Afghanistan sagan II,
Flag of Afghanistan

SAGAN      

AFGHANISTAN
SAGAN II

.

.

Utanríkisrnt.

Pashtunistandeilan.  Ríkisstjórnin fylgdist glöggt með þróun mála, þegar Indlandi og Pakistan var skipt í tvö sjálfstæð ríki 1947.  Mestum áhyggjum olli innlimun landamærahéraðs í norðaustri, þar sem bjuggu nær eingöngu pashtunar, í Pakistan.  Pakistanar hunzuðu kröfur Afghana um úrskurð alþjóðasamfélagsins um sjálfræði íbúa þessa svæðis.  Afghanar greiddu atkvæði gegn aðild Pakistana að Sameinuðu þjóðunum í hefndarskyni.  Næstu árin var samband landanna stirt og stöðugar erjur milli Pakistana og pashtuna blossuðu upp.  Þessi átök mögnuðust eftir 1949, þegar pashtunar ákváðu að stofna sjálfstætt ríki, Pashtunistan eða Pathanistan, með stuðningi Afghana.

Afghanistan lýsti megnri óánægju, þegar BNA og Pakistan gerðu með sér hernaðarsamning 1954.  Næsta ár lýsti Sovétleiðtoginn Nikolay A. Bulganin yfir stuðningi við stofnun sjálfstæðs Pashtunistans, þegar hann var í heimsókn í Afghanistan.  Þetta leiddi til sameiginlegrar yfirlýsingar ríkjanna með áherzlu á friðsamlega sambúð, alþjóðlega afvopnun og aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum.  Samtímis lánuðu Sovétmenn Afghönum stórfé til tækniþróunar.

Samband Afghana og Pakistana batnaði um stundar sakir seint á sjötta áratugnum en deilan um Pashtunistan blossaði upp á ný 1961.  Ekki náðist samkomulag milli ríkjanna fyrr en 1967.

Árið 1963 vék Zahir konungur magi sínum og frænda úr embætti forsætisráðherra og tók sjálfur við öllum stjórnartaumum.  Næsta ár kynnti hann nýja stjórnarskrá, sem gerði ráð fyrir frjálslegri stjórn landsins.  Fyrstu þingkosningarnar í samræmi við stjórnarskrána voru haldnar í september 1965.

Landið lenti í gífurlegum efnahagsþrengingum seint á sjötta áratugnum.  Ástandið versnaði vegna þriggja ára þurrkatímabils, sem olli hungurdauða 80.000 manns.  Árið 1973 voru Sovétríkin, BNA og Kína í fararbroddi hjálparstarfs í landinu.

Lýðveldið og aukin áhrif Sovétríkjanna.  Árið 1968 bar Zahir víurnar aftur í Daud frænda og talið var, að þeir væru sáttir á ný.  Svo var þó ekki, því að Daud sölsaði undir sig völdin í júlí 1973,  hrakti konung frá völdum og lýsti yfir stofnun lýðveldis.  Ný stjórnarskrá var samþykkt snemma árs 1977 og Daud var kosinn í valdamikla stöðu forseta landsins.  Hann skipaði borgaralegt þing og hélt uppi stefnunni um óháð Afghanistan.  Daud var myrtur í blóðurgri byltingu í apríl 1978.  Nýju valdhafarnir komu á fót byltingarstjórn, sem Noor Muhammad Taraki stýrði í fyrstu og síðar Hafizullah Amin, sem afnam stjórnarskrána og lagði fram áætlun um „tæknilegan sósíalisma”.  Þessi þróun hleypti illu blóði í sanntrúaða múslima, einkum meðal fjallabúa, og vopnaðrar andstöðu.

Taraki og Amin voru ekki í stakk búnir til að bæla þessi öfl og snéru sér til Rússa um hjálp.  Andstaðan jókst þrátt fyrir sovézka íhlutun 1979.  Í desember var Amin velt úr sessi og drepinn í byltingu, sem Sovétmenn studdu og her þeirra lagði landið undir sig.  Sovétmenn settu fyrrum forsætisráðherra,  Babrak Karmal, sem hafði verið gerður útlægur 1978,  á forsetastól.  Hann reyndi án árangurs að friðmælast við uppreisnarmenn og rúmlega 3 milljónir manna flúðu til Pakistan.  Um miðjan níunda áratuginn þurfti stjórnarherinn og u.þ.b. 118.000 manna sovézkan her til að halda yfirráðum í borgum landsins og tryggja samgönguleiðir en ekki tókst að brjóta skæruliða ættkvíslanna í norðurfjöllunum á bak aftur.  Þessi átök komu inn á borð alþjóðasamfélagsins, þegar BNA og múslimaþjóðir fóru að styrkja uppreisnarmenn með vopnum og þjálfun.  Sovétmenn voru komnir í klípu kosnaðarsamra og vonlausra aðgerða í landinu.  Í marz 1986 tók Muhammad Najibullah, fyrrum ríkislögreglustjóri við völdum, líklega fyrir tilstuðlan Sovétmanna.

Borgarastyrjöld.  Sovétríkin kölluðu herlið sitt heim á tímabilinu maí 1988 og febrúar 1989 en borgarastyrjöldin hélt áfram.  Najibullah var settur af í apríl 1992 og uppreisnarmenn náðu Kabul á sitt vald.  Hinir sundurleitu hópar uppreisnarmanna komust að samkomulagi um bráðabirgðastjórn með Burhanuddin Babbani sem forseta.  Sérstakt þing landsins samþykkti völd forsetans til tveggja ára í desember 1992, þótt flokkar uppreisnarmanna berðust enn þá innbyrðis.

Hinn 17. júní 1993 varð Hulbuddin Hekmaryar, leiðtogi sanntrúaðra shíta (Hezb-i-Islami), forsætisráðherra.  Hinn 27. september samþykktu leiðtogar uppreisnarmanna stjórnarskrá til bráðabirgða sem undirbúning að frjálsum kosningum 1994.  Þetta heppnaðist ekki, því að fylgjendur forsetans annars vegar og forsætisráðherrans hins vegar gripu til vopna 1. janúar 1994 og bárust á banaspjótum.  Fyrrum bandamaður Hekmatyars, kommúnistahershöfðinginn Abdul Rashid Dostam, studdi hann.  Í júnílok 1994 var barizt vítt og breitt um landið og Kabul var að mestu í rústum eftir árásir stórskotaliðs og eldflauga.  Grunur beindist að nokkrum löndum múslima um stuðning við mismunandi fylkingar í Afghanistan til að viðhalda ófriðarbálinu af hernaðarlegum eða hugmyndafræðilegum ástæðum.  Friðartilraunir Sameinuðu þjóðanna og sambands arabaþjóða dugðu ekki og bardagar héldu áfram til 1995, þegar islömskum stúdentum, sem kölluðu sig talibana, tókst að leggja undir sig höfuðstöðvar Hekmatyars skammt frá Kabul.

Talibönum tókst að ná stjórn á tíu héruðum í febrúar en herinn rak þá á brott frá Kabul í marz.  Í nóvember bauðst Rabbani til að segja af sér í skipum fyrir vopnahlé við talibana, sem réðust aftur  á borgina í desember.  Friðarumræður fóru fram milli stjórnarinnar og talibana í janúar og febrúar 1996 án árangurs.  Nekmatyar og Rabbani undirrituðu hernaðarsaming í marz um samstöðu gegn talibönum.  Í maí undirrituðu þeir samning og áheit um að stofna islamskt ríki.  Rabbani forseti skipaði Hekmatyar aftur forsætisráðherra í júní og þingmenn voru valdir í júlí.  Talibanar gáfust ekki upp og náðu borginni undir sig í september.  Þeir komu á fót bráðabirgðastjórn og innleiddu bókstafstrúarstefnu.

Flestum er kunnugt um þróun mála í landinu síðan, m.a. hvernig konur voru sviptar frelsi og hryðjuverkamönnum var veitt hæli í landinu.  Eftir hryðjuverkaárásirnar á tvíburaturnana í New York og Pentagon í Washington beindist grunurinn strax að Osama bin Ladin, sádíarabískum milljónamæringi og ofsatrúarmanni, sem hafði átt hæli í Afghanistan um nokkurt skeið eftir að honum var úthýst frá Súdan.  Alþjóðasamfélagið fordæmdi þessi hryðjuverk og morð rúmlega 6000 manna og kvenna og ákveðið var að grípa til refsiaðgerða gegn hryðjuverkamönnum og stjórn talibana, sem hýstu þá og studdu.  Loftárásir á Afghanistan hófust rúmlega þremur vikum eftir ódæðin í BNA til stuðnings sérsveitum, sem ætlað er að kemba landið og finna óþokkana, sem voru ábyrgir.

Fyrrum konungur landsins, Zahir Shah, ásamt forsetanum, Hamid Karzai, tóku við drögum að stjórnarskrá, sem á að endast landsmönnum næstu 1-2 aldirnar, hinn 3. nóvember 2003.  Hún kveður á um forforsetalýðveldi á íslömskum grunni.  Umræður um drögin fóru fram í þjóðarráðinu, Loya Jirga, Eftir að hún tók gildi fóru fram fyrstu lýðræðislegu kosningar í landinu.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Hverafold 48 - 112 Reykjavik - 567-6242 - info@nat.is - Heimildir                  HEIM