Suður Grænland,

NARSARSUAQ BRATTAHLÍÐ - KAGISSIARSSUK GARÐAR - IGALIKO NARSAQ

SUÐUR-GRÆNLAND
.

.

Utanríkisrnt.

Flestir, sem heimsækja þennan landshluta, hefja ævintýrið á flugvellinum í Narsarsuaq, sem er tengdur flugi frá Danmörku og Íslandi og til annarra staða á Grænlandi.  Bandaríski flugherinn byggði völlinn í síðari heimsstyrjöldinni sem milliflugvöll fyrir flugvélar, sem flugu milli Evrópu og BNA.  Hann hefur verið alþjóðlegur flugvöllur síðan 1959.  Sumar upprunalegu flugvallabyggingana eru notaðar fyrir nútímahótel með öllum þægindum og í grenndinni er farfuglaheimili og tjaldstæði.

Á sumrin lítur Suður-Grænland út eins og íslenzka nafn landsins gefur til kynna.  Flestar plöntutegundir, sem finnast í landinu, eru á þessum slóðum.  Vetrarloftslagið er tiltölulega milt og sumarhitinn fer upp í 16-18°C.  Þessar aðstæður gera lífs- og efnahagsskilyrði suðurhlutans mjög frábrugðin öðrum landshlutum.  Þar er m.a. stundaður sauðfjárbúskapur, sem sést vel í bátsferðum um firðina.  Þessi býli eru ekki í vegasambandi við þéttbýlisstaðina, þannig að bátar eru mikið notaðir til flutninga.  Göngur eru í september og u.þ.b. 20.000 lömb eru flutt með bátum til slátrunar í Narsaq.  Margir sauðfjárbændur hafa byggt sumarhús fyrir ferðamenn við bæi sína.

Þarna kaus Eiríkur rauði að byggja sér bústað eftir að hann var gerður útlægur frá Íslandi 985.  Samkvæmt sögu hans og Grænlendingasögu var það hann, sem nefndi landið.  Eftir þriggja ára dvöl, snéri hann aftur til Íslands til að sannfæra landa sína um kosti þess að hefja nýtt líf á þessu „græna landi”.  Honum tókst vel til og fjöldi landnema óx.  Bæir og kirkjur voru byggðar og biskupsdæmi var stofnað.  Sögurnar lýsa sjóferðum og landafundum löngu áður en Kólumbus sigldi vestur um haf.  Meðal athyglisverðustu staða þessa landshluta eru rústir kirkna og bæja frá árdögum íslenzka landnámsins, sem náði yfir fjögurra alda skeið.  Eftirlíking af fornum bæ hefur verið reist í Qassiarsuk og fyrsta kirkjan, sem byggð var í Norður-Ameríku, Þjóðhildarkirkja, var endurreist.

Suður-Grænland er ekki einungis þekkt fyrir frjósaman jarðveg, fjöll og fjölbreytta flóru.  Þar eru líka jöklar, borgarísjakar í öllum gerðum og stærðum og bragandi norðurljós, sem hægt er að njóta frá ágústlokum.  Ísrekið er líka mikilfenglegt náttúrufyrirbæri við Suður-Grænland.  Þetta er lagnaðarís frá heimskautssvæðunum, sem rekur með hafstraumum suður eftir Austurströndinni, fyrir Hvarf og inn í firði Suðurlandsins.  Þessi ís er allt að 3 m þykkur og er í misstórum breiðum.  Stundum einangrar hann byggðarlög um tíma á vorin og sumrin, þannig að einungis er hægt að reiða sig á samgöngur í lofti.  Með ísnum koma selirnir og þá hefjast veiðarnar, sem eru ásamt fiskveiðum og sauðfjárbúskap, aðalatvinnuvegir íbúanna.  Vegalengdir milli byggðarlaga á Suðurlandinu eru yfirleitt stuttar.  Ferð frá Narxaq til Qaqortoq tekur aðeins tvo tíma með bát og 12 mínútur með þyrlu.  Það tekur aðeins 20 mínútur í viðbót að fljúga til Nanortalik lengra í suðri.  Þetta þýðir einfaldlega, að stutt heimsókn til Grænlands getur verið tilbreytinga- og viðburðarík.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM