Madríd Spánn,

SAGAN

MADRID
SPÁNN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Madrid, höfuðborg Spánar, er í samnefndu héraði en er sjálfstæð innan þess.  Hún er á hæðóttri Miðsléttu Íberíuskagans í 635 m hæð yfir sjó og þar með einhver hæsta höfuðborg Evrópu.  Vegna hárrar legu verða oft snögg hitabrigði en hún nýtur hæðarinnar í góðu loftslagi og þægilegu veðurlagi nema á veturna, þegar blæs köldu, og júlí og ágúst geta verið mjög heitir.  Nútímaborgin nærist aðallega á opinberri þjónustu, fjármála- og tryggingastarfsemi og ferðaþjónustu auk þess að vera miðstöð flutninga.  Eftir síðari heimsstyrjöldina jókst iðnaður til muna, m.a. með framleiðslu bíla, vörubílamótora, raf- og rafeindatækja, plastvöru, gúmmívöru, flugvéla og sjóntækja.  Mikil útgáfustarfsemi fer fram í borginni.

Öldum saman óx upprunalega borgin umhverfis Márakalstalann (Alcazar), sem var hertekinn, áður en hún fór að færast hægum skrefum til austurs.  Á 20. öldinni óx Madrid skrykkjótt.  Nokkur 16. aldar götumunstur sjást enn þá, þótt fá hús frá þeim tíma séu eftir.  Meðal fágætra miðaldahúsa er hið endurbyggða Casa de los Lujanez, sem er við sama torg og Plaza de la Villa, lítið 17. aldar ráðhús borgarinnar.  Borgartorgið Plaza Mayor frá dögum Habsborgara sýnir einhvern fegursta byggingastílinn.  Þjóðarhöllin, sem var endurbyggð um miðja 17. öld, er nýklassísk og hýsir eitthvert bezta safn brynja og sverð sigurvegaranna Hernán Cortés og Francisco Picarro.  Við suðurhlið hallarinnar er fyrsta dómkirkja borgarinnar, Nuestra Senora de la Almudena.  Norður-suðuröxull borgarinnar, kallaður el Paseo, er trjáprýdd breiðgata milli nýrra og hárra skrifstofubygginga, lúxushótela og bústaða.  Þar er þinghúsið, sendiráð og menningarstofnanir.


Prado er eitt athyglisverðasta málverkasafn heimsins.  Þar eru til sýnis verk frá 15. til fyrri hluta 19. aldar.  Verk Francisco de Goya og Diego Veázquez eru þar til sýnis.  Meðal fjölda bókasafna eru tvö kunn fyrir handrit og fágætar bækur, Þjóðarbókhlaðan og bókasafnið í konungshöllinni.  Í háskólahverfinu er Opni háskólinn og Komplutensian-háskólinn (1508).  Madrid státar einnig af lista-, sögu- og menningarakademíum.

Velmegun borgarinnar lýsir sér m.a. í fjölda bifreiða en borgarbúar ferðast einnig mikið með neðanjarðarlestum og strætisvögnum.  Járnbrautir liggja til allra átta og tengja Madrid öðrum borgum allt um kring.  Alþjóðaflugvöllurinn Barajas er 13 km frá borginni.  Heildarflatarmál borgarinnar er 607 km2, en Stór-Madrid alls 1030 km2.  Árið 1991 var Íbúafjöldinn 2,9 miljónir.

Staða Madrid sem höfuðborgar endurspeglar miðstýringarstefnu 16. aldar konungsins Filips III og eftirmanna hans.  Áður en hún varð fyrir valinu sem höfuðborg var hún óþekkt og hlutlaus og hafði engin sambönd við konungshirðina.  Hún var ekki valin af hernaðarlegum, landfræðilegum eða efnahagslegum ástæðum.  Hana skortir fleira, sem vænta mætti af höfuðborg.  Hún stendur ekki við neina stórá líkt og aðrar evrópskar stórborgir.  Leikritahöfundurinn Lope de Vega stakk upp á því, að íburðarmikil brú yfir óaðlaðandi ána Manzanares yrði seld eða önnur á yrði keypt.  Engin verðmæt jarðefni finnast í jörðu á borgarstæðinu og ekki hafa pílagrímar lagt leið sína þangað, þótt verndardýrlingur borgarinnar, Isidro, hafi verið kvæntur öðrum dýrlingi.  Uppruni borgarinnar er jafnvel óviðeigandi fyrir höfuðborg, því þar stóð lítið, márískt virki uppi á klettaborg og þjónaði sem varnarstaður fyrir miklu mikilvægari borg, Toledo, í 65 km fjarlægð.

Árið 1607, heilli kynslóð eftir að Filip II, konungur, flutti hirð sína til Madrid 1561, gerði Filip III hana opinberlega að höfuðborg Spánar.  Undir stjórn Filips og eftirmanna hans þróaðist hún í borg andstæðna með ofsetinni miðborg með höllum, klaustrum, kirkjum og opinberum byggingum allt umhverfis.  Þetta borgarskipulag hefur gert Madrid að sannri höfuðborg með eigin töfra og fjör.


