Madrid sagan Spánn,


MADRID
SAGAN
SPÁNN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Máríska borgin (medina) þróaðist í kringum kastalann (alcazar) ofan Manzanares-árinnar.  Nafnið Majerit kom fyrst fram árið 932, þegar kristni konungurinn Ramiro II af León braut niður múra hennar.  Fundizt hafa minjar um forsögulega búsetu á þessum slóðum.  Kristni konungurinn Alfonso VI af Kastilíu og León náði borginni á sitt vald árið 1083 og fjöldi konunga Kastilíu dvaldi þar um hríð upp frá því.  Þing landsins (Cortes) var fyrst kallað saman þar árið 1309.  Kastalinn skemmdist í jarðskjálfta árið 1466 og miðaldahöllin, sem kom í staðinn, tók miklum breytingum undir stórn margra konunga í tímans rás, þó einkum á valdatíma Karls I og Filips II. 

Á þessum tíma teygði borgin sig til austurs, beggja vegna núverandi Aðalgötu (Calle Mayor) og Segovia-götu.  Márarnir, sem fluttust ekki á brott fyrr en Spánverjar höfðu náð undir sig öllu landinu (1492), bjuggu þétt saman í suðvesturhorni borgarinnar, sem er enn þá kallaður Moreria.  Á márískum tíma var borgin á svæði sem mældist 457 x 847 m.  Nokkur gatnamunstrin síðan fyrir aldamótin 1600 sjást enn þá en aðeins fá hús standa frá þeim tíma.  Eitt þeirra, Casa de los Lujanes, hefur verið endurnýjað.  Talið er, að franski konungurinn, Francis I, hafi verið þar í haldi um hríð.  Karl I hafði gaman af veiðum í nágrenni Madrid.  Sagt er, að borgarhliðin hafi verið brekkuð til að vagnar hans kæmust um þau.  Þetta varð upphafið að aukinni umferð um þröngar göturnar, sem jókst enn, þegar hirðin fluttist til Madrid.  Árið 1598 var Íbúafjöldinn orðinn 60.000.  Þegar fyrsta borgarskipulagið (Pedro Teixeira) leit dagsins ljós 1656 var Íbúafjöldinn 100.000 og fjöldi húsa í kringum 11.000.

Á valdatíð Habsborgara stækkaði borgin enn örar.  Utanríkisráðuneytið, Casa de Cisneros, og Segovia-brúin eru frá þessum tíma.  San Isidro el Real-kirkjan, sem er enn þá bráðabirðgadómkirkja borgarinnar, er einnig frá þessum tíma.  Dómkirkjan sjálf, Nuestra Senora de la Almudena, er búin að vera í byggingu síðan 1883.  Meðal arkitekta, sem lögðu hönd á plóginn við fegrun borgarinnar, voru Juan de Herrera (†1597) og Francisco de Mora.  Stóratorg (Plaza Mayor) er talið vera fegursta framlag þessa tíma.  Juan Gómez de Mora hannaði það og það var byggt á árunum 1617-19.  Eftir eldsvoðan mikla 1790 var því breytt.  Það er umkringt fimm hæða húsum með svölum og turnum.  Torgið tengist næstu götum með níu bogagöngum, sem halda áfram meðfram verzlunum og veitingahúsum.  Þarna fór fram nautaat aðalsmanna á hestbaki, flugeldasýningar og margs konar leikir.  Ljótar athafnir rannsóknarréttarins fóru líka fram þarna.  Allt fram til 1765 fóru kyrkingaraftökur fram á torginu.  Síðasta nautaatið var haldið á torginu vegna giftingar Isabellu árið 1846.

Þróunin á tímum Búrbónkonunga.  Næsta glæsta tímabil í sögu borgarinnar var á valdatíma Búrbónkonunga, sem Madridingar studdu í Spænska erfsðastríðinu (1701-14), þótt hersveitir hlynntar Habsborgurum héldu borginni um tíma.  Filip V lét hefja byggingu konungshallarinnar eftir elsdsvoðann á jólanótt 1734, sem grandaði kastalanum.  Teikningar hans innfólu 23 inngarða og miklu stærri höll.  Þótt áætlanir hans næðu ekki fram að ganga, varð herbergjafjöldinn 500.  Höllin fellur vel inn í borgarmyndina ásamt öðrum byggingum, sem hann lét reisa, s.s. Konunglega spænska akademían, Þjóðarbókhlaðan og Konunglega söguakademían.  Loft krúnusals konungshallarinnar skreytti Tiepolo og í vopnabúrinu er eitthvert bezta safn brynja og sverð sigurvegaranna Hernán Cortés og Francisco Pizarro.  Alfonso XIII, var síðasti konungurinn, sem bjó í höllinni, og íbúðarhlutinn hefur verið varðveittur óbreyttur síðan hann sagði af sér árið 1931.  Konungsfjölskyldan býr nú í minna áberandi höll, La Zarzuela, norðvestan borgarinnar.  Búrbónkóngar kunnu líka vel að meta minna áberandi höll, Palacio del Buen Retiro.  Garðar hennar í frönskum stíl nutu aðdáunar og enn þá er mikil aðsókn að þeim

Karl III var mesti bygginga- og skipulagskóngur Búrbóna (1759-88) á upplýsingatímanum.  Hann reyndi að finna jafnvægi milli afþreyingar og vísinda, menningar og iðnaðar.  Stíll hans var heimsborgarlegur og lýsir smekk Evrópubúa á þessu tímabili.  Hann lét sér mjög annt um útlit borgarinnar, hliða hennar, breiðgötur og trjágróður og naut aðstoðar samtímahönnuða.  Hann byggði mikið á áætlunum og verkum þriggja nýklassískra arkitekta, Francisco Sabatini, Ventura Rodrígues og Juan de Villanueva.  Á þessum tíma óx borgin til austurs að núverandi Sjálfstæðistorgi (Plaza de la Independencia), þar sem stendur stór bogi Puerta de Alcalá (1778), eitt kennimerkja borgarinnar.  Annað merkt kennileiti, pósthúsið í Puerta del Sol, er frá sama tíma og allar vegalengdir í landinu miðast enn þá við 0-steininn við vegg þess.  Torgið sjálft er vinsælt.  Þar eru árleg hátíðarhöld á gamlárskvöld, þegar íbúarnir koma til að hlusta á klukkuna slá 12 á miðnætti og borða 12 vínber, sem eiga að stuðla að hagsæld næsta árið.  Fyrr á tímum var torgið mikilvægt vegna þess, að hestvagnar til farþega- og vöruflutninga lögðu af stað þaðan til allra staða í landinu.  Þar sá fólk oft fyrstu nýjungarnar, s.s. gaslýsingu (1830), fyrstu vagnana, sem múldýr drógu á sporum, fyrstu almenningssalerni, fyrstu raflýsingu gatna og fyrstu rafknúnu sporvagnana.  Karl III hefði vafalaust verið hrifin af öllum þessum nýjungum.  Hann kom fyrsta grasagarðinum, sem enn er við lýði, á fót.  Þar var og er fólki enn þá heimilt að safna lækningajurtum.  Hann skipulagði náttúrugripa- og vísindasafn en lézt áður en það varð að veruleika.

Frakkar hersátu Madrid í Napóleonsstyrjöldunum og Jósef bróðir hans var settur í hásætið.  Hinn 2. maí 1808 var efnt til uppreisnar, sem Spánverjar kalla sjálfstæðisbaráttuna, gegn honum.  Ferdinand VII settist aftur í konungsstól 1814 eftir setu í fangelsi Napóleons og lýsti Madrid Hetjuborg.  Fimm árum síðar var lokið við bygginguna, sem Karl III hafði skipulagt sem Náttúrugripa- og vísindasafn.  Ferdinand III lét flytja þangað konungleg listaverk, sem voru á víð og dreif í konungshöllum landsins.  Þetta var upphafið að hinu heimsfræga Pradosafni.  Enn þá er hægt að skoða Madrid þessa tíma í smáatriðum vegna nákvæmrar eftirlíkingar León Gil Palacios frá 1830.  Á þessu tímabili teygðist borgin til norðurs undir stjórn aðalsmannsins og borgarstjórans Joaquín Vizcaíno.  Hann varð einnig kunnur fyrir að verða fyrstur til að númera hús, götulýsingu og sorphirðingu.  Paseo del Prado var lengd með nýrri breiðgötu, Paseo de los Recoletos.  Árum saman var þarna sveitalegt umhverfi, byggt stórum íbúðarhúsum með stórum görðum, en nú eru þar háreistar skrifstofu- og íbúðablokkir, lúxushótel og sendiráð auk Þjóðarbókhlöðunnar, Forngripasafnsins og Samtímalistasafnsins.  Eitt íbúðarhúsanna, sem nú er banki, var í eigu Marqués de Salamanca, sem hannaði 28 götur samhliða Paseo í norðurátt frá Calle de Alcalá.  Þetta hverfi, sem ber enn þá nafn hans, er meðal fallegustu hverfa borgarinnar.

Skömmu áður, í kringum 1860, hafði Castro-skipulagið (Ensanche = víkkun) leitt til frekari útþenslu borgarinnar og nútímavæðingar hennar.  Þetta var fyrsta heildarframtíðarskipulag borgarinnar en það dugði ekki til vegna hraðrar fjölgunar íbúanna, landabrasks og fátækrahverfa, sem risu utan skipulagðra svæða.

Nútímaborgin.  Í kjölfar Castro-skipulagsins fylgdu fleiri:  Arturo Soria (1892) og Núnez Granes (1910), sem hvorugur fengu hljómgrunn fyrir hugmyndir sínar.  Árið 1910 var lögð breiðgata í gegnum San Bernardohverfið frá götunni Calle de Alcalá niður að Spánartorgi (Plaza de Espana), þar sem fyrstu háhýsi borgarinnar voru reist.  Þetta breiðstræti, Gran Via, var hannað til að verða aðalgata borgarinnar og ber nafn með rentu.  Þar eru kvikmyndahús, kaffihús, verzlanir og banker.  Eftir borgarastyrjöldina var strætið nefnt Avenida José Antonio eftir stofnanda spænska fasistaflokksins (Falange Espanola).  Margar götur og torg fengu ný nöfn á sama tíma en eftir dauða Francos hafa gömlu nöfnin verið tekin upp.

Á upphafsárum lýðveldisins (1931) voru byggðir hringvegir og Paseo de la Castellana var lengd.  Miklar skemmdir urði í borginni í borgarastyrjöldinni.  Mikið var um loft- og stórskotaliðsárásir í tvö ár og víglínan var í grennd við háskólahverfið.  Stríðsskemmdar, opinberar byggingar voru lagfærðar og metnaðarfullar áætlanir um endurbyggingu voru gerðar án þess að verða að veruleika.  Borgin þandist út og á árunum 1948-51 náði hún yfir u.þ.b. 850 km2 svæði.  Lóðabrask og stjórnlaus útþensla og iðnþróunin leiddu til breytinga á sjöunda áratugnum, sem leiddu oft til óafturkræfra spjalla á menningarverðmætum líkt og í mörgum örðum borgum Evrópu.  Árið 1963 stuðlaði borgarskipulagið aðeins að stjórnlausum vexti.  Loks voru sett lög til verndar dýrmætustu byggingum borgarinnar.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM