Kýpur skoðunarvert,
Flag of Cyprus


KÝPUR
SKOÐUNARVERÐIR STAÐIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Mælt er með skoðunarferðum frá Nikósíu til Tróodosfjalla í suðvesturátt.  Þar er einkum bent á Thamassosgrafirnar og Makerasklaustrið.  Býzönsku kirkjurnar í Peristerona, Perachorio (freskur), Lagudera og Assinu eru með á listanum auk miðaldaþorpanna Kakopetria, Galata, Mutullas, Kalopanagiotis (brennisteinshverir) og Pedulas (kirsuberjatrén blómstra í apríl).  Klaustrin Mesapotamos og Kykko (1100; helgimynd eftir hl. Lúkas).  Thronibærinn er skammt frá Kykkoklaustrinu.  Þar liggur Makaríos erkibiskup og fyrrum forseti grafinn.

Lefkara, þorp vestan Larnaka, er frægt fyrir frábæran útsaum.  Sagt er, að Leonardo da Vinci hafi pantað þar altarisklæði fyrir dómkirkjuna í Mílanó árið 1481.

Stavrovuni-klaustrið (Krossfjallsklaustrið; 680m) er vestan Larnaka á hæðum með góðu útsýni.  Hl. Helena, móðir Konstantíns mikla, stofnaði það árið 327.  Skammt norðvestar er þorpið Kornos, sem er þekkt fyrir óglerjaða leirmuni í fornaldarstíl.

Rústir síðsteinaldarbæjarins Kirokitia (5800-5250 f.Kr.) eru 17 km suðvestan Larnaka.

*Agia Napa
(strönd) er fiskiþorp og baðstaður 25 km austan Larnaka, umkringt grózkumiklum ávaxta- og grænmetisökrum, kúnstugum klettamyndunum og vindmyllum.  Samnefnt klaustur í miðju þorpinu er ein hinna síðustu bygginga frá feneyskum tímum á eyjunni auk þess að kirkja þess er í helli í klettunum.  Mörg nærliggjandi þorp bjóða fallegar víkur og sandstrendur, einkum Paralimni, sem er pílagrímastaður matgæðinga, Liopetri, Potamos tis Xylophagu, Protaras og *Fíkjutrjáavíkin, sem er með einni beztu baðstönd eyjarinnar.

Limassol er önnur stærsta borg Kýpur, miðstöð iðnaðar, vínverzlunar og mikilvæg útflutningshöfn.  Hún er á suðurströndinni á milli fornborganna Kurion í vestri og Amathus í austri.  Eftir 1291 var þar herstöð riddara Temple- og Jóhannesarreglnanna við austanvert Miðjarðarhaf og þar hitti Ríkharður I, ljónshjarta, Berengaria af Navarra. 

Skoðunarvert:  Höllin með byggðasafninu, almenningsgarðurