Grænlandsvetur inngangur,

ÁTTUNDI KAFLI

GRÆNLANDSVETUR
eftir Mattias Koglbauer
Á hundasleðum um heimsskautssvæði


SJÖUNDI KAFLI
VORBOÐINN

.

.

Utanríkisrnt.


nat.is

Nú fór að líða að lokum dvalar minnar í Grænlandi.  Flugvélin var væntanleg einhvern næstu daga, svo að mér var ekki fært að fara í fleiri veiðiferðir.

Það var ekki margra kosta völ, ef ég missti af henni.  Þá yrði ég að bíða fyrstu skipa um sumarið.  Aðrar samgöngur við umheiminn stóðu ekki til boða.  Ég verð að játa, að ég hugleiddi alvarlega að missa af flugvélinni.  Mér hefði ekki verið á móti skapi að dvelja þrjá mánuði í viðbót.  Vetur konungur var á förum og bráðum kæmi vorið.  Það var mjög freistandi að bíða þess.

Mér var helzt í sinni að fá Jakob til að koma með mér til Rathbone-eyjar og láta flugvélina lönd og leið.  Þá gæti ég dvalið hér næstu þrjá mánuðu án þess að nokkur kæmist að því, að ég hefði misst vísvitandi af heimfluginu.  Ég gæti sagzt hafa teppzt vegna veðurs, snúið mig á fæti eða orðið fyrir einhverjum skakkaföllum.  Mikið væri gaman að sjá ísinn ryðjast út úr firðinum og öll undur heimskautsvorsins.

Hugarheimur okkar er undarlegur.  Voru þetta ekki skyldaf tilfinningar þeim, sem höfðu næstum snúið mér aftur um borð í flugvélina, þegar ég lenti hér fyrir tveimur mánuðum?  Þá hafði ég hunzað þessar raddir og mundi gera hið sama nú.  Ég var barn siðmenningarinnar og yrði að lúta reglum hennar.  Þeirra á meðal eru stundvísi og samvizkusemi.  Samkvæmt því yrði ég að snúa baki við Grænlandi á tilsettum tíma, þrátt fyrir allar freistingar.

Vorið er talið fegursta árstíðin í Grænlandi.  Það gat ekki liðið á löngu þar til það héldi innreið sína.  Landið var enn þá hjúpað hvítri hulu vetrarins, en það mátti greina smávægilegar breytingar dag frá degi.  Á hnjúknum ofan skíðabrekkunnar sá ég dvergvíði stinga fyrstu sprotum sínum upp úr snjónum.  Snæbreiðan í þorpinu varð skítugri með hverjum deginum, sem leið, og ruslið í kringum kofana kom í ljós.  Snjórinn virtist gufa upp í þurru og köldu loftinu í stað þess að bráðna.
Loftið, himinninn og sjóndeildarhringurinn virtust taka mestum breytingum og vera óskeikulustu vorboðarnir.  Himinninn varð blárri og loftið tærara, svo að nú var hægt að sjá Brewsterhöfða og suðurfjöllin greinilega frá Scoresbysundi.

Mér fannst ég líka heyra vingjarnlegri tón í hlátri stúlknanna.  Allan veturinn hörðu þær skotizt kappklæddar og torkennilegar um þorpið.  Nú voru þær léttklæddari og undu sér lengur úti við.  Þær glettust við piltana og sendu þeim tvíræðar augnagotur.  Allt þetta aukna lífsmark var aðeins vísbending um meiri viðburð – vorið sjálft.

Fyrsti sanni vorboðinn sat  morgunn einn á þaki búðarholunnar.  Það var lítil sólskríkja, síkvik og vör um sig á mæninum.  Hún flögraði milli húsþakanna, söng, snyrti fjaðrirnar og var merkileg með sig eins og hún vissi hvílíka gleði hún vakti í þorpinu.

Allir, sem komu í búðina, drápu við fæti fyrir utan, fylgdust með fuglinum um stund og hugsuðu með sér, að nú væri vorið á næstu grösum.  Börnin, sem engu kviku eirðu á sumrin, voru líka yfir sig hrifin.  Þau komu hlaupandi til mín og bentu mér uppveðruð á litla hnoðrann á húsþakinu.

Sólskríkjan litla var ekki lengi ein.  Sama dag dreif fugla að úr öllum áttum.  Þorpið iðaði af nýju lífi og loftið ómaði af söng þeirra.

Það var ekki þar með sagt, að vorið væri komið.  Þó var mikill munur að þola 15 gráðu frost í stað 45, sem ég hafði þegar reynt.  Þessa daga gekk ég um í peysu einni hlífðarfata og varð að gæta þess að kófsvitna ekki, ef ég tók til hendinni eða prílaði í brekkunum í kring.

Nú var flugvélarinnar að vænta á hverri stundu.  Þrisvar höfðum við fengið fréttir af brottför hennar frá Reykjavík og sleðalestin gat haldið út á ísinn til móts við hana, en ekki haft erindi sem erfiði.  Litlu munaði í gær, að hún lenti.  Veðrið var gott framan af degi, svo að lagt var af stað frá Reykjavík, en á meðan hún var á leiðinni valt skýjabakki niður af hálendinu.  Við stóðum þarna í kófinu og heyrðum í henni fyrir ofan okkur.  Það var ógerlegt að lenda við þessar aðstæður og hún snéri til við.  Við héldum heimleiðis í snjódrífunni, sem svæfði í bili allar frekari hugsanir um vorkomuna.

Jafnvel hundarnir voru niðurdregnir.

Veturinn kom aftur eins og hendi væri veifað.  Dvergvíðissprotarnir hurfu undir snjó og sólskríkjurnar flugu brott.  Ungu stúlkurnar virtust hinar einu, sem misstu ekki móðinn.  Þær stóðu í smáhópum í búðinni, dörðuðu við strákana og skræktu, þegar þeir gerðust of nærgöngulir.

Ég var líka löngum stundum í búðinni.  Hún er miðpunktur þorpsins á veturna.  Þar er hlýtt og menn geta rætt málin yfir gosflösku.  Þegar ég var þar sem einn og hafði engan til að ræða við, notaði ég tímann til að grúska í bókahillunum.  Þar kenndi margra grasa.  Þar fann ég Everestbók Sir John Hunts, Madame Curie, Odysseif, Kon Tiki Heyerdahls og Þúsund og eina nótt.  Þessar bækur voru allar á grænlenzku.  Þarna var líka elzta dagblað Grænlands, Atuagagdliutit, Grænlandspósturinn.  Á forsíðu hans stóð:  „Godthaab uikiut 109 iat,” 109. árgangur. Blaðið hóf göngu sína í Godthaab 1861 og hefur komið reglulega út síðan, bæði á dönsku og grænlenzku.  Það var 23 árum eldra en uppgötnvun byggðanna á austurströndinni.  Það kom mér til að hugleiða, hve stutt er síðan þetta fólk, sem ég bjó hjá, lifði steinaldarlífi.  Það er varla meira en einn mannsaldur síðan.

Ég blaðaði í nokkrum eintökum Grænlandspóstsins og gat aðeins stautað mig fram úr nokkrum dönskum orðum, en grænlenzkan var mér ofviða.  Mér gekk langbezt að skilja myndir, teikningar og auglýsingar.  Það var auðséð á þeim, að vöruframboð á vesturströndinni var gjörólíkt því, sem íbúarnir hérna megin fjalla áttu að venjast.  Allt milli himins og jarðar var auglýst:  Bátavélar, saumavélar, tannkrem, snyrtivörur, danskir ostar og amerískt tyggigúmmí.  Það var eins og lélegur brandari að sjá kæliskápa auglýsta, en staðreyndin er sú, að þeir eru mikið notaðir á vesturströndinni.  Þarna kom bersýnilega fram, hve ólíkir heimar eru vestan og austan fjalls.

Ég stakk blöðunum undir handlegginn og gekk að kassanum.  Dökkhærða, skáeygða konan handan borðsins brosti, þegar hún sá blöðin, því að hún vissi, að ég skildi hvorki dönsku né grænlenzku.  Hún mundi sjálfsagt eftir því, hve illa mér gekk að tala við hana á leiðinni frá Danmörku til Scoresbysunds frá Thala Dan fyrir tveimur arum.  Þá var hún að koma úr skólavist í Kaupmannahöfn.  Núna var hún gift og ráðsett kona.  Hún hafði gefið verzlunarmanni í búðinni jáyrði sitt.

Þau létu gefa sig saman í kirkjunni, bæði klædd grænlenzkum þjóðbúningum.  Brúðurin var í hvítum selskinnskamikkum með dökkri líningu, selskinnsbuxum og rósrauðum upphlut, skreyttum glerperlum.  Brúðguminn var í dökkum kamikkum, selskinnsbuxum og mjallhvítum baðmullaranorak.  Þau líktust fremur fermingarbörnum en brúðhjónum.

Ég greiddi blöðin og reyndi að segja henni, að ég væri á förum til Danmerkur og Austurríkis.  Svo kvaddi ég hana brosandi með orðunum:  „infudluarit Thala Dan,” „sjáumst aftur í Thala Dan.”

„Imera,” „ef til vill,” svaraði hún með tvíræðu brosi og leit vandræðalega til eiginmanns sins, sem var hinum megin í búðinni.

Á leiðinni heim hitti ég Kristján.  „Kuta, Kristján,” sagði ég og sýndi honum rispaðar og plástraðar hendur mínar.  Hann horfði á þær hryggur á svip.  ”Lille Nanoq,” sagði ég.  Þegar hann heyrði, hverjir voru valdir að sárum mínum, veltist hann um af hlátri.  Hann hló, svo að tárin streymdu niður kinnarnar, og stundi upp einhverjum ráðleggingum á milli rokanna.  Ég skildi ekki orð, og þegar hann sá spurnarsvipinn á andliti mínu, sýndi hann mér með handapati, að ég ætti að slá frá mér.

Já, þú getur hlegið, Kristján.  Þú ert vanur að umgangast þessi óargadýr.  Hvernig átti ég að geta refsað þeim eins og óknyttastrákum?  Ég vorkenndi þessum litlu, hvítu hnoðrunum, sem Elsner hafði takið að sér fyrir nokkrum dögum.

Kristján hafði komið tveimur húnum í fóstur hjá Elsner, þar sð hann hafði ekkert pláss fyrir þá heima hjá sér.  Þessi fallegu villtu gestir kunnu sig ekki meðal manna og vörðust með kjafti og klóm, ef einhver gerði sér of dælt við þá.  Þeir þömbuðu þurrmjólk í lítratali og voru blíðir rétt á meðan þeim var gefið, en á næsta andartaki breyttust þeir í villidýr, sem gerðu kvenfólkið skelfingu lostið.  Þeir skildu alls ekki, að okkur langaði að sýna þeim blíðuhót, strjúka hvítu, mjúku feldina þeirra, án þess að þurfa að leita læknis á eftir.  Ég ákvað að fara að ráðum Kristjáns.

Ég opnaði dyrnar að herberginu, sem þeir voru geymdir í, hægt og varlega.  „Jæja, hvað hafið þið  gert af ykkur núna, óhemjurnar ykkar?”  Þeir lágu samanhnipraðir í einu horninu, ósköp sakleysislegir á að líta og minntu einna helzt á ullarhrúgu.  Þeir voru grafkyrrir, en höfðu ekki af mér augun.  Þegar ég færði mig skrefi nær, hvæstu þeir grimmilega.  Það var ofur skiljanlegt, að tveir litlir húnar, sem höfðu misst móður sína, mætu okkur ekki mikils.  Eins dauði er annars brauð.  Kristján átti ekki annars kost en að skjóta birnuna, ella hefði hún orðið honum að bana.  Litlu skinning vissu ekki, að frumskógarlögmálin giltu á þessum slóðum.  Kristján vissi heldur ekki af þeim í vetrarhíði í grenndinni fyrr en síðar.

„Við skulum vera vinir.  Ég vil ykkur ekkert illt.”  Svona talaði ég lágum og blíðum rómi við húnana.  „Elsner mun fóðra ykkur þar til þið verðið stórir.  Þið munuð brátt venjast honum.  Kristján ætlar að sjá ykkur fyrir góðri fóstru.  Hann ætlar að gefa Margréti prinsessu ykkur.  Þið verðið sendir í dýragarðinn í Kaupmannahöfn, svo að þið gangið ekki kaupum og sölum.”

„Þið fáið far með fyrsta skipi til Danmerkur og verðið börnum og fullorðnum til gleði í dýragarðinum.  Þar eru líka fleiri ættingjar ykkar héðan, sem þið getið leikið við.  Þið munuð líka komast að því, að mennirnir eru ekki eins slæmir og þið haldið núna.”

„Svona nú, færið þið ykkur, svo að ég geti tekið tómu skálina.  Verið þið ekki að þessu hvæsi.  Ef móðir ykkar væri á lífi, mundi hún velgja ykkur undir uggum eins og Kristján sagði mér að gera.”

Þetta voru nú meiri ærlabelgirnir, ósvífnir og villtir.  Þeim var líklega meiri alvara en gázki í huga.  Eða þekktu þeir ef til vill ekki mun á alvöru og leik?
Annar húnninn gerði sig líklegan til árásar og hélt athygli minni, svo að ég gaf hinum ekki gaum á meðan.  Hann notaði tækifærið, læddist aftan að mér og beit mig í kálfann.

„Fjandinn hirði ykkur.  Eru þetta þakkirnar fyrir matinn?”

Elsner birtist í gættinni.  „Elsner, ég held, að bezt sé að geyma þessa gallagripi í búri, annars leggja þeir allt í rúst.  Svo er heldur ekki víst, að nóg sé til af plástri og sáraumbúðum í þorpinu til að láta þá ganga lausa.”

Næsta dag léku þeir listir sínar í búri bak við húsið börnunum til óblandinnar ánægju.  Þeir ólmuðust og veltu sér í snjónum, grófu holur og gusuðu snjó hvor á annan.  Svo slógust þeir og léku eins og þeirra er vandi.
Skilnaðarstundin rann upp.

Flugvélin stóð á ísnum.  Umhverfis hana var sægur karlmanna og hunda.  Allir vildu vera viðstaddir síðasta brottflug vetrarins.  Þeir stóðu í smáhópum innan um sleðana, mösuðu, hlógu og reyktu.  Mér fannst þá og finnst enn þá, að ég sé þeim ákaflega skuldbundinn fyrir þessa tveggja mánaða dvöl.  Lífið í þorpinu hefði orðið harla tilbreytingarlaust, ef ég hefði ekki notið vináttu þeirra og umhyggju.  Þeir báru mig svo sem ekki á höndum sér, en voru mér vinir á þann hátt, sem þeim var eðlilegastur og tóku mér sem jafningja.  Því kynntist ég bezt úti á ísnum og í veiðikofunum, þegar á reyndi.  Mér tókst að vinna vináttu þeirra með því að taka þátt í lífi þeirra án fordóma og feimni.  Ósjálfrátt varð ég hluti af hópnum án þess að þykjast vera einhver annar en ég var.  Það hafði sannarlega borgað sig.  Efnisleg gæði færa fólki ekki hina sönnu hamingju.  Hún fæst aðeins með því að njóta líðandi stundar með opnum huga og hreinu hjarta.  Mér varð ljóst við brottförina, að ég hafði hlotið ríkulega umbun.

Ég gekk milli hópanna til að kveðja og reyndi að yfirgnæfa vélardyninn með hinum fáu grænlenzku orðum, sem ér réði yfir.  En orð voru léttvæg og þessir menn voru oftast fámálir.  Við tókumst í hendur, klöppuðum á axlir hvers annars og tókumst vingjarnlega á eins og við gerðum í sleðaferðunum til að halda á okkur hita.

Svo prílaði ég um borð með léttan böggul á baki en mér var þeim mun þyngra um hjartaræturnar.  Var þetta í síðasta skiptið, sem ég nyti hins frjálsa lífs hér í Grænlandi?  Slyppi ég aldrei aftur úr þvingu siðmenningarinnar?

Ég kom mér fyrir í þægilegu sæti.  Mér varð ljóst, að bilið milli lífshátta okkar var breitt.  Þeir yrðu að lifa sínu lífi og ég mínu.  Það var hægt að laumast burtu frá forlögunum um stund, en ekki fyrir full tog allt.  Ég yrði að ljúka ævi minni þar sem hún hófst.  Að nokkrum dögum liðnum mundi Grænlandsdvölin heyra minningunni til og ég færi aftur að kunna að meta kosti gamla lífstílsins.  Börnum siðmenningarinnar í Grænlandi er vistin þar líklega bærilegri vegna þess, að þau hafa ekki brotið allar brýr að baki og geta komizt aftur heim.  Það er líklega bezt þannig.

Hundasleði kom á fleygiferð í átt til okkar.  Krab stökk af honum og kom í gættina í þann mund, er verið var að loka.  „Koglbauer, ég á að færa þér þennan pakka frá börnunum.  Þau tala tæpast um annað en þig og skíðaferðirnar.  Þú ert fyrsti, austurríski skíðakennarinn í Grænlandi.”  Síðan þetta gerðist hafa fimm selstennur skipað heiðurssæti í grænlenzka safninu mínu.  Þær minna mig á þessa yndislegu daga og blessuð börnin í Scoresbysundi.

ÁTTUNDI KAFLI


.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM