Bahrain landið,


BAHRAIN
LANDIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Tveir eyjaklasar mynda Bahrain.  Bahrain-eyja (580 km²), sem er u.þ.b. 87% af heildarflatarmálinu, er umkringd smærri eyjum.  Tvær þeirra, Al-Muharraq og Sitrah, tengjast aðaleyjunni með hraðbrautum, sem hafa stuðlað að búsetu og iðnvæðingu þeirra.  Aðrar eyjar eru Nabi Salih, Al-Muhammadiyah (Umm As-Sabban), Umm An-Na’san (tengd um hraðbraut Fahd konungs) og Jiddah.  Í hinur eyjaklasanum eru Hawar-eyjar, sem Qatar gerir tilkall til, enda eru þær nærri ströndum þess lands, u.þ.b. 19 km suðaustan Bahrain-eyjar.  Þær eru litlar og klettóttar og þar búa aðeins nokkrir fiskimenn og verkamenn í grjótnámum.

Hinar smærri eyjar beggja eyjaklasa eru klettóttar og rísa lágreistar.  Landslag Bahrain-eyjar er fjölbreyttari ásýndar.  Grunnur þess er setlög, einkum kalk- og sandsteinn auk leirs og sands, sem hafa haggast lítillega vegna fellingahreyfinga.  Þessi setlög eru aðallega frá krítar- og tertíertímum, mynduð fyrir 144 þús.-1,6 milljónum ára.  Miðhlutinn er klettóttur og hrjóstrugur og rís hæst 134 m yfir sjó í Ad-Dukhan-hæð.  Suður- og vesturláglendin eru óvistlegar sandsléttur með nokkrum saltfenjum.  Norður- og norðvesturstrendurnar mynda að hluta miklar andstæður með mjóu belti döðlupálma og ræktaðra garða, sem njóta áveitna frá gjöfulum lindum og brunnum.  Vatnið, sem þar sprettur fram, er komið frá vesturfjöllum Sádi-Arabíu.  Þessi gnótt ferskvatns á þessum slóðum hefur gert þetta landsvæði frjósamt og í aldanna rás hefur það verið miðstöð viðskipta við Persaflóa.  Efnahagsþróun og fjölgun íbúa hefur leitt til þess, að þessar lindir nægja ekki og núorðið verður að eima u.þ.b. 60% vatnsþarfarinnar úr sjó.  Eimingarstöðvarnar eru drifnar með náttúrugasi.


Loftslagið.  Sumrin eru óþægilega heit og rök.  Hitinn um miðjan daginn frá maí til október fer oft yfir 32°C, jafnvel upp í 40°C.  Sumarnæturnar eru mollulegar og rakar.  Veturnir eru svalari og þægilegri.  Meðalhitinn frá desember til marz er 21°C.  Úrkomu gætir aðeins á veturna, u.þ.b. 75 mm á ári.  Sum ár rignir ekki og önnur getur úrkoman orðið tvöfalt meira en meðaltalið segir til um.  Ríkjandi vindátt er norðvestlæg, hinn raki shamal-vindur.  Heitur, þurr og rykmettaður sunnanvindur er sjaldgæfari.

Flóra og fána.  Eyðimerkurflóran á hinum þurru og hrjóstrugu eyjum telur u.þ.b. 200 tegundir, en á svæðum, sem njóta áveitna, er hægt að rækta ávaxtatré, fóðurplöntur og grænmeti.  Fjöldi dýrategunda er takmarkaður vegna eyðimerkurskilyrðanna.  Gasellur og hérar eru ekki útdauðir enn þá og eðlur og eyðimerkurrottur eru algengar.  Merðir, sem voru líklega fluttir frá Indlandi, þrífast á áveitusvæðunum.  Fuglalífið er fábreytt nema á vorin og haustin, þegar mikill fjöldi tegunda farfugla hvílist á leið sinni frá norðlægari slóðum til vetrardvalar sunnar og öfugt.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM