Makedónía meira,
Flag of Macedonia, The Former Yugoslav Republic of

TÖLFRÆÐI

MAKEDÓNÍA,
MEIRA

Map of Macedonia, The Former Yugoslav Republic of
.

.

Utanríkisrnt.

SENDIRÁÐ og RÆÐISMENN

Booking.com

Landslag og lega.  Landslagið er að mestu mótað af myndbreyttum fellingajarðlögum, sem hafa veðrast í vesturhlutanum niður á eldri granítlög.  Í miðhlutanum eru yngri setlög.  Misgengi, sem jarðskjálftar mynda í jarðskorpuna, eru áberandi á leiðinni frá norðri til suðurs í gegnum landið.  Stærsti jarðskjálfti, sem hefur mælzt í landinu, reið yfir Debar 1967, 9 á Richter.  Þá hrundi Skopje að mestu í jarðskjálftum 1963.  Þessar jarðskorpuhreyfingar hafa líka mynda vötnin Prespa og Ohrid í suðvesturhlutanum, nokkarar ölkeldur og laugar.

Landið er að mestu fjalllent og margir tindar teygja sig upp fyrir trjálínu, sem er í u.þ.b. 2000 m hæð.  Hæst rís Korabfjall (2753m) á landamærunum að Albaníu.  Landið er skógi þakið í norðvesturhlutanum við Sarfjöllin.  Þar sem skógur hefur verið höggvinn, blasa við afleiðingar ofbeitar og ofnýtingar.  Allur jarðvegur hefur eyðzt.  Þarna eru líka víðir og frjósamir dalir, sem eru vel fallnir til ræktunar.

Vatnasvið.  Mestur hluti vatna Makedóníu (87%) falla til suðausturs í Eyjahafið, aðallega til Vardaár og þveráa hennar.  Lítill hluti rennur til Doiranvatns og til Eyjahafs um Strumica- og Strumaárnar.  Annað vatn fellur til Adríahafs um Crni Drimána.  Misgengislandslagið veldur því, að margar ánna eru mjög bugðóttar og falla víða um mjó og ægifögur gljúfur.  Þessar aðstæður auðvelda virkjun vatnsorkunnar.

Loftslag.  Landið er á mörkum tveggja loftslagssvæða, Miðjarðarhafsins og meginlandsins.  Norðan- og sunnanvindar eru árstíðabundnir.  Þeir berast yfir fjöllin og valda miklum andstæðum í veðurlagi.  Norðanvindurinn er kallaður vardarac.  Í heildina tekið er meginlandsloftslagið temprað og meðalhiti janúar er 0°C og júlí 20°-25°C.  Meðalúrkoma er milli 500 og 700 mm.  Minnst rignir í júlí og ágúst en mest í október til nóvember.  Landslagið á mikinn þátt í veðurlagi á hverjum stað, þannig að í austurhlutanum eru vetur mildari og sumur heitari og þurrari en í vesturhlutanum, sem er fjalllendari.

Plöntu- og dýralíf.  Fjalllendi norðvesturhlutans er skógi vaxið.  Lægra í hlíðunum eru laufskógar en ofar eru barrskógar allt upp í 2000 m hæð yfir sjó.  Sums staðir hefur skógurinn verið höggvinn til að halda búsmala í seli.  Skógarnir veita fjölda villtra dýra skjól og æti, s.s. villisvínum, úlfum, björnum og gaupum.  Þurr og hlý sumur eru tilvalin fyrir tegundaríkt skordýralíf, s.s. engisprettur og auk þess eru margar tegundir eðlna.

Búseta.  Þjóðflutingar fyrri alda snertu þetta landsvæði eins og önnur víðast í Evrópu.  Efnahags- og stjórnmálaþróun hefur sett sín merki á búsetuval þessa fólks.  Uppi á hálendinu búa enn þá fjárhirðar í afskekktum þorpum og fjallaseljum.  Á landbúnaðarsvæðunum búa bændur í smáþorpum eins og þeir hafa gert um aldir.  Norkkir markaðsbæir eru enn þá eins útlits og þeir voru til forna.  Á tímum Rómverja var Bitola verzlunarstaður, sem hét Heraclea Lyncestis.  Ohrid varð miðstöð stjórnsýslu og kirkjuvaldsins snemma á miðöldum.  Þegar Tyrkir hófu landvinninga á 14. öld, óx Skopje og dafnaði sem stjórnsýslusetur, miðstöð hersins og stórar lendur voru brotnar til landbúnaðar.  Síðar urðu þessi landbúnaðarsvæði að samyrkjubúum í höndum kommúnista og voru nýtt til vélvædds landbúnaðar.  Þessi þróun leiddi til uppgangs í Kavardarci og Veles.

Iðnvæðingin á síðari hluta 20. aldar hafði gífurleg áhrif á búsetu í landinu. Íbúum Skopje fjölgaði í u.þ.b. fjórðung íbúa landsins.  Vaxandi ferðaþjónusta umhverfis og Ohrid hefur virkað sem hemill á aðdráttarafl Skopje og mikil fólksfjölgun meðal Albana í norðvesturhlutanum líka.  Flóttinn úr sveitunum er mest áberandi austan Vardarárinnar vegna hægfara þróunar í efnahagsmálum.

Þjóðerni og tungumál.  Þjóðernislegur grundvöllur Makedóníu er talsvert flókinn.  Makedóníumenn eru fjölmennastir, u.þ.b. 67%.  Þeir eru afkomendur slavneskra þjóðflokka, sem komu til þessa heimshluta á 6.-8. öld e.Kr.  Tungumál þeirra eru mjög skyld búlgörsku og ritmálið er kyrillískt.  Minnihlutahóparnir voru komnir á þessar slóðir löngu á undan slövunum.  Fjölmennastir þeirra (22,9%), eru Albanar, sem segjast vera afkomendur hinna fornu illýra.  Þeir búa saman í norðvesturhlutanum, meðfram landamærunum að albanska hluta Kosovo í Serbíu.  Þeir eru í meirihluta í þremur af 32 sveitarfélögum Makedóníu (Tetovo og Gosivar) og hafa mikil áhrif í sjö öðrum.  Einn minnihlutahópurinn er kallaður vlachs.  Þeir tala mál, sem er náskylt rúmönsku.  Stærstur hluti þeirra býr í gömlu fjallaborginni Krusevo.  Tyrkneski minnihlutinn býr aðallega í landinu vestanverðu og um miðbik þess.  Þeir eru afkomendur Tyrkja, sem fluttust til landsins á dögum Ottomanaveldisins.  Sígaunar eru líka afsprengi þessara tíma og sömu sögu er að segja um þá, sem skilgreina sig aðeins sem múslima.

Tungan, trúmálin og sagan tengja Makedóna nánari böndum við Búlgara en serba.  Báðar þessar þjóðir hafa haft sín áhrif á Makedóna, einkum serbar eftir 1918, og það eru enn þá hópar þeirra í landinu, serbar aðallega í Kumanovo og Skopje.

Trúarbrögð.  Trúarbrögðin skiptast aðallega eftir þjóðernum.  Flestir slavnesku hópanna eru rétttrúaðir en Tyrkirnir og mikill meirihluti Albana og sígauna eru múslimar.

Íbúarnir.  Fólksfjölgun hefur verið mikil á sögulegum tímum á Balkanskaga.  Þessi þróun breyttist verulega við iðnvæðinguna og þéttbýlismyndun.  Þessarar þróunar gætti aðallega meðal kristnu, slavnesku þjóðflokkanna í Makedóníu og varð minna vart meðal múslima.  Tyrkjum og múslimum fjölgar u.þ.b. 2½ sinnum hraðar en slövunum og Albönum og sígaunum þrisvar sinnum hraðar.  Þessi mismunur hefur verið rót pólitískrar spennu en samt í minna mæli en í Kosovohéraði í Serbíu.  Hrun Júgóslavíu 1991 olli miklu efnahagslegu umróti og spennu milli þjóðflokka og trúarhópa í Makedóníu.

Þróun sósíalismans.  Mikil breyting varð á efnahagslífi ríkjanna á Balkanskaganum eftir síðari heimsstyrjöldina og Makedónar upplifðu þær sem eitt alþýðulýðvelda Júgóslavíu.  Þrátt fyrir bætt kjör á ýmsum sviðum, var Makedónía fátækasta lýðveldið áfram og var á lista þeirra Austantjaldsríkja, sem þáðu styrki frá hinum ríkari.  Þessi aðstoð leiddi til talsverðrar uppbyggingar, sem nýttist illa vegna þess, að ævinlega vantaði herzlumuninn og leiðir til markaða fyrir framleiðslu landsins voru ógreiðar.  Gott dæmi um uppbygginguna var valið á Skopje til stáliðnaðar.  Þar var mikilvæg framleiðsla á stáli, járnblendi, sínki, blýi og kopar fyrir júgóslavneska markaðinn.  Meðal annarra velheppnaðra iðnfyrirtækja voru þau, sem framleiddu vefnaðarvörur úr gerviefnum, lyf og byggingarefni.  Landbúnaðurinn var samt sem áður mikilvægastur fyrir efnahag landsins, s.s. ræktun tóbaks, hrísgrjóna, ávaxta, grænmetis og víns.  Á níunda áratugnum varð ferðaþjónustan æ mikilvægari þáttur.

