Narsarsuaq Grænland,


NARSARSUAQ
.

.

Utanríkisrnt.

Flugvöllurinn í Narsarsuaq (Big Plain) er austan við Eiríksfjarðarhöfða.  Hann er miðstöð samgangna í Suður-Grænlandi.  Bandaríkjamenn komu þar upp herstöð, Blue West 1 árið 1941 og veittu skipalestum frá Ameríki til Evrópu loftvernd á stríðsárunum.  Bandaríkjamenn yfirgáfu stöðina árið 1958 og dönsk yfirvöld tóku við rekstrinum.  Eftir að danska skipið Hans Hedtoft fórst í jómfrúarferð sinni til Grænlands var farið að fylgjast með ísreki á siglingaleiðum frá stöðinni og í febrúar 1961 var leigð flugvél frá Flugfélagi Íslands til verksins. Narsarsuaq er umkringd hafi og háum fjöllum og þangað liggja engir vegir.  Umhverfið er frjósamt á grænlenzkan mælikvarða, vaxið fjalldrapa og víðikjarri, bláklukku og holurt og eyrarrósin breiðir úr sér á árbökkum og eyrum.  Djúp jökulsá með sæmilegri veiði er í grennd við hótelið.

Fyrsta byggð norrænna manna var við Eiríksfjörð.  Blómaskeið hennar var á 11. og 12. öldum en hún eyddist af fólki á dögum landafundanna miklu af óskýrðum sökum.  Listir og bókmenntir blómstruðu í Íslendingabyggðunum í Grænlandi.  Ortar voru drápur um Atla húnakonung og Niflunga en aðeins fátt eitt hefur varðveizt af kveðskapnum, s.s. Atlamál í Eddu, sem fjalla um Atla húnakonung og Niflunga.  Fólkið í byggðum Eiríksfjarðar hvarf sporlaust í lok miðalda og nú standa rústirnar einar eftir.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM