Kýpur meira,
Flag of Cyprus

SKOÐUNARVERT

KÝPUR
MEIRA

.

.

Utanríkisrnt.

SENDIRÁÐ og RÆÐISMENN

Booking.com

Jarðfræði.  Kýpur er hluti af sýrísk-anatólísku fellingafjallanna.  Norðurströndin er öll hálend, sæbrött vestantil og allt að 1000 m há en lækkar niður í hæðalandslag til austurs í leirjarðvegi og tertíeru kalki.  Á suðurhlutanum eru skógi vaxin Tróodos- eða Ólympusfjöll, fjalllendi úr díabas og trachyt, sem teygir sig upp í 1952 m hæð (Olympos).  Á tertíertímanum voru þessir fjallgarðar aðskildar eyjar, sem tengust við ris hafsbotnsins.  Bilið á milli þeirra, 15-35 km breitt, er frjósamt láglendi Mesoariu.  Talsverð jarðskjálftavirkni gefur til kynna, að þessi hluti jarðskorpunnar er enn þá á fleygiferð.

Loftslag eyjarinnar er mjög milt og þægilegt allt árið.  Sumrin eru heit og þurr með rúmlega 28°C meðalhita í Famagusta og 22°C í fjalllendinu.  Veturnir eru mildir og úrkomusamir.  Það snjóar nægilega í Tróodosfjöllum frá nóvember til marz eða apríl til þess að stunda þar vetraríþróttir (jan.-marz).  Úrkoman er mest í vesturhluta Tróodosfjalla (1000 mm) en minnkar þegar austar dregur, einkum á láglendinu (400 mm).  Sólskinsdagar á ári eru u.þ.b. 340.  Ár og lækir í Tróodosfjöllum flytja aðeins vatn á veturna.

Sagan.  Eyjan var byggð fólki þegar á steinöld.  Kopar (lat. cyprium) hefur verið unninn frá örófi alda.  Íbúarnir urðu fyrir menningaráhrifum frá Krít, Mýkenu, Litlu-Aslíu og Mesópótamíu.  Egyptar, akæjar, föníkar og Persar réðu eyjunni þar til Rómverjar lögðu hana undir sig árið 58 f.Kr.  Að þeim gegnum tók Býzantíum við og árið 1191 varð hún brezk fyrir tilstilli Ríkharðs I ljónshjarta.  Feneyingar náðu yfirráðum 1489 og Tyrkir 1570/71.  Tyrkir létu Bretum hana eftir.  Grísku íbúarnir voru ekki ánægðir með stjórn Breta og gerðu uppreisn (Enosis) gegn þeim árið1931.  Eftir að Makaríos erkibiskup (Michael Muskos, 1913-77) tók við völdum héldu skæruliðar áfram baráttu sinni.  Árið 1960 varð Kýpur að sjálfstæðu lýðveldi í Brezka samveldinu.  Árið 1974 gerðu lífvarðasveitirnar og tilraun til valdaráns og stefndu að því, að eyjan yrði grísk.  Tyrkir sendu herlið til norðurhlutans og Grikkir búsettir þar flúðu til suðurhlutans.  Landamærin, Attilalínan, á milli Tyrkja og Grikkja á eyjunni urðu til 1975, þegar tyrkneski hlutinn lýsti sig sambandsríki Tyrklands.  Þessi landamæri liggja í gegnum höfuðborgina Nikósíu og eru hér um bil músarheld.

Efnt var til þjóðaratkvæðagreiðslu um sameiningu tyrknesku og grísku hluta eyjarinnar beggja vegna landamæranna í apríl 2004.  Niðurstöðurnar urðu þær, að Grikkir felldu tillöguna en Tyrkir samþykktu.  Því varð ekkert úr sameiningu þessu sinni.  Tyrknesku íbúarnir munu þó njóta sérstakra styrkja frá ESB vegna afstöðu sinnar.

Íbúarnir.  Eftir að landamærin komu til sögunnar 1975 hefur samsetning íbúanna breytzt mikið.  Grísku íbúarnir (80%) búa á 60% lands og eru í grísku réttrúarkirkjunni og tyrknesku íbúarnir (18%) eru múslimar og búa á 40% landsins.  Skörðin, sem mynduðust á norðurhlutanum, þegar grísku íbúarnir flúðu suður, hafa fyllst af innflytjendum frá Anatólíu.  Helztu minnihlutahópar á eyjunni eru Armenar, marónítar og gyðingar.  Borgarbúar eru 42% íbúanna og 58% búa í dreifbýlinu.  Helztu borgir eru Nikósía, Limassol, Famagusta, Larnaka, Paphos og Kyrenia.  Brezkar herstöðvar eru á 260 km² svæðum í kringum Dekelia og Akrotiri.

Atvinnulífið.   Landbúnaður.  Mestur hluti tekna landsins kemur frá landbúnaði og rúmlega helmingur þess er nýttur í þessum tilgangi.  Mest er ræktað af hveiti, byggi, sítrusávöxtum, vínviði, grænmeti, ólífum og möndlum.  Áveitur gera bændum kleift að skera tvisvar upp á ári, ef þeir nýta þær skynsamlega.  Dregið hefur úr búfjárrækt til að nýta landið betur til ræktunar en sauðfjár- og fuglarækt er enn þá nokkuð útbreidd.  Barrskógar þekja u.þ.b. 20% lands en þeir eru ekki nýttir.  Fiskveiðar eru að mestu stundaðar fyrir innanlandsmarkað.

Hráefni í jörðu.  Landið er ríkt af auðæfum í jörðu.  Aðalkoparnámurnar eru að vísu að mestu uppurnar.  Aðalvinnslan byggist á brennisteins- og járnkís, asbesti, krómi, gipsi og umbra (rautt litarefni).

Iðnaður er tiltölulega skammt á veg kominn og iðnfyrirtæki eru flest lítil fjölskyldufyrirtæki, sem annast fullvinnslu landbúnaðarafurða, s.s. matvöru, sælgæti og vefnaðarvörur.

Ferðaþjónustan hefur smám saman náð sér á strik á ný í gríska hlutanum eftir algert hrun, þegar ýfingar voru mestar milli Grikkja og Tyrkja.

Rafmagnsframleiðsla er háð innfluttri olíu.

Vinstri umferð gildir á hinu u.þ.b. 5000 km langa vegakerfi landsins.  Hún er arfur frá veru Breta á eyjunni.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM