Varsjá Pólland,
Flag of Poland


VARSJÁ
PÓLLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Varsjá er höfuðborg Póllands og jafnframt stærsta borg landsins.  Hún er í miðju landinu á bökkum Vislu og er einnig höfuðborg Varsjárhéraðs.  Borgin er miðstöð samgangna á landi og í lofti.  Járnbrautirnar tengja hana við alla landshluta og aðalborgir Evrópu.

Borgin var um aldir menningarmiðja Póllands.  Hún var lögð í rust í síðari heimsstyrjöldinni en hefur verið endurbyggð.  Miðja hennar í grennd við Vislu er miðaldamarkaðstorgið, sem er umkringt húsum í endurreisnar- og barokstíl.  Sunnan torgsins eru leifar miðaldavirkisins Barbican.  Enn sunnar, á eyju í Lazienki-garðinum, er Vatnshöllin frá 18. öld, sem var sumarbústaður Stanislas II Ágústusar, síðasta konungs Póllands.  Þessi garður státar líka af minnismerki pólska tónskáldsins Frédérik Chopin.  Norðan, vestan og sunnan gamla borgarhlutans voru lagðar trjáprýddar breiðgötur með nútímablokkum, verzlunarklösum og skemmtigörðum eftir 1945.

Meðal fjölda sögulegra kirkna borgarinnar er gotneska, 14. aldar kirkjan Heilagur Jóhannes og endurbyggð Heilagskrosskirkjan frá 16. öld.  Aðrar áberandi byggingar eru Menningar- og vísindahöllin og Þjóðleikhúsið (19. öld), sem er helgað óperum og ballet.  Meðal minnismerkja borgarinnar eru Sigmundur III, Nikulás Kóperníkus og ljóðskáldið Adam Mickievicz.  Einnig standa þar styttur af hetjunum í gyðingahverfinu og andspyrnuhreyfingarinnar í síðari heimsstyrjöldinni.

Fjöldi safna (a.m.k. 30) og listasafna er í borginni.  Þjóðminjasafnið hýsir m.a. veglegt safn fornra málverka frá Núbíu (Afríka) og pólska list frá 14.-20. aldar.  Meðal menningarviðburða er árleg bókasýning, Chopin-píanókeppnin (5. hvert ár) og Henri Vieniawski-fiðlukeppnin.  Meðal menntastofnana er Varsjárháskóli (1818) auk fjölda annarra æðri skóla og nokkrir tugir rannsóknarstofnana.

Rúmlega 90% verksmiðja borgarinnar voru lögð í rústir í síðari heimsstyrjöldinni.  Hin nýju og endurbyggðu iðnaðarhverfi borgarinnar eru fjölbreytt.  Meðal mikilvægra iðngreina er útgáfustarfsemi, smíði farartækja og elektrónískra tækja, framleiðsla stáls og annarra málma, vefnaðariðnaður, efnaiðnaður, framleiðsla tóbaksvöru, matvæla og húsgagna.

Fyrir síðari heimsstyrjöldina var íbúafjöldi borgarinnar rúmlega ein milljón en aðeins 162 þúsund þeirra lifði stríðið af.  Flestir þeirra bjuggu í Praga, austan Vislu, og í vestustu hverfunum.  Árið 1992 var áætlaður íbúafjöldi borgarinnar tæplega 1,7 milljónir.

Borgin þróaðist í kringum kastala hertoganna af Masovíu á 14. öld.  Árið 1595, þegar Kraká var brennd til grunna, varð hún að höfuðborg pólska konungsdæmisins.  Svíar og Rússar lögðu hana nokkrum sinnum undir sig þar til Prússar náðu yfirráðum 1795.  Napóleon gerði hana að höfuðborg stórhertogadæmisins Varsjár árið 1807.  Frá 1813 til hernáms Þjóðverja 1915 var Varsjá undir stjórn Rússa.  Árið 1918 varð hún höfuðborg hins endurreista pólska ríkis.

Hinn 1. september 1939 hófst síðari heimsstyrjöldin með innrás Þjóðverja í Pólland og Varsjá var fyrsta stórborgin, sem þeir réðust á úr lofti.  Eftir óteljandi árásir stórskotaliðs og sprengjuregn úr lofti hernámu Þjóðverjar borgina 26 dögum síðar.  Borgin var miðstöð þýzka hernámsliðsins og andspyrnuhreyfingarinnar í landinu öll stríðsárin.  Næstu fjögur árin eftir hernám borgarinnar unnu Þjóðverjar skipulega að útrýmingu hennar.  Rúmlega hálf milljón gyðinga urðu fyrstu fórnarlömbin.  Þeim var smalað inn í afgirt gyðingahverfi, sem var u.þ.b. 2,6 km².  Á tímabilinu 22. júlí til 3. október 1942 voru rúmlega 300 þúsund þeirra sendir til útrýmingarbúða og myrtir.  Í apríl 1943 réðust þýzkar herdeildir inn í gyðingahverfið og drápu hina 40 þúsund gyðinga, sem eftir voru, eftir þriggja vikna hetjulega vörn.

Hinn 1. ágúst 1944 nálguðust herir Rússa borgina.  Íbúar borgarinnar gerðu uppreisn gegn Þjóðverjum og börðust þar til þeir voru yfirbugaðir eftir 63 daga bardaga.  Eftir þessa uppreisn drápu Þjóðverjar flesta eftirlifandi íbúa eða ráku þá brott.  Í kjölfarið var sérsveitum Þjóðverja falin skipuleg eyðilegging borgarinnar.  Rússneskar og pólskar hersveitir náðu henni undir sig í janúar 1945.  Eftir stríðið var borgin endurbyggð með stuðningi annarra landa og upphaflegum teikningum var fylgt þar sem því var komið við.

PÓLLAND

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM