Eritrea sagan,
Flag of Eritrea


ERITREA
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Fyrir nýlendutímann.  Í kringum árið 1000 f.Kr. ferðuðust semítar frá suðurarabíska konungsríkinu Saba (Sheba) yfir Rauðahafið og blönduðust kúsítum á ströndum Eritreu og nærliggjandi hálendissvæðum.  Þessir semízku aðkomumenn með velþróaða menningu stofnuðu konungsríkið Sksum, sem náði yfir norðurhluta erítresku hásléttunnar  og austurláglendið í lok 4. aldar e.Kr.  Mikilvæg verzlunarleið lá frá höfninni í Adulis í grennd við nútímaborgina Zula til Aksum, höfuðborgarinnar, sem var í núverandi Tigray-héraði í Eritreu.

Eftir að veldi semíta hafði teygzt nokkrum sinnum inn í núverandi Egyptaland og Jeman, fór Aksum að hnigna, þar til það huldist móðu tímans á 6. öld.  Í upphafi 12. aldar réðu eþíópísku höfðingjaættirnar Zagwe og Solomonid til skiptis yfir allri hásléttunni og strandhéruðum við Rauðahafið.  Miðhálendi Eritreu (mereb melash = Landið handan Mereb-árinnar) var útkjálki konungsríkja Eþíópíu undir stjórn landstjóra (bahr negash = lávarður hafanna).  Konungarnir náðu aldrei fullri stjórn á þessu svæði og tökin urðu æ lausari sem þeir fluttu bústaði sína og hirðir lengra suður á bóginn til Gonder og Shewa.  Eriteska hálendið varð að léni höfðingjanna í Tigray, sem voru sjaldnast í vináttusambandi við Amhara-kvísl eþíópísku konungsættarinnar.

Hirðingjarnir á hásléttunni höfðu aldrei kynnst erlendum yfirráðum þar til snemma á 19. öld, þegar Egyptar réðust inn í Súdan og fóru ránshendi um láglendissvæði Eritreu.  Rauðahafsströndin varð að bitbeini margra ríkja vegna hernaðarlegs og viðskiptalegs mikilvægis.  Á 16. öld réðu Tyrkir Dahlak-eyjaklasanum og síðan Mitsiwa, þar sem þeir höfðu herstöð í þrjár aldir með stuttum undantekningum.  Á 16. öld urðu Eritrea og Eþíópía fyrir innrásum Ahmad Grañ, múslimasoldánsins í Adal.  Eftir að herir hans höfðu verið hraktir brott, náðu Tyrkir stærri hluta af strönd Eritreu um skamma hríð.  Árið 1865 náðu Egyptar Mitsiwa frá Ottómönum.  Þaðan héldu þeir lengra inn í landið upp á hásléttuna.  Árið 1875 komst egypzkur her alla leið að Mereb-ánni, þar sem hann var strádrepinn í orrustu við eþíópíska herflokka.

Opnun Súezskurðarins árið 1869 jók enn á samkeppnina um Rauðahafið og öflugustu ríki heims tóku þátt í henni.  Á árabilinu 1869-1880 keypti ítalska Rubattion siglingafélagið strandræmur í grennd við þorpið Aseb við Rauðahaf af soldáninum í Afar.  Árið 1882 urðu þær eign ítalska ríkisins og árið 1885 lentu ítalskar hersveitir við Mitsiwa, Aseb og víðar.  Eþíópar veittu enga mótspyrnu við Mitsiwa og mótmæli Tyrkja og Eþíópa voru hunzuð.  Ítölsku herirnir dreifðust um hálendið út frá Mitsiwa.  Yohannes IV, keisari, mótmælti fyrst þessari útþenslu upp á hásléttuna.  Hann var eini Tigray-maðurinn á keisarastóli í Eþíópíu á þessum tímum.  Eftirmaður hans, Menilek II þáði vopn til að halda keppinautum sínum í skefjum gegn því að hann féllist á hernám Ítala á svæðunum norðan Mereb-árinnar.  Wichale-samningurinn, sem var undirritaður 2. maí 1889, var lýst yfir stofnun nýlendunnar Eritreu.  Þaðan fóru Ítalar í margar herferðir inn í Eþíópíu þar til þeir biðu algeran ósigur fyrir herjum Menileks í orrustunni við Adwa 1. marz 1896.  Menilek elti ekki sigraðan andstæðing sinn yfir Mereb-ána.  Skömmu síðar skrifaði hann undir samninga við Ítala í Addis Ababa, þar sem þeir viðurkenndu fullveldi Eþíópiu og Eþíópar viðurkenndu yfirráð Ítala í Eritreu.

Nýlendan Eritrea.  Fyrir nýlendutímann voru engar borgir á hásléttunni, aðeins á Rauðahafsströnd.  Á nýlendutímanum streymdu tugir þúsunda Ítala til landsins með nýja þekkingu og nýjan lífstíl.  Asmara stækkaði og varð að borg í Miðjarðarhafsstíl, Mitsiwa-höfn var endurnýjuð og höfnin í Aseb bætt.  Fjöldi nýrra borga byggðust á hásléttunni.  Vegir og járnbrautir tengdu ýmis svæði og nokkur iðnaður þróaðist, þannig að Eritrear fengu tækniþjálfun.

Allstór hluti beztu landbúnaðarsvæðanna var tekinn frá fyrir ítalska bændur (aðeins fáir slíkir settust að í landinu) og nokkrar plantekrur voru stofnaðar til að rækta nauðsynjar fyrir borgarmarkaðina.  Íbúafjöldi landsins óx hratt.  Vegna þess, hve mikið land Ítalar tryggðu sjálfum sér, fór fljótlega að bera á landskorti fyrir eritreska bændur.  Þessi þróun olli flótta úr sveitunum og fjölgun borgarbúa, þannig að stétt verkamanna varð til í landinu.

Eritrea bjó ekki yfir neinum nýtilegum, dýrmætum náttúruauðlindum, þannig að arður Ítala af landinu var enginn, fremur hið gagnstæða, því þeir urðu að veita fjármagni til styrkingar efnahag þess.  Litlu fé var varið til uppbyggingar menntakerfis fyrir landsmenn.  Skólar voru mjög fáir fyrir þá og þeir voru flestir ætlaðir betri borgurum.  Eritrear fengu ekki vinnu við stjórnsýslu nýlendunnar og unnu sem verkamenn eða hermenn.  Þegar innrásin í Eþíópíu var undirbúin á fjórða áratugi 20. aldar voru þúsundir Eritrea kvaddir til skráningar.

Undir yfirráðum Eþíópíumanna.  Innrásin í Eþíópíu í upphafi árs 1935 markaði síðasta kaflann í nýlendusögu Ítalíu, kafla, sem lauk með því, að Bretar ráku Ítala frá Horni Afríku árið 1941.  Næsti áratugurinn (undir yfirráðum Breta) var spennuþrunginn í utanríkismálum og stjórnmálalega og mótaði framtíð Eritreu.  Hin landlukta Eþíópía girntist hafnaraðstöðu Eritreu og hafinn var áróður fyrir innlimun þessarar fyrrum nýlendu á þeim forsendum, að landið hefði alltaf verið hluti af eþíópíska ríkinu.  Bandamenn voru beittir pólitískum þrýstingi og klerkar rétttrúnaðarkirkjunnar voru fengnir til að hvetja landsmenn til að veita þessu máli stuðning.  Sameiningarflokkur var stofnaður 1946 undir handleiðslu og með fjárstuðningi stjórnarinnar til að veita þessu máli brautargengi.

Múslimar í Eritreu höfðu góða ástæðu til að mótmæla þessari sameiningu, þar sem kristni var opinber trúarbrögð í Eþíópíu og þeir bjuggu við mismunun á mörgum sviðum.  Múslimasambandið var stofnað 1947 til að berjast fyrir sjálfstæði Eritreu.  Þótt nokkrir kristnir og islamskir Eritrear styddu sameininguna, fylgdu mörkin milli andstæðra fylkinga fremur veraldlegum línum.

Bandalagið við Eþíópíu.  Árið 1950 ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að sameina Eritreu og Eþíópíu eftir tveggja ára bandalag landanna, sem átti að veita Eritreu heimastjórn með eigin stjórn og stjórnarskrá, vegna þrýstings frá Bandaríkjamönnum.  Í þingkosningunum í Eritreu árið 1952 fékk Sameiningarflokkurinn mest fylgi án þess að komast í meirihlutaaðstöðu, þannig að samsteypustjórn var mynduð með Múslimaflokknum.  Sameinuðu þjóðirnar sömdu stjórnarskrána í samráði við Haile Selassie I, keisara Eþíópíu.  Hún var lögfest 10. júlí 1952 en Haile Selassie breytti henni 11. ágúst.  Hann breytti einnig sambandslögunum 11. sept. og Bretar hættu afskiptum af stjórn landsins 15. sama mánaðar.

Brostnar forsendur.  Samband landanna varð skammvinnt vegna þess að stjórn Eþíópíu sýndi lítinn vilja til að fara að lögunum um bandalagið.  Stjórnarskrá Eritreu kvað á um jafnræði kynþátta og trúarhópa.  Hún gerði ráð fyrir, að arabíska og Tigrinya væru opinber tungumál og að kristnir og múslimar ættu jafnan rétt til opinberra embætta.  Þetta viðkvæma jafnvægi raskaðist vegna afskipta Eþíópíumanna og múslimar urðu undir, þegar arabíska var afnumin úr menntakerfinu og þeir voru útilokaðir frá opinberum embættum.

Eþíópíumönnum var í mun að afmá öll merki aðskilnaðarstefnu í Eritreu.  Þeir ofsóttu leiðtoga sjálfstæðishreyfinga í landinu, þar til margir þeirra flúðu land.  Í samstarfi við sameiningarsinna og algerri andstöðu við stjórnarskrána, komu þeir í veg fyrir stofnun allra sjálfstæðra félaga í Eritreu.  Stjórnmálaflokkar voru bannaðir 1955, verkalýðsfélög voru bönnuð 1958 og árið 1959 var stjórn landsins breytt í framkvæmdastjórn og eþíópísk lög gengu í gildi í landinu.  Bandalagsríki Eritreu voru sniðgengin vegna grófra afskipta Eþíópíustjórnar, deilur um fjármál risu og Eritreumenn voru beittir þrýstingi til að afsala sér heimastjórninni.  Bandalagið var þegar brostið, þegar eþíópíska þingið samþykkti afnám þess 14. nóvember 1962 og gerði Eritreu að héraði í keisaradæminu.  Skömmu síðar var tigriya-málið bannað í menntastofnunum og arnharik, sem var þá opinber tunga Eþíópa, tók við.

Sjálfstæðisstríðið.  Múslimar voru fyrstu fórnarlömb afskipta Eþíópa og þeir stofnuðu fyrstu andspyrnuhreyfinguna.  Árið 1960, þegar þessi hreyfing var óstarfhæf, tilkynntu leiðtogar hennar í útlegð stofnun Eritresku frelsishreyfingarinnar (ELF).  Allir meðlimir hennar voru múslimar og leiðtoginn var Idris Mohammed Adam, sem var áhrifamikill stjórnmálamaður á fimmta áratugnum.  Um miðjan sjöunda áratuginn tókst ELF að koma upp litlum skæruliðaher á vestursléttunum og hefja stríð, sem stóð yfir í næstum þrjá áratugi.  Fyrstu árin naut ELF stuðnings samfélaga múslima á vestur- og austurláglendanna og hæðasvæðanna í norðurhlutanum.  Hreyfingin sóttist einnig eftir stuðningi Súdana, Sýrlendinga, Írana og annarra múslimaríkja, notaði arabísku sem opinbert mál sitt og arabískt skipulag.  Eþíópíustjórn lýsti hreyfingunni sem verkfæri araba og hvatti kristna Eritrea til að sýna henni andstöðu.  Hnignandi efnahags- og stjórnmálaástand í Eritreu leiddi til hins gagnstæða.

Á fjórða og fimmta áratugnum studdu Ítalar við efnahag landsins og hann naut einnig góðs af síðari heimsstyrjöldinni.  Eftir heimsstyrjöldina varð samdráttur og á bandalagstímanum urðu engar framfarir.  Þúsundir Eritrea neyddust til að flytja til Eþíópíu og Miðausturlanda í atvinnuleit.  Bann við verkalýðsfélögum, sem voru í fæðingu eða að stíga sin fyrstu skref, fór mjög fyrir brjóstið á þessu fólki.  Verkamenn, bæði kristnir og múslimar, skipuðu sér í raðir þjóðarhreyfingarinnar og bannið við notkun og kennslu tigrinya-málsins snéri heilli kynslóð stúdenta til þjóðernishyggju.  Kristið fólk fór að skipa raðir ELF í stórum hópum lí lok árs 1960.  Meðal þess voru stúdentar, sem urðu róttækir í eþíópísku stúdentasamtökunum, sem voru í fremstu röðum mótmælenda gegn stjórn Haile Selassies á sjöunda og áttunda áratugnum.

Byltingin.  ELF gat fært út kvíarnar, m.a. inn á miðhálendið, þar sem tigray-menn bjuggu.  Róttækir stúdentar létu til sín taka á sama tíma og deilur spruttu upp milli leiðtoga ELF, sem bjó í Kaíró, og þeirra, sem voru heimavið.  Nýliðarnir studdu andstæðinga leiðtogans og árið 1972 hafði flokkurinn klofnað í mörg brot, sem síðan sameinuðust í stofnun ELF-PLF-flokkinn (-People’s Liberation Front).  Þessar tvær fylkingar börðust hvor við aðra árum saman og einnig við Eþíópíumenn.  Eftir meiri klofing og samruna urðu fyrrum stúdentar leiðtogar ELF-PLF, þar sem kristnir voru í meirihluta, og flokkurinn fékk nýtt nafn EPLF (Eritrean Peopl’s Liberation Front).  Trúarbrögð skiptu flokkinn engu máli.  Hann var þaulskipulagður og fylgdi stefnu Marx í þaula og lýsti því yfir, að hann hyggðist stuðla að félagslegri byltingu í Eritreu.

EPLF lét áþreifanlega til sín taka árið 1974, þegar keisaradæmið í Eþíópíu hrundi.  Skæruliðar beggja fylkinga í Eritreu notuðu tækifærið á meðan barizt var um völdin í Addis Ababa og frelsuðu mestan hluta landsins og borgir þess.  Árið 1977 virtist frelsisbaráttan vera á endaspretti en svo fór þó ekki.  Herstjórn tók völdin í Addis Ababa.  Hún aðhylltis marxisma og komst undir verndarvæng Sovétríkjanna.  Eftir síðari heimsstyrjöldina varð Rauðahafið enn mikilvægari siglingaleið olíuskipa frá Persaflóa og bitbein stórveldanna.  Hvorugt þeirra var hliðhollt þjóðernissinnum í Eritreu og BNA urðu fyrst til að andmæla þeim með því að aðstoða Eþíópíustjórn við uppbyggingu stærsta hers sunnan Sahara á sjöunda áratugnum.  Bandaríkjamenn hættu öllum stuðningi við herstjórnina og Sovétmenn sáu sér leik á borði og buðu aðstoð sína.  Þetta gerði herstjórninni kleift að ná undir sig mestum hluta Eritreu á ný árið 1978 og mun meiri stríðsrekstur en hafði nokkurn tíma sést í Afríku hélt áfram gegn þjóðernissinnum í Eritreu næsta áratuginn.  Eþíópíumenn beittu gríðarlegum liðsafla og stórskotaliði án þess að hafa erindi sem erfið gegn léttvopnuðum skæruliðum.

Ógnaröldin og kúgunin gerði flesta Eritrea andsnúna Eþíópum, þannig að þjóðernishreyfinguna skorti aldrei nýliða.  Allan níunda áratuginn hélt EPLF áfram skæruhernaði og tókst að útrýma ELF árið 1981, þannig að aðeins ein þjóðernishreyfing stóð eftir styrkum fótum.  Síðari hluta áratugarins hættu Sovétríkin hernaðarstuðningi við Eþíópíu.  Eþíópum tókst ekki að fá stuðning annars staðar og þeir urðu að takast á við vopnaðar uppreisnir annars staðar í landinu.  Stjórnin í Addis Ababa riðaði til falls.  Árið 1991 ruddist frelsisher tigraymanna í átt að höfuðborginni.  Stjórnarherinn leystist upp og í maí tók EPLF öll völd í Eritreu.

Þriggja áratuga stríð byggði upp samkennd, sem Eritrear höfðu ekki þekkt áður.  Heil kynslóð óx úr grasi í frelsisstríðinu, sem leiddi lokst til sjálfstæðis.  Nýja stjórnin í Eþíópíu studdi og viðurkenndi sjálfstæði Eritreu, þannig að aðskilnaðurinn var á vinsamlegum nótum.  Í þjóðaratkvæðisgreiðslu, sem var haldin tveimur mánuðum eftir frelsun landsins, 23.-25. apríl 1993, kusu langflestir sjálfstæði.  Hinn 21. maí var aðalritari EPLF, Isaias Afwerki, gerður að forseta bráðabirgðastjórnar og 24. maí lýsti hann Eritreu sjálfstætt og fullvalda ríki.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir                  HEIM