Vín Vínarborg Austurríki,

Menningin Meira  

VÍN
AUSTURRÍKI
.

.

Utanríkisrnt.

Vín, höfuðborg Austurríkis, er í 170 m hæð.  Hún er við jaðar Vínarskógar í norðausturjaðri Alpanna á bökkum Dónár, sem er hér allt að 285 m breið.  Vín stendur á krossgötum mikilvægra samgönguleiða í Vínarlægðinni.  Vín er minnsta en þéttbýlasta sambandsríkið og leið hið iðnvæddasta.  Vín er stjórnmálaleg-, viðskiptaleg-, menningarleg- og andleg   miðstöð landsins og þar að auki situr þar stjórn landsins, margar alþjóðlegar stofnanir og katólskur erkibiskup.  Snemma á öldum hafði borgin við hina bláu Dóná áunnið sér sess sem þungamiðja í viðskiptum milli austurs og vesturs.  Þessa hlutverks gætir nú helzt í miklum ferðamannastraumi og alls konar alþjóðlegum fundum og ráðstefnum á öllum stigum og sviðum.  Helzta aðdráttarafl Vínar eru borgin sjálf, ýmsar menningarlegar uppákomur, sýningar o.fl.

Vínarlægðin var byggð fólki þegar á frumsteinöld.  Indogermanar sóttu þangað úr norðri 3000-2000 f.Kr.  Frumillýrar síðsteinaldar (800 f.Kr.) urðu að víkja fyrir keltum (400 f.Kr.), sem sóttu fram úr vestri.  Á Leopoldsfjalli var að öllum líkindum keltneskur kastali.  Nálægt 50 e. Kr. var reist víggirt herstöð Rómverja (Vindobona Vedunia; keltn.: Wildbach) við Dónárlandamærin.  Múrar hennar umgirtu ferhyrninginn milli þverhnípis jarðfallsins og Salzgries í vestri og norðri, Rot- og Kamergasse í austri og jarðfallsins og Naglergasse í suðri.  Í þessum herbúðum dó Mark-Aurel keisari árið 180 e.Kr.  Á 2.öld myndasist hér rómversk borg við rætur Belvedere.  Samkvæmt ráðum Severínusar ráku þeir Rómverjar, sem enn þá voru þar árið 487, germanina, sem komu að norðan, af Dónársvæðinu.

Árið 792 stofnaði Karl mikli Péturskirkjuna að loknum herferðum sínum á hendur avörum.  Árið 881 varð fyrsti árekstur bæjara og Ungverja, sem sóttu fram úr austri við Wenia.  Staðanöfn, sem enda á -ing (Grinzing, Ottakring, Haching o.fl.) gefa til kynna, að bæjarar hafi sezt þar að á 9. öld.  Vín sjálf var þá aðeins þorp á fyrrum rómversku svæði.  Allt frá upphafi krossferðanna árið 1096, jókst mikilvægi og umsvíf Vínar, sem var síðust vestrænna borga á leið krossfaranna til landsís helga.  Vín varð að miðstöð viðskipta við Austurlönd og var viðurkennd sem borg þegar árið 1137.  Heinrich II, Jasomirgotthertogi, flutti hirð sína til borgarinnar árið 1156 frá Leopoldsberg og gerði hana að miðstöð yfirráðasvæða Babenbergera í Ostmark.  Schottenklaustrið var stofnað árið 1158 utan borgarmúranna til að hýsa pílagríma.  Leopold V stofnaði myntsláttu í Vín árið 1190.  Walter von der Vogelweide bjó við hirðina 1194-98 og aftur fyrir 1217.  Vín dafnaði af vínrækt og verzlun við Feneyjar og lönd í austri með samgöngum á Dóná (frá 1200).  Á þessum tíma hafði borgin náð þeirri stærð, sem náði yfir innri borgina til 1859.  Árið 1237 veitti Friðrik II keisari borginni sjálfstæði, er hann varðist við síðasta Babenbergerann.  Þegar hertoginn snéri aftur til Vínar árið 1239, fékkst ekki staðfesting hans á þessu.  Ottokar II Bæheimskonungur var við völd í Vín 1251-1276 og efldi hann borgina mjög.

Húmanisminn og endurreisnarskeiðið voru uppgangstímar fyrir andlegt líf borgarinnar og listir. Ferdinand I bældi niður frelsishreyfingu árið 1522 með því að taka af lífi borgarstjóra Sieben-bürgen og afnam sjálfstjórn borgarinnar 1529.

Vínarbúar vörðust árásum og umsátrum Tyrkja frá 22. september til 15. oktober árið 1529 undir stjórn Niklas Salm greifa.  Árið 1551 komu fyrstu jesúítarnir til borgarinnar.  Frá 1559 var Vín aðsetur ríkisstjórnarinnar og frá 1612 fast aðsetur keisarahirðarinnar.  Í byrjun 17. aldar voru 25.000 íbúar í Vín.

Melchior Khlesl, biskup frá 1598, barðist helzt gegn siðbótinni, sem Ferdinand II  bældi endanlega niður af í 30 ára stríðinu.  Þá munaði minnstu, að Vín félli fyrir Bæheimi, Ungverjum og Svíum í 5 skipti.

Frumbarokbyggingar einkenna tímaskeið gagnsiðbótarinnar og rómverskra áhrifa hennar gætti mjög.  Á áratugnum 1620-30 voru stofnuð 8 klaustur í Vín.  Árið 1679 geisaði svartidauði og lagði 12.000 manns að velli (sbr. þjóðlagið: "Ach, du lieber Augustin").