Lega borgarinnar Madrid er borg andstæðra byggingarstíla mismunandi tímabila breytinga og þróunar.  Gamli miðbærinn, völundarhús lítilla gatna umhverfis nokkur torg í grennd við Stóratorg, er ólíkur nýklassískum byggingum og breiðgötum þekktra arkitekta hvers tíma.  Nútímalegar skrifstofubyggingar í miðhlutanum og fjöldi íbúðarblokka umhverfis úthverfin eru lýsandi dæmi um byggingarstíla og efnaþróun hvers tíma.  Stór hluti borgarinnar lítur út fyrir að hafa verið hrúgað þétt saman.  Eftir að hún varð höfuðborg hvatti konungurinn marga íbúanna til að byggja aðeins einnar hæðar hús eða stundum tveggja hæða (casas a la malicia) með forhlið, sem lét þau líta út eins og einnar hæðar hús, til að geta hýst erlenda gesti og fyrirfólk.  Þessi þróun leiddi til mikillar eftirspurnar eftir lóðum, einkum vegna byggingar fjölda opinberra bygginga og klaustra.  Hinn síðasti fjögurra múra borgarinnar var reistur árið 1625 og var ekki rifinn fyrr en 1860, þegar Íbúafjöldinn hafð fjórfaldast.  Á stuttum valdaferli sínum lét Jósef, bróðir Napóleons, rífa klaustrin til að fjölga opnum svæðum.  Hann var kallaður „El Rey Plazuelas”, konungur smátorganna.  Hann lét sér viðbrögð og skoðanir kirkjuyfirvalda í léttu rúmi liggja, sem leiddi til falls hans.  Eitt torganna, Plaza de Oriente, andspænis samnefndri höll myndaðist, þegar 56 hús, bókasafn, kirkja og nokkur klaustur voru rifin.

Nafnið „Madidingur” þýðir, að hvert hverfi hefur þróað sinn eiginn stíl.  Fyrrum var það nánar skilgreint með „gamall”, „mið-” og „bajos-” eftir hverfum.  Hið síðastnefnda liggur frá Aðaltorgi (Plaza Mayor) niður að ánni, enn þá fátæklegt en samt fallegt.  Síðari þróun, sem innifól einnig fátækari íbúa borgarinnar, varð í áttina að þurrkuðu mýrunum beggja vegna árinnar.  Þar stendur enn þá ódýrt húsnæði.  Rétt handan hæðarbrúnarinnar er „Rasto”, hinn vinsæli flóamarkaður.  Þrátt fyrir fjölda skipulagsáætlana, teygðist borgin ekki inn á opin svæði umhverfis hana, ekki einu sinni handan Manzanares-árinnar, fyrr en árið 1948.  Þótt þétt hafi verið byggt, hefur Madrid fleiri opin svæði en París.  Sum þeirra, „El Pardo” eða „Casa de Campo, voru veiðilendur, en í „Retiro” stóð konungshöll fyrrum.
  Madrid hefur ekki farið varhluta af vandamálum nútímaborga.  Mengun og umferð er oft mikil.  Fólk er ekki eins öruggt á götum úti og á dögum næturvarðanna (serenos).  Engu að síður hefur hún haldið töfrum sínum og einkennum og lífsgleðinni, sem gerir Madridinga einstaka.

Iðnaðarsvæðin hafa laðað til sín fjölda fólks frá öllum landshlutum og nútímaíbúarnair eru oft kallaðir „Gatos”, kettirnir eftir miðaldaherdeildum, sem voru þjálfaðar í að klifra kastalaveggi.  Þetta gælunafn á vel við lifnaðarhætti nútímans, þar sem íbúarnir skemmta sér langt fram eftir nóttum, einkum á sumrin, líkt og annars staðar á Spáni.  Fólk borðar seint og kvikmyndahúsin hefja sýningar seint.  Síðdegisblundurinn („Siesta”) er enn þá stundaður, þótt nútímaviðskipti og erlend áhrif hafi nokkuð skert hann.  Menningarstarfsemi og afþreyingariðnaður eru með miklum blóma.  Borgin hefur ekki alþjóðlegan blæ en samt eru menntaðir íbúar hennar vel að sér og yngri kynslóðir vel inni í popptónlistinni.  Fjöldi íbúa af erlendum uppruna er ekki mikill og enginn skipting eftir þjóðernum en aðfluttir íbúar frá öðrum landshlutum hittast gjarnan í svæðaklúbbum.  Allt frá fyrri hluta áttunda áratugar 20. aldar hefur fólki frá Latnesku-Ameríku fjölgað.  Áður lá straumur fólks í andstæða átt vegna bágs efnahags- og stjórnmálaástands á Spáni.  Madrid er borg, sem rótfestir fólk í anda málsháttarins „Frá Madrid til himna, þar sem sést til borgarinnar um lítinn glugga”.

Efnahagslífið Opinber starfsemi, fjármála- og tryggingarfyrirtæki hafa löngum leikið stórt hlutverk í efnahag borgarinnar auk ferðaþjónustu og samgönguleiða.  Að borgarastyrjöldinni lokinni (1939) varð Madrid miðstöð framleiðslu bíla og flugvéla, raf- og rafeindatækja, plast- og gúmmí- og neyzluvöru.  Mesta útgáfustarfsemi í landinu er í Barcelona og Madrid.

Samgöngur Vega- og járnbrautakerfi landsins mætast í einum punti í Madrid.  Neðanjarðarbrautir þjóna íbúum borgarinnar.  Barajas-alþjóðaflugvöllurinn er 13 km utan borgarinnar.  Umhverfis borgina er hraðbraut.  Borgin og einkafyrirtæki reka strætisvagnaþjónustu.  Margar framkvæmdir í gatnagerð frá sjöunda áratugnum til að greiða fyrir umferðinni í borginni hafa verið endurskoðaðar og sums staðar hafa umferðarbrýr verið teknar niður.

Stjórnsýsla og félagsmál Lýðræðið var endurreist síðla á áttunda áratugnum á Spáni og héruðin fengu sjálfstæðar heimastjórnir.  Síðan hefur meiri áherzla verið lögð á samráð, samvinnu og verndun náttúrunnar.  Árið 1982 gerðu borgaryfirvöld nákvæma könnun á óskum íbúanna í skipulagsmálum og byggði heildaráætlun sína á niðurstöðum hennar.  Hún innifól m.a. framtíðarvöxt, uppbyggingu nútímaþjónustu og lífsþægindi íbúanna.  Þrátt fyrir sjálfstæði heimastjórnarhéraðanna, er heildarstjórn landsins í Madrid.  Þar er einnig setur biskups, höfuðstöðvar hersins og bústaður yfirhershöfðingja.  Hæstiréttur og ráðuneyti eru þar auk spænska þingsins, sem er í 19. aldar, nýklassískri byggingu.  Húsið er meðal minnstu þinghúsa Evrópu og beggja vegna inngangs þess eru ljón úr endurunnum, márískum fallbyssum.  Stjórn borgarinnar er í höndum borgarstjóra, borgarfulltrúa og borgarráðs.

MenningarlífiðNútímalífshættir hafa nokkuð breytt götulífinu, sem borgin varð þekkt fyrir, en það er enn þá líflegt, einkum á sumarkvöldum, þegar hitinn er sem mestur.  Nútímamenningin tengd kvikmyndum, leikhúsi og tónlist er mjög fjölbreytt eins og búast má við í borg margra stórra háskóla og akademía.  Mjög hefur dregið úr starfsemi óformlegra samræðuklúbba kaffistaðanna (tertulias), sem borgin var kunn fyrir.  Tengsl borgarinnar við rithöfunda á borð við Lope de Vega, Calderón, Cervantes, Quevedo Pérez, Galdós, Larra Baroja og Azorín hafa haldið borginni í fremstu röð útgáfu efnis í hinum spænskumælandi heimi.

Afþreyingarmöguleikarnir í borginni eru fjölbreyttir.  Þar er nautaatshringur fyrir 23 þúsund áhorfendur (Las Ventas), hinn stærsti á Spáni.  Þar fá byrjendur í þessari list að sýna hæfni sína og koma undir sig fótunum.  Sýningartíminn er frá marz til október.  Í borginni starfa tvö stór knattspyrnufélög og viðureignir þeirra við andstæðingana frá Barcelona eru árlegur stórviðburður.  Þær fara fram á öðrum hvorum stóru leikvanganna, Santiago Bernabéu (125.000) eða Vicente Calderón (70.000).  Sérstakar hátíðir (verbenas) til heiður verndardýrlingi borgarinnar, eru reglulega haldnar í hverju hverfi, einkum þegar heitast er, með heilagan Isdro í fararbroddi.  Svolítið kaldhænislegar óperur (zarzuelas), sem snerta líðandi stund, eru settar upp undir beru lofti á þessum árstíma.  Helztir hinna rúmlega 40 almennings- og skemmtigarða borgarinnar eru Retiro, Compo del Moro, Casa de Campo og Oeste auk hins dularfulla Debodhofs, sem Spánverjar fengu frá Egyptalandi, þegar Aswanstíflan var byggð.  Hofið er í grennd við Rosales og frá því er mjög gott útsýni yfir borgina.

Fjöldi safna er gríðarlegur Hin óvenjulegustu þeirra tengjast leikhúsinu, járnbrautunum og nautaati (tauromaguia).  Listasöfn eru mörg og fjölbreytt (Casa de Cisneros, Palacio Real, Palacio de Liria, Prado, El Casón del Buen Retiro o.fl.).  Helztu bókasöfnin eru Biblioteca Nacional og Bókasafn konungshallarinnar. Feria del Libro-bókamarkaðurinn er árlegur viðburður á vorin.  Madrid er stærsta miðstöð æðri menntunar í landinu.  Þar eru m.a. Opni háskólinn, Complutesian-háskólinn og Listaháskólinn, allir í háskólahverfinu, og Sjálfstæði háskólinn.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM