Belfast og nágrenni,,
[Flag of the United Kingdom]

AÐALSÍÐA

BELFAST
NÁGRENNI
NORÐUR ÍRLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Norðan og sunnan við Belfastfjörð (Lough) eru nokkrar vinsælar baðstrendur.  Norðurströndin er sérstaklega falleg.
Carrickfergus (Coast Road Hotel, B*, 20 herb.; Dobbin's Inn, B, 13 herb.) er miðleiðis meðfram norðurströnd fjarðarins, 11 km frá Belfast.  Þar var talsverð höfn áður en Belfast varð að hafnarborg.  Þar er mjög vel varðveittur normannakastali:
Carrickfergus kastalinn (hét Kragfargy's Castle á miðöldum) stendur á blágrýtiskletti, sem var umflotinn nema að norðanverðu.  Hann var hernaðarlega mjög mikilvægur í u.þ.b. 750 ár, þar eð hann lá mjög vel við siglingum inn Belfastfjörð og inn í höfnina.
Normanski auðmaðurinn John de Courcy hóf byggingu hans á árunum 1180-1204.  John konungur lagði hann undir sig árið 1210 eftir heils árs umsátur.  Árið 1310 féll kastalinn í hendur Skota.  Hann var endurbyggður á 16. öld og vígvirki styrkt verulega en eftir það var hann látinn grotna niður.  Frakkar tóku kastalann árið 1710.  Það var í síðasta skiptið, sem hann féll í óvinahendur.  Á 18. öld var hann notaður sem fangelsi.  Síðar, eftir að hann hafði verið lagfærður og styrktur á ný, var hann notaður (til 1928) sem lager og vopnabúr hersins.  Í síðari heimsstyrjöldinni var kastalinn notaður sem loftvarnarbyrgi.  Á þriðju hæð aðalbyggingar kastalans er afbragðsfallegur normanskur salur og gott útsýni er ofan af þaki.  Hið tveggja hæða hliðhús og fallbyssurnar (16.-19.öld) eru athyglisverðar.

Island Magee er 11 km langt og 3 km breitt nes.  Það er á leiðinni frá Carrickfergus, þegar ekið er um Whitehead, vinsælan baðstrandarbæ.  Á austurhluta nessins eru blágrýtisklettar, Gobbins, (76m) með nokkrum hellum.  Fjöldi þjóðsagna eru tengdar þessum klettum og hellum.  Á yzta odda nessins er dólagrafhýsi.

Margar grjótnámur og sementsverksmiðjur lýta strandlengjuna á leiðinni til Larne (Magheramorne House Hotel, A, 23 herb.; Highway Hotel, B, 11 herb.), sem er líflegur iðnaðar- og baðstrandarbær við Larne-vatn (Lough).  Þar eru athyglisverðar leifar af Olderfleetkastala (þriggja hæða).

Frá Larne sigla ferjur til Skotlands (Stranraer og Cairnryan) og Mageeeyjar.

Strandlengjan milli Larne og Cushendun er rómantísk og falleg.  Eftir að komið er í gegnum Svarthellisgöngin er ekið umhverfis Ballygalleyhöfða (Head) með blágrýtishömrum sínum.  Ballygalley er vinsæll baðstaður með gömlum kastala, sem er núna hótel (Ballygalley Castle Hotel, A, 30 herb.).  Þaðan, á leið til litla hafnarbæjarins Glenarm við ósa Glenarmárinnar, eru kalkklettar beggja vegna vegarins.  Næsti baðstrandarbær er Carnlough með lítilli höfn og góðum sandströndum.

Waterfoot við Red Bay er á fallegum stað á Antrimströndinni í nokkurs konar náttúrulegu hringleikahúsi úr sandsteini fyrir framan *Glenariffgilið, sem er eitt fegursta gilið á ströndinni (Glens of Antrim Feis - írskur dans og tónlist í júlí).  Rétt handan Waterfoot eru litlu strandbæirnir Cushendall og Cushendun.

Það er líka fallegt sunnan við Belfastfjörð og margir litlir og aðlaðandi bæir.  Í Holywood, úthverfi Belfast, eru leifar 12. aldar Fransiskuklaustursins Sanctus Boscus (Helgiskógur).  Vegurinn liggur áfram um Crawfordsburn til Bangor (O'Hara's Royal Hotel, A, 32 herb.), sem er vinsælasti baðstaður Norður-Írlands.  Þar eru breiðar sandstrendur, fallegar strandgötur og góð aðstaða til íþrótta og annarrar afþreyingar.  Kastalinn og garður hans og Abbeykirkjan á rústum klausturs, sem var stofnað árið 555, eru meðal áhugaverðra staða í bænum.  Á leiðinni til Bangor er Helenuturninn í nánd við Crawfords-burn.

Handan Bangor sést til Copeland-eyju.  Sunnar, við Donaghadee, er hinn 32 km langi Ardsskagi.  Vegur liggur meðfram strönd Írlandshafs frá Donaghadee til Ballywalter (falleg strönd), Ballyhalbert og Cloghy, þaðan sem hann sveigir aftur inn til landsins til Portaferry, syðst á skaganum.  Frá Portaferry sigla ferjur til Strangford (sjá nánar) á meginlandinu.  Það er hægt að aka frá Portaferry með vesturströnd skagans á vegi A20 meðfram Strangford Lough.  Þessi vegur liggur um Ardkeen (kastalarústir) og Kircubbin til Greyabbey.  Þar eru leifar Sistersiaklausturs frá 1193, einhverjar hinar best varðveittu í landinu (lóðréttir gluggar og glæsilegur vesturinngangur).

Vegurinn liggur áfram um Mount Stewart House (fallegur lystigarður með mörgum dvergtrjám) til Nwetownards, þekkts vefnaðarbæjar.  Þaðan er gott að fara í skoðunarferðir um um ströndina og Mourne-fjöllin sunnar.  Þar er ráðhús frá 1770 og rústir Dóminikanakirkju (1244).  Við High Street er Old Cross, sem hefur verið endurbyggður nokkrum sinnum.

Héðan er hægt að fara beint til baka til Belfast (10 km) eða snúa til suðurs um viskíbæinn Comber og síðan suður með vesturströnd Strangford Lough til Downpatrick (34 km).  Fólk með græna putta beygir gjarnan af aðalveginum til litla bæjarins *Saintfield til að skoða sjaldgæf blóm og jurtir Rowallane görðunum.

Strandbærinn Killyleagh er á vesturströnd Strangford Lough.  Þar fæddist Sir Hans Sloane, sem stofnaði British Museum, og Hilltop-kastalinn.  Umhverfið er mjög fallegt og Mournefjöllin í blámóðu fjarskans.

Downpatrick er aðalbærinn í Downhreppi.  Þar hóf hl. Patrekur kristinboð sitt í Írlandi árið 432.  Þremur km norðar er Saul, þar sem hann tók land, byggði fyrstu kirkjuna og er sagður hafa dáið.  Fyrrum biskupssetrið, Downpatrick Cathedral, var byggt árið 1790 á grunni eldri kirkju (17.öld).  Enn standa nokkur súluhöfuð og skírnarfontur úr henni.  Granítsteinninn í kirkjugarðinum, sem sagður er vera legsteinn biskupsins, er frá aldamótunum 1900, hvernig sem það kemur heim og saman.

Vegurinn liggur til austurs frá Saul til Strangford, fyrrum bústaðar víkinga, á fallegum stað við suðurenda Strangford Lough.  Mikilvæg hernaðarleg lega þessa staðar sést bezt af fjórum Normannaköstulum (16.öld) í bænum og umhverfis.  Audley'skalstalinn er opinn almenningi.

Ardglass, sunnan Strangford, hafði góðar varnir, ekki færri en 7 kastala.  Rústir eins þeirra, Jordan Castle, sjást enn þá.  Þarna var fyrrum mikilvæg höfn en nú er Ardglass fiskimannabær.

Við St. John's höfða (Point) hefst *leið meðfram fallegasta hluta strandar Norður-Írlands til Newry (63 km).  Hún liggur meðfram öllum Dundrumflóa, sem er grunnur og myndar miklar leirur á fjöru, til Newcastle.  Dundrum er fallegt fiskiþorp með góðum sandströndum.  Þar er turn með virkisgröf, leifar gamla kastalans.

Newcastle (Slieve Donard Hotel, Downs Road, A, 118 herb.) er baðstrandarbær með öllum þægindum, m.a. golfvelli.  Bærinn er við vestanverðan Dundrumflóa við rætur Slieve Donardfjalls (853m), hæsta hluta Mournefjalla.  Það tekur tvo tíma að ganga á fjallið og útsýnið uppi á góðum degi svíkur engan.  Það sést alla leið til Skotlands.

Vegurinn frá Newcastle er á fótinn, sjórinn á vinstri hönd og síbreytileg Mournefjöllin með fjölda sjaldgæfra plantna á hina hægri.  Hann liggur um marga, rólega fiski- og landbúnaðarbæi, s.s. Glasdrumman og Annalong, þaðan sem upplagt er að ganga á nokkur mishá fjöll (518-747m), Slieve Bignian o.fl.

Kilkeel er vinsæll bær meðal veiðimanna.  Þar er góð veiði í sjónum, Kilkeelánni og Carlingford Lough, sem er á milli Greencastle og Greenore og teygist langt inni í land.  Umhverfis Kilkeel eru mörg forsöguleg grafhýsi.

Vegurinn frá Kilkeel til Hilltown liggur um Mournefjöllin og er víða brattur..  Hilltown er við norðvesturrætur hæðanna.  Bærinn er góð miðstöð gönguferða um hæðirnar, sem sýna litbrigði graníts og flögusteins.

Norðan Carlingford Lough er fallegur orlofsstaður (bátsferðir, útreiðar, fiskiveiðar, göngur o.fl.), Rowtrevor, á skógi vöxnu svæði (mest eik).

Hafnar- og iðnaðarborgin Newry er við Newry-ána og skurðinn með Mourne-fjöllin til suðausturs og Camlough-fjöll til vesturs.  Turn kirkju heilags Patreks, fyrstu mótmælendakirkju Írlands, er frá árinu 1578.  Dóm-kirkjan í grenndinni (RC) er nýgotnesk.  Nálægt Newry er fallegt þorp, Bessbrook og Derrymore House, 18. aldar hús með stráþaki í georgstíl.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM