Djibouti
hefur hernaðarlega mikilvæga legu á Horn
í Afríku við Mandebsund, sem
skilur Rauðahaf frá Adenflóa. Heildarflatarmál
landsins er einungis 23.200 km². Það
á landamæri að Erítreu í norðri, Eþíópíu í vestri og suðvestri
og Sómalíu í suðri. Tadjouraflói,
sem opnast út í Adenflóa, klýfur austurhlutann frá landinu og skapar
að mestu hina 370 km strandlengju þess. Höfuðborgin
Djibouti stendur á kóralrifjum, sem teygjast út í suðurmynni flóans. Aðrar aðalborgir eru Obock, Tadjoura, Ali Sabieh og Dikhil.
Höfn höfuðborgarinnar þjónar stórum hafskipum á
leið þeirra
um Indlandshaf og Rauðahaf og þar er varnarstöð franska sjóhersins.
Borgin er líka miðstöð járnbrautasamgangna til Addis Ababa, höfuðborgar
Eþíópíu. Landið fékk sjálfstæði
frá Frökkum 27. júní 1977. Stjórnvöld
þess hafa lagt áherzlu á milligöngu milli stríðandi aðila í nágrenninu
og stuðlað að frekari þróun innanlands á viðskiptasviðinu. |