Einkaframtakið.  Helztu atvinnuvegir landsins voru reknir á grundvelli sósíalismans frá 1945 til 1991.  Samt sem áður var einkaframtakið á sviðum landbúnaðar, framleiðslu farartækja og smásölu mikilvægt fyrir þjóðarbúið.  Nálega 70% ræktaðs lands var í einkaeigu og þaðan komu u.þ.b. 50% framleiðslunnar.  Þessi einkarekstur var ævinlega mjög einsleitur og hefðbundinn, þannig að lítið hefur breytzt síðan landið losnaði úr viðjum kommúnismans 1991.

Verzlun og viðskipti.  Í kjölfar borgarastyrjaldarinnar í Júgóslavíu 1991 riðaði efnahagslíf landsins.  Lýðveldið hafði selt framleiðslu sína innanlands fremur en að vinna markaði erlendis og útflutingur Júgóslavíu beindist fremur til annarra Austantjaldslanda en í vesturátt.  Viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna gegn Serbíu jók þessa erfiðleika, þar eð mikið dró úr vöruflutningum um Makedóníu.  Bitrar deilur við Grikki um nafn lýðveldisins drógu úr sókn Makedóniumanna eftir alþjóðlegri viðurkenningu á sjálfstæði landsins, sem leiddi til dráttar á erlendum fjárfestingum og efnahagsbata.

Samgöngur.  Hagstæð lega borgarinnar á leiðinni gegnum Morava- og Vardar lægðirnar frá Belgrad í Serbíu til Þessalóníku í Grikklandi leiddi til nokkuð góðra járnbrauta- og vegatenginga á norðvestur-sauðausturleiðinni.  Járnbrautin um Bitola til Grikklands og hliðarspor hennar eru orðin úr sér gengin og þarfnast viðgerðar.  Umbætur á ýmsum sviðum þjóðlífsins hafa fremur orðið á sviðum, sem tengjast alþjóðlegum kröfum, og þarfir íbúanna sjálfra verið minna metnar.  Af þessum sökum hefur samgöngumálum í austurhluta landsins lítt verið sinnt, svo að framfarir hafa verið hægfara þar.  Þróun ferðaþjónustunnar á Mavrovo-Ohridsvæðunum í vesturhlutanum ýtti undir vegagerð og byggingu flugvallar við Ohrid.

Stjórnarskráin frá 1991 kveður á um lýðræðislegt þing (Sobranie; 120 þingmenn) og fjölflokka kerfi.  Hún kveður líka á um algeran aðskilnað löggjafar-, dóms- og framkvæmdavalds og ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa ekki leyfi til að sitja á þingi.  Forsætisráðherran stýrir framkvæmdavaldinu, sem verður að fara að lögum og úrskurðum dómstóla.  Þingmenn eru kosnir í meirihlutakosningum en forsetinn verður að fá atkvæði meirihluta allra, sem eru á kjörskrá.  Forsetaembættið er svipað hinu íslenzka, þar sem forsetinn er einungis táknrænn þjóðhöfðingi.

Landinu er skipt í 32 sveitarfélög (opstine), sem ráða ýmsu í eigin málum, s.s. á sviðum félags-, dóms- og efnahagsmála.


Menntun.  Skólaskylda er 8 ár frá sjö ára aldri.  Kennslan fer fram á mismunandi tungumálum eftir þörfum.  Nemendur eiga kost á tveggja ára miðskóla eftir að skólaskyldu lýkur.  Þar er lögð áherzla á sérnám, sem beinist gjarnan að þörfum hvers sveitarfélags eða svæðis fyrir sig.  Eini háskóli landsins er í Skopje en hann rekur deildir víða í öðrum borgum og bæjum.

Menningarlíf.  Mikil áherzla hefur verið lögð á stuðning við menningu og tungumál í landinu, bæði í skólum landsins og menningarstofnunum.  Ríkið rekur útvarps- og sjónvarpsstöðvar, sem ljá þessum málaflokki verulegt lið.  Fjárskortur gerir ríkinu erfitt um vik að sinna þessum málaflokki sem skyldi, þannig að aðalmenningarstofnanirnar eru í Skopje.  Minnihlutahópar sinna sínum þörfum sjálfir eins og þeir hafa getu til.  Makedóníumenn hafa látið til sín taka á alþjóðamenningarsviðinu á áberandi hátt, einkum með Struga ljóðahátíðinni og leikritum Goran Stefanovskis.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM