Selta.
Yfirborðssjór í Atlantshafi er saltari en í nokkru öðru úthafi
heims og fer upp í allt að 37‰ á breiddargráðunum 20°N-30°N.
Dreifing seltunnar er líka tengd straumakerfinu en þar koma líka
til skjalanna uppgufun og úrkoma.
Seltustigið er mismunandi eftir hafsvæðum, þannig að það
er hæst í Norður-Atlantshafinu að meðaltali, 35,5‰.
Þennan mismun má m.a. rekja til mikillar uppgufunar í Miðjarðarhafinu
og útflæðis mjög salts sjávar frá því, sem viðheldur háu
seltustigi í N.-Atlantshafi. Við
miðbaug er úrkoma talsverð og seltustigið í grennd við 35‰ en á
20°N-25°N og 20°S er uppgufunin miklu meiri en úrkoman, þannig að
seltustigið fer talsvert yfir 37‰.
Þegar norðar dregur, verður úrkoman meiri en uppgufunin og þar
dregur því úr seltunni niður fyrir 34‰.
Straumar koma líka við sögu.
Þeir eru mun áhrifameiri í norðurhluta N.-Atlantshafsins, þar
sem 35‰ saltur sjór berst með straumum til Spitzbergen á 78°N og
Íshafssjór með innan við 34‰ seltu berst suður að 45°N fyrir
ströndum Nýfundnalands. Norðan
40°N liggja jafnseltulínur næstum frá norðri til suðurs en sunnan
45°S liggja þær frá austri til vesturs.
Selta innhafanna, sem tengjast úthafinu, fer líka eftir magni
ferskvatns, sem rennur til þeirra.
Miðjarðarhafið, sem fær tiltölulega lítið ferskvatn
og mikið gufar upp úr, er mjög salt.
Svartahaf og Eystrasalt, sem fá til sín verulegt magn
ferskvatns, eru saltminni. Innri
hluti Botníuflóa milli Svíþjóðar og Finnlands er nærri ferskur.
Efnahagsleg áhrif.
Lífrænar
auðlindir.
Fjölbreyttur og frjósamur lífheimur Atlantshafsins byggist m.a.
á lengd þess frá norðri til suðurs, tiltölulega stórum
landgrunnum, hlutfallslega miklu ferskvatni, sem rennur til þess, og
hringrásarkerfum. Lífheimurinn
byggist að miklu leyti á plöntum (þörungum) og dýrum, sem eiga sér
fáan líkan nema í Kyrrahafi. Mikið
úrval þangtegunda dafnar vel á grunnsævi og landgrunnum, einkum í
Norður-Atlantshafi. Meðal
viðskiptalega mikilvægra þörunga er þangtegundin Laminaria, sem er
ríkt af joði, pottösku og algin, írskur mosi (Chondrus crispus), sem
inniheldur verkjaeyðandi efni (carrageen), og ætar tegundir eins og söl
(Rhodymenia palmate) og „laver” (Porphyra).
Einnig er mikið af flóaþara (Sargassum natans) í Sargassóhafi,
sem er heimkynni fjölda skeldýra- og fisktegunda, sem ella finnast á
strandsvæðum, og hrygingarsvæði efrópskra ferskvatnsálsins
(Anguilla).
Uppstreymissvæði
næringarríks djúpsjávar, einkum fyrir ströndum Vestur-Afríku, á
Grand Bank-svæðinu við Nýfundnaland og umhverfis Ísland og fyrir
ströndum suðaustanverðrar Suður-Ameríku og Suður-Afríku, eru rík
af svifi, sem er uppistaða lífkeðju fisktegunda.
Auðugustu svifsvæði heims eru í Norður-Atlantshafi.
Svifframleiðsla er tiltölulega jöfn á miðbaugssvæðunum
allt árið en þegar norðar dregur fer hún æ meira eftir sólskinsstundum
og er því langmest á sumrin.
Atlantshafið
er heimkynni fjölda svampategunda, anemóna, krabba, skeldýra og sjóskjaldbakna.
Kóralrif eru aðallega í Karíbahafi og jafnast á engan hátt
við þau, sem finnast í Kyrrahafinu hvað fjölbreytni dýralífs varðar.
Sjávarspendýr í hitabeltinu eru aðallega höfrungar og sífækkandi
manatí og vöðuselur í norðvesturhlutanum.
Hvalir halda sig aðallega á kaldtempruðum og heimsskautasvæðum
Suður-Atlantshafsins og margar tegundir færa sig nær miðbaug til að
fæða afkvæmi sín.
Fiskveiðar.
Helstu fiskimið Atlantshafsins (rúmlega helmingur slíkra í
heiminum) hafa löngum verið hin ríkustu og mest nýttu í öllum úthöfunum.
Margar fisktegundir hafa verið nýttar til hins ítrasta í
langan tíma og margir telja, að nokkrar lykiltegundirnar séu í hættu.
Aflinn í Atlantshafinu hefur verið nokkuð stöðugur samtímis
aukningu annars staðar og hlutfalls hans í heildarafla heimsins hefur
minnkað í minna en þriðjung síðan um miðja 20. öldina.
Atlantshafið heldur
áfram að gefa af sér miljónir tonna af fiski á ári til manneldis
og iðnaðar. Næstum allur
aflinn fæst á landgrunnum, aðallega næringarríkum svæðum, þar
sem uppstreymis gætir. Meðal
mikilvægustu tegundanna eru botnfiskategundir af þorskfiskaætt (Cadidae),
þorskur og ýsa, auk humars, makríls o.fl. teg.
Í Mexíkóflóa og á hitabeltissvæðum er uppistaða aflans rækja,
skelfiskur og áll. Kolmunni,
túnfiskur og sardína eru mikilvægar tegundir í Suður-Atlantshafi,
þótt dregið hafi úr afla tveggja síðarnefndu tegundanna.
Margar
þjóðir við Atlantshafið hafa gripið til verndunaraðgerða með
takmörkuðum árangri, s.s. með kvótakerfum, tímabundinni lokun svæða
og árstíðabundinni lokun svæða innan fiskveiði- og efnahagslögsögu
ríkjanna (370 km).
Olíubirgðir.
Miklar birgðri olíu og náttúrugass eru undir landgrunninu og
hlíðum þess, fjallahryggjum og hásléttum og víða þar á milli.
Magn þessara efna er gífurlegt.
Tekjur ríkja, sem dæla upp olíu og gasi fyrir ströndum landa
sinna eru miklar (Bretland, Noregur, BNA).
Fyrsta leit að olíu í Atlantshafi fór fram í sjávarlóninu
Maacaibo við Karíbahafið í Venesúela í fyrri heimsstyrjöldinni og
síðan á fimmta áratugnum í Mexíkóflóa.
Frekari rannsóknir víða í Atlantshafinu hafa leitt í ljós
vinnanlegar birgðir olíu og gass.
Flestar þessara birgða eru í setlögum landgrunnsins og í
grennd við það. Þær
eru aðallega í Mexíkóflóa (Louisiana og Texas) og Campecheflóa,
Norðursjó, fyrir ströndum vestanverðrar Mið-Afríku (úti fyrir
Nigeránni) og fyrir ströndum Gabon og Cabinda (Angóla) og austan Nýfundnalands
og Nova Scotia.
Gifurlegar
birgðir
kola
fundust í djúplögum undir Norðursjónum og meðfram
hluta landgrunnsins. Eitthvað
er unnið af kolum á sjávarbotni fyrir ströndum Cornwall í Bretlandi
og Nova Scotia um göng frá landi.
Árset.
Mikið er tekið af sandi, möl og skeljasafni á grunnsævi
fyrir ströndum BNA og Bretlands. Þetta
efni er notað til landfyllingar, byggingarframkvæmda og lögunar
steinsteypu. Kalkríkur
skeljasandur er tekinn fyrir ströndum Íslands og Bahamaeyja til
sementsframleiðslu og jarðvegsbóta.
Setlög með verðmætum málmum, málmgrýti (járn, tin,
titanium og króm) og gimsteinum finnast fyrir suðausturströnd BNA,
Wales, Brasilíu, Máritaníu og Namibíu.
Nýting þessara náttúruauðæfa hefur verið ómarkviss.
Demantar hafa verið teknir á grunnsævi fyrir strönd Namibíu
og á sandströndunum sjálfum í grennd við ósa Orange-árinnar.
Talsvert magn fosfats finnst víða við jaðar meginlandanna,
Mestu birgðirnar eru líklega fyrir ströndum BNA, úti fyrir ósum
Río de la Plata, milli Patagóníu og Falklandseyja og umhverfis syðsta
odda Suður-Afríku. Brennisteinn
er tekinn af sjávarbotni fyrir strönd Louisiana í Mexíkóflóa.
Djúpsjávarmálmar.
Nokkur svæði sjávarbotnsins eru þakin rauðum leir og kísilleðju,
sem eru aftur þakin smámálmhnúðum.
Þeir eru aðallega úr járni og magnesium í sammiðja lögum,
sem hafa myndast á miljónum ára. Þarna er líka kopar, nickel og kóbalt í minna magni.
Mesta námusvæðið er talið vera á Sohm-sléttunni austan
Bermuda í Norður-Atlantshafi, í Brasilíulægðinni fyrir ströndum
Brasilíu og í Agulhaslægðinni sunnan Suður-Afríku í Suður-Atlantshafi.
Þessi hnúðasveimar í Atlantshafinu eru minni um sig og ekki
eins arðbærir og það, sem finnst í Kyrrahafinu.
Ferromagnesíumhnúðar fundust fyrst í Atlantshafinu um miðja
19. öld en hafa ekki verið nýttir enn þá.
Jarðefni úr sjó.
Salt (sodium chloride o.fl.) hefur verið unnið úr sjó með
uppgufunaraðferðinni teinöldum saman við Atlantshafið og innhöf þess.
Forn saltvinnslusvæði meðfram Miðjarðarhafi eru enn þá í
notkun. Mesta afkastageta
slíks svæðis er í Manaure í Kólumbíu.
Einnig er bróm unnið meðfram norðvesturströnd Miðjarðarhafsins
og magnesíum meðfram ströndum Mexíkóflóa í BNA og fyrir Noregsströndum.
Ferskvatnsverksmiðjum hefur fjölgað með aukinni og bættri tækni
við vinnsluna.
Önnur hagnýting.
Íbúum stranda Atlantshafsins, einkum í Norður-Ameríku og Evrópu,
hefur fjölgað jafnt og þétt og afþreyingarmöguleikum hefur fjölgað
við ströndina (sjóstangaveiðar, siglingar, brettareið og hvalaskoðun).
Samkeppni um aðstöðu fyrir slíka starfsemi hefur víða bitnað
á hefðbundinni nýtingu sjávar og strandsvæða.
Sjóstangaveiði er nú farin að vega þungt í aflabrögðum um
miðbik Vestur-Atlantshafs og jafnvel talin ógna mikilvægum
fiskistofnum. Lífsafkoma
íbúa Karíbaeyja, Bermúda, Flórída Keys og Frönsku rívíerunnar
byggist mikið á ferðaþjónustunni og afþreyingarmöguleikum.
Sjávarfallavirkjanir,
bæði í tilraunaskyni og fullbúnar, hafa verið byggðar á
hentugum stöðum, s.s. við árósa Severn-árinna í Bretlandi,
við Fundy-flóa í Kanada og á Brittany-ströndinni í
Frakklandi.
Bent hefur verið á möguleika til raforkuframleiðslu með því
að nýta hitamun efri og neðri sjávarlaga í hitabeltinu.
Viðskipti
og samgöngur.
Atlantshafið og innhöf þess hafa verið flutingaleiðir síðan
siglingar hófust. Fyrstu
heimildir um verzlunarferðir á sjó koma frá Egyptum, Fönikíumönnum,
Grikkjum og Rómverjum. Stór
hluti sögu vestrænnar siðmenningar síðan 1500 snýst um Atlantshafið,
landnám Nýja heimsins, stöðugar tækniframfarir í siglingum og sífjölgandi
ferðir yfir það. Fram að
lokum síðari heimsstyrjaldarinnar fóru mestu fraktflutningar í heimi
fram á Atlantshafi. Opnun
Súez- og Panamaskurðanna, nýting olíulinda á hafsbotni í Persaflóa
og vaxandi mikilvægi verzlunar við Kyrrahafið hafa dregið úr ferðum
yfir Norður-Atlantshaf. Engu
að síður krefjast hinir stóru markaðir í Evrópu og Norður-Ameríku
mikillar umferðar flutningaskipa á þessum slóðum. Mikið er flutt af hráolíu, kolum, kornvöru, járngrýti
og báxíti frá Venesúela, Brasilíu, Argentínu og Jamaica til iðnaðarsvæða
í BNA, Kanada og Evrópu. Umferð
fraktskipa í gagnstæða átt byggist aðallega á flutningi neyzluvöru,
vélbúnaði og farartækjum, þótt BNA og Kanada flytji einnig mikið
út af kornvöru, kolum og járngrýti.
Gámaflutningar eru velskipulagðir milli hafna við Norður-Atlantshaf.
Mestu flutningarnir fara um New York og Charleston (SC) í BNA og
Rotterdam (Holl.) og Hamborg (Þ) í Evrópu. |