Landslag Eritreu er mjög fjölbreytt.
Miðhálendið liggur á mjórri spildu frá norðri til suðurs
og nær allt að 2000 m hæð yfir sjó nyrzt.
Grunnur þess er kristallað berg (granít, hellugrjót og míka).
Ofan á honum liggja setlög (kalk- og sandsteinn) og blágrýtishraun.
Efstu lögin eru sundurskorin af ár- og lækjarfarvegum og djúpum
giljum, landslag, sem kallast ambas á máli heimamanna.
Hæsti staður hásléttunnar er Soira-fjall (3013m).
Miðhálendið mjókkar til norðurs og endar í hæðakerfi, þar
sem veðrunin nær niður í berggrunninn.
Í austri lækkar hásléttan bratt niður á strandsléttuna.
Norðan Zula-flóa er hún aðeins 17-80 km breið en breikkar
enn frekar til suðurs, þar sem Denakil-sléttan tekur við.
Á þessu gróðursnauða svæði er lægð, sem nær næstum 100 m niður
fyrir sjávarmál (Denakil) og er hluti af Austur-Afríku-sigdalnum, sem
teygist alla leið að brattri brún hásléttunnar (mjög erfið
yfirferðar).
Vesturjaðar miðhálendisins
jafnast út í öldótta hásléttu, sem hallar smám saman að landamærunum
að Súdan. Meðalhæð hennar yfir sjó er tæplega 480 m og þar ber
mest á steppugróðri, stökum trjám, runnum og árstíðabundnum
grastegundum.
Fyrir strönd Rauðahafsins er
Dahlak-eyjaklasinn, 100 eyjar og 250 hólmar og rif. Aðeins fáar þeirra eru byggðar.
Vatnsrennsli af hálendinu skiptist
milli fjögurra stórra fljóta og fjölda smærri vatnsfalla.
Tvö fljótanna, Gash og Tekeze, streyma til vesturs inn í Súdan.
Tekeze (Satit) er stór þverá Atbara-fljótsins, sem rennur til
Nílar. Gash sameinast Atbara-fljótinu einungis, þegar flóða gætir.
Tekeze myndar hluta landamæranna að Eþíópíu á vesturláglendinu
en efri hluti Gash (Mereb) myndar landamærin á hásléttunni.
Hin tvö aðalfljótin eru Barka og Anseba.
Bæði hafa norðlæga stefnu og mynda fenjasvæði við
austurströnd Súdan og ná aldrei alla leið til Rauðahafs.
Margar árstíðabundnar ár, sem renna til austurs frá hásléttunni,
ná alla leið til sjávar á strönd Eritreu.
Loftslagið er margbreytilegt, aðallega vegna
mismikillar hæðar yfir sjó. Þessa
gætir aðallega í mismunandi hitastigi um land allt.
Á ströndinni, í Massawa, er meðalárshitinn 30°C en í
Asmara, sem er aðeins 65 km fjær ströndinni uppi á hásléttunni er
meðalárshitinn 17°C. Meðalársúrkoman
á hásléttunni er 400-500 mm en á vestursléttunum tæplega 400 mm.
Úrkomunnar gætir aðallega á sumrin á þessum slóðum með
suðvestanvindum. Mun minni
úrkoma er á norðaustursvæðum hásléttunnar og á ströndinni og þar
rignir mest á veturna og vorin. Inni
í landinu og á Denakil-sléttunni kemur tæpast dropi úr lofti allt
árið. |