Grænhöfðaeyjar Cape Verde efnahagsmál,
Flag of Cape Verde


CAPE VERDE
EFNAHAGSMÁL

.

.

Utanríkisrnt.

 

Grænhöfðaeyjar eru þróunarland með blönduðu hagkerfi, sem byggist aðallega á landbúnaði.  Efnahagsástandinu hefur hrakað stöðugt við endurtekna þurrka síðan 1968 og hungursneyð hefur verið afstýrt með alþjóðlegri neyðaraðstoð.

Landbúnaðurinn stendur undir þriðjungi vergrar þjóðarframleiðslu og rúmlega þriðjungur vinnuaflsins er bundinn í honum.  Rúmlega 80% matvæla eru flutt inn.  Við eðlilegar loftslagsaðstæður nýtast aðeins fjórar af hinum 10 eyjum til landbúnaðar (Santo Antão, Brava, Fogo og São Tiago), þar sem ræktun kvikfjár er aðalbúgreinin. 

Eyjaskeggjar rækta maís, baunir, kassava og kartöflur til eigin þarfa og hvatt er til ræktunar banana, sykurreyrs, kaffis og jarðhnetna til útflutnings en þróunin í landbúnaðnum hefur verið mjög hæg.  Vatnsvinnslu úr sjó á eyjunum São Vincente og Sal, sem hófst á áttunda og níunda áratugnum, var ætlað að draga úr miklum neyzluvatnsskorti á eyjunum.  Einnig hefur verið borað fyrir vatni og þúsundir smárra stíflna hafa verið reistar til að treina rigingarvatnið.  Rúmlega 2 miljónir þurrkaþolinna trjáa var plantað snemma á níunda áratugnum.

Námuvinnsla er lítilvæg.  Salt er framleitt á eyjunum Sal, Maio og Boa Vista.  Pozzolana er gosefni, sem er nýtt til sementsgerðar og flutt út í tiltölulega litlu magni.  Fiskiðnaðurinn á framtíð fyrir sér og nútímaaðferðir við veiðar og vinnslu hafa smám saman verið teknar upp.  Íslendingar hafa lagt mikið af mörkum í þeim efnum og aðstoðað eyjaskeggja dyggilega við þróunina.Í Mindelo er frystihús og niðursuðuverksmiðja fyrir túnfisk  í Praia og á Saleyju.

Framleiðsla og byggingastarfsemi nema u.þ.b. 1% af vergri þjóðarframleiðslu.  Framleiðsluiðnaður byggist aðallega á matvælum, vefnaðarvöru og lyfjum.

Þjónusta og samgöngur nema u.þ.b. ½% vergrar þjóðarframleiðslu.  Eyjaklasinn liggur vel við flug- og sjávarleiðum yfir Atlantshafið og hefur notið góðs af með bættri hafnaraðstöðu og flughöfn.  Auknar samgöngur leiddu til byggingar ferðamannahótels í Praia snemma á níunda áratugnum.

Viðskiptajöfnuður Grænhöfðaeyja er stöðugt óhagstæður og hrakar frekar en hitt.  Aðalviðskiptalönd eyjaskeggja eru Portúgal og Holland.  Alþjóðleg neyðaraðstoð hefur ekki dugað til að yfirvöld hafi getað framfylgt efnahagsumbótum.  Peningasendingar frá brottfluttum eyjaskeggjum bætir nokkuð úr skák en eina leiðin til umbóta virðist vera aukin erlend efnahagsaðstoð.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir                  HEIM