Ástralía meira,
Flag of Australia

AFÞREYING

ÞJÓÐGARÐAR

SÖGUSTAÐIR

SKOÐUNARFERÐIR

UNESCO

JARÐFRÆÐI

FERÐAÞJÓNUSTA BAÐSTRENDUR FRUMBYGGJAR SAMGÖNGUR

ÁSTRALÍA
MEIRA

Map of Australia
.

.

Utanríkisrnt.

SENDIRÁÐ og RÆÐISMENN

Booking.com

Landið er u.þ.b. 8 milljónir km² á milli Suður-Kyrrahafs og Indlandshafs (10°-44°S).  Frá Cape Yorkskaga suður til Tasmaníu eru 3940 km og frá 112°-154°A 4350 km.  Milli Ástralíu og Indónesíu eru Tímor- og Arafurahaf, Torressund skilur hana frá Papúa Nýju-Gíneu, Kóralrifið mikla (The Great Barrier Reef) skilur hana frá Kóralhafseyjum, Tasmaníuhaf skilur hana frá Nýja-Sjálandi og Indlandshaf frá Suður-Heimskautinu

Landið er mjög einangrað og tiltölulega langt frá öðrum eyjum og álfum, sem kemur áþreifanlega fram í flóru og fánu þess.  Það er mjög þurrlent, þannig að stórir hlutar þess eru hálfeyðimerkur.  Samt sem áður sýna landslagslínur þess, að vatn, sól og þurrviðri hafa skapað þær í tímans rás.


Landið.  Ástralía er flatlendasta og þurrasta álfa heims að Suðurskautinu undanskildu.  Úr lofti er erfitt að gera sér grein fyrir því að þessar óendanlegu sléttur, sem eru bæði dökkbrúnar og ljósleitar, séu ekki ein stór eyðimörk.  Það er hægt að fljúga 3200 km leið milli Sydney og Darwin og 3400 km milli Sydney og Perth án þess að sjá eina einustu borg og aðeins örfá merki um mannlega búsetu.  Stór hluti miðlægðarinnar og vestursléttunnar er að vísu eyðimörk, en útlitið getur verið villandi.  Rauður og dökkur jarðvegurinn á sléttum Queensland og Nýja Suður-Wales hefur löngum staðið undir mestu ullarframleiðslu og iðnaði heims og þurrlendustu og erfiðustu svæði landsins búa mörg yfir miklum auðæfum í jörðu.  Víðast er strandlengjan landslags- og loftsagslega frábrugðin framangreindum svæðum, einkum austurströndin, þar sem landnám Evrópumanna hófst og meirihluti íbúanna býr nú.  Þar er nóg vatn og landslagið hæðótt og jarðvegur frjósamur.

Uppi frá ströndinni eru mörg hálendissvæði, sem eru þekkt undir nafninu „Great Dividing Range” frá York-höfða í Norður-Queensland til suðurstrandar Tasmaníu.  Tilsýndar frá ströndinni virðist þessi fjallgarður, sem er óvíða hærri en 1600 m og í 37-330 km fjarlægð, oft hærri og tilkomumeiri en hann er í raun og veru.  Þegar nær honum dregur, líkist hann meira hæðarbrúnum risavaxinnar hásléttu með ávölum hæðum og hallalitlum hlíðum niður á vesturslétturnar.  Svona landslag er eiginlega allt í kringum álfuna nema á suðurströndinni, þar sem Nullarbor-sléttan teygist alla leið til sjávar.  Úrkoman minnkar alls staðar verulega því fjær sem dregur ströndinni.Í hugum Ástrala er allt land handan þessara fjalla hálendi eða innland (Outback) og það er enn þá jafndularfullt og það var í árdaga landkönnunar.  Það er mjög stjálbýlt og verður e.t.v. alltaf.

Á þessu stóra meginlandi eru ótrúlega fjölbreytt landslagsform, andstæður og loftslag.  Fátt er líkt með „Great Dividing Range”, sem er þéttvaxinn skógi og auðnum sólþurrkaðra sléttnanna á hálendinu.  Munurinn milli rauðra klettabelta og stórkostlegra hæða Mið-Ástralíu  og regnskóganna og sykurekranna í Norður-Queensland er mikill.  Margir ferðamenn, einkum frá norðurálfu, fyllast yfirþyrmandi tilfinningu vegna ótrúlegrar víðáttu öræfanna.  Ástralar sjálfir líta á þau sem bakgarðinn heima hjá sér
.

Landslag og vatnasvæði.  Ástralía er land hinna miklu víðerna.  Aðeins 6% meginlandsins eru ofan 600 m.y.s.  Hæsti tindur þess er Kosciusko-fjall (2228m).  Ástæða þessa er sú, að Ástralía er á jaðri svæðis, sem flekahreyfingar breyttu tiltölulega nýlega á jarðsögulegum tíma og hefur síðan orðið fyrir veðrun og jarðvegseyðingu.  Munstur misgengja og fellinga hafa mótað landslagið.  Ástralía er þurrt meginland, rúmlega þriðjungur þess er eyðimörk, annar þriðjungur er steppur eða hálfeyðimerkur og norður-, austur-, suðaustur- og suðvesturhlutarnir eru nægilega úrkomusamir til að viðhalda gróðurþekju, sem verndar yfirborð landsins.

Einu árnar, sem streyma stöðugt, eru í í Austur- og Suðvestur-Ástralíu og á Tasmaníu.  Helzta undantekningin er Murray-áin, sem á upptök sín á Kosciusko-fjallssvæðinu á austurhálendinu og fær til sín nægilegt leysingarvatn til að streyma um eyðimerkur og hálfeyðimerkur alla leið til sjávar í Suðurhaf suðaustan Adelaide.  Þar koma saman suðurhlutar Atlantshafs, Kyrrahafs og Indlandshafs og umlykja Suðurskautið.  Allar aðrar ár landsins eru árstíðabundnar eða hafa óstöðugt rennsli en árnar á þurrum hásléttunum eru óútreiknanlegar.  Fjöldi svæða er án nokkurs sýnilegs vatns á yfirborðinu en talsvert vatn streymir þar neðanjarðar, s.s. undir Nullarbor-sléttuni, þar sem kalksteinslögin eru sundurgrafin af vatnsrásum.  Landakort af Ástralíu gefur víða ranga mynd af umhverfinu, því að fjöldi stöðuvatna inni landi eru orðin sölt og þornar upp árum saman.


Áhrif búsetu.  Hvorki frumbyggjarnir né Evrópumenn hafa verið lengi á meginlandinu en þeir hafa haft víðtæk og oftast skaðleg áhrif á landslagið.  Evrópumenn hafa verið stórvirkari, þótt þeir hafi ekki valdið miklum skaða fyrst í stað.  Síðari þróun olli síaukinni jarðvegseyðingu.  Upprunalegum gróðri var rutt úr vegi til landbúnaðar, stór svæði voru ofbeitt, erlendar plöntu- og dýrategundir voru fluttar inn, vegir voru lagðir og grjót var fjarlægt úr jarðvegi.  Allt þetta gerði yfirborð landsins viðkvæmara fyrir jarðvegseyðingu.  Mannfólkið kom af stað eigin hringrás jarðvegseyðingar, líkt og geisaði á stórum svæðum í Vestur-Evrópu á 18. öld og hluta BNA á 19. öld.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM