Nassau skoðunarvert Bahamaeyjar,


NASSAU
Skoðunarverðir staðir
BAHAMAEYJAR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Höfnin, Prince George Wharf, * Straw Market.   Skemmtiferðaskip leggja að Prince George-bryggju og strámarkaðurinn er í gamalli tollskemmu.  Hann er einn hinna stærstu í Vestur-Indíum og angar hans teygja sig inn í borgina að Rawsontorgi, sem er aðaltorgið með Höfrungabrunninum.

*Þingbyggingarnar eru við Þingtorgið sunnan Rawsontorgsins.  Þær eru mjög falleg dæmi um hús byggð í enska nýlendustílnum.  Þinghúsið sjálft var byggt árið 1810.  Í vesturálmunni er þingsalurinn.  Við hliðina er öldungardeildarhúsið, þar sem Viktoría drottning hélt ræðu árið 1877 í tilefni 50 ára valdaafmælis síns.  Litlu austar er fyrrum bústaður nýlenduráðherrans, sem hýsir nú skrifstofu ferðamálaráðuneytisins.  Falleg marmarastytta af Viktoríu drottningu ungri prýðir fortorgið. Önnur stytta af Sir Milo P. Buttler, fyrsta landstjóra eftir að Bahamaeyjar fengu sjálfstæði 1973, stendur andspænis Viktoríu, hinum megin götunnar.  Þingmenn voru 49 talsins árið 1995 (32 FNM og 17 PLP).  Á fyrsta þinginu, sem var haldið 1728 voru 28 þingmenn.  Viktoría drotting hélt ræðu í öldungardeildarhúsinu árið 1877 í tilefni af 50 ára valdaafmæli sínu.  Nokkru austar er fyrrum bústaður nýlenduráðherrans, sem hýsir nú skrifstofur ferðamálaráðuneytisins.

Hús hæstaréttar er bak við stjórnarbyggingarnar og Endurminningagarðurinn með heiðursgröf.

Almenningsbókasafnið er við hliðina á hæstarétti í átthyrndu húsi frá 18. öld.  Þar eru varðveitt verðmæt, söguleg skjöl varðandi eyjarnar og borgina og einnig listilega útskorinn stóll, sem frumbyggjarnir hafa notað við hátíðleg tækifæri.

Konunglegu Viktoríugarðarnir eru sunnar.  Þar var áður Konunglega Viktoríuhótelið, sem opnað var árið 1861 og varð um leið viðmiðun fyrir þau lúxushótel, sem síðar voru byggð.  Hótelið lifði sín blómaskeið á dögum bandaríska frelsisstríðsins og á bannárunum.

East Hill Street státar af sérstaklega fallegum og velviðhöldnum húsum frá nýlendutímanum.

*Government House er vestar, handan Gregory's Arch-brúarinnar, sem er nokkurs konar hlið að hinum hluta borgarinnar handan hæðanna.  Það er reisuleg herragarðsbygging frá 1801 á Mount Fitzwilliam, þar sem hinir brezku aðallandstjórar eyjanna sátu. Langar tröppurnar upp að aðalinnganginum eru prýddar styttu af Kólumbusi. Annan hvern laugardag fara þar fram skrautleg vaktaskipti lífvarðarins fram.

Fincastle-virkið stendur ofan við aðalpósthúsið.  Það er skipslaga virki (1793), sem Lord Dunmore landstjóri lét byggja. Þaðan er víðsýnt sem og frá hinum 38,4 m háa vatnsturni í grennd við virkið.  Það er eins og skip í lögun til að laða að skip.  Sjóræningjar með aðsetur á New Providence réðust síðan á þar þegar þau komu nær og rændu.

Vatnsturninn stendur við Fincastle-virkið.  Hann er 38,4 m á hæð.  Ofan af honum er gott útsýni yfir allt um-hverfið.  Hægt er að taka lyftu upp ($ 1.-) eða ganga upp tröppurnar.

Drottningartröppurnar 66 liggja niður frá virkinu í vatnsskurð, sem þrælar grófu í  lok 18. aldar.

Sögufélagssafnið er litlu norðar.  Þar er að finna lærdómsríkt safn um sögu borgar og eyja.

*Nassau International Bazar er verzlanamiðstöð vestan Rawsontorgsins, sem til varð, þegar mörg gömul             hús voru endurnýjuð og komið þar fyrir fjölbreyttum verzlunum (skattfjálsum) og veitingastöðum.  Verzlanamiðstöðin er á milli aðalverzlunargötu borgarinnar, Bay Street og Woodes Rogers Walk við höfnina, þar sem innfæddir selja ávexti, grænmeti og fisk.

*British Colonial Hotel er vestast í miðborginni.  Það stendur á sama stað og Nassauvirkið stóð á s.hl. 17. aldar.  Hótelið, sem er bleikmálað, er lúxushótel með allri hugsanlegri íþróttaaðstöðu.

Vendue House við Bay Street var áður miðstöð þrælauppboða en er nú skrifstofur Rafveitunnar.

Christ Church Cathedral er anglikönsk kirkja aðeins sunnar  við King Street.  Þar stóð áður fyrsta guðshús á Bahamaeyjum (1670).  Ekki var unnt að ljúka byggingu núverandi kirkju fyrr en árið 1753 vegna þess að Spánverjar eyðilögðu hana margoft og hún var stækkuð árið 1841.  Innandyra er fallegt að virða fyrir sér steinda gluggana, málverkin og predikunarstólinn.

Fort Charlotte er í vesturhlutanum og gnæfir yfir Arawak Cay.  Lord Dunmore lét  líka reisa þetta         virki með tinþökum, virkisgröfum og dýflissum 1787-89.  Þar fara oft fram ljósa- og tónlistarhátíðir.  Það var skírt eftir Charlotte, drottningu Georgs IV.  Útsýni yfir höfnina.

Lystgarðurinn, sem kunnur er fyrir fjölbreyttan hitabeltisgróður, er á bak við virkið.
Í Ardastra-görðunum er að finna tamda flamingóa.

*Seafloor Aquarium er sunnar.  Þar er hægt að skoða neðansjávarheiminn eins og hann lítur út umhverfis Bahamaeyjar.  Höfrungasýningar eru haldnar reglulega.

Paradísareyja er tengd Nassau með brú yfir Potters Cay.  Hún var áður gististaður milljónamæringa en nú hafa flestir efni á að dvelja þar.  Eyjan er 6 km löng og 1 km breið og hét áður Hog Island (Purkey).  Sænski iðnjöfurinn Dr. Axel Venner-Gren keypti hana á fjórða áratugnum.  Undir hans stjórn og síðari eiganda hennar, bandaríska fjármálamannsins Huntington Hartford, sem gaf henni núverandi nafn, varð eyjan að lúxusaðsetri með beztútbúnu hótelunum og þægindum.  Þar var m.a. kvikmynd-uð James Bond myndin "Fireball".  Nýverið ákvað ríkisstjórn Bahamaeyja í samvinnu við bandaríska auðjöfurinn Donald Trump að gera eyjuna að "athyglisverðasta" ferðamannastað í heimi. 

Hurricane Hole er snekkjuhöfn við brúarsporðinn.

Spilavítið er eitt hið stærsta í Vesturheimi með leikhúsi fyrir 850 manns.  Í lóninu eru höfrungar.  Gestir geta fylgzt með fóðrun þeirra daglega (Hótel Atlantis, sem er hluti af  „Sun City hótelkeðjunni”).

*Atlantis hótelið.  Dýrt.  Skemmtilegt sædýrasafn í manngerðum hellum.  Frábær strönd.  Magnús Ver varði þar titil sinn „Sterkasti maður heims” um mánaðamótin september/oktober 1995 í þriðja skiptið.

*Cabbage Beach er frábær baðströnd á norðurströndinni.

*Versalagarðarnir eru á austurströndinni í frönskum stíl með alls konar styttum.

French Cloister er rústir Ágústínusarklausturs frá 14. öld, sem fluttar voru frá nágrenni Lourdes í Frakklandi og byggðar upp aftur á eyjunni.  Paradísargolfvöllurinn er einn hinna beztu á Bahamaeyjum.

Umhverfi Nassau
Montaguvirkið
var reist við austurenda hafnarinnar árið 1724.  Framan við það er góð baðströnd.

Forngripasafnið er á horni Shirley Street og Kemp Road.  Þar eru margir gripir úr sokknum skipum en ekki hefur tekizt að sögu flestra þeirra.

Sjóræningjasafnið er í grennd við gatnamót Deveaux Street og Bay Street.  Það er byggt í stíl freigátunnar 'Bonhomme Richard' (18.öld).  Þar er að finna fjölda muna úr spænskum galeiðum og öðrum skipsflökum.

Klaustur hl. Ágústusar er 5 km sa miðbæjarins.  Kirkja þess var byggð eftir teikningum arkitekta og  munka Jerôme.  Tengt því er náttúrugripasafn og klausturskóli með fyrirmyndarbúrekstri.

Sandilands Village er lengra til austurs. Það var eitt sinn stærsta byggð frelsingja.
Blackbeard's-turninn er 1 km lengra til na.  Hann var líklega varðturn sjóræningjans Edward Teach.

Íþróttamiðstöðin er u.þ.b. 2 km sunnan miðbæjarins.  Hún er kennd við Elisabetu II.  Þar eru mikil íþróttamannvirki og golfvöllur.

*Jumbey Village er endurbyggt bahamískt þorp í grennd íþróttamiðstöðvarinnar.  Það er útisafn og athyglisverðast er listasafnið.

Bozine Hill  er u.þ.b. 2 km frá miðbænum.  Hæðin er 36 m há.  Þaðan er gott útsýni og þar er sjónvarpsturn. Neðan við hæðina, við Harrolds Road, er Angelo's listamiðstöðin (listsýningar).

Nýja byggðin  er sunnan við hólana, sem liggja alveg út á East End-tangann.  Þessar byggðir, Seabreeze Estate, Imperial Park og Yamacraw Beach Estate, eru allar úthverfi Nassau.

Silver Cay Coral World er neðansjávarskoðunarstöð með þróm fyrir hákarla, stingskötur og skjaldbökur, gervikóralrifi, útsýnisturni, hóteli og ýmiss konar veitingahúsum

**Sea Gardens.  Þangað er hægt að komast með glerbotnsbátum frá Prince George-bryggjunni.  Þetta eru kórallagarðar fyrir austurodda Paradísareyjar, þar sem er mjög fjölbreytt sjávardýralíf.

Sandy Cay er smáeyja í 6 km fjarlægð frá Nassau.  Hún er vaxin pálmum og vinsæl meðal ferðamanna.  Hún er einnig kölluð Fjársjóðs- eða Brúðkaupseyjan.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM