Grænlandsvetur inngangur,


GRÆNLANDSVETUR
eftir Mattias Koglbauer
Á hundasleðum um heimsskautssvæði


NÍUNDI KAFLI
NORÐUR Á BÓGINN

.

.

Utanríkisrnt.


nat.is

 

Henning Bjarnason, flugstjóri, sem ég hafði flogið með hingað fyrir tveimur mánuðum, gladdist auðsjáanlega að sjá mig heilan á húfi.  Hann spurði mig spjörunum úr.  Hafði kuldinn ekki reynzt skæður óvinur og hafði ég komizt í hann krappan í sleðaferðunum?

„Mér þykir leitt að geta ekki flogið beint til Reykjavíkur með þig.  Fyrst verðum við að fljúga til tveggja veðurstöðva á austurströndinni með vistir, lyf og póst.”

„Það gerir ekkert til,” sagði ég ánægður.  „Ég gleðst yfir hverri stund, sem bætist við dvöl mina hérna.”  Hann brosti og hristi höfuðið vantrúaður.

Í stað þess að halda í suður, flugum við 250 kílómetra í norðurátt, til flugvallarins í Meistaravík.  Þar átti að bíða vænlegra veðurskilyrða til vistaflugsins.  Flugvélstjórinn sat í farþegarúminu og fékk sér blund.  Hann kenndi engra áhrifa af umhverfinu.  Ég fékk að sitja í sæti aðstoðarflugmannsins og naut ótakmarkaðs útsýnisins fram í fingurgóma.

Vinir mínir niðri á ísnum fjarlægðust og hurfu loks sjónum.  Líf þeirra héldi áfram í sínum hefðbundna farvegi.

Henning rétti flugvélina af í 1000 metra hæð og við flugum yfir freðmýrar Jamesonslands, þar sem við sáum nokkrar litlar hjarðir sauðnauta.  Á sumrin er aragrúi þeirra á beit þarna, því að beitiland er mjög gott.

Hver fjallstindurinn af öðrum leið fram hjá og aðrir birtust við sjónarrönd.  Því norðar, sem við flugum, þeim mun stórbrotnara og ósnortnara varð landslagið og áður en varði komu Staunings-Alparnir í ljós.  Þeir voru eins og steinrunnið hafrót.  Sannkölluð furðusmíð.

Hvassar og sveigðar íseggjar teygðu sig mót himni og oddmjóar gnípur trónuðu við hlið ávalra hnjúka.  Ég reyndi að átta mig á tindunum og leitaði að einhverju kennileiti, sem ég þekkti.  Var þessi íspýramídi ekki „Bæheimstoppurinn”, sem við klifum eftir klakabrynjuðu þverhnípi.  Þá höfðum við á tilfinningunni, að leiðin upp væri endalaus, því að tindurinn var hulinn þéttum skýbólstra, sem byrgði alla sýn.  Rétt  hjá honum var þá þrítyppta fjallið „Diadem” (Höfuðdjásn), sem minnti mig á Piz Palu.

Ævintýrið, sem við lifðum hér fyrir 12 árum var ljóslifandi í hugskotinu.  Ég mundi eftir hrifningunni, sem gagntók okkur, þegar við litum þessa fjalladýrð fyrsta sinni og fann fyrir áhrifum þeirra stundar, þegar við stóðum á fyrsta grænlenzka tindinum í miðnætursólinni.

Þetta var dýrlegt og áhyggjulaust sumar, sem við áttum saman í töfrandi landslagi og gjörsamlega einangraðir frá umheiminum.  Við félagarnir vorum afar samrýndir og treystum á mátt okkar og megin.  Aðaltakmarkið var að klífa eins marga tinda Staunings-Alpanna og unnt var um sumarið.  Áætlun okkar náði ekki til þess atriðis, hvernig við ættum að komast til strandar um haustið í tæka tíð til að ná síðasta skipi heim.

Kyrrðin var næstum alger og var aðeins rofin af náttúrulegum hljóðum eins og gargi gæsa og drunum í skriðjöklum.

Við sigruðum 19 tinda, sem höfðu ekki verið klifnir áður.  Það var hér á milli fjallanna við fagurbláa firði með hvítum, bláum og grænum borgarísjökum, sem ég batzt Grænlandi þessum órjúfanlegu tilfinningaböndum.  Það er óhætt að segja, að ég hafi uppskorið ríkulegan ávöxt af þeim.  Ég hefði ekki viljað missa af einu andartaki hinna fimm ferða minna hingað.

Flugvélin var komin í 3000 metra hæð, en flaug samt tiltölulega lágt yfir fjalllendið.  Henning stýrði henni í stórum sveig til að ég nyti útsýnisins sem bezt.

„Sjáðu, þarna er Alpafjörðurinn,” hrópaði ég frá mér numinn og benti niður á mjóan fjörðinn, umgirtan sæbröttum fjöllum.  Innst í þessum firði hafði katalínaflugbáturinn lent með okkur eftir ævintýralegt og snarbratt aðflug úr sömu hæð og við flugum í nú.

Henning tók fullan þátt í gleði minni og hrifningu, en skildi ekki, hvað gerði þessi fjöll svo eftirsóknarverð, að menn legðu á sig mikið harðræði til að klífa þau.  Eftir útsýnisflugið yfir fjöllunum flugum við út Alpafjörðinn og lentum skömmu síðar í Meistaravík.

Það var svolítið skrítið að finna svona stóran og fullkominn flugvöll á þessum slóðum.  Hvaða tilgangi þjónaði hann eftir að blýnámunum var lokað?  Flugfélagið SAS og danska stjórnin standa undir kostnaði við rekstur hans til að stuðla að auknu öryggi farþega á flugleiðum yfir pólinn.  Norræna námufélagið notar hann enn þá, þegar málmleitarleiðangrar eru gerðir út og birgðaflugvélar veðurstöðvanna hafa hér miðstöð.

Ég var naumast stiginn frá borði, þegar kallað var til mín:  „Sæll Matti, hvernig líður þér?”

Þarna stóð gamall vinur, Erich Hintersteiner, með framrétta hönd.  Árið 1957 höfðum við ásamt nokkrum vinum hans og samlöndum okkar haldið steierískt átthagakvöld í bragga á flugvellinum hér.  Nú var hann orðinn einn eftir, því að náman er lokuð og fyrri samstarfsmenn horfnir til annarra starfa.  Erich var nú orðinn forstjóri málmleitadeildar Norræna námufélagsins með aðsetur í Kaupmannahöfn.  Það var hreint ekki skrítið, þar sem hann er harðduglegur og þar að auki námuverkfræðingur, jarð- og steinafræðingur.

Hann hafði helgað sig störfum á Grænlandi.  Markmið hans og verkefni var að finna verðmæta málma á austurströndinni til að bæta lífsafkomu íbúanna þar.

Ég hafði alltaf hitt Erich þar sem ég átti hans sízt von.  Síðast gerðist það í Scoresbysundi fyrir fjórum vikum, þegar ég var á heimleið úr veiðiferð með Dines Sanimuinak.  Þá mættum við tveimur hundasleðum í rökkrinu.  Á fremri sleðanum sat Grænlendingur, en á hinum stóð maður, klæddur skinnstígvélum, síðum anorak og skinnhúfu.  Allt yfirbragð hans minnti á gömlu pólfarana og hafði sterk áhrif á mig.  Þegar við mættumst, heyrði ég kunnuglega rödd hrópa:  „Sæll Matti.”  Ég tók viðbragð.  Þetta gat enginn annar verið en Erich.

Nokkrum dögum síðar, þegar við hittumst í þorpinu, spurði ég hann, hvernig hann hefði þekkt mig í myrkrinu.  Hann svaraði því til, að hann þekkti engan Grænlending, sem klæddist rauðum dúngalla.  Svo sagði hann mér frá ástæðu þessarar næturferðar þeirra, sem hafði næstum endað með ósköpum.

„Við ókum til Brewsterhöfða til að veiða seli.  Um miðnættið vorum við orðnir allþreyttir og þar af leiðandi óvarkárari en ella.  Þá gerðist óhappið.  Ég heyrði skyndilega brest og sá sleða Jóhanns hverfa niður um ísinn.  Í næstu andrá komust hundarnir upp á traustari ís og tókst á einhvern undraverðan hátt að kippa honum upp.  Til allrar hamingju hafði Jóhann setið sem fastast á sleðanum, þótt vatnið næði honum upp undir axlir.  Vesalings Jóhann varð að hlaupa með sleðanum í nokkrar klukkustundir, alla leið til Brewsterhöfða til að frjósa ekki í hel.
Eirch kom með stórum beltabíl frá Meistaravík til að koma fyrir vistum málmleitarleiðangurs næsta sumars og dvelja jafnframt í nokkra daga á Brewsterhöfða.

Henning hafði flutt flugvélina að brún brautarinnar, fyllt endsneytisgeymana og tjóðrað hana fyrir nóttina með aðstoð flugvirkjans.

Erich axlaði sjópokann, en ég bakpokann og við gengum að bragga í grenndinni.

„Þú getur verið hjá mér í herbergi, Matti.  Það er nógu stórt fyrir tvo.”

„Það er fyrirtak.  Þetta getur tekið nokkra daga.”

„Ég veit það.  Langar þig ekki að fara með þeim til veðurstöðvanna?”

„Hvernig spyrðu?  Auðvitað langar mig með.”

„Ég skal færa það í tal við Kaysfeld.  Hann er fulltrúi Grænlandsverzlunarinnar.  Hann samþykkir það líklega.”

„Flug til Danmarkshavn  er eina óuppfyllta óskin, sem ég á hér í Grænlandi,” sagði ég ánægður, eins og allt væri klappað og klárt.

„Við skulum sjá til.  Vonandi verður ekkert til fyrirstöðu,” sagði Erich, er við gengum inn í einfaldar og hreinlegar vistarverurnar í bragganum.

Ég lagði farangurinn frá mér og fór út aftur til að litast um.  Það hafði ekki margt breytzt síðan ég var hér síðast.  Svo virtist þó, sem flugbrautin væri orðin lengri.  Einkennileg tilfinning gagntók mig, þegar ég stóð aftur á þeim stað, sem ég hafði heimsótt einna fyrstan í Grænlandi.  Þá byrjaði ævintýrið, sem á sér enga hliðstæðu í hefðbundnu lífi mínu.  Sumarlöng dvöl í Staunings-Ölpunum við fjallgöngur og óvissan um afdrif okkar um haustið.  Eina skynsamlega lausnin var að fara sjóleiðina til Meistaravíkur, en það var vonlaust verk að ætla sér að ferja 500 kíló af farangri og átta menn í tveimur veikbyggðum fellibátum um langan veg þriggja fjarða.  Niðurstaðan varð sú, að við sendum Hansl Gsellmann einan á bátnum sínum til Meistaravíkur, þar sem hann átti að reyna að útvega okkur stærri farkost.
Í fyrsta bragganum, sem hann knúði dyra á, sat maður með dagblað í hendi.  Hansl sagði honum frá vandkvæðum okkar.  Hann leit upp og sagði:  „Voruð þið í Staunings-Ölpunum?  Þá eruð þér Hansl Gsellmann.”
„Já, rétt er það, en hvernig þekkið þér mig?”

„Sjáið þér sjálfur,” svaraði hann og rétti Hansl dagblaðið.  Þar stóð undir stórri mynd:  „Austurrískur fjallgönguleiðangur undir stjórn Hansl Gsellmann lagður af stað til Staunings-Alpanna.”  Myndin var tekin á blaðamannafundi í austurríska sendiráðinu í Kaupmannahöfn.

Nú lá allt ljóst fyrir.

Maðurinn var danski stórútgerðarmaðurinn Knud Lauritzen.  Hann lét sér ekki muna um að sækja okkur á einkasnekkju sinni Vippa Dan.

Nú sátum við allir saman í notalegum híbýlum þessarar flugstöðvar á norðurhjara með viskíglös í höndum og röbbuðum um Grænland á fjórum tungumálum.  Flugstöðvarstjórinn og verzlunarfulltrúinn á dönsku, áhöfn flugvélarinnar íslenzku, við Erich þýzku og svo töluðum við allir saman á ensku.  Gamlar minningar voru rifjaðar upp og talað um sameiginlega vini og kunningja.

„Hvað er að frétta af flugkappanum frá Meistaravík?” spurði ég.

„Hann fórst,” sagði Hansen flugstöðvarstjóri dapurri röddu.

„Það hlaut svo að fara.  Það er ekki hægt að storka forlögunum endalaust,” sagði Erich, sem hafði oft flogið með honum.

Það var rétt, að „flugkappinn”, eins og hann var nefndur á austurströndinni, hafði oft hætt lífi sínu við glæfralegar aðstæður.  Á hverju vori flaug hann tveggja hreyfla flugvélinni sinni frá Danmörku til Grænlands og til baka að hausti.  Flugþol hennar var ekki nægilegt fyrir svona langt flug, svo að hann tók aukaeldsneyti með sér í tunnum.  Síðan dældi flugvirkinn hans því út í geymana með handdælu á leiðinni.

„Flugvirkinn dælir og ég flýg.  Ef hann fer í verkfall, er úti um okkur,” hafði hann sagt við mig, þegar ég sat við hlið hans í flugvélinni og spurði hann um flugmannslífið.  Þetta var eitt af algengum tilsvörum hans og alls ekki hið kjarnyrtasta.

Það var komið miðnætti, þegar við slitum samkvæminu og buðum góða nótt.  Áður en við skildum var afráðið, að ég flygi með til Danmarkshavn sem einn af áhöfninni.

„Mig vantar hvort sem er einhvern til aðstoðar við fermingu og affermingu, svo að allt gangi sem fljótast fyrir sig.  Þú ert einmitt rétti maðurinn til þess,” sagði Kaysfeld.

„Þú skalt vera tilbúinn til brottfarar hvenær sem er, því að við förum um leið og veður leyfir,” sagði Henning að skilnaði.

Morguninn eftir spurði ég hann fyrstra orða við morgunverðarborðið:  „Hvernig er útlitið?  Er veðrið hagstætt?”

„Nei, því miður.  Það er lágskýjað og snjókoma í Danmarkshavn.”

Það má einu gilda fyrir mig.  Þá bætist bara einn dagur við dvöl mina í Grænlandi.”  Svo snéri ég mér að Erich og spurði:  „Hvað ætlar þú að gera í dag?”

„Ég þarf að fara upp í námu.  Kemurðu með?”

„Auðvitað.  Hvenær?”

„Strax eftir morgunverð.  Komdu út á flugbraut.  Snjóbíllinn er þar.  Ég þarf að sinna dálitlu áður en ég fer.”

Ég mundi, að námuþorpið, sem er í tíu kílómetra fjarlægð frá flugvellinum, uppi í fjöllum, var orðið mjög hrörlegt og niðurnítt.  Fyrir 12 árum fékk ég lánaðan jeppa og ók þangað.  Braggaþorpið og vinnutækin, bárujárnið og timburdraslið vöktu litla hrifningu með mér.  Eftir kyrrðina allt sumarið í Staunings-Ölpunum voru öll mannvirkin, ysinn og vélagnýrinn frá vörubílum og lofthömrum eins fjarri huga mínum og skáldsögur Jules Verne.

Ég vissi vel, að handan næsta fjalls var náttúran eins óspillt og friðsæl og hún var á degi sköpunarinnar.  Samt felldi ég mig ekki við þessi mannanna verk á ásjónu landsins.  Húsin og ruslahaugarnir með slitnum stígvélum, dælduðum ílátum, hjólbörðum og öðrum úrgangi stungu illa í stúf við fegurð umhverfisins.  Þetta voru aðskotahlutir, sem áttu ekki heima hér.

Mér lék forvitni á að sjá, hvernig umhorfs væri þar tólf árum síðar.  Ég sat í framsæti snjóbílsins, sem valt yfir stokka og steina eins og skriðdreki.  Vegurinn sást óljóst á nokkrum stöðum, svo Erich ók að mestu beint af augum.  Landslagið rifjaðist upp fyrir mér.  Þarna framundan var þorpið og námugöngin í hlíðinni fyrir ofan.  Drunurnar í bílnum endurómuðu frá tómum bröggunum og ég mundi, hve þjakandi áhrif þorpið hafði haft á mig, þótt það iðaði af lífi.

Núna fannst mér allt miklu ömurlegra.  Eina gatan var hulin þykkum snjó, hurðir læstar með slagbröndum, gluggar negldir aftur, nokkrir kofanna fullir af snjó, allt autt og yfirgefið og ofurselt eyðingaröflunum.  Yfirgefinn gullgrafarabyggð í Alaska hefði litið út eins og höll í samanburði við þetta.

Einu lífsmerkin voru refaspor milli kofanna.  Lágfótu yrði ekki vel til veiði hér.  Sú tilfinning læddist að mér, að vélarnar, sem mennirnir stjórnuðu hérna, hefðu einhvern veginn snúizt gegn þeim og grandað.  Vitjunartími þeirra var nú runninn upp.  Það svaraði ekki kostnaði að flytja tækin brott, svo að nú varð allt ryði að bráð.  Ég var dauðfeginn, þegar við snérum baki við þessu sálarlausa draugaþorpi.  Á leiðinni varð mér hugsað til fjölbreytni lífsins í Scoresbysundi.  Þar ómaði allt af glaðværum barnahlátrum, masi kvenna og hundagelti.

Þegar við nálguðumst flugvöllinn í hálfrökkrinu, heyrðum við hreyfla flugvélarinnar ræsta og sáum Hansen og Henning á tali og flugvélstjórann í stjórnklefanum.  Við ókum bein til þeirra og spurðum, hvert ferðinni væri heitið.

„Við ætlum að fljúga til Ellaeyjar til að sækja tvo starfsmenn danska sjónvarpsins.  Viltu koma með?”

Það þurfti ekki að spyrja mig tvisvar.  Svona ævintýri buðust ekki á hverjum degi.  Flug í rökkri og dumbungsveðri hlaut að vera spennandi.

Traust mitt á Henning var óbilandi.  Ég hefði flogið með honum á heimsenda.

Tveir jeppar óku eftir flugbrautinni til að kveikja á olíuljósunum meðfram henni á meðan við mösuðum og biðum þess, að hreyflarnir hitnuðu.  Logar ljóskerjanna flöktu í vindinum og hlýleg birtan léði umhverfinu óraunverulegan blæ.

Er við hófum flugtak, þutu ljósin hjá með auknum hraða og urðu að einni samfelldri eldlínu, þar til þau hurfu aftur fyrir okkur.

Við sáum útlínur Traill-eyjar í um það bil 20 kílómetra fjarlægð til hægri og til vinstri opnaðist Segelselskabets-fjörður.  Við flugum fyrir mynni hans og fylgdum síðan snarbrattri strönd Lyellslands í miðjum hlíðum.  Skömmu síðar sveigðum við til norðvesturs inn í Náhvalssund.  Einhvers staðar hérna á þröngum firðinum biðu okkar tveir hundasleðar.

Hansen og ég stóðum frammi í stjórnklefa, bak við Henning og vélstjórann, og störðum spenntir út í leit að einhverju lífsmarki á ísnum en sáum ekkert.  Þykk lágþoka birgði sýn.  Skyndilega sáum við ljós frá skæru blysi í gegnum þokuna.  Þeir höfðu heyrt til okkar og gáfu okkur ljósmerki.  Þarna biðu þeir og yrðu harla vonsviknir, ef við lentum ekki.

Henning dró úr vélaraflinu og flaug lágt yfir bjarmann í þokunni.  Síðan flugum við út fjörðinn.  Hvað stóð til?  Ætlaði hann að lenda?  Óþreyjufull þögn ríkti í stjórnklefanum.  Enginn mælti orð.

Eftir dágóða stund sagði Henning:  „Ég ætla að reyna að lenda.  Viljið þið vera svo vænir að setjast og spenna beltin.”

Við hlýddum umyrðalaust og forum aftur í.

Flugvélin beygði bratt til vinstri og sveif svo inn fjörðinn aftur.  Ég reyndi að lesa í svip Hansens.  Hvaða álit hafði hann sem reyndari aðilinn á lendingarskilyrðunum?  Hann virtist sallarólegur.

Ég fann fyrir þörf til að segja eitthvað, svo að minna bæri á taugaóstyrk mínum:  „Þetta hlýtur að blessast, ef engir ísjakar verða á vegi okkar, ekki satt?”

„Sleðasveitin hefur örugglega valið okkur góða braut þarna niðri,” sagði Hansen róandi.

Skyndilega tók fyrir alla útsýn úr vélinni og á næsta andartaki skall hún tvisvar harkalega niður á hjólin, svo ég hékk eins og mjölpoki í sætisólunum.

Hansen opnaði dyrnar og við stukkum út.  Rétt á eftir birtust tveir hundasleðar á fleygiferð.  Það urðu fagnaðarfundir.  Komumenn þrýstu hendur okkar og við lá, að hundarnir felldu okkur um koll í gleði sinni.  Þeir voru fallegir, greyin, velaldir og sterklegir.  Eigandinn gat sannarlega verið stoltur af þeim.

Dönsku sleðasveitirnar hafa stöðugt eftirlit með höndum á norðausturströndinni til að gæta réttar dönsku krúnunnar og jafnframt að skrásetja heimildir um þetta óbyggða svæði.

Sjónvarpsmennirnir höfðu fylgzt með þeim og fest líf þeirra  og starf á filmu í vikuferð á sleðunum.

Henning hvatti okkur til hreyfings.  Hann vildi eðlilega komast brott sem allra fyrst.  Við komum farangri farþega okkar fyrir um borð, kvöddum sleðastjórana með handabandi og stigum um borð sjálfir.

Snjórinn þyrlaðist upp í kringum mennina og hundana á ísnum, svo að þeir snéru sér undan og skýldu andlitum sínum.  Danirnir voru komu okkar mjög fegnir.  Þeir voru búnir að fá sig fullsadda af sleðaferðinni.

Hansen, sem hafði verið að spjalla við landa sína, gekk fram í stjórnklefa, dró upp viskípela og sagði:  „Jæja, Henning, nú ætla ég að skála fyrir frammistöðu þinni.  Ég ætla að gera það á þann hátt, sem hefur ekki tíðkast fyrr en hér um borð.  Ég ætla að standa á höfði á meðan.”

Við hinir litum vantrúaðir hver á annan og síðan vorkunnaraugum á Hansen.  Hvers konar karlagrobb var þetta?  En viti menn.  Hann fór úr anoraknum, lagði flöskuna á gólfið og gerði nákvæmlega það, sem hann hafði lofað.

Við klöppuðum honum lof í lófa fyrir sýninguna og drukkum svo saman afganginn af viskíinu, ekki þó með sömu aðferð og Hansen.

Ferðin til baka tók skamma stund og Henning lét flugvélina snerta rétt við brautarendann til að eiga alla brautina upp á að hlaupa.

Enn einn drauma minna hafði rætzt.  Ég hafði lengi óskað mér þess, að fá tækifæri til að fljúga hingað norðureftir áður en ég segði skilið við Grænland.  Ströndin er mjög vogskorin og hálend.  Þröngir firðir liðast milli sæbrattra fjalla og ótal eyjar eru með ströndum fram.

Flugleiðin norður með austurströndinni liggur yfir nokkurs konar einskismannslandi á milli tveggja heima, sem eru líkir að vetri til en alls ólíkir á sumrin.  Hjarnrisinn á aðra hönd og óravíddir Dumbshafsins á hina.  Á sumrin er svæðið, sem við flugum yfir aðlaðandi og hrikafagurt.  Þá er það skrýtt himinbláum, tærum vötnum, vafið gróðri og iðandi af lífi.  Þetta svæði líkist tæpast nokkru öðru á jarðríki.

Þeir eru margir, sem hafa borið beinin í harmleikjum fyrir þessari strönd.  Ísinn hefur malað mörg skip hvalveiðimanna og landkönnuða mélinu smærra.  Áhafnirnar komust oft út á ísinn með einhverjar vistir, en urðu samt að láta í minni pokann, þegar ísjakarnir, sem þær leituðu út á, minnkuðu stöðugt, þar til allir hurfu í hafið.  Oft lifðu skipreka menn mánuðum saman í örvæntingu og vonleysi áður en miskunnarlaus heimskautsveturinn gerði út af við þá.  Margir, sem komust lífs af eftir slíka hrakninga, urðu aldrei samir aftur og sumir misstu vitið.

Annálar herma, að þýzk og ensk skip hafi orðið ísnum að bráð við Shannon-eyju árið 1769 og sokkið með manni og mús.  Aðeins ári síðar hurfu í kringum fimmtíu hollenzkir og þýzkir hvalveiðimenn í hafið á Gael-Hamkes-flóa.  Örfáir komust lífs af eftir fimm mánaða hrakninga á ísjaka, sem rak með þá fyrir suðurodda Grænlands og alla leið norður til Holsteinsborgar á vesturströndinni.  Sama ár fórst enska skipið Guillaume og áhöfn þess rak einnig suður með ísnum.  Grænlendingar björguðu þeim, en þeir komust ekki til Friðriksvonar fyrir en árið eftir.

Svona er hægt að halda áfram allt til okkar daga.

Annar norðurpólsleiðangurinn þýzki undir stjórn Koldewey skipstjóra varð fyrir alvarlegu áfalli árið 1869.  Birgðaskip hans, Hansa, lokaðist  inni í ísnum við Liverpool-ströndina og sökk.  Áhöfnin sá hvert stefndi og kom miklum vistum út á traustan ísjaka, sem þeir bárust á suður með ströndinni í 199 daga.  Spennan og þrýstingurinn í ísnum átu sífellt af jakanum, svo að þeir týndu smám saman megninu af birgðunum, þar til aðeins hið allra nauðsynlegasta var eftir.  Sex menn sváfu í kofa byggðum úr kolapokum en hinir í tveimur bátum, sem þeir spenntu segl yfir.  Þarna þreyjuðu þeir þorrann í afspyrnuveðrum og lifðu í stöðugum ótta.  Þetta álag varð einum þeirra ofraun og hann missti vitið.

Að lokum rak þá á auðan sjó og komust hinn 13. júní 1870 til kristniboðsstöðvarinnar Friðriksdals.  Júlíus Payer, austurrískur þátttakandi, sem var á hinu skipinu, Germaníu, skrifaði um félaga sína á Hansa:  „Ég þekki ekki dæmi þess í sögu Norðurheimsskautsins, að menn hafi sýnt svo aðdáanlegt og ótrúlegt þrek sem áhöfnin á Hansa.  Þýzkir sjómenn mega vera stoltir af Hegemann skipstjóra, sem tókst að halda uppi aga við þessar ógnþrungnu aðstæður.”

Ég sat frammi í stjórnklefa hjá Henning með sérkort af Norðaustur-Grænlandi í hendi.  Við flugum sjónflug og glöggvuðum okkur á kennileitum á ströndinni.  Traill-eyja og eyja Landfræðifélagsins voru að baki.  Svo flugum við fyrir fjörð Franz Josefs keisara og skaginn framundan hlaut að vera Broer-Ruyshöfði.  Ég leitaði staðfestingar hjá Henning, sem kinkaði kolli til samþykkis.

Fyrir 12 árum varð hér slys, svipað þeim, sem lýst er hér að framan.  Norski selveiðarinn Polarbjörn lokaðist inni í ísnum árið 1957 og brotnaði í spón en 23 manna áhöfn hans komst út á ísinn og uggði mjög um sinn hag.

Atburði þessum svipaði mjög til þeirra, sem gerðust áður fyrr við sömu aðstæður, en nú greip tækniþróun síðustu áratuga inn í dæmið.  Neiðarköll skipsins heyrðust víða og komu af stað keðjuverkandi atburðarás.  Skymasterflugvél bandaríska flughersins, sem var stödd syðst í Suðurríkum Bandaríkjanna, fékk boð um að halda tafarlaust til herstöðvarinnar Thule á Norður-Grænlandi.  Þegar þangað kom, var þyrlu komið fyrir um borð og flugvélin flaug áfram yfir jökulinn til Meistaravíkur með farm sinn.  Á meðan þessu fór fram var flugvél á leiðinni frá herstöðinni í Keflavík með aukaeldsneyti fyrir þyrluna.  Hún lagði strax af stað í leitarflugið yfir ísinn fyrir Broe-Ruyshöfða.  Þessar aðgerðir báru tilætlaðan árangur.  Innan sólarhrings frá því, að Polarbjörn sökk, sátu allir skipbrotsmennirnir heilir á húfi í hlýjum vistarverum í Meistaravík.

Þessar björgunaraðgerðir, sem hófust í 7000 kílómetra frá slysstaðnum og var framfylgt með hernaðarlegri nákvæmni, bera ljósan vott um hjálpfýsi á neyðarstund og tækniþróunina hin síðari ár.

Flugmennirnir gerðu ekki mikið úr þessari dáð, þegar við sátum saman í Meistaravík að björgun lokinni og létum í ljós undrun okkar á því, hve allt hafði gengið skipulega og snurðulaust fyrir sig.  Þeir sögðu bara:  „Það tekur því varla að minnast á þetta.  Fyrir okkur var þetta einungis venjulegt flug.”

Nú flugum við lágt yfir Broer-Ruyshöfða og ég leit niður á 1000 metra háa fjallgarðinn.  Júlíus Payer kleif hann fyrstur árið 1870 og uppgötvaði fjörð Franz Josefs keisara.  Útsýnið heillaði hann.

Umhverfi og aðstæður hér hljóta að líta allt öðruvísi út að sumarlagi, þegar skriðjöklar kelfa, tignarlegir borgarísjakar sigla um fagurbláan fjörðinn og dalirnir skrýðast sínu fegursta.  Það eru ótrúlegar andstæður, sem skapast með hjarnfrerann í bakgrunni.  Núna varð ímyndunaraflið að sjá um þá mynd, því að landið, jökullinn og hafið runnu saman í eina samfellda breiðu íss og snævar.  Aðeins einstaka hnúkar og strýtur stóðu upp úr og sýndu, hvar land var undir.  Á sumrin er hér griðland fjölda fugla, sauðnauta og annarra heimsskautsdýra, en nú var allt sem steinrunnið.  Ekkert kvikt að sjá.

Mér var tíðhlustað á dyn hreyflanna og hugsaði til þess með hryllingi, ef við yrðum að nauðlenda.

Þegar við vorum komnir fram hjá Gael-Hamkesflóa, spennti ég sætisólarnar fyrir millilendingu í Daneborg.  Þar er dönsk veðurstöð á Wollastoehöfða.  Ég margreyndi beltið.  Það var bezt að vera við öllu búinn.

„Sérðu, þarna er Daneborg,” sagði Henning og benti á flata ströndina, þar sem nokkrir ógreinilegir og dreifðir, dökkir dílar sáust.  Húsin skáru sig svo lítið úr landslaginu, að þau hefðu allt eins getað verið klettar.

Við lækkuðum flugið og hringsóluðum yfir stöðinni og ísnum í leit að hentugum lendingarstað.  Hér var ísinn alls óhæfur til lendingar.  Ójöfn íshellan lá upp að ströndinni og vestar var hún líkust apalhrauni.  Þá sáum við reykjarmökk stíga til himins vestan við stöðina, upp úr smáfirði, sem líktist helzt gljúfri frá okkur séð.  Þetta merki hlaut að vera okkur ætlað.

Stefnan var tekin að þröngu fjarðarmynninu og við vorum ekki fyrr komnir á milli brattra hlíðanna en ókyrrðin í loftinu hristi flugvélina óþyrmilega.  Henning greip þéttar um stjórnvölinn báðum höndum og barðist við loftstraumana, sem virtust magnast milli fjallanna.  Það var engu líkara en hann héldi um hornin á óðu, mannýgu nauti og reyndi að snúa hann niður.  Vélin titraði og steypti stömpum, þeyttist upp og niður, vængirnir blöktu líkt og á fugli og vögguðu til og frá.

Ég leit á Henning.  Hann sat með uppbrettar ermar og var einbeitnin uppmáluð.  Hvort skyldi gerast fyrr, að honum tækist að lenda eða við skyllum á öðrum hvorum hamraveggnum?  Ég sat alveg aðgerðarlaus og gat ekkert gert.  Mikið fann ég til vanmáttar míns.

Lendingin tókst með ágætum, þrátt fyrir erfiðar aðstæður.  Kaysfeld og ég affermdum vistirnar og réttum póst og pinkla út um dyrnar.  Starfsmenn stöðvarinnar tóku við þeim og hlóðu á hundasleða.  Að loknum nokkrum formsatriðum og undirskriftum var þessari skyndiheimsókn lokið.  Það gafst enginn tími til orðaskipta, áfram skyldi haldið.  Mér fannst þeir, sem tóku á móti okkur, fámálgir og ekki kæra sig um óþarfar málalengingar.  Við kvöddum og lokuðum dyrunum.

Hreyflarnir drundu á ný og brátt hófst sami darraðardansinn og í aðfluginu.  Nú var spurningin sú, hvort okkur tækist að hækka flugið eða steyptumst niður aftur.  Henning var ekki fisjað saman.  Hann kofsvitnaði við átökin og við hengum ýmist í ólunum eða þrýstumst niður í sætin af ógnarkrafti.  Himinn og jörð runnu saman fyrir augum mínum, en við hækkuðu flugið jafnt og þétt þar til við svifum upp úr þessum nornapotti.

Vélstjórinn sat við hlið Hennings á meðan á sviptingunum stóð, en kom svo til mín og bauð mér sæti sitt.  Hann vissi, hversu áhugasamur ég var um að missa ekki af neinu, sem bæri fyrir augu.  Henning sagði mér, að hann hefði oft áður komizt í kast við þessa sviptivinda í firðinum.  Hann mjókkaði því meir, sem utar dró.  Þegar vindur stóð af landi, magnaðist hann, er nær dró fjarðarmynninu og olli þessari hættulegu ókyrrð.

Beint út af Wallstonhöfða er Sabine-eyja.  Sundið milli hennar og lands er svo mjótt, að erfitt er að sjá, að um eyju er að ræða.  Þarna hafði annar þýzki pólleiðangurinn vetursetu.  Tvö skip lögðu upp frá Bremerhafen, leiðangursskipið Germanía og birgðaskipið Hansa.  Þau komu að ísjaðrinum hinn 15. júlí 1869 og hrakti síðan hvort frá öðru hinn 20. júlí.  Hansa mætti örlögum sínum, en Germanía komst í gegn og varpaði akkerum í lítilli vík sunnan við eyna.

Við vorum komnir fram hjá Sabine-eyju og stefndum út á hafísinn.  Ég leit til baka og gat ekki slitið hugann frá Koldewey skipstjóra og Júlíusi Payer.  Þeir hófu leiðangur sinn vorið 1870.  Þar eð þeir höfðu enga sleðahunda, urðu þeir að draga sleðana sjálfir.  Payer skrifaði síðar ferðalýsingu og segir þar:  „Það er ekki djúpt í árinni tekið að segja, að sleðadráttur hafi verið erfiður.  Við stundum undan farginu við hvert fótmál, en streittumst samt við.  Dante hefði tæpast fengið raunsannari hugmynd um píslar vítis en það, sem við máttum reyna.”  Eftir tuttuguogþriggja daga ferð komu þeir til Germaníulands við Bismarckhöfða og komust yfir 77. breiddarbauginn.  Enginn hafði fyrr komizt svo norðarlega á þessari strönd á undan þeim.  Þá var ljóst, að vistirnar hrykkju ekki til lengri ferðar, þeir létu skynsemina ráða og snéru við.  Áður en þeir gerðu það, drógu þeir norður-þýzka og austurríska fána að húni til staðfestingar komu sinnar.

Ferðin til baka til Sabine-eyjar var ekki síður erfið.  Þeir urðu að halda kyrru fyrir svo dögum skipti í stórhríðum, svo að hungrið fór að sverfa að.  Hrátt sauðnautakjöt olli þeim krampa og uppsölum.  Sljóleika fór að gæta meðal þeirra og hann magnaðist svo, að þeir hættu að lokum að greina milli svefns og vöku.  Þegar stanzað var, hnigu þeir strax steinsofandi niður í snjóinn.

Þannig lýsir Júlíus Payer ferðinni til baka.  Þegar þessi bók kom fyrir almenningssjónir, voru liðin 99 ár frá atburðunum, sem gerðust á Dove-flóa, milli Koldewey-eyjar og meginlandsins.

Annar þýzki leiðangurinn á þakkir skyldar fyrir að víkka landfræðilega sjónvídd okkar, þrátt fyrir að hvalveiðimenn og aðrir ofurhugar hafi uppgötvarð austurströndina fyrr á öldum.  Afrek þýzku pólfaranna liggja í því að komast lengst norður og fundi landa Wilhelms keisara og Franz Josefs og Týrólfjarðar.  Auk þess staðfestu þeir tilvist sauðnauta á Norðaustur-Grænlandi.

Klukkan í mælaborðinu var 12 á miðnætti.  Sólaruppkoman roðaði norðurhimininn og kyssti fjallatindana, svo að þeir virtust loga.  Spaðar flugvélarinnar tóku á sig gullinn blæ.  Fyrir sunnan okkur ríkti myrkrið enn þá og fölur máninn skein á purpurabláum næturhimni.

„Þarna eru sauðnaut,” hrópaði Henning, benti niður, sveigði vélina til vinstri og flaug í hringi til að lækka flugið.  Nú sá ég þau líka.  Þarna stóðu átta dýr í hnapp á ísnum.  Þau höfðu tekið sér varnarstöðu, kýrnar og kjálfarnir að baki törfunum.  Fjær voru í kringum fimmtán í viðbót á beit.  Henning hætti við að lækka flugið meira til að trufla þau ekki að nauðsynjalausu og beindi vélinni aftur í rétta stefnu norður.

Sólin var öll komin upp fyrir sjónarrönd.  Gullroðinn borgarís varpaði löngum skuggum út á ísbreiðuna.  Við flugum lágt fyrir yfir þessa dýrð, því stutt var til lendingar.

Tíu mínútum síðar komu við að lágri strandlengju, þar sem stóðu nokkur hús, hálfhulinn snjó, og fjarskiptamastur.  Þetta var Danmarkshavn.  Eftir hefðbundið hringflug lenti Henning flugvélinni með hliðsjón af flaggmerkjum, sem hafði verið komið fyrir á ísnum.

Ég stökk út og svipaðist um.  Ekkert nema ís og snjór og þessi húsaþyrping umhverfis mastrið á ströndinni í fjarska.  Svo þetta var þá nyrzta veðurstöðin á austurströndinni að Station North (Norðurstöð) frátaldinni, en hún er á 81. gráðu norður og fær birgðir frá Thule.  Í Danmarkshavn bjuggu 12 menn, sem önnuðust skyldustörf sín af stakri aðúð dag og nótt árið um kring.  Þegar einvera og myrkur bera hugann ofurliði, ganga menn stundum einir út og taka upp eintal við stjörnurnar, tunglið og ástvini heima.

Ég er ekki málgefinn maður að eðlisfari og virði óskir manna um þögn, ef þannig stendur á.  Samt brunnu margar spurningar á vörum mér, auk þess sem ég trúði ekki öðru en að mennirnir hérna gripu fegins hendi tækifæri til að tala við langt að komna gesti.  Því spurði ég þá eins og annars og reyndi að fá þá til að ræða örlítið við mig.  Allt kom fyrir ekki.  Það var eins og þeir hefðu gleymt til hvers talfærin eru notuð.  Hér var ekkert óþarft mas.  Þeir líktust landslaginu, voru eins orðfáir og það var eyðilegt.  Einveran hafði sett mark sitt á þá.  Það var engu líkara en heimsókn okkar væri óþægileg röskun á högum þeirra og þeir hlökkuðu mest til brottfarar okkar.

Strax að lokinni affermingu lögðum við af stað og flugum beinustu leið til Meistaravíkur.  Þar stöldruðum við örlítið við á meðan geymar vélarinnar voru fylltir af eldsneyti og við komum farangri okkar fyrir um borð.  Svo var lagt af stað í síðasta áfangann til Reykjavíkur.

Henning flaug nokkra krappa hringi yfir flugvellinum að skilnaði.  Ég hafði myndavélina í skotstöðu en gat ekki smellt af vegna þess, hve ég þrýstist af miklu afli niður í sætið.  Mér leið eins og ég væri lamaður.  Það var ekki ofsögum sagt, að Henning var flugmaður af lífi og sál.  Hérna, langt utan reglubundinna flugleiða, gat hann gefið listfluginu lausan tauminn.

Að þessu loknu flugum við með löndum í suðurátt.  Vogskorin Liverpool-ströndin leið hjá og óravíddir Scoresbysunds opnuðust til vesturs.  Að baki hurfu hæstu tindar Grænlands.


.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM