Ósló nágrenni Noregi,
Flag of Norway

BORGARLÝSING SKOÐUNARVERT . .

ÓSLÓ
NÁGRENNI
NOREGUR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Ekeberg, með sjómanna- og reiðskóla, veitingastað og vinsælum lystigarði er 3 km sunnan austurbrautarstöðvarinnar.  Sjómannaskólinn er prýddur freskum eftir Per Krohg.  Þaðan er fallegt útsýni yfir höfnini á morgnana.  Milli þessa skóla og Kongsveien er svæði með u.þ.b. 5000 ára gömlum hellaristum.

Vestan Ósló er skaginn Bygdøy.  Þar er byggðasafn og Víkingaskipahúsið.  Norska byggðasafnið er athyglisvert og sýnir gestum ýmsa nytjahluti, verkfæri, húsgögn, vinnustofu Ibsens, kirkjumuni og Lapplandsdeild.  Í útisafninu er fjöldi gamalla húsa, þ.á.m. stafkirkju frá 12. öld, sem var endurbyggð á safnsvæðinu 1885 og Raulandstofuna frá Numedal (1300).  Víkingaskipasafnið er sunnan byggðasafnsins.  Þar eru þríjú sjófær víkingaskip frá 9. öld, eins og víkingarnir notuðu til ferða og til greftrunar höfðingja sinna.  Osebergskipið, sem fannst árið 1903 norðan Tønsberg, er 21,5 m langt og rúmlega 5 m breitt og telst merkasta og heillegasta uppgötvun minja frá forkristni á Norðurlöndum.  Skipið, sem var byggt nálægt árinu 800, var notað á 9. öld til stuttra ferða sem skrautskip höfðingjafrúar.  Margir verðmætir munir fundust í skipinu og eru varðveittir í svonefndu Osebergsafni.  

Gaukstaðaskipið var grafið upp árið 1880.  Það er 23,3 m langt og 5,24 m breitt og var notað til úthafssiglinga og því ekki eins ríkulega skreytt og Osebergskipið.  Það var líka notað við greftrun höfðingja.  Það var bæði búið seglum og arum og skildir áhafnarinnar voru festir á borðstokkinn.  Nákvæm eftirlíking af þessu skipi sigldi til Norður-Ameríku á sex vikum árið 1893. 

Tuneskipið fannst u.þ.b. 10 km ofan við Frederikstad árið 1867.  Aðeins botn þess hafði varðveitzt en það var byggt með sama lagi og hin tvö.

Á suðaustanverðum skaganum, þar sem bátahöfn, er Framhúsið, þar sem pólferðaskipið Fram er varðveitt.  Friðþjófur Nansen var um borð í því árin 1893-96, þegar það var látið reka með ísnum í Íshafinu.  Framhúsið er jafnframt sjóminjasafn og framan við það er annað pólferðaskip, Gjøa, sem Roald Amundsen notaði til að sigrast á norðvesturleiðinni árin1903-1906.  Í annarri byggingu er balsaskipið Kon Tiki, sem mannfræðingurinn Thor Heyerdahl og fimm aðrir sigldu yfir Kyrrahafið 28. apríl til 7. ágúst 1947 frá Callao í Perú til austurpólýnesísku eyjanna.  Þarna stendur 9,5 m há stytta frá Páskaeyju og forsögulegir bátar.  Auk þess er þar neðansjávarsýning og eftirmynd af fjölskylduhelli á Páskaeyju.  Þarna er líka papýrusbáturinn Ra II, sem Thor Heyerdahl og 8 þjóðerna áhöfn hans sigldi yfir Atlantshafið árið 1970.

U.þ.b. 12 km suðvestan miðju Óslóar (E18) er Listamiðstöð Sonju Henie og Niels Onstad á endurbyggðum Hövikodden.  Hún var stofnuð á árunum 1966-68 og sýnir málverk 20. aldar.

Það er mælt með ferð frá Ósló til Holmenkollen (529m) og skógi vaxinna hæðanna norðvestan borgarinnar.  Þar er vinsælt útsýnissvæði á sumrin og skíðastaður á veturna.  Þangað liggja góðir vegir, allt að Frognerseteren (13 km) og rafmagnsjárnbraut frá Þjóðleikhúsinu (35 mín. ferð).  Bezt er að aka Drammensvei, beygja síðan til hægri inn á Frognervei, síðan Kirkjuveg meðfram Frognergarðinum að gatnamótum Bogstadvei og áfram hann.  Svo er ekið meðfram Holmenkollen-brautinni, til hægri og upp hlíðina í sveigum í gegnum skóginn.  Skíðastökkpallurinn er í 11 km fjarlægð frá borgarmiðjunni og þangað kemst gangandi maður á 7 mínútum en það er einnig hægt að aka þangað.  Það er lyfta í stökkturninum, kaffitería og skíðasafn, þar sem eru skíði af öllum gerðum og búnaður pólfaranna Friðþjófs Nanses og Roalds Amundsens. 

Ofar liggur vegurinn fram hjá lítilli Kapellu og við Voksenkollvei er útsýnispallur í 469 m hæð.  Þar er bronsstytta af vegamálastjóranum Hans Krag.  Það teku u.þ.b. 10 mín. að aka þaðan upp á Tryvannshæð.  Veitingahúsið Frognerseteren (486m) er mjög vinsælt og fjölsótt vegna útsýnisins yfir Ósló.  Á móti honum eru nokkur gömul timburhús frá Þelamörk og Hallingdal.  Héðan er u.þ.b. 20 mín. gangur upp á Tryvannsshæð, sem er hæsti punktur Holmenkollen (529m; Tryvannsturninn er 118,5 m hár, byggður1962; lyfta).

Það er líka mælt með stuttri ferð (9 km) til Grefsenkollen (Grefsenås; 364m), sem býður gott útsýni yfir borgina og fjörðinn.

Kirkjugarður með gröfum þýzkra hermanna og annarra, sem féllu í fyrri- og síðari heimsstyrjöldum, er 8,5 km austan Ósló við Strømsveien 286.  Þangað er ekið eftir E6 í átt til Þrándheims eða farið með strætó nr. 66, merktan Lillestrøm frá stöðinni við Olaf Bullstorg.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM