Grænlandsvetur inngangur,

SJÖUNDI KAFLI

GRÆNLANDSVETUR
eftir Mattias Koglbauer
Á hundasleðum um heimsskautssvæði


SJÖTTI KAFLI
SKÍÐAKENNSLA

.

.

Utanríkisrnt.


nat.is

Óhætt mun að fullyrða, að orðstír austurrískra skíðamanna og búnaðar þeirra, hefur farið víða.  Samt var ég undrandi, þegar ég heyrði, að hann hefði borizt alla leið til Scoresbysunds.  Nú var það undir mér komið að staðfesta hann.  Kveikjan var barnaboð hjá Elsner.

Eyvindur, sonur hans, varð átta ára og bauð öllum vinum sínum til veizlu.  Nýi, danski kennarinn í þorpinu, herra Krab, kom einnig í stutta heimsókn.  Honum var kunnugt um þjóðerni mitt og spurði því vafningalaust:  „Herra Koglbauer, þér hljótið að vera góður skíðamaður.  Munduð þér ekki vilja kenna börnunum þessa íþrótt”

„Mér væri það sönn ánægja, en mig vantar skíði.”

„Ég á skíði,” sagði Elsner og sótti einhverja forngripi í kompuna sína.  Það voru lagskipt, norsk Östby-Mehr-skíði, sem voru á markaðnum á fjórða tugi aldarinnar.
Ég minntist þess, þegar ég sá svona skíði fyrst.  Það var veturinn 1938, þegar ég var skíðakennari í Davos.  Um það leyti vann Luis Trenker að kvikmynd sinni „Ástarbréf frá Engadin” í Parsenn-fjöllunum.  Vitanlega stóðst ég ekki þá freisingu að fá vinnu við kvikmyndina og lagði kennsluna á hilluna um hríð.  Ég gerðist leikari í skíðaatriðum og aðstoðarmaður við kvikmyndunina.  Walter Riml og Hans Ertl voru samstarfsmenn mínir.  Þeir önnuðust ýmis glæfraatriði í lausamjöllinni, stökk fram af hengjum og húsþökum og fleira.  Oft skall hurð nærri hælum.  Brotin skíði, rifin föt, marblettir og aðrar skrokkskjóður voru daglegt brauð.

Það var á, sem ég kynntist fyrst Östby-Mehr-skíðum.  Luis Trenker átti ein slík og notaði þau sjálfur.  Við hinir vorum afar hrifnir af þeim, þar eð við höfðum aðeins kynnst gegnheilum tréskíðum fram að því.

Daginn eftir amælisveizluna hélt ég af stað upp í brekkurnar fyrir ofan þorpið með halarófu af grænlenzkum börnum.  Sum voru með skíði.  Ég skoðaði þau og sá mér til undrunar, að meðal þeirra voru úrvalsgripir af austurrískri gerð.  Það var hreint ótrúlegt að finna slíka kostagripi á þessum slóðum.  Flest voru börnin samt með heimasmíðuð skíði, svo að þetta var eins og að finna nýja, hraðskreiða bíla meðal hestvagna.

Hefðbundnar kennsluaðferðir dugðu ekki hérna, því að ég skildi ekki stakt orð í grænlenzku.  Auk þess virtust börnin ekki álíta, að þau þyrftu á tilsögn að halda og léku listir sínar af miklu fjöri.  Í brekkunni okkar vorru nokkrir stökkpallar frá náttúrunnar hendi.  Þangað þyrptust þau og ólmuðust.  Þeim óx ásmegin við hverja ferð, juku tilhlaupið og reyndu jafnvel heljarstökk.  Mér rann kalt vatn milli skins og hörunds.  Þau gátu aðeins rennt sér beint af augum og stokkið og lentu síðan eins og verða vildi í snjónum fyrir neðan.

Ég hugsaði til fyrri reynslu minnar við barnakennslu og reyndi að finna einhverja hliðstæðu þess, sem nú var að gerast.  Hið fyrsta, sem ég reyndi að kenna þeim, var að detta rétt til að minnka líkurnar á beinbrotum.  Samt fór hrollur um mig, þegar ég sá hvílíkar byltur þau fengu.  Hér var allt öðruvísi.  Börnin voru miklu baldnari og óstýrilátari.  Sá, sem gat stokkið lengst og snúið sér mest í loftinu, var hetja í hinna augum.  Þau gátu ekki stöðvað sig og brunuðu því hvert á annað með galsa og látum.

Þegar þau höfðu leikið sér um stund, komu þau til mín og vildu fá mig til að stökkva.  Þau stóðu þarna í hóp og hrópuðu:  „Östriger, Östriger” og bentu á stærsta pallinn.

Ég lét sem ég skildi ekki áskorunarorð þeirra.  Mér var fullljóst, að það yrði aðeins til að egna óbilgjarnan, ef ég sýndi yfirburði mina í þessari íþrótt.  Þá kom lítill snáði, tók í hönd mér og leiddi mig að næsta stökkpalli.  Þetta var svo skýr ábending, að ég gat ekki tregðast við lengur.

Þá ákvað ég að snúa þessu öllu upp í grin.  Með handahreyfingum sýndi ég þeim fram á, að þessir pallar væru allt of lágir fyrir mig.  Svo teygði ég úr mér eins og ég gat með skíðastaf í hendi til að sýna þeim, hve hár pallurinn þyrfti að vera fyrir mig.  Því næst benti ég glottandi yfir kirkjuna út á fjörðinn á ísjaka (Iluliaq) í næstum þrjúhundruð metra fjarlægð til að sýna þeim vegalengdina, sem ég stykki.
Þau skildu spaugið og skellihlógu.

Mig langaði til að renna mér nokkrar ferðir í lausasnjónum til að athuga, hvernig ósmurð og stálkantalaus skíðin reyndust.  Ég leit niður á fætur mina.  Þeir voru í gamaldags festingum með ryðguðum hælvírum.  Vaðmálsbuxurnar mínar voru opnar að neðan, svo að snjórinn átti þar greiðan aðgang.  Það var eins og helkaldar hendur læstust um ökkla mina.  Skíðabúnaðurinn, sem ég fékk, þegar ég var kvikmyndastjarna, var skömminni skárri en þessi.

Áhorfendahópurinn niðri við kirkjuna stækkaði óðum.  Allir vildu sjá, hvernig austurríski skíðakappinn spjaraði sig.  Ekkert var fjarri mér en að fara að halda sýningu hérna á hjara veraldar.  Börnin virtust ekki gefa því gaum, þótt ég vandaði mig eins og ég gat í lausasnjónum.  Samt reyndu nokkur hinna áræðnari að leika það eftir mér en misstu stjórn á sér og kollsteyptust í snjónum.  Barnahópurinn leystist upp og þau fóru aftur að stökkva og ólmast sem fyrr.  Aðeins örfáir fullorðnir í áhorfendahópnum klöppuðu mér lof í loaf.

Ég greip til þess ráðs að reyna að leiðbeina þeim, sem mér fannst hæfust, hverju fyrir sig, en hafði ekki erindi sem erfiði.  Þeim fannst greinilega óþarfi að læra þetta.  Næsta tilraun fólst í því, að ég stakk niður no0kkrum stöngum og sýndi þeim svig.  Í fyrstu virtust þau hafa áhuga, renndu sér nokkrum sinnum en gáfust svo upp eftir að hafa dottið nokkrum sinnum.  Þau voru ekki ánægð með árangurinn, en vildu ekki trúa því, að Austurríkismaðurinn stæði þeim framar í þessari íþrótt.  Þau tóku stangirnar til að tryggja, að ekki yrði um meira svig að ræða, brunuðu með þær bak við hól og oft lá við, að þau slösuðust í látunum.

Þannig endaði fyrsta kennslustundin í skíðaíþróttinni hjá mér.  Ég hafði aldrei áður fengið slíka útreið sem skíðakennari.  Það var eins gott að einginn reyndur skíðamaður sá til mín.

Daginn eftir  fór ég aftur á veiðar á hundasleða.  Nokkrum dögum síðar, þegar við komum til baka, voru börnin enn þá að leik í brekkunni á skíðunum sínum.  Ég sá merki þess í snjónum, að nokkur höfðu verið að æfa sig í svigi.  Gat verið, að þau hefðu uppgötvað, að svig væri skemmilegt, eða höfðu þau lagt metnað sinn í að læra það til að standa Austurríkismanninum á sporði?  Það var greinilegt, að þau vildu ekki, að það kæmist í hámæli, því að þau æfðu sig í afskekktum brekkum, þar sem enginn sá til.

Ég lét ófarir fyrstu kennslustundarinnar ekki fá á mig og átti margar ánægjustundir með börnunum.  Meðal annars forum við í gönguferðir á skíðunum og áttum oft í brösum með þennan frumstæða búnað.  Brotin skíði og önnur áföll voru algeng.

Eitt sinn, er við vorum uppi á lágum fjallstindi fyrir ofan þorpið, gerðist kostulegt atvik.  Einn snáðinn reyndi að verkja athygli á hæfileikum sínum.  Hann var í allt of stórum stígvélum og þar að auki á allt of stórum skíðum.  Hann nuddaði nefinu við ermi mína, svo að horinn makaðist um allt andlit hans.  Þegar hann sá, að hann hafði náð athygli minni, renndi hann sér af stað.  Hin börnin stóðu og horfðu á.  Þau voru öll búin að renna sér, nema sá stutti, sem var síðastur.  Nú brunaði hann beint af augum niður bratta hlíðina.

Þetta hlaut að enda með ósköpum.  Kjarkurinn var greinilega þekkingunni yfirsterkari.  Það leið heldur ekki á löngu þar til við sáum hann hverfa í snjóskýi, tvö skíði með áföstum stígvélum svifu hátt í loft upp og brunuðu síðan áfram niður á jafnsléttu.  Snjórinn settist og snáðinn kom í ljós, hóstandi og skirpandi.  Svo þau hann á eftir skíðunum á sokkaleistunum.  Svona getur farið fyrir þeim, sem taka skíðabúnað stóra bróður traustataki.

Þegar við komum til baka síðdegis, var allt þorpið í uppnámi.  Veiðimaðurinn Matthías Bajare frá Vonarhöfða var týndur.  Hann hafði lagt af stað frá Scoresbysundi á sleðanum sínum þessa tuttugu kílómetra ferð, en ekki komið fram.  Eitthvað hlaut að hafa farið úrskeiðis hjá honum.  Hann gat hafa villzt í hríðinni eða fallið í vök.  Mér leið bölvanlega.  Mér fannst ég bera ábyrgð á þessu.  Hann hefði ef til vill ekki lagt í þessa ferð, ef hann hefði ekki kynnzt mér.

Rétt í þann mund, sem hann lagði af stað heim, færði hann mér furðulega trégrímu að gjöf.  Helzt vildi ég aldrei þurfa að horfa á djöfullegt glott skakkmynntrar grímunnar, flatt nefið og skásett augun.  Það var ekki góður siður að bölva öndum og djöflum þessa lands, hvort sem þeir voru í líki vitrana eða grímna.  Eins og til staðfestingar glotti gríman að mér hálftannlausum munni.

Hvaða rugl var þetta?  Átti ég að láta steindauðan viðardrumb frá Síberíu skjóta mér skelk í bringu?

Ég sat þarna í þungum þönkum, þegar dyrnar opnuðust, Elsner kom inn og sagði:  „Við verðum að leita að Bajare.  Vonandi finnum við hann áður en það er of seint.  Viltu koma með?”

„Auðvitað kem ég með.  Hver ætlar að taka mig með sér?”

„Ætli þú verðir ekki með Jakobi Sanimuinak.  Þið eruð góðir vinir og hann á sterka hunda.”

„Ég fer þá með honum, ef hann samþykkir það.”

„Ég skal tala við hann.  Farðu í hlý föt á meðan.  Nóttin verður löng og köld.  Á meðan ætla ég að líta aðeins við á skrifstofunni.  Það gætu hafa borizt einhverjar fréttir.”

Elsner fór og ég tygjaði mig til ferðar.  Mér varð hugsað til samfunda okkar Bajare daginn áður.  Við sátum einmitt við þetta borð, drukkum kaffi og spjölluðum saman, það er að segja hann og Elsner töluðu en ég hlustaði, því að ég skildi ekki stakt orð í grænlenzku.  Um hádegisbil gengum við saman inn í verzlunina, þar sem Bajare keypti sér skothylki, gaskúta og lítið eitt af sælgæti fyrir börnin.  Síðan kvöddumst við og hann stökk á sleðann sinn.  Ég hrópaði á eftir honum:  „Invudluarit Bajare, kujanak, kujanak.”  „Þakka þér og sjáumst síðar, Bajare.”

Veðrið var hryssingslegt.  Það snjóaði og blés og skyggni var afleitt.  Þrátt fyrir það höfðum við engar áhyggjur af honum.  Hann mundi spjara sig á þessar stuttu leið, sem hann þekkti svo vel.  Auk þess gat hann reitt sig á ratvísi hundanna.  Höfðu þeir tapað áttum eða hafði Bajare stýrt þeim afleiðis?  Mér fannst, að þeir ættu að rata heim af eðlisávísun einni saman.

Skyndilega opnuðust dyrnar á ný og Elsner kom inn með kuldanæðing og snjókóf á hælum sér.  „Bajare er kominn fram.  Hann kom til Tóbínhöfða fyrir stundu.”  Guði sé lof, hann er þá á lífi hugsaði ég.  Fréttin fór sem eldur í sinu um þorpið og allir voru þakklátir og glaðir.

Síðar frétti ég, að hann hefði verið villtur í hríðinni alla nóttina úti á firðinum og hefði hlaupið með sleðanum til að halda á sér hita.  Þegar birti, var hann orðinn svo áttavilltur, að það var hrein hending, hvar hann hafnaði.  Hann hefði alveg eins getað stefnt að ísröndinni og horfið í hafið.  Kvöldið eftir komst hann fyrir tilviljun að ströndinni hjá Tóbínhöfða.  Hann mátti teljast heppinn, þótt hann væri kalinn á höndum og í andliti.

SJÖUNDI KAFLI


.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM