Landslag Djibouti er fjölbreytt og
fullt andstæðna, allt frá hrjúfum fjöllum í norðri til fjölda lágra
eyðimarka með samsíða hásléttum á milli í vestri og suðri. Hæsti tindur landsins er Mousa-fjall (2063m) og lægsti staðurinn
er botn ísalta stöðuvatnsins, sem er 157 m neðan sjávarmáls (lægsti
staður allrar álfunnar). Landið
er á mótum Afríku- og Arabíuflekanna og því á virku
hreyfingabelti. Smáir skjálftar
eru algengir og víða eru bleðlar blágrýtirhrauna frá fyrri
eldgosum.
Úrkoma er sjaldgæf og flóran fábreytt.
Engar ár með sírennsli eru í landinu.
Svalasti tíminn er frá október til apríl.
Þá er mesti dagshiti í Djibouti-borg í kringum 31°C.
Þegar heitast er, má búast við 37°C á daginn.
Hiti og rakastig lækka miðsumars, þegar þurrir
khamsin-vindarnir blása frá eyðimörkunum inni í landi.
Meðal villtra dýra í landinu eru
antilópur, gasellur, hýenur, sjakalar og strútar. Fyrir ströndinni er fjölbreytt sædýrafána (túnfiskur,
barrakúda og grúper).
Segja má, að Djibouti sé borgríki, þar sem rúmlega
tveir þriðjungar íbúanna búa í höfuðborginni og nágrenni hennar.
Aðrir bæir eru verzlunar- og markaðsstaðir, þar sem íbúum
fjölgar árstíðabundið, þegar úlfaldalestir og sauðfjár- og
geitahirðingjar heimsækja þá. |