Nassau
hefur
verið höfuðborg Bahamaeyja síðan sjálfstæði fékkst árið 1973.
Hún stendur í landslagi, sem nær allt frá sjávarmáli upp í 41
m.y.s. Íbúafjöldinn er nál.
140.000. Borgin var skírð
eftir Vilhjálmi af Óraníu-Nassau, sem varð konungur Englands árið
1688 sem Vilhjálmur III. Þar
eru mörg gömul virki, mörg velvarðveitt gömul og litrík hús frá
nýlendutímanum, gömul og virðuleg hótel, lúxusferðamannastaðir
og fjölbreytt afþreying í boði, allt frá einföldum rommkrám og
kalypsóstöðum til spilavíta með fjölbreyttum skemmtiatriðum.
Eftir
1670 höfðu víkingar og sjóræningjar Nassau sem miðstöð sína og
réðust þaðan á frönsk og spænsk skip.
Snemma á 18. öld réðust Frakkar og Spánverjar á bæinn og
ollu verulegu tjóni. Árið
1703 réðust þeir sameiginlega á bæinn og hröktu flesta íbúana í
burtu.
Þegar
Woodes Rogers, fyrsti konunglegi landstjóri eyjanna (1718-21 og
1729-32), kom til Nassau, fann hann allt í rústum og lét alla, sem
vettlingi gátu valdið, þ.m.t. sjóræningja, taka til hendinni við
endurbyggingu bæjarins. Þegar
þingið kom fyrst saman á síðara landstjóratímabili Woodes, samþykkti
það 12 lög, þ.á m. skipulag Nassau.
Bærinn
stækkaði enn frekar á fimmta tugi 18. aldar, var endurnýjaður á
margan hátt og Montaguvirkið var byggt.
Undir stjórn William Shirley, landstjóra (1758-68), stækkaði
og þróaðist borgin enn. Hann
endurskipulagði borgina og lét þurrka upp mikið votlendi, sem var
uppeldisstöð moskítóflugna, til þess að hún gæti stækkað í
austurátt. Meðal margra
gatna, sem þá urðu til, var Shirley Street.
Þegar
bróðir hans, Thomas, var landstjóri, varð borgin næstum gjaldþrota
og fátækt varð allsráðandi. Árið
1783 lýsti þýzkur ferðamaður (Schöpe) því yfir, að Nassau ætti
eina reglulega götu, sem lægi meðfram sjónum.
Konungssinnaðir
Bandaríkjamenn, sem flúðu til Bahamaeyja í kjölfar frelsisstríðsins,
höfðu mikil áhrif á byggingarstílinn í Nassau.
Þeir gjörbyltu sóðalegum bæ í fallega borg og íbúafjöldinn
meira en fjórfaldaðist við komu þeirra og þrælanna, sem þeir
fluttu með sér. Þeir
fluttu með sér byggingarstíl frá Suðurríkjunum og sína eigin útfærslu
á georgíska stílnum.
Á
miðri 19. öld lifnaði aftur yfir staðnum og mikið var byggt, þegar
menn fóru að græða á þrælastríðinu í BNA.
Þá varð Nassau að miðstöð þeirra, sem græddu á því að
rjúfa hafnbannið, sem Bretar settu á Bandaríkin.
Í lok 19. aldar urðu borgarbúar að reiða sig á ýmiss konar
iðnað, s.s. framleiðslu svamps, ræktun ananas og sísals, en betri tímar
voru í væntum. Á bannárunum
í BNA var áfengi flutt í stórum stíl þangað um Nassau (1919-33).
Snemma á sjötta áratug 20. aldar hófst ferðaþjónustan, sem
er nú höfuðatvinnuvegur landsins. Samtímis komst borgin á kort alþjóðlegra bankaviðskipta
og varð aðsetur aragrúa fyrirtækja vegna skattaívilnana. |