Grænlandsvetur inngangur,

NÍUNDI KAFLI    

GRÆNLANDSVETUR
eftir Mattias Koglbauer
Á hundasleðum um heimsskautssvæði


ÁTTUNDI KAFLI
GESTRISNI GRÆNLENDINGA

.

.

Utanríkisrnt.


nat.is

Ætíð, þegar Grænland ber á góma, heyrast brenglaðar athugasemdir um gestrisni íbúanna.  Það er pískrað um konuskipti innan ættflokkanna og að karlkyns gestum sé boðin kona húsráðanda til afnota.

Ég er oft spurður, hvort þetta sé satt og hvort þessi siður tíðkist enn þá.  Ég er spurður, hvort ég þekki þetta af eigin raun og hvernig það hafi verið.  Síðan býr fólk sig undir að heyra lostafullar lýsingar af slíkum ævintýrum.
Svör mín hafa alltaf valdið vonbrigðum.

Þessir tímar eru löngu liðnir.  Konuskipti og konuútlán heyra fortíðinni til.  Þessir siðir lögðust seinna af á austurströndinni en annars staðar í Grænlandi, en hú á tímum er gestum veittur annar beini með sömu gestrisni.  Nú fá menn kaffi og sels- eða rostungskjöt.  Sannast að segja var ég því oftast feginn, að mér var boðið kaffi í kvenna stað.  Ég vona bara, að grænlenzku konurnar fyrirgefi mér þennan hugsunarhátt, því að þetta er þó alltaf smekksatriði.

Það er ekki víst, að konuútlánin hafi verið iðkuð af einskærri kurteisi.  Þau gátu verið sprottin af kynferðislegum þörfum, sem menn fundu fyrir í löngum sleðaferðum.  Það var rökrétt afleiðing af lögmálum náttúrunnar.  Allar konur þarfnast karlmanna og karlar kvenna.

Svipaða sögu era ð segja um konuskiptin.  Þegar eiginmaður vanfærrar konu kom úr löngu og ströngu ferðalagi, skipti hann gjarnan á konu sinni og annarri, sem ekki var eins ástatt fyrir.  Hún annaðist heimilisstörfin á daginn og kynferðishlutverkið á kvöldin og nóttunni.

Það er óréttlátt að líta þetta kynferðislega atferli sem siðferðislegan vanþroska eða hnignun.  Hóplíf og kynferðisathafnir utan hjónabanda þjóna ákveðnum líffræðilegum tilgangi hjá fólki, sem býr í afskekktustu afkimum veraldar.  Þetta veldur æskilegri blóðblöndun og kemur í veg fyrir of náinn skyldleika innan ættkvíslanna.  Konurnar voru stöðugt vanfærar.  Það tryggði viðgang ættstofnsins, því að barnadauði var mikill.  Auk þess voru börnin eina trygging foreldranna fyrir umönnun í ellinni.  Þessar kynferðisvenjur gætu einnig verið skýringin á því, hvernig og hvers vegna svona lítill þjóðflokkur hefur haldið velli á nyrztu breiddargráðum.

Það kynni líka að vera, að þessi tilbreyting hafi gefið fólkinu þrek til að þreyja hinn langa og dimma heimskautsvetur, einveruna og banvænan kuldann.
Kynlífið er enn þá snarari þáttur í lífi Grænlendinga en flestra annarra þjóða.  Hinn gamli grundvöllur fyrir nauðsyn þess er brostinn, svo nú stefnir í offjölgun í landinu.  Það eru líkur til þess, að fjöldi Grænlendinga tvöfaldist á fimmtán til tuttugu ára fresti við óbreyttar venjur og aðstæður.  Þessu fylgdu fleiri vandræði, svo sem fjölgun óskilgetinna barna, sem eru nú þegar meira en helmingur fæddra barna í landinu.

Meginástæðan er frjálslegt ástarlíf unglinga.  Það er algengt, að þeir séu með nýjum félaga á hverjum dansleik.  Svo hverfa þeir til fjalla um bjartar sumarnætur og hafa samfarir bak við stein.

Það vakna margar spurningar í huga manns um orsök þessa ástands.  Endurspeglar þetta taumleysi æskunnar eða staðfestir það lauslætið, sem ríkir í landinu?  Er siðgæðismat okkar annað en Grænlendinga?  Hvert, sem svarið kann að vera, mun það reynast Grænlendingum erfitt að stemma stigu við offjölgun þjóðarinnar á meðan kynorkunni er beitt svona taumlaust og fólkið er tregt til að nota getnaðarvarnir.

Íbúarnir hafa heldur aldrei kynnst sjálfsaganum, sem við þekkjum.  Lífshættir þess voru allt öðruvísi en nú, og það þekkti engar hömlur eða þvinganir.  Lífsskoðun þess er enn þá sú, að allt, sem veitir ánægju, sé leyfilegt.
Mortensen læknir í Scoresbysundi sagði mér frá stúlku, sem hann annaðist vegna lekanda.  Hann bannaði henni stranglega að hafa samfarir.  Hún fór beinustu leið niður að höfn og hafði mök við heila áhöfn á erlendu skipi.  Það var girnd, en ekki fégræðgi, sem réði gerðum hennar.  Áfengi og tóbak juku losta hennar.  Þegar stúlkurnar eru orðnar nægilega æstar af þessum nautnalyfjum, leggjast þær með hverjum sem er.

Ég man alltaf eftir atburði, sem ég varð vitni að á höfninni í Angmagssalik.  Þar sá ég nokkra sjómenn drösla stúlku, rænulausri eftir næturlangt svall, yfir borðstokk skipsins, sem við vorum á.  Þeir voru að flytja hana í land eftir notkun.  Máttlaus líkaminn rann úr greip um þeirra og féll eins og kartöflupoki í sjóinn.  Ég stóð við borðstokkinn og fylltist viðbjóði á þessum aðförum.  Kaðalstiginn var rétt hjá mér, svo ég lét hann síga.  Það leið dágóð stund þar til við gátum bjargað vesalings stúlkunni, sem var svo fleygt eins og druslu um borð í árabát.  Mennirnir voru ekki að gera sér grillur af því, hvort stúlkan væri meðvitundarlaus af áfengisneyzlu eða hálfdrukknuð.  Þeir réru til lands og drógu hana að hrörlegum skúr, þar sem þeir skildu hana eftir fyrir hunda og manna fótum.

Það er líka kynlegt, að grænlenzkar konur, sem leggja lag sitt við Evrópubúa og eiga jafnvel börn með þeim, eru ekki fyrirlitnar.  Þær verða jafnvel eftirsóknarverðari og eiginmenn þeirra líta upp til þeirra.  Þeir álíta konur girilegri, séu þær nógu góðar fyrir útlendinga.

Ekki era ð undra, þótt erfitt sé að vinna bug á kynsjúkdómum við þessar aðstæður.  Lekandi er útbreiddur á vesturströndinni vegna hinna tíðu skipsferða.  Hann breiðist út með sjómönnum, sem sigla hafna á milli og eru eitt mesta vandamál heilbrigðisþjónustunnar í landinu.

Scoresbysund er eina þorpið í Grænlandi, þar sem kynsjúkdóma hefur ekki orðið vart í mörg ár.  Vitanlega er það ekki sízt því að þakka, að þorpið er einangrað og liggur mjög afskekkt.  Ströndin er girt tvö- til þrjú hundruð kílómetra breiðum ísfláka allt árið og þar hafa mörg skip og mannslíf týnzt í glímunni við hinn hvíta fjanda.  Siglingar eru aðeins færar, þegar Austur-Grænlandsstraumurinn rýfur ísinn og hrekur hann suður á bóginn.  Þetta gerist í byrjun júlí og stendur yfir til loka ágústmánaðar.  Þessar fáu vikur koma tvö til þrjú skip til Scoresbysunds.  Á veturna er eingöngu flugvélum fært þangað eftir að ísinn er orðinn nógu þykkur til að lenda á honum.

Fólkið í Scoresbysundi er ekki hófsamara en aðrir samlandar þess.  Það nýtur þess aðeins, að búa á stað, sem er svo illaðgengilegur, að kynsjúkdómum tekst ekki að nema þar land.

NÍUNDI KAFLI


.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM