Aðalverzlunargatan
(að hluta göngugata) er Karl Johansgata, sem liggur í norðvestur frá
aðalbrautarstöðinni (Østbanestasjonen) að konungshöllinni.
Miðleiðis milli brautarstöðvarinnar og Eiðsvallatorgs opnast
til Stóratorg til hægri (Torget; markaður) með styttu Kristjáns IV
(C.L. Jacobsen; 1874). Suðaustan
torgsins er Dómkirkjan, sem var vígð 1697.
Þýzki byggingarmeistarinn frá Hamborg, A. de. Châteauneuf,
endurbyggði hana á árunum 1849-50.
Hún var endurnýjuð að innan 1948-50.
Bronshurðin er frá 1938. Innanstokks
eru loftmyndirnar (H.L. Mohr; 1936-1950), predikunarstóllinn og altarið
frá 1699, orgelforhlið frá 1727 og steindir gluggar (E. Vigeland;
1910-16) athyglisverðir. Í
frelsarakapellunni, sem var bætt við 1949-50 er falleg silfurstytta
eftir Arrigo Minerbi (Síðasta kvöldmáltíðin).
Handan
beggja þvergatnanna að Stóratorgi kemur líflegasti hluti Karl
Johansgötu með fjölda verzlana.
Þegar gatnamótum Ankersgötu til vinstri sleppir, birtist þinghúsið
(Stortinget), sem var byggt 1861-66.
Í þingsalnum er stórt málverk (O. Wergeland), sem sýnir umræðurnar
um stjórnarskrána á Eiðvelli árið 1814.
Sunnan þinghússins, við Akersgötu er minnismerki um skáldið
J.H. Wessel (1742-85) og frímúrarahöllin beint á móti því.
Stytta skáldsins Henrik Wergeland (1808-1845) eftir von
Bergslien.stendur á Eiðsvallatorgi við hliðina á þinghúsinu.
Þarna liggur Rosenkrantzgata yfir Karl Johansgötu.
Í húsi nr. 10 er Nýja Óslóleikhúsið.
Norðvestan Eiðisvallatorgs er Þjóðleikhúsið, sem
var byggt eftir teikningum H. Bull á árunum 1895-99.
Við Þjóðleikhúsið standa styttur Ibsens, Bjørnsons, St.
Sindings og J. Brun. Þarna
er líka brautarstöð neðanjarðarlesta, sem flytja folk í ýmsar áttir,
þ.á.m. til Holmenkollen. Skáhallt
á móti Þjóðleikhúsinu er Norska leikhúsið, sem sýnir
einkum klassísk verk og innlend og erlend dramatísk verk.
Norðaustan Þjóðleikhússins er stytta skáldsins Ludvigs
Holbergs. Þessi höfundur
dansk-norskra gamanleikja fæddist í Bergen.
Skammt
sunnan leikhússins stendur auðkenni borgarinnar, stórkostlegt ráðhúsið
við Fridtjof Nansenstorg (Arnstein Arneberg og Magnus Poulsson;
1931-50). Í austurturninum er klukkuspil (38 klukkur).
Að innan er húsið ríkulega skreytt nútímafreskum.
Bak við Ráðhúsið er viðlegubryggja bátanna til Bygdøy og
annara staða við Óslófjörð. Norðaustan
leikhússins, hinum megin Karl Johansgötu, er háskólinn, sem
Friðrik VI, Danakonungur, stofnaði 1811 og var byggður á árunum
1839-54. Framan við miðbygginguna
eru styttur lögspekingsins A.M. Schweigård (1808-70) og sagnfræðingsins
P.A. Munch (1810-63). Í viðbyggingunni
(1911) á bak við er hátíðarsalurinn, skreyttur málverkum eftir
Edvard Munch (1923). Stúdentar,
sem búa ekki í Ósló, búa aðallega í svokölluðum Stúdentabæ við
Sognsvei í norðurhluta borgarinnar.
Stúdentagarðarnir þar eru notaðir sem hótel í sumarfríi stúdentanna.
Sum herbergjanna eru ríkulega prýdd málverkum eftir Edvard
Munch, Per Krohg o.fl. Vestan Sognsvegar, í Blindernhverfinu, er fjöldi
nýlegra stúdentagarða.
Ríkislistasafnið
er austan háskólans við Universitetsgata 13.
Það var reist á árunum 1879-81 og stækkað 1907 og 1924. Málverk þess gefa góða yfirsýn yfir þessa listsköpun
í Noregi frá 19. öld fram á okkar daga.
Þar er margt um verk J.C. Dahl (1788-1857), T. Fearnley
(1802-42, H.F. Gude (1825-1903), H.O. Heyerdahl (1857-1913), C. Krogh
(1852-1929), E. Peterssen (1852-1928) og A. Tidemand (1814-1876).
Verk Edvards Munchs eru sýnd í sérsal.
Þar að auki eru verk eftir
danska, sænska meistara auk Rubens, Rembrandt, Lucas Granach og
El Greco. Franskir listamenn eiga líka verk þar, s.s. Cézanne,
Degas, Gauguin, Manet, Matisse og Picasso.
Bak við listasafnið er Sögusafnið, sem gengið er inn í frá
Frederiksgötu 2. Þar eru
söfn háskólans tengd sögu og þjóðfræði og athyglisvert safn
tengt víkingatímanum (800-1050).
Þar erru einnig söfn tengd inúítum og þjóðflokkum Síberíu
og myntsafn.
Konungshöllin
(lokuð almenningi; 1825-48) stendur á hæð í hallargarðinum við
norðvesturenda Karl Johansgötu. Framan
við hana er riddarastytta af Karli XIV Jóhanni eftir B. Bergslien
(1875). Nær götunni er sérstakt
minnismerki um stærðfræðinginn N.H. Abel (1802-29) eftir Gustaf
Vigeland. Bak við höllina
hægra megin er bronsstytta rithöfundarins Camilla Collet (1813-95), líka
eftir Vigeland. Drammensvei
liggur meðfram suðurhlið garðsins. Við gatnamót hans og Parkvei er Norska Nóbelstofnunin. Friðarverðlaun
Nóbels eru veitt árlega í hátíðarsal háskólans þeim, sem norska
þingið stingur upp á. Skammt
vestar, við gatnamót Drammensvei og Observatoriegate, er háskólabókasafnið
(1913 og 1945), sem státar af u.þ.b. 3 milljónum titla.
Þaðan liggur Frognervei norður að samnefndum lystigarði.
Akersgata
liggur norðaustur frá Þinghúsinu, fram hjá þinghúsi Ósló (1903)
og húsi ríkisstjórnarinnar (1957-59), að kirkju heilagrar þrenningar
(1853-58). Þar eru fögur glerlistaverk eftir Fr. Håvardsholm og eitt
elzta orgel landsins. Bak
við hana er nýbygging Deichmansbókasafnsins, sem var stofnað
1780 sem borgarbókasafn (850.000 titlar) og sænska Margrétarkirkjan
(1926). Norska óperan
(Folketeatret; 1958) er við Youngs- eða Nýtorg svolítið suðaustar.
Við norðurenda Akersgötu er kirkja hl. Ólafs (katólsk;
1853) og andspænis henni er Listiðnaðarsafnið, sem segir sögu
þróunar þessarar listar (m.a. Baldisholveggteppið frá 1180 úr
Baldisholkirkjunni í Heiðmörk).
Mikið er af verkum úr málmi og gleri, húsgögn o.fl.
Lista- og handiðnaðarskóli er tengdur safninu.
Frelsarakirkjugarðurinn er norðar, milli Ullevåls- og
Akersveien. Þar eru m.a.
grafir Bjørnstjerne Bjørnsons og Ibsens, málarans H.F. Gude og skáldsins
Wergelands. Hægra megin við
norðurenda Akersvei er gamla Akerskirkjan, sem fyrst er getið
í kringum 1150 og endurbyggð 1861.
Norðan Frelsarakirkjugarðsins eru fallegir lystigarðar í átt
að St. Hanshaugen.
Í
gamla borgarhlutanum, sunnan Þinghússins, er fjöldi banka og stórra
skrifstofubygginga. Suðaustan
austurbrautarstöðvarinnar er kauphöllin frá 1827 (stækkuð
1910). Vestar, við
Bankatorg, er hin stóra granítbygging Noregsbanka (1904).
Vestan þessa borgarhluta, við Óslófjörð, er Akersvirkið,
sem Hákon V hóf að reisa í lok 13. aldar.
Inngangur þess er við Virkistorg.
Þar eru skotheldir salir og Hallarkirkjan til sýnis almenningi.
Í grafhvelfingu hennar hvílir Hákon VII (1872-1957).
Í Andspyrnusafninu eru minjagripir frá síðari heimsstyrjöldinni.
Árið 1978 var varnarmálasafnið opnað í fyrrum vopnabúri
virkisins. Þar er farið
yfir söguna frá víkingatímanum til okkar daga.
Frognergarðurinn
er í norðvesturhluta borgarinnar með aðalinngang frá Kirkjuvegi.
Þar eru nokkrir veitingastaðir, útisundlaug og Vigelandgarðurinn.
Borgarsafnið er í gömlum herragarði.
Vinnustofa Vigelands (1869-1943), sem er nú safn, er suðvestan
Borgarsafnsins við Svartesgötu. Hann
skapaði *Vigelandgarðinn (600 m langur) á 40 árum.
Vigelandbrúin er prýdd 58 bronsstyttum.
Brunnaþyrpingin er elzti hluti garðsins. Hinn 17 m hái einsteinungur er prýddur 121 mannslíkömum.
Við enda garðsins er hið svonefnda Lífshjól, sem Vigeland
vann að á árunum 1933-34. Vestar
við Colosseum kvikmyndahúsið, er bronsstytta af Charlie Chaplin (Nils
Ås; 1976).
Grasagarðurinn
er austast í borginni með aðalinngang frá Trondheimsvei. Dýrafræðisafnið er á hæð ofan garðsins auk steina-,
steingervinga- og jarðfræðisafnanna.
Munchsafnið er við suðurhlið garðsins. Þar eru málverk og grafísk verk auk teikninga (alls 23.864
númer) Edvards Munchs (1863-1944).
Tækni- og vísindasafnið er suðaustar.
Oslo Lådegårdensafnið með líkönum o.fl. er við
Oslogate 13, suðaustan brautarstöðvarinnar. |