Nútímaumbætur.
Á 19. öldinni olli stöðug hætta á innrásum vaxandi þjóðerniskennd.
Hinar mismunandi þjóðir Ottómanaríkisins óskuðu eftir og fengu
sjálfstæði. Grikkir riðu á vaðið árið 1829. Í kjölfarið gerðu serbar,
Búlgarar og albanar auk armena í Austur-Anatólíu uppreisnir. Tilvera
Ottómanaríkisins byggðist fyrst og fremst á ósamkomulagi Evrópuríkjanna
um skiptingu væntanlegra landvinninga fremur en eigin styrk. Þegar
þetta tímabil ber á góma, er oft talað um “austrænu spurninguna”.
Tanzimat = endurskipulag.
Ráðamenn í Ottómanaríkinu brugðust við þessum vandal með samræmdu
umbótaátaki. Gömlum siðum var kastað fyrir róða og nýir, vestrænir
siðir voru innleiddir (1839-76). Þessar breytingar hófust í stjórnartíð
Mahmuds II. Þær leiddu til embættismannaveldis (1876-1909) Abdulhamids
II og náðu inn í alla króka og kima ríkisins, þannig að völd
trúfélaganna (millets) og iðngildanna varð að engu.
Nútíma
stórn og her voru skipulögð á vestræna vísu með miklu skriffinnskuveldi.
Borgaraleg menntun og dómstólar tóku við. Víðfeðmar áætlanir um
opinberar stofnanir nútímagervðu stoðir ríkisins, nýjar borgir risu,
nýir vegir voru lagðir auk járnbrauta og símalína. Nýjar aðferðir í
landbúnaði voru innleiddar. Mikil áherzla var lögð á að halda
minnihlutahópum í skefjum. Þessi stefna leiddi til slátrunar nokkurra
miljóna armena á árunum 1894-1918.
Evrópskir hagsmunir.
Mörg efnahagsleg, pólitísk og diplómatísk vandamál komu upp og ollu
alvarlegum erfiðleikum við framkvæmd endurskipulagningarinnar. Hin
nýiðnvædda Evrópa kaus að Ottómanaríkið yrði uppspretta ódýrra hráefna
og markaður fyrir iðnvarning. Evrópumenn höfðu fengið að starfa og
valsa um Ottómanaríkið á eigin forsendum og komu í veg fyrir að það
verndaði eigin hagsmuni. Ottómanar áttu mikið undir fjárfestingum
iðnjöfra og tækniþekkingu, þannig að Evrópumönnum var í lófa lagið að
hindra iðnþróun í landinu. Ottómanar tóku svo mörg og stór lán hjá
evrópskum bunkum, að rúmlega helmingi þeirra var varið til
vaxtagreiðslna á síðari árum endurskipulagningarinnar. Þar að auki fóru
opinberar stofnanir og embættismenn ríkisins að misbjóða þegnum landsins
og misbeita völdum sínum.
Hópur
menntamanna og frjálslyndra (Ungu Ottómanarnir, sem kröfðust nýrrar
stjórnarskrár) krafðist þess, að dregið yrði úr völdum ráðamanna og
skriffinnskunni og að þingið legði áherzlu á mannréttindi. Ungu
Ottómanarnir urðu að flýja land vegna ofsókna þeirra, sem önnuðust
endurskipulagninguna (Tanzimat). Þeir komu skilaboðum sínum engu að
síður greiðlega til almennings í landinu í gegnum póstinn, sem var ekki
undir stjórn ráðamannanna. Á þessum tíma gerðust raddir nýfrjálsu
Balkanríkjanna háværari um skiptingu Makedóníu milli þeirra. Þeim varð
ósk sinni og Makedóníu var skipt nokkurn veginn jafnt milli kristinna og
islamskra ríkja. Félög í Grikklandi, Serbíu og Búlgaríu beittu
hryðjuverkum til að leggja áherzlu á kröfur sínar og gerðu Ottómönum
erfitt fyrir. Þegar forystumaður endurskipulagningarinnar lézt árið
1870, komust óheiðarlegir stjórnmálamenn til valda. Þeir ólu á svipaðri
spillingu og valdbeitingu, sem hafði leitt til endurskipulagningar (Tanzimat)
í upphafi.
Hallarbylting og stjórnarskrá.
Á þessum tíma vofði yfir stríð við Rússa og Austurríkismenn og kröfur
endurbótasinna um stjórnarskrá voru háværar. Þetta leiddi til afsagnar
soldánsins Abd al-Aziz. Murad V tók við en ríkti stutt og við tók
Abdulhamid II. Hann kynnti stjórnarskrá og samþykkti fulltrúaþing, sem
kom saman 1877 en var brátt sent heim vegna stríðsins við Rússa. Honum
tókst að leysa deilurnar með aðstoð Breta á ráðstefnunni í Berlín 1878.
Hann beitti sér fyrir framhaldi endurskipulagningarinnar, sem leiddu til
tiltölulega nútímalegs og velmegandi ríkis í lok aldarinnar. Abdulhamid
II leysti upp þingið í ljósi frekari ógna frá Evrópu og einveldið skaut
upp kollinum á ný. Völdin voru tekin af embættismönnunum og flutt til
hallar soldánsins og öll andstaða var kæfð.
Abdulhamid II kom jafnvægi á fjármál ríkisins og efnahagsmálin en
pólitísk kúgun leiddi að lokum til frjálslyndra andstöðuhreyfingar, Ungu
Tyrkjanna, sem neyddu hann til að endurvekja stjórnarskrána og þingið
árið 1908. Nýja stjórnin varð ekki langlíf, því Austurríki innlimaði
Bosníu og Herzegóvínu, Búlgaría innlimaði Austur-Rúmeníu og hryðjuverk í
Makedóníu og Austur-Anatólíu mögnuðust.
Abdulhamid II og hirð hans sökuðu nýju stjórnina um þessa þróun og
reyndi gagnbyltingu í apríl 1909. Þingið var leyst upp og fjöldi
þingmanna var handtekinn. Her Makedóníu með Ungu Tyrkina í fararbroddi
hraðaði sér til Istanbul og kæfði gagnbyltinguna og steypti soldáninum.
Eftir þessa atburði sátu soldánar Ottómana á þjóðhöfðingjastóli en ríktu
ekki.
Ár Ungu
Tyrkjanna.
Á fyrri hluta Ungu-Tyrkjaáranna (1908-18) voru hin lýðræðislegustu í
sögu Ottómanaríkisins. Stjórnarskráin var aftur tekin í gagnið og
þingið kallað saman. Stjórnmálaflokkar voru stofnaðir til að berjast um
forystuna í landinu. Sameiningar- og framfaraflokkurinn var hinn
öflugasti með stuðningi Ungu Tyrkjanna og fjöldi annarra flokka kom fram
á sjónarsviðið.
Umbætur
Ungu Tyrkjanna, sem náðu til alls þjóðlífsins, tóku líka til skóla og
dómstóla múslima, sem voru gerðir borgaralegir og kvenréttinda í fyrri
heimsstyrjöldinni. Stjórnsýslan var gerð lýðræðisleg, iðnaður og
landbúnaður þróaður og fjármál endurskipulögð. Fyrra Balkanstríðið olli
innbyrðis byltingar í Sameiningar- og framfaraflokknum og þrír leiðtoga
hans undir forystu Enver Pasha reyndu að taka völdin í sínar hendur.
Þeir nýttu sér ósætti milli sigursælla Balkanríkjanna til að tryggja sér
völdin og annað Balkanstríðið hófst til að endurheimta Edirne (Adrianople).
Fyrri
heimsstyrjöldin.
Í fyrstu reyndi þríveldisstjórnin að komast hjá þátttöku í fyrri
heimsstyrjöldinni en Þjóðverjar buðust til að aðstoða Tyrki við að ná
aftur töpuðum löndum, Bretar tóku tyrknesk herskip í skipasmíðastöðvum í
Englandi eignarnámi og lymskubrögð Enver Pasha leiddu til bandalags við
miðveldin og þátttöku Tyrkja í stríðinu 1914. Tyrkneski herinn stóð sig
vel í orrustunni um Gallipoli og handsamaði eða hrakti brott hersveitir
Breta við Kut-al-Imara í Írak.
Herför
yfir Sínaískaga til að hertaka Súesskurðinn og Egyptaland var
árangurslaus og leiddi til þess, að Bretar skipulögðu uppreisn araba á
Arabíuskaga. Brezkur her réðist inn í Sýrland með hjálp araba og var
kominn til Suður-Anatólíu í stríðslok.
Enver
Pasha leiddi illa skipulagðan her til Kákasus í upphafi stríðsins en
bæði Rússar og uppreisnir í austurhéruðunum ollu ósigri hans. Þá réðust
Rússar inn í Austur- og Mið-Anatólíu (1915-16) þar til herför þeirra
lauk vegna Rússnesku byltingarinnar 1917. Eyðileggingin, sem þessar
innrásir höfðu í för með sér ollu uppreisnum innanlands, hungursneyð og
pestum. Í kringum 6 miljónir manna, fjórðungur þjóðarinnar, lá í valnum
og efnahagurinn var rústir einar.
Hernám
og sjálfstæðisstríð.
Eftir uppgjöf miðveldanna komst Ottómanaríkið undir stjórn Breta. Á
friðarráðstefnunni í París var afráðið að setja tyrknesk svæði í Austur-
og Suður-Anatólíu undir erlenda eða minnihlutastjórn. Stór, grískur her
lagði Izmir undir sig 1922 og réðist inn í Suðvestur-Anatólíu, þar sem
hann myrti fjölda óbreyttra borgara og glataði þar með stuðningi
bandamanna. Þegar setzt var að sáttaborði eftir þessa atburði reis upp
hreyfing þjóðernissinna undir forystu Mustafa kemal Ataturk. Í
sjálfsstæðisstríðinu, sem fylgdi (1918-23) tókst Ataturk að sniðganga
skilmála bandamanna. Hann hrakti hernámslið Grikkja, Breta, Frakka og
Ítala brott og lagði til sáttaboð, sem var tekið með í friðarsamningunum
í Lausanne, en þar var Tyrkjum leyft að stofna sitt eigið ríki í Austur-Þrakíu
og Anatólíu. Eftir þennan sigur var Lýðveldið Tyrkland stofnað með
höfuðborgina Ankara, þannig að stjórnin og soldáninn í Istanbul heyrðu
sögunni til.
Lýðveldið og Atatürk.
Lýðveldið stóð á sex meginstoðum fyrstu 15 árunum undir stjórn Atatürk
samkvæmt stjórnarskránni: Lýðræði þjóðarinnar, tyrkneskri
þjóðernishugsjón (dýrðarljóma fortíðar og eigin ríkis án erlendrar
íhlutunar), þjóðveldi (þingið endurspegli vilja þjóðarinnar),
frjálshyggju (algjör aðskilnaður ríkis og islam), afskiptum ríkisins af
efnahagamálum til að tryggja hraða þróun og byltingarhugsjón til að
hraða framförum. Félagslegar og efnahagslegar framfarir urðu miklar á
dögum Atatürks. Tyrkir forðuðust hefndarhug og tóku upp
stjórnmálasamband við Balkanríki, sem þeir réðu fyrir fyrri
heimsstyrjöldina og lögðu áherzlu á aðskilnað ríkis og trúarbragða til
að komast hjá bandalögum við múslimaríkin í austri.
Frá
hlutleysi til bandalags við Vesturlönd.
Eftirmaður Atatürks var Ismet Inönü, sem hélt áfram á sömu braut
innanlands. Honum voru afleiðaingar fyrri heimsstyrjaldarinnar ofarlega
í huga og tókst að halda landinu hlutlausu mestan hluta síðari
heimsstyrjaldarinnar. Tyrkland sagði Þýzkalandi og Japan ekki stríð á
hendur fyrr en í febrúar 1945. Eftir styrjöldina reyndu Rússar að gera
Tyrkland að áhrifasvæði sínu og kröfðust yfirráða í austurhéruðum
landsins og sundunum. Tyrkland svaraði með því að þiggja mikla aðstoð
frá Truman, Bandaríkjaforseta, og efnahags- og hernaðarbandalagi við
BNA. Árið 1952 varð Tyrkland fullgildur meðlimur NATO.
Samtímis þessari þróun jók Inönü lýðræðið og leyfði
stjórnarandstöðuflokka. Þessar ráðstafanir leiddu til sigurs
Demókrataflokksins árið 1950. Hann var málsvari einka- og
einstaklingsreksturs, sem hafði ekki átt upp á pallborðið á dögum flokks
Atatürks, Þjóðarflokksins, sem komst í stjórnarandstöðu.
Demókratar voru við völd í heilan áratug, 1950-60, með Celal Bayar sem
forseta, Adnan Menderes sem forsætisráðherra og Fuat Köprülü sem
utanríkisráðherra. Efnahagskerfið þandist út vegna aukins frelsis í
viðskiptum og efnahagsaðstoðar frá BNA og fleiri vestrænum ríkjum.
Efnahagsþróunin var of hröð og olli miklum átökum, lélegri stjórnun og
aukinni pólitískri óánægju meðal fylgjenda Lýðveldisflokksins, sem
demókratar fóru að bæla niður. Árið 1960 gerði herinn uppreisn og
steypti ríkisstjórninni. Menderes var hengdur og nokkrir aðstoðarmenn
hans voru ákærðir fyrir spillingu 1961. Ný stjórnarskrá, byggð á
nútímastefnu í efnahags- og félagsmálum, m.a. til að koma í veg fyrir
svipaða kúgun og Demókrataflokkurinn hafði beitt.
Eftir
að stjórnarskráin tók gildi 1961 tóku við þrjár veikar ríkisstjórnir.
Hin hraða efnahagsþróun sjötta áratugarins ásamt frjálslegri löggjöf í
verkalýðsmálum voru kveikjan að fjölda félaga með völd, sem voru fyrrum
í höndum ríkisstjórna, löggjafaþingsins og stjórnmálaflokka. Vinstri
hreyfingin ól af sér öfgahópa, sem gripu til hryðjuverka til að ná
markmiðum sínum. Þessi þróun leiddi til stofnunar hægri öfgahreyfinga,
þannig að þjóðin var í heljargreipum milli þessara andstæðu póla, sem
mögnuðu óöldina.
Verkalýðsfélögin, sem spruttu upp eftir 1950, sameinuðust síðan flest í
tveimur samböndum, Tyrkneskar verkalýðssambandinu, sem hýsti hægrimenn
og hófsamari öfl og Samband framfarasinnaðra verkalýðsfélaga, sem hýsti
kommúnista og aðra vinstrimenn. Um miðjan sjöunda áratuginn náðu áhrif
þessara samtaka til alls landsins.
Á
stjórnmálasviðinu skiptist fólkið einnig í tvo hópa, Lýðveldisflokkinn
undir forystu Bülent Ecevit, sem tók upp hugmyndir sósíaldemókrata, og
Réttlætisflokkinn undir forystu Süleyman Demirel, sem var að flestu
leyti fulltrúi gömlu Atatürkhefðanna. Nokkrir litlir flokkar sósíalista
og kommúnista voru lengst til vinstri en Aðgerðaflokkur þjóðernissinna
og Þjóðlegi bjargráðaflokkurinn börðust fyrir afturhvarfi til islamsks
ríkis. Báðir þessir flokkar voru hlynntir félagslegum og efnahagslegum
umbótum, þannig að erfitt var að skipa þeim lengst til hægri. Ákvæði
stjórnarskrárinnar gerðu öllum flokkum ómögulegt að mynda
meirihlutastjórn, þannig að baráttan hélt áfram á götum úti.
Hernám
Kýpur.
Í allri stjórnmálaóreiðunni á þessum tíma var Tyrkland tryggt hinum
vestrænu bandamönnum sínum og léði land undir herstöðvar NATO og
Bandaríkjamanna. Árið 1974 reyndi talsvert á bandalagið, þegar Tyrkir
lögðu undir norðurhluta Kýpur í kjölfar hallarbyltingar, sem Grikkir
stóðu fyrir á eyjunni og lýstu yfir sjálfstæðu lýðveldi. Bandaríkjamenn
hættu þegar öllum hernaðar- og efnahagslegum stuðningi og Tyrkir lokuðu
öllum herstöðvum BNA tímabundið. Tyrkneskur her var um kyrrt á Kýpur,
Tyrkir héldu áfram stuðningi við tyrknesku minnihlutastjórnina og gáfu
NATO og BNA langt nef.
Á
tíunda áratugnum hófu evrópskar ríkisstjórnir samningaferli við
Grikkland og Tyrkland um aðild skiptrar Kýpur að ESB. Bandaríska þingið
samþykkti áframhaldandi hernaðar- og efnahagsaðstoð og Tyrkir leyfðu
opnun herstöðvanna á ný, þótt þeir tortryggðu Bandaríkjamenn eftir það,
sem á undan var gengið vegna stífs áróðurs vinstri manna í landinu.
Meðal múslima fór að bera meira á andbandarískum áróðri og háværar
raddir kröfðust nánari tengsla til austurs fremur en til vesturs, m.a.
vegna nýtilkominna olíuauðæfa margra arabalanda.
Hallarbylting hersins 1980.
Stjórn Süleyman Demirles (1979-80) valdi áfram bandalagið við Vesturlönd
í von um þróun einkageira efnahagslífsins með erlendri aðstoð.
Lýðveldisflokkurinn brást við með áróðri fyrir ríkisrekstri, auknum
tengslum við þriðjaheimsríki og Austantjaldsríkin. Öfgamenn á báðar
hendur brugðust við með pólitískum morðum og öðru ofbeldi. Hinn 12.
sept. 1980 steypti herinn ríkisstjórninni og leysti upp þingið. Nýju
stjórnendurnir lýstu yfir herlögum, bönnuðu stjórnmálaflokka, beitti
ritskoðun og fangelsaði þúsundir grunaðra hryðjuverkamanna.
Herinn
beitti Þjóðaröryggisráðinu við stjórn landsins með Kenan Evren,
hershöfðingja, í fararbroddi og Bülent Ulusu, flotaforingja, sem
forsætisráðherra.
Borgaraleg stjórn.
Árið 1982 var stigið stórt skref í átt til borgaralegrar stjórnar, þegar
ný stjórnarskrá tók gildi og Evren varð forseti landsins. Í
þingkosningum 1983 vann Föðurlandsflokkurinn óvæntan sigur, því herinn
hafði stutt hægri sinnaðri flokk. Flokksformaðurinn, Turgut Özal, varð
forsætisráðherra. Árið 1989 var hann kjörinn fyrsti forseti landsins í
lýðræðislegum kosningum síðan 1960 og Yildirim Akbulut tók við embætti
forsætisráðherra.
Mesut
Yilmaz tók við af Akbulut tveimur árum síðar og árið 1993 tók Tansu
Ciller, hagfræðingur og formaður DYP-flokksins, við af honum. Tyrkir
studdu brottrekstur Íraka frá Kúveit 1990-91, þótt engir tyrkneskir
hermenn tækju þátt í Flóastríðinu. Að stríðinu og misheppnaðri uppreisn
kúrda í Írak flykktust hundruð þúsunda flóttamanna yfir landamæri
Tyrklands. Mörgum þeirra var haldið í búðum við landamærin undir
eftirliti bandamanna.
Andspyrnuhreyfing kúrda.
Óopinbert stríð hefur ríkt milli ríkisstjórna Tyrklands og kúrda síðan
1984. Verkalýðsflokkur kúrda (PKK), sem er marxísk hryðjuverkahreyfing
með sjálfstæði 15 miljóna kúrda að markmiði. Átökin eru að mestu
takmörkuð við suðausturhluta Tyrklands, þar sem flestir kúrdar búa. Í
marz 1995 tilkynnti stjórn Cillers, að hún ætlaði að ganga milli bols og
höfuðs aðskilnaðarhreyfingar kúrda. Hann sendi herinn 40 km inn á svæði
kúrda, allt að verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna í Norðaustur-Írak.
Vestrænar ríkisstjórnir og innlend mannúðarsamtök hafa gagnrýnt Tyrki
fyrir ofbeldisverk gegn kúrdum. Ciller reyndi að fá frjálslegri lög
samþykkt til að greiða kúrdum leið inn í stjórnmálalíf landsins og opna
skóla þeirra aftur.
Islamski velferðarflokkurinn vann á í þingkosningunum í desember, sem
hvatti til samvinnu hægri og vinstri flokka til að mynda andislamskt
bandalag. Í apríl 1996 mynduðu flokkur Cillers og Föðurlandsflokkurinn
samsteypustjórn. Spillingarákærur gegn Ciller gerðu samstarfið erfitt.
Í júlí 1996 varð Necmettin Erbakan úr Velferðarflokknum forsætisráðherra
samsteypustjórnar með DYP-flokknum. Fjöldi landsmanna óttast, að
islamskir öfgamenn geri allt, sem þeir geta til að komast til valda
eftir áratugi borgaralegra stjórna og vestræna stefnu. Tyrkir studdu
bosníska múslima í Júgóslavíustríðinu. Tansu Ciller, sem deildi völdum
með Erbakan, bauðst til að stýra bráðabirgðastjórn. |