Vín Vínarborg menningin,


VÍN
Menningarlífið
Skoðunarverðir staðir

.

.

Utanríkisrnt.

Mjög áhugavert!
WRO
Hallarhljómsveit Vínar

Skáldin Walter von der Vogelweide, Abraham a Santa Clara, Ferndinand Raimund, Johann Nestroy og Franz Grillparzer festu  Austurríki í sessi þýzkrar ljóðagerðar.  Menntunarkerfið hefur löngum verið nafntogað og dregið til sín nemendur víða að, s.s. frá Sa-Evrópu.  Fjöldi háskóla og tækniskóla.  Vísindaakademían og bókasöfn, auk fjölda skjalasafna, þjóna rannsóknum.  Almenna skólakerfið er einnig mjög vel uppbyggt.  Listir dafna í skjóli gáfna og þátttöku íbúanna.  þær eru styrktar fyrir tilstuðlan ríkisins og ýmissa einstaklinga, auk listaklúbba (fyrrum efldu furstarnir aðallega listir).  Leikhús, hljómleikar, söfn og listsýningar eru gleðiefni hverjum gesti borgarinnar.

Borgarmyndin
Flötur borgarinnar er 404 km².  Honum er skipt í 23 hverfi.  Borgin lýsir glöggt sögulegri þróun sinni.  Lega gatna sýnir útlínur Rómverjabæjarins.  Miðborgin takmarkast af múrunum, sem umgirtu hertogabæinn á miðöldum, en fátt er eftir af húsum frá þeim tíma.  Gotneski stíllinn kemur fram í nokkrum kirkjum í gömlu borginni, einkum í Stefánsdómkirkjunni.  Barokstíllinn er ríkjandi þar, einkum í vesturhlutanum, t.d. í höll keisarahirðarinnar og mörgum höllum aðalsmanna.  Klassískur stíll og Biedermeierstíll koma fram við Hohen Markt og Seilerstätte.  Einkennandi fyrir miðbæinn eru hús með undirgöngum (Durchhäuser) milli gatna og inn í kyrrláta húsagarða.

Stefánsdómkirkjan eða erkibiskupsdómkirkjan er helzta gotneska byggingin í Austurríki með hágotneskum kór (1304-40), síðgotnesku skipi (1359- 1450?) og með glansandi þakskífum (skjaldarmerki).  Suðurturninn (ca 1350-1433), 137 m hár og kallaður 'Steffl', er einkennismerki Vínar (hægt að ganga 90 m upp og njóta útsýnis).  Ófullgerður norðurturninn (1467-1511; endurreisnarhlutinn 1556-78), kallaður 'Die Pummerin', inniheldur stærstu kirkjuklukku Austurríkis (nýsmíði).  Elztu hlutar vesturhliðar kirkjunnar (Riesentor, Heidentürme) eru hluti rómanskrar byggingar frá 13. öld.  við norður- og suðurhliðarnar (Singertor, Bischofstor) eru merkilegar hágotneskar myndir (1370).  við bakvegg hákórsins er 'Zahnweh Herrgott' (1530).  aðgangur að biskupagröfunum og katakombum (½ tíma leiðsaga) er við Arnarhliðið (Adlertor).

Ýmsar mælieiningar kirkjunnar:  Lengd að utan 107 m og 92 m að innan.  Ytri breidd 70 m og innri breidd skips 39 m.  Suðurturn er 137 m hár og norðurturn 61 m.  Pummerin kirkjuklukkan vegur 21 tonn (steypt 1945 eftir frummyndinni frá 1711).

Dónárskurðurinn (500 m breiður) var grafinn til að jafna vatnsmagn í flóðum og vernda borgina.  Ein brúnna, Ríkisbrúin, gaf sig og brotnaði árið 1976 og olli dauða margra.  Hún var endurbyggð 1980.  UNO-CITY er austan Ríkisbrúarinnar.

Votivkirkjan.  Ferdinand Maximilian erkihertogi, síðar keisari í Mexíkó, aflaði fjár til byggingar hennar í þakklætisskyni vegna misheppnaðrar tilraunar til að ráða bróður hans, Franz Josef I, af dögum.  Stíllinn er nýgotneskur.

