Bahrain efnahagsmál,


BAHRAIN
EFNAHAGSMÁL

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Bahrain var fyrst furstadæmanna til að finna olíu árið 1932 og verður líklega fyrst til að þurrausa olíulindir sínar.  Bahrainbúar hafa því byggt efnahag sinn upp á fjölbreyttari hátt en önnur lönd við Persaflóa.  Samt sem áður byggist efnahagurinn að verulegu leyti á framleiðslu hráolíu, náttúrugass og olíuhreinsun til framleiðslu ýmissa olíuafurða.  Þetta gerir efnahaginn viðkvæman fyrir verðsveiflum á heimsmarkaði.  Landsmenn hafa langa reynslu í vöruflutningum og viðskiptum og þeim hefur á margan hátt tekizt betur að byggja upp iðnað, verzlun og þjónustu (fjármálaþjónustu) en mörgum öðrum Persaflóaríkjum.  Þar sem olía finnst ekki, eru framleidd ýmiss konar efni úr olíu, unnið við viðgerðir og viðhald skipa og rekinn margs konar smáiðnaður.  Stærsta álverið við Persaflóa, ALBA (Aluminium Bahrain) og Olíufélag Bahrain hafa verið arðbær fyrirtæki en einkaframtakið hefur ekki fengið mörg tækifæri til að hasla sér völl.  Landið hefur lengi státað af mesta viðskipta- og fjármálamarkaði við Persaflóann og ferðaþjónustunni vext stöðugt fiskur um hrygg.

Landbúnaður og fiskveiðar.  Innan við 3% lands í Bahrain eru ræktanleg og landbúnaðurinn nær ekki 1% af vergri þjóðarframleiðslu.  Langmestur hluti matvæla er fluttur inn, þótt eigin framleiðsla dragi úr þörfinni á innflutningi á takmörkuðum svæðum.  Mestur hluti grænmetis og mjólkurafurða er þó framleiddur í landinu sjálfu.  Aðaláherzlan er lögð á ræktun tómata, daðlna, banana, sítrusávaxta, mangos, granatepla og alfalfa.  Ríkið hvetur einnig til ræktunar nautgripa og hænsna en drómedarar, kameldýr og hestar eru ræktaðir til veðreiða.  Aukin mengun í Persaflóa, einkum frá olíulindum Kuvæt í Persaflóastríðinu (1990), hefur útrýmt mörgum tegundum sjávardýra (þ.m.t. rækju), sem voru mikilvægar fyrir sjávarútveginn.  Hann var þó hvorki fugl né fiskur fyrir, þrátt fyrir tilraunir konungsins til að hvetja til einkaframtaks á því sviði og stuðning við nútímavæðingu hans.

Iðnaður.  Hefðbundinn iðnaður landsins byggðist á smíði „dhows”, arabískra seglbáta, fiskveiðum, perluköfun og framleiðsla reyrmottna.  Allar þessar athafnir eru nú í mjög smáum stíl.

Olíuframleiðslan hefur ætíð verið lítil miðað við hin olíulönd Miðausturlanda og hreinsun olíu frá Sádi-Arabíu hefur verið miklu mikilvægari eftir uppgötvun olíulindanna miklu á meginlandinu.  Olíulindir Bahrain endast tæpast lengur en skammt fram á 21. öldina en gaslindirnar undan ströndum landsins munu endast mun lengur.  Álplötuverksmiðja var tekin í notkun árið 1986 og í tengslum við hana eru m.a. framleiddar álhurðir og gluggarammar úr áli.  Viðhald skipa fer aðallega fram í Mina’ Salman í grennd við Manama og stór skipasmíðastöð er á Al-‘Azl-eyju.  Léttur iðnaður byggist m.a. á framleiðslu byggingarefnis, húsgöngum, drykkjarvörum, plastvörum og ýmsum neyzluvörum.  Ríkið á stóran hlut í þessum nútíma iðngreinum.  Olíu- og gaslindir og framleiðsla tengd þeim er þjóðnýtt.  Árið 1990 fór ríkið að sækjast eftir erlendri fjárfestingu á þessu sviði.


Fjármál og viðskipti.  Ríkisstjórnin hefur hvatt til starfsemi banka, tryggingarfyritækja og annarra fjármálastofnana á erlendri grund og gert landið að vaxandi miðstöð fjármála.  Þessi þróun hefur haft góð áhrif á viðskiptajöfnuðinn.  Seðlabanki landsins gefur út gjaldmiðil landsins, dinar.  Auk hans starfa innlendir og erlendir viðskiptabankar og fjárfestingarbankar.  Kauphöllin var opnuð árið 1989.

Aðalinnflutningurinn byggist á hráolíu, sem er pumpað um neðansjávarleiðslu frá Sádi-Arabíu til hreinsunar í Bahrain.  Aðrar mikilvægar vörur eru vélbúnaður, matvæli og efnavara.  Aðalútflutningsvörurar eru hreinsuð olía og olíuvörur og álvörur.  Sádi-Arabía er aðaviðskiptalandið auk BNA, Japans og Bretlands.

Samgöngur.  Vegakerfi landsins er mjög velbyggt með slitlagi og hraðbrautartengingum við Al-Muharraq- og Sitrah-eyjar og við Sádi-Arabíu.  Járnbrautir eru engar en aðalborgir og þorp njóta góðra samgangna með rútum og leigubílum.  Langflestar fjölskyldur landsins eiga eigin farartæki.  Aðþjóðaflugvöllurinn á Al-Muharraq-eyju er einhver fjölfarnasti flugvöllur Miðausturlanda og miðstöð margra mikilvægustu millilandaflugfélaga heims.  Manama er miðstöð flugfélagsins Gulf Air, sem er ríkisrekið með þáttöku ríkisstjórna Óman, Qatar og Sameinuðu arabísku furstadæmanna.  Flutingaskip annast áætlunarsiglingar frá landinu til annarra hafna við Persaflóa, Pakistan og Indlands.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM