Belfast Norður  Írland England,
[Flag of the United Kingdom]

NÁGRENNI BELFAST

BELFAST / BÉAL FEIRSTE
NORÐUR-ÍRLAND
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Belfast (Béal Feirste, "Sandvað") er í Ulster á Norður-Írlandi í Belfasthéraði við ósa árinnar Lagan, sem fellur þar í Belfast Lough.  Belfast hefur verið höfuðborg Norður-Írlands síðan 1920 og er mikilvæg iðnaðar- og hafnarborg.  Harland og Wolff skipasmíðastöðin, einhver hin stærsta sinnar tegundar í heiminum, er á Drottningareyju.  Þar var Titanic byggt árið 1912.

Snemma á miðöldum var virki í Belfast, sem var eyðilagt árið 1177.  Þá var byggður kastali, sem var stöðugt bitbein Englendinga og Íra.  Árið 1613 fékk borgin, sem hafði byggzt umhverfis kastalann, borgarréttindi úr hendi James I.

Vefnaður hefur löngum verið mikilvægur iðnaður í Belfast.  Hann efldist og þróaðist mjög á 17. öld, þegar húgenottar, sem flúðu frá Frakklandi, settust að og bættu framleiðsluna.  Þessir nýju borgarar ollu líka breytingum í menningarlífi borgarinnar og þær urðu til þess, að bæði enskt og írskt fólk fluttist þangað.  Þessir innflytjendur byggðu sínar eigin kirkjur og lögðu grunn að núverandi fjölbreytni í trúarlífi og trúarhreyfingum borgarinnar.

Miðborgin er á vesturbakka Lagan, sem er víða brúuð innan borgar.  Nokkrar göngugötur eru í miðborginni.  Fram til ársins 1994 máttu vegfarendur búast við því, að lögregla eða hermenn krefðu þá um persónuskilríki.

Ráðhúsið við Donegall-torg er aðalbygging miðborgarinnar og mest áberandi.  Það er stór bygging í endurreisnarstíl (palazzo; Sir Brumwell Thomas; byggð 1898-1906) með fjórum hornturnum og einni mikilli hvelfingu yfir miðri forhliðinni.  Fyrir framan hana eru styttur af Viktoríu drottningu og merkismönnum borgarinnar.  Stríðsminnismerkið er í Minningargarðinum (Garden of Remembrance) vestan við húsið.  Þar er líka minnismerki um Titanic-slysið.  Norðan við torgið er Vefnaðarbókasafnið (1788) með sýningu helgaða sögu þessa iðnaðar.  Donegall Place og nærliggjandi götur eru aðalverzlunarhverfið með stórverzlunum.

Kirkja hl. Önnu er norðar.  Hún er aðalkirkja ensku biskupakirkjunnar.  Bygging hennar hófst árið 1898 (arkitektinn var Sir Thomas Drew).  Dyra-búnaður kirkjunnar er fagurlega skreyttur höggmyndum.  Í skírnarkapellunni er mósaíkloft gert úr hundruðum þúsunda glerflísa.  Í kirkjunni er grafhýsi Lord Duncairn, sem var forsprakki sambandssinna í Ulster.

Tollhúsið og Klukkuturninn (minnismerki um Albert drottningarmann) eru suðaustan kirkjunnar.  Klukkuturninn er betur þekktur undir nafninu Big Ben í Belfast'  Hann var byggður árið 1869.

SUÐUR - BELFAST
Queen's háskólinn
(1845-94) er 1207 m sunnan Donegalltorgs.  Þetta er rauð múrsteinsbygging í Tudorstíl og þar er sögusafn.  Háskólinn hefur verið sjálfstæður síðan 1909.

Ulster-safnið er fyrir sunnan háskólann í grasagarðinum.   Það er opið mánud.-föstud. kl. 10:00-17:00, laugard. kl. 13:00-17:00 og sunnud. kl. 14:00-17:00.  Þar er að finna mikið safn muna frá tímum kelta og frá frumkristni (sverð, hörpur, skartgripi o.þ.h.).  Árið 1968 bættist merkilegur fundur við safnið.  Þá var munum bjargað af hafsbotni úr spænskri galeiðu, sem sökk úti fyrir norðurströndinni á 16. öld.

Listasafnið er einkum ríkt af málverkum evrópskra listamanna frá 17. og 18. öld og írskri list frá ýmsum tímum.  Þar er líka talsvert af írsku glerverki og silfursmíði.

Merki um brottflutning Íra, einkum til Vesturheims, sjást í myndum af fólki frá Norður-Írlandi, sem komst til metorða í Bandaríkjunum, þ.á.m. tíu forseta Bandaríkjanna.


NORÐUR – BELFAST
Norðan borgarinnar eru dýragarðurinn, margir lystigarðar, íþrótta- og golfvellir og Belfastkastali (1870), þar sem Lord Shaftesbury bjó eitt sinn.  Þar er líka Hellishæð (Cave Hill; 360m), sem varð til við eldgos.  Í hæðinni á að vera hægt að sjá vangasvip Napóleons Bónapartes.  Það er þess virði að ganga upp á hæðina til að njóta útsýnisins yfir borgina í góðu veðri.  Þaðan sést til vatnsins Lough Neagh í vestri, til strandar og Isle of Man í austri.

Stormont.  Tæplega 6 km austan Belfast, í Stormont, er stór bygging í klassískum stíl (1928-32).  Þetta er þinghús Norður-Írlands.  Framan við það er minnismerki Edwards Carsons. 

Útisafn Ulster er 5 km norðar, á landareign Cultraóðalsins.  Það er safn hefðbundinna Ulsterhúsa, þar sem sýnt er heimilislíf og landbúnaður.  Það er opið sem hér segir:  Maí-sept. mánud.-laugard. kl. 11:00-16:00 og sunnud. kl. 14:00-16:00; Okt.-apríl mánud.-laugard. kl. 11:00-17:00 og sunnud. kl. 14:00-17:00.  Þar þarf að greiða aðgangseyri.

HÓTEL
Forum, Great Victoria Street, A*, 100 herb.;
Culloden, 142 Bangor Road, A*, 76 herb.;
Conway, Dunmurry, A*, 76 herb.;
Stormont, 587 Upper Newtownards Road, A, 67 herb.;
Drumkeen, Upper Galwally, A, 28 herb.;
La Mon House, 41 Gransha Road, B*, 30 herb.;
Lansdowne Court, 657 Antrim Road, B*, 24 herb.;
Park Avenue, Holywood Road, B, 42 herb.;
York, 59-63 Botanic Avenue, C, 18 herb.


VEITINGAHÚS
Ambassador, 463 Antrim Road;
Crown (gamalt og vel þekkt), 46 Great Victoria Street;
La Mon House, 41 Gransha Road;
Maysfield Leisure Centre, East Bridge Street;
Park Avenue Hotel, Holywood Road;
Skandia, 50 Howard Street;
Strand, 12 Stranmillis Road.

HÁTÍÐIR
Lord Mayor's Show í maí.  Skrúðganga með skreyttum vögnum og hljómsveitum.
Belfast Festival of Queen's.  Leiklist og tónlist í Queen'sháskólanum í nóvember.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM