Atlantshaf IV,

Tollfríðindi ferðamanna

TSUNAMI

ATLANTSHAF IV
.

.

Utanríkisrnt.

Áhrif mannsins á umhverfið.  Mengunar hefur ekki gætt í neinum verulegum mæli á úthöfunum en með ströndum fram, þar sem strauma gætir lítt eða ekki og byggð og iðnaður eru á ströndinni og utan árósa, er hún veruleg.  Umræða um mengun sjávar er oft tengd losun, skipaferðum (olíumengun) og olíuborpöllum á landgrunninu, þótt vitað sé, að mesta mengunin kemur frá starfsemi á landi, s.s. lítt eða óhreinsuðu skolpi, iðnaði (þungmálmar) og landbúnaði (tilbúinn áburður og skordýraeitur).  Augljósasta afleiðing mengunarinnar er á svæðum, sem eru mettuð köfnunarefni og fosfötum, því að þar verður offramleiðsla þörunga, sem síðan veldur súrefnisskorti í hafinu og dýralífið hverfur.  Skordýraeitur (s.s. DDT) og stöðug efni (PCB) hafa mælzt niður á mikið dýpi í líffverum Atlantshafsins.  Svo virðist sem minna af þessum efnum berist út í hafið nú en þau brotna afar hægt niður (einkum PCB) og tilhneiging þeirra til að safnast saman í hættulegu magni í æðri líffverum gerir þau mjög hættuleg þeim og mönnum, sem neyta þeirra.  Mestrar mengunar gætir í Eystrasalti, Norðursjó og Ermasundi, Norður- og Austur-Miðjarðarhafi, við norðausturströnd BNA, utan Río de la Plata og suðausturströnd Brasilíu og fyrir norðurströnd Gíneuflóa.

Rannsóknir og könnun.  Framfarir í fornleifarannsóknum styrkja kenningar margra vísindamanna um fjölda siglingaþjóða við Miðjarðarhafið og ferðir þeirra út á Atlantshafið fyrir árið 600 f.Kr. og lengri ferðir í kringum 545 e.Kr.  Enn þá er samt deilt um þessa leiðangra fyrir tíma víkinga.  Veruleg samstaða er um ferðir Egypta, kelta, Föníkumanna og Rómverja, sem stunduðu veiðar og verzlun með ströndum Vestur-Afríku og sigldu líklega alla leið til Grænlands, Karíbahafs og Mexíkóflóa.  Samanlögð áhrif loftslagsbreytinga og stríðsástand heimafyrir ollu upphafi ferða víkinga í vesturátt á 8.-9.öld.  Eftir nokkrar heimsóknir á Íslandi á 9. öld var Grænland kannað 982 og þar settist Eiríkur rauði að í kjölfarið.  Svipaðir könnunarleiðangrar færðu Íslendinga nær Nýfundnalandi og Labrador og líklega alla leið til Maine.

Ferðir Evrópumanna og landnám.  Saga landafunda og landnáms í Nýja heiminum hófst síðla á 15. öldinni fyrir Evrópumenn og stóð yfir í rúmlega tvær aldir.  Ferðum yfir Atlantshafið fjölgaði með tímanum en þær hófust með uppgötvun Karíbahafsins og síðan stranda Norður- og Suður-Ameríku.  Þarna voru á ferðinni Spánverjar, Portúgalar, Ítalar, Frakkar og Englendingar.  Straumahringrás Atlantshafsins var nýtt til hins ítrasta í þessum ferðum og sæfararnir nýttu sér líka norðaustan staðvindana á vesturleið og vestanvindana og Golfstrauminn á heimleið.

Árið 1492 sigldi Genúamaðurinn, Kristófer Kólumbus, yfir Atlantshafið á vegum Spánverja til að finna siglingaleiðina til Austurlanda fjær.  Þessi fyrirætlun mistókst og aðrir sæfarar, John Cabot, Ferdinand Magellan og Giovanni da Verrazzano, komust að því, hve siglingar yfir Atlantshafið voru flóknar og erfiðar og kynntust náttúru Nýja heimsins.  Árið 1502 hófust fiskveiðar Englendinga, Frakka og Portúgala á Grand Banks-svæðinu fyrir ströndum Nýfundnalands.  Þá þegar var hafin könnun strandlengjunnar frá núverandi Virginíufylki í BNA norður að Davíðssundi.  Samtímis voru portúgalskir sæfarar undir forystu Bartolomeu Dias á leið suður að Góðrarvonarhöfða og kortlögðu alla vesturströnd Afríku.  Þeir fundu siglingaleiðina milli Evrópu og Indlands.  Árið 1520 fann Magellan sundið, sem ber nafn hans nú og tengir heimshöfin tvö, Kyrrahaf og Atlantshaf.  Enski sæfarinn Francis Drake fann Hornhöfða syðst í Suður-Ameríku 1578 og góða skipaleið inn í Kyrrahaf.  Könnun þessara svæða hraðaði landnámi og nýting náttúruauðlinda til lands og sjávar jókst.

Upphaf haffræðinnar.  Grundvöllur fjölda könnunarferða og haffræðinnar eins og við þekkjum hana nú, var lagður í haffræðiskóla prinsins og sæfarans Henry í Sagre í Portúgal á 15. öld.  Hann menntaði hundruð sjómanna og leiddi til þróunar í skipasmíði, líkana og siglingartækja.  Skipulegar nútímarannsóknir Atlantshafsins hófust fyrir alvöru á 19. öld.  Þær leiddu til þeirrar þekkingar, sem nútímamenn hafa á úthöfunum.  Margar grófar rannsóknaraðferðir leiddu að vísu til rangra niðurstaðna og misskilnings á þessum tíma en voru þó í framfaraátt.  Í kringum 1770 gerði Bandaríkjamaðurinn Benjamin Franklín fyrsta góða kortið af Golfstraumnum eftir upplýsingum, sem Timothy Folger safnaði frá póstskipum.  Sjóliðsforinginn Matthew Fontaine Maury vann sleitulaust að útreikningum á vindum og straumum og kortlagningu sjávarbotnsins eftir 1840 og lagði grunninn að nútíma haffræði í BNA.

Upphaf símskeytasendinga og draumurinn um slíkt samband yfir hafið krafðist aukinnar þekkingar á bergmálsmælingum, straumum, landafræði og botnseti.  Bresk og bandarísk flotaskip voru notuð til rannsókna til að gera þennan draum að veruleika.  Fyrsti kapallinn var lagður með árangri 1866.  Á árunum 1872-76 voru rannsóknir stundaðar frá HMS Challenger og niðurstöðurnar voru gefnar út í 50 bindum um strauma, dýpi, hitastig, setlög og tegundir plantna og dýra.  Aðrir, sem lögðu sitt lóð á vogarskálarnar á þessum tíma voru Albert I af Mónakó og fjöldi Norðurlandabúa, s.s. Björn Helland-Hansen og V. Walfrid Ekman.  Albert prins fjármagnaði flota hafrannsóknarskipa, sem leiddu til betri skilnings á straumakerfum Norður-Atlantshafsins og uppgötvunar margra tegunda fiska í djúpum hafsins.

Títanikslysið 1912 olli straumhvörfum í rannsóknum á ísreki og straumamunstri í Norður-Atlantshafi og hraðaði þróun fjarskipta og bergmálsmælinga og varð til þess, að alþjóðlegt íseftirlit var stofnað.  Ítalinn Guglielmo Marconi kynnti uppfinningu sína, þráðlaust talsamband, í Evrópu og BNA á þessum árum.  Hann notaði það árið 1899 til að útvarpa upplýsingum um Bandarísku bikarsiglingakeppnina utan af hafi.  Árin 1925-27 fór þýzka rannsóknarskipið Meteor í fjölda ferða og kom Þýzkalandi í fremstu röð í hafrannsóknum.  Skipið var á ferðinni um Suður-Atlantshafið og fór 14 ferðir yfir hafið og áhöfnin kortlagði sjávarbotninn með bergmálsmælingum og mæli seltu og hitadreifingu á mismunandi dýpi.

Nútímarannsóknir.  Síðari heimsstyrjöldin jók áhuga á hafdjúpunum og leiddi til þess, að margar ríkisstjórnir eyddu meira fé til rannsókna.  Eftir 1950 leiddu þær til uppgötvunar hryggjakerfanna, sem skutu stoðum undir landrekskenninguna og breytinga á segulsviði jarðar.  Á áttunda áratugnum aflaði djúpsjávarborskipið Glomar Challenger upplýsinga, sem vörpuðu ljósi á myndun Atlantshafslægðarinnar.  Notkun fjarstýrðra og mannaðra smákafbáta jók skilning á lífríki hafsins, þ.á.m. djúpsjávarlífinu, sem byggist á efnahvarfafæði.

Nútímafjarskipti milli heimsálfa byggjast á ljósleiðaraköplum á hafsbotni.  Þessi tækni gefur byltingarkennda möguleika á rannsóknum á hljóðburði í hafinu og jarðfræði undirlaga sjávarbotnsins.  Gervitungl gefa nú upplýsingar um hitastig og framleiðnimunstur hvar sem er í höfunum og finna hlýsjó, sem skilur sig frá Golfstraumnum og streymir inn á kaldari svæði.  Rannsóknir beinast nú m.a. að eðli hringrásarinnar í hafinu, samspili sjávar og lofts og lífríkinu.


.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM