Afghanistan sagan,
Flag of Afghanistan

SAGAN II      

AFGHANISTAN
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

 

Nafnið Afghanistan kom first fram í heimildum á 6. öld f.Kr., þegar landið varð hluti af Persneska heimsveldinu.  Alexander mikli lagði það undir sig í kringum 330 f.Kr.  Að honum látnum, 323 f.Kr., féll mestur hluti landsins í hlut Seleucus I. Nicators, hershöfðingja Alexanders og síðan náði indverski konungurinn Chandragupta því undir sig.  Grísk höfðingjaætt náði svæðinu Bactria í norðurhlutanum undir sig og réði þar frá 256 f.Kr. til u.þ.b. 130 f.Kr.  Þetta ríki féll síðan í hendur Saka, íranskra hirðingja, svo Kushana, sem innleiddu búddatrú.  Á 3. og 4. öldum e.Kr. réðust persneskir Sassanídar inn í landið úr vestri.  Ephthalitar, sem voru líka kallaðir hvíthúnar, réðu mestu í landinu, þegar arabar komu eins og engisprettuplága um miðja 7. öld.

Fyrstu, múslimsku höfðingjaættirnar.  Innrás araba hafði líklega meiri áhrif á þjóðina en nokkur önnur.  Samt liðu aldir áður en islam varð að ríkjandi trú.  Íranar og Tyrkir komust til valda í landinu á þessu tímabili.  Tyrkir fóru með öll völd frá seinni hluta 10. aldar fram á fyrri hluta hinnar elleftu, þegar tyrkneski soldáninn Mahmud frá Ghazni kom á ríkiserfðum.  Islam var í hávegum haft undir stjórn Ghuri-ættarinnar á árunum 1148-1215.  Þessi höfðingjaætt færði út kvíarnar til Norður-Indlands, en fjölmennir herir Genghis Khans, sem komu úr norðri, hröktu hana á brott í kringum 1220.  Stærstur hluti landsins var undir mongólskum yfirráðum til loka 14. aldar, þegar annar mongólskur herforingi, Tamerlane, lagði landið undir sig.  Einn mikilhæfasti eftirmaður hans var Babur, faðir Mughal-ættarinnar í Indlandi, sem sigraði Kabul árið 1504.  Síðar á sextándu öldinni komu safavidar frá Íran og Uzbekar  úr norðri.  Íranar og Mughal-keisaradæmið, sem eftirmaður Baburs stofnaði, urðu fyrir stöðugum skráveifum vegna uppreisna Afghana.

Stofnun afghansks ríkis.  Afghönum sjálfum fór að vaxa fiskur um hrygg á 17. öld.  Ghilzai-ættkvíslin sigraði írönsku höfuðborgina Esfahan 1722.  Íranar hófu öfluga gagnsókn undir stjórn Nadir Shah og brutu allt landið undir sig árið 1738.  Nadir var myrtur 1747 og afghanskir höfðingjar kusu einn hershöfðingja hans, Ahmad Shah af Abdali-ættkvíslinni, til forustu.  Hann varð þekktur undir nafninu Durri-I-Dauran (Tímanna tákn) og færði út ríki sitt með því að leggja undir sig Austur-Íran, Balochistan, Kashmir og hluta af Punjab.  Furstadæmið liðaðist í sundur undir stjórn arftaka hans og hrundi árið 1818.  Stjórnleysi tók við næstu árin.  Dost Muhammad Khan, sem var af virtri, afghanskri ætt, náði völdum í Austur-Afghanistan árið 1826 og gerðist fursti árið 1835.

Árekstrar við Breta.  Dost Muhammad leitaði stuðnings brezku nýlendustjórnarinnar í Indlandi vegna tilkalls Afghana til yfirráða í Punjab.  Bretar neituðu og hann snéri sér til Rússa um stuðning. 

Fyrsta Afghan-stríðið.  Brezki landstjórinn, George Eden, jarl af Auckland, óttaðist að áhrif Rússa færðust að landamærum Indlands og setti Dost Muhammad úrslitakosti.  Hann krafðist brottvísunar rússnesks fulltrúa frá Kabul.  Þessum kröfum var hafnað og brezk-indverski herinn ruddist inn í Afghanistan og lagði undir sig borgirnar Kandahar (apríl, 1839) og Ghazni (júlí, 1839).  Þegar Kabul féll í ágúst sama ár, var sonarsonur Ahmad Shah, Shah Shuia, krýndur í stað Dost Mohammad, sem gekk Bretum á vald.