Tyrkir sátu enn á ný um Vín frá 14. júlí til 12. september 1683.  Þeir höfðu 200.000 manna lið undir stjórn Kara Mustafa stórvesírs.  Ernst Rüdiger greifi var til varnar í borginni með 11.000 hermenn og 5.000 sjálfboðaliða.  75.000 manna hjálparlið úr keisarahernum, frá Saxlandi, Franken, Bæjaralandi, Schwaben og Póllandi undir stjórn Karls hertoga af Lótringen (að nafninu til undir stjórn Johann Sobieski, Póllandskonungs) frelsaði borgina frá Kahlenberg. 

Eftir að Tyrkjaógnuninni hafði verið bægt frá þróaðist Vín í glæsilega barokborg í samræmi við stöðu sína sem höfuðborg ríkisins.  Um 1700 voru íbúar nálægt 100.000.  Árið1686 voru fyrstu "Feuerknechte" ráðnir til starfa og 1688 voru u.þ.b. 2000 ljósker á götum borgarinnar.  Í úthverfunum, þar sem margir aðalsmenn höfðu reist sér hallir, var reistur varnarmúr gegn uppreisnargjörnum Ungverjum að undirlagi Eugen prins.  Múrinn var einnig tollmúr til 1893.

Árið 1703 kom þing fyrst saman.  Listir og vísindi efldust mjög.  Árið 1722 varð biskupsdæmið sett undir erkibiskup í Vín.

María Theresía (1740-1780) og Josef II (1780-1790) gerðu umbætur á stjórnskipan og ríkisumsvifum, sem komu borginni vel, þótt hún tapaði því, sem eftir var af sjálfsforræði sínu 1783.

Hið ástríðufulla dálæti, sem Vínarbúar höfðu á tón- og leiklist, tengdi Gluck, Haydn, Mozart og Beetoven föstum böndum við borgina.

Í valdatíð Franz I lauk höfuðborgarhlutverki Vínar í "Hinu heilaga rómverska ríki hinnar þýzku þjóðar".  Um 1800 voru íbúarnir orðnir 230.000.  Árin 1805 og 1809 var borgin umsetin Frökkum (Napoleon) um skamma hríð.  Metternich fursti gerði borgina að þungamiðju evrópskra mála á Vinarfundinum 181471815 og næstu áratugi með viðbrögðum gegn hreyfingum í frjálsræðisátt svo og þjóðernislegum hreyfingum.  Hljóm- og myndlist áttu blómaskeið (Biedermeier).  Árið 1831 var Dónárgufuskipafélagið stofnað og 1837 komust fyrstu járnbrautarsamgöngur á (Die Nordbahn).

Veldi Metternichs leið undir lok í hinni blóðugu marzbyltingu 1848.  Á ríkisárum Franz Josef (1848-1916) fékk Vín sjálfstæði og tækniþróun varð mjög ör.  Árið 1850 voru úthverfi Vínar, allt að hringmúrnum, innlimuð.

Núverandi svipur borgarinnar skapaðist að mestu leyti á blómaskeiði bygginga á árunum 1858-68.  Árið 1865 var fyrsti skeðvöllurinn opnaður og árið 1873 var fyrsta kaldavatnsleiðslan frá fjallalindunum tekin í notkun.  Íbúafjöldinn var 431.000 árið 1851 og eftir innlimun svæða 11-19 alls 1.365.000.  Árið 1910 var íbúafjöldinn orðinn 2.032.000.

Að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni átti Vín, sem var áður höfuðborg ríkis með 50 milljónir íbúaf af 12 þjóðernum, erfitt með að viðhalda menningarlegri stöðu sinni.  Vín varð sambandsríki árið 1920.

Afleiðingar uppgangs nazista og síðari heimsstyrjaldarinnar urðu borginni einnig erfiðar í skauti, en lífsseiglan og undirritun ríkissamningsins við bandamenn urðu til þess, að allir erfiðleikar voru yfirunnir.

Í Vín eru nú ýmsar alþjóðlegar stofnanir, s.s. kjarnorkumálastofnunin (IAEA), iðnþróunarstofnun S.þ. (UNIDO), samtök olíuútflutningsríkja (OPEC) og alþjóðahljómlistarmiðstöð S.þ. (IMZ).

Íbúar Vínar eru að mestu af bæversku bergi brotnir og hafa lítt blandast öðrum.  Borgin laðaði að sér afburðafólk á ýmsum sviðum frá Alpalöndunum og Súdetahéruðunum.  Frankneskra og svabískra áhrifa gætti snemma.  Slavar, Niðurlendingar og Ítalar, sem fylgdu hirðum Babenbergera og þó einkum Habsborgara, sömdu sig að þýzka menningarstílnum og frjóvguðu hann.    Á þessum grunni þróaðist smekkur Vínarbúa fyrir formi og fegurð, eðlilegt viðmót, forvitni og glaðvær lífsstíll, sem gat einnig tekizt á við mótlæti.  Í lifsgleði Vínarbúa er að finna jafnvægi milli hins andlega og veraldlega.  Fyndni Vínarbúa er hvöss, en ekki banvæn.  Hin nánu tengsl borgarinnar við náttúruna og atvinnulíf koma fram í fari íbúanna og líka í listinni.  Eitt einkenni Vínarbúa er að hafa allt á hornum sér og nöldra mikið ("Das Raunzen" = nörgeln).

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM