Hinar fjöllóttu Áveðurseyjar eru giljóttar
og mjög veðraðar en Hléeyjar eru sléttar og láglendar.
Eyjaklasinn myndaðist í eldgosum.
Á Fogoeyju er virkt eldfjall, sem gaus árið 1951 og þar er
einnig hæsti staður eyjanna, 2829 m.
Gróft landslagið og skortur á úrkomu veldur því, að jarðvegur
er ekki nógu frjósamur. Á
flestum eyjanna rísa klettabelti snarbrött úr hafi og engar
varanlegar ár falla um hinar fjöllóttu, þar sem vatn rennur aðeins
á regntímanum.
Hitinn er tempraður og stöðugur og
loftslagið er mjög þurrt.
Febrúar
er svalasti mánuðurinn með
22°C meðalhita og september er heitastur með 27°C. Úrkoman er óregluleg
og tímabundnir þurrkar valda hungursneyð.
Í Praia er meðalársúrkoman 260 mm.
Vatnslindir uppi í hæðunum eru nýttar til áveitna niðri í
dalverpunum á regntímanum. Aðstreymisþoka
á hæstu hæðum nýtist til landbúnaðar og á söltum svæðum á
eyjunum Maio og Sal vex gróður, sem þarfnast lítils vatns.
Runnagróður áveðursmegin er að mestu þyrnóttur, beizkur og
eitraður. Meðal villtra dýra
eru gekkó- og aðrar tegundir eðlna og skriðdýra.
Fjöldi fuglategunda er mikill og tvær tegundir sæskjaldbakna
verpir á óbyggðu eyjunum. Nærri 10% af flatarmáli eyjanna er ræktanlegt land og 7%
til viðbótar eru notuð til beitar (nautgripir og sauðfé). |