Akbar Khan, sonur Dost, gerði árangursríka uppreisn gegn Shah Shuia og brezk-indverska setuliðinu 2. nóvember 1841.  Fulltrúi Breta í Kabul var myrtur og setuliðið var upprætt, þegar það hörfaði til Indlands í janúar 1842.  Brezk-inverski herinn sendi refsileiðangra inn í landið og mannaði virkin á ný um skamman tíma þar til herinn fór brott í desember 1842.  Dost Muhammad var sleppt úr haldi og komst til valda á ný.  Spenna ríkti í sambandi Afghanistan og Brezka-Indlands til 1855, þegar Dost Muhammad skrifaði undir friðarsamning við indversku stjórnina.

Annað Afghan-stríðið.  Að Dost Mohammad látnum 1863 gekk á bræðravígum sona hans vegna hásætisins í næstum áratug.  Shere Ali Khan, þriðji sonur hans og eftirmaður, egndi Breta gegn sér með því að vingast við Rússa 1878.  Bretar settu aftur úrslitakosti, sem voru hunzaðir og í nóvember sama ár voru brezk-indverskar hersveitir aftur á leið inn í Afghanistan.  Afghönum tókst ekki vel til í byrjun og Kabul var sigruð í október 1879.  Sonur Shere Ali, Yakub Khan, tók við völdum í marz sama ár en var neyddur til að segja af sér.  Næsta ár varð Abd-ar-Rahman Khan, barnabarn Dost Mohammads, konungur.

Nýi einvaldurinn staðfesti samkomulag, sem Yakub Khan hafði gert við Breta, um afsal Khyber-skarðsins og fleiri afghanskra svæða.  Á valdatíma hans, allt til 1901, jafnaði Abd-ar-Rahman Khan landamæradeilur við Indverja og Rússa, stofnaði her og beizlaði vald margra ættarhöfðingja.

Árið 1907, þegar Habibullah Kahn, sonur og eftirmaður Abd-ar-Rahman, var við völd, komust Bretar og Rússar að samkomulagi um gagnkvæma virðingu fyrir yfirráðum Afghana í eigin landi. Habibullah var myrtur í febrúar 1919.  Bróðir hans, Hasrullah Khan, sem var aðeins sex daga við völd, vék fyrir Amanullah Khan, syni Habibullah, vegna afskipta aðalsins.  Hann einbeitti sér að því að losa landið undan brezkum áhrifum og lýsti yfir stríði á hendur þeim í maí 1919.  Þá stóðu Bretar í ströngu í vaxandi átökum við frelsishópa í Indlandi og gerðu því friðarsamning við Afghana í ágúst sama ár.  Þessi samningur, sem var gerður í Rawalpindi, gerði ráð fyrir, að Bretar viðurkenndu Afghanistan sem frjálst og sjálfstætt ríki.  Árið 1926 breytti Amanullah Khan titli sínum úr frusta í kóng.

Viðurkenningin og virðingin, sem Amanullah hafði áunnið sér með árangrinum gegn Bretum, var ekki langæ.  Hann varð fyrir miklum áhrifum af stefnu Írana og Tyrkja í nútímaátt og efndi til mikilla endurbóta í stjórnmálum, félagsmálum og trúmálum.  Árið 1923 var farið að stjórna landinu í samræmi við stjórnarskrá, titlar aðalsmanna voru lagðir niður, konur máttu mennta sig og nútímavæðing var knúin fram í ýmsum hefðbundnum stofnunum landsins.  Þessi nýmæli konungsins leiddu til byltingar árið 1929 og Amanullah sagði af sér og fór í útlegð.  Bróðir hans, Inayatullah, sem tók við völdum, var hrakinn úr konungsstóli eftri þrjá daga.  Þar var að verki byltingarforingi, Bacha Sakau að nafni.  Árið 1929 komst föðurbróðir Amanullah, Nadir Shah, til valda með stuðningi þúsunda ættmenna eftir að hafa sigrað byltingarmenn.

Nýi konungurinn kom smám saman á lögum og reglu í ríki sínu.  Árið 1932 lagði hann fram áætlun um efnahagsumbætur en var myrtur næsta ár.  Sonur hans og eftirmaður, Zahir Shah, sem var aðeins 19 ára, þegar hann tók við völdum, var handbendi áhrifaríkra ættingja næstu 30 árin, einkum frænda sins og síðar mágs, Muhammad Daud Khan prins.  Ríkisstjórnin leiddi þjóðina stöðugt lengra í nútímaátt og efldi viðskiptatengsl við Þýzkaland, Ítalíu og Japan.  Zahir lýsti yfir hlutleysi landsins í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar og árið 1941 rak hann rúmlega 200 fulltrúa Þjóðverja og Ítala úr landi að beiðni Breta og Rússa.  Bandaríkin stofnuðu til stjórnmálasambands við landið næsta ár.  Afghanistan varð aðildarríki Sameinuðu þjóðanna 1946.

SAGAN II

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Hverafold 48 - 112 Reykjavik - 567-6242 - info@nat.is - Heimildir                  HEIM