UNO-City var byggð á árunum 1973-76 og er í eigu ríkisins.  Sameinuðu þjóðirnar greiða 1 schilling á ári í leigu samkvæmt 99 ára samningi.  Þar eru til húsa Alþjóða kjarnorkumálastofnunin, Iðnþróunarstofnun S.þ. auk fleiri stofnana, sem hafa verið fluttar frá Genf og New York, t.d. flóttamannahjálpin.  Húsin eru 54 - 120 m há.  Í þeim eru 43 lyftur (+15 vörulyftur), bílastæði fyrir 2500 bíla, 24.000 gluggar og 6000 hurðir.

Óperan var byggð 1861-69 af Eduard van der Nüll og August von Siccardsburg í frönskum nýendurreisnarstíl.

Karlskirkjan var byggð 1713.  Karl VI hét að reisa hana, ef pest, sem geisaði, linnti.  Bygginguna önnuðust faðir og sonur Fischer von Erlach.

*Belvedere.  Neðri höllin var reist 1716 og hin efri 1724. Báðar eru í barokstíl og báðar reisti þær Lucas von Hildebrand fyrir Prins Eugen, sem sigraði Tyrki og varð þjóðhetja fyrir.  Í höllunum eru nú 3 söfn: Baroksafn, miðaldalistasafn og safn með list 19. og 20. aldar.  Garðinn skipulagði Dominique Girard.  Prins Eugen dó barnlaus og Viktoría grimma erfði eignir hans en seldi Belvedere, sem síðar (1752) komst í eigu keisarans.  Árin 1894-1914 bjó ríkiserfinginn, Franz Ferdinand í Belvedere.  Hann og eiginkona hans voru skotin í Sarajevo í Bosníu.  Í marmarasal Efri-Belvedere undirrituðu utanríkisráðherra Austurríkis og bandamenn ríkissamninginn, sem gerði Austurríki aftur frjálst 1955.

*Maríu Theresíu minnisvarðinn (1887).  Umhverfis Maríu er herforingjar hennar:  Laudon, Daun, Traun og Khevenhüller.  Þá kemur furstinn og kanslarinn Kaunitz, stórskotaliðsforinginn Wenzel Lichtenstein, ráðherrann Haugwitz, læknirinn Van Swieten og Von Glück, Haydn og drengurinn Mozart.

*Schönbrunnhöllin.  Eftir frækilegan sigur gegn Tyrkjum árið 1683 fól Leopold I  J.B. Fischer von Erlach að reisa lystihöll á rústum smáhallarinnar Katterburg.  Fischer teiknaði höll, sem skyldi standa á Gloriettenhólnum og var stærri og skrautlegri en Versalir.  Sú höll var aldrei byggð.  Barokhöllin Schönbrunn er öllu minni, aðeins 1441 herbergi og salir.  Hún var byggð á árunum 1696 til 1730.  Árin 1744-49 gerði Nikolaus Pacassi höllina að íverustað Maríu Theresíu.  Árin 1816-19 voru gerðar breytingar.  Schönbrunn var enduruppbyggð eftir mikla skaða í síðari heimsstyrjöldinni (lokið 1952).  Höllin er nú einkum notuð fyrir móttökuathafnir á vegum forsetaembættisins.  #Vínarfundurinn 1814/1815 var haldinn þar.  #Franz Josef I fæddist þar og dó.  #Karl I afsalaði sér þar keisaratign 1918.  #Tvisvar settust þar að sigurvegarar, Napóleon 1805 og enski yfirhershöfðinginn 1945.  #Forgarðurinn er 24.000 m² með tveimur einsteinungum, sem á sitja franskir keisaraernir (Napóleon 1809).  Þeir voru ekki fjarlægðir að Napóleon látnum.  #Hallarleikhúsið (Nikolaus Pacassi 1747) er eina barokleikhús Vínar (Kammeróperan í Vín í júlí og ágúst ár hvert).   #Vagnageymslan í fyrrum vetrarreiðskóla (Glæsivagnar til sýnis).  #Hallargarðurinn er u.þ.b. 2 km².  Einhver fegursti barokgarður í frönskum stíl (Jean Trehet 1705; Adrian von Steckhoben breytti honum 1765).  Þar eru 44 marmarastyttur frá 1773.  #Neptúnusarbrunnurinn frá 1780 (F.A.Zauner; úr grískri goðafræði = Þetes biður Neptúnusi, syni sínum, góðrar sjóferðar).

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM