Afghanistan
var konungsríki til 1973, þegar konunginum var velt úr sessi og lýst
yfir lýðræði.
Stjórnarskráin, sem var kynnt í febrúar 1977, færði forseta
landsins mikil völd og gerði landið að eins flokks ríki auk þess að
viðurkenna islam sem ríkistrú.
Þingið (Shura) fékk löggjafarvald og skyldi starfa í tveimur
deildum.
Þessi stjórnarskrá var afnumin 1978 með byltingu og
byltingarráðið tók stjórn landsins að sér.
Árið
1987 gaf leppstjórn Sovétríkjanna út nýja stjórnarskrá, sem gerði
ráð fyrir óbeinni kosningu forseta til sjö ára í senn og tveggja
deilda þingi með 234 þingmönnum.
Lýðræðisflokkurinn hélt um stjórnartaumana og 50 þingsæti
voru ætluð stjórnarandstöðunni.
Sovézki herinn yfirgaf landið árið 1989 og í kjölfarið var
leppstjórninni vikið frá völdum.
Bráðabirgðastjórn allra skæruliðahópanna (11) tók stjórn
landsins í sínar hendur.
Að loknum óbeinum forsetakosningum í desember 1992 brast
samstaða þessara sundurleitu hópa og blóðugt borgarastríð brauzt
út. Talibanar
voru öflugasti og jafnframt öfgafyllsti hópur islamskra skæruliða
í landinu og veitti betur.
Talibönum
tókst að leggja undir sig u.þ.b. 90% landsins en 10 skæruliðahópar
stjórnuðu norðurhluta landsins.
Talibanar innleiddu stranga bókstafstrú og bönnuðu konum að
vinna og skylduðu þær til að hylja sig gjörsamlega á almannafæri.
Þeir bönnuðu menntun kvenna og innleiddu strangar refsingar.
Kvenkyns læknar fengu ekki að starfa og karlkyns læknum var
bannað að sinna kvensjúklingum.
Konur höfðu áður átt kost á menntun, þannig að talibanar
útilokuðu stóran hluta menntafólks í ýmsum störfum.
Þeir sáu þó lítillega að sér, þegar konur fóru að hríðfalla
úr sjúkdómum og við barnsburð og leyfðu kvenlæknum að sinna
kvensjúklingum.
Réttarfar.
Æðsta dómstig í landinu er Hæstiréttur.
Byltingardómstólar önnuðust önnur dómstig, bæði í hernum
og borgaraleg.
Héraðs-
og sveitastjórnir.
Ríkisstjórnin útnefndi landstjóra í hverju héraði landsins,
en þeim er skipt niður í sveitarfélög og hreppa.
Heilbrigðis-
og félagsmál.
Ríkisstjórnin virtist ætla að reyna að efla þessa málaflokka
með áætlunum um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn smitsjúkdómum.
Það hefur ekki tekizt og ástandið er með eindæmum slæmt.
Barnadauði er mikill og meðallífslíkur voru í kringum 42 ár
skömmu fyrir 1990.
Varnarmál.
Fyrir 1992 voru allir karlmenn á aldrinum 15-40 ára herskyldir.
Snemma á níunda áratugnum var áætlaður fjöldi hermanna í
kringum 40.000 í landhernum og 5.000 í flughernum.
Eftir 1992 og upphaf „mujaheddin-stjórnarinnar” var herinn
leystur upp og hinir sundurleitu hópar skæruliða tóku við. |