinum minni eyju.

Manama og Al-Muharraq eru aðalborgir eyjanna.  Þar býr u.þ.b. þriðjungur íbúa landsins.  Manama með Mina’Salman-höfninni er höfuðborgin.  Þar er aðalmiðstöð stjórnsýslu, viðskipta og fjármála, mörk stór hótel, vestrænar verzlanir og hefðbundnir arabamarkaðir (souk).  Manama er nútímaleg borg og mjög ólík Al-Muharraq, sem er þéttbýl með mjóum, bugðóttum götum.  Aðrar aðalbyggðir eru ‘Awali, næstum á miðri Bahrain-eyju, þar sem flestir íbúarnir eru erlendir starfsmenn Olíufélags Bahrain, Madinat ‘Isa’, sem er ríkisstjórnin stofnaði 1968, Ar-Rifa’ash-Shamali, Ar-Rifa’ash-Sharqi, Ar-Rifa’al-Gharbi og nýja borgin Hamad (1984).

MENNING  Þrátt fyrir hraða efnahagsþróun, hefur arabísk menning haldið velli í Bahrain.  Ríkisfjölmiðlarnir (útvarp og sjónvarp), senda út efni sitt á arabísku en bjóða líka rásir á ensku.  Knattspyrna er vinsælasta íþróttin meðal landsmanna.  Veiðar með fálkum eru enn þá vinsælar efnamanna og þeir eltast líka við gasellur og héra.  Hesta- og drómedaraveðreiðar eru vinsælar meðal almennings.

Nokkur dag- og vikublöð eru gefin út á arabísku og nokkur þeirra líka á ensku.  Flest blöð eru í einkaeign og eru ekki ritskoðuð, ef þau gæta þess að styggja ekki konungsfjölskylduna.

Hefðbundið handverk nýtur stuðnings almennings og ríkis.  Safnið í Manama hýsir minjar frá fornöld, m.a. fílabeinsstyttur, leirmuni, koparmuni og gullhringi, sem lýsa utanaðkomandi menningaráhrifum.  Nýlistamenn blómstra líka í landinu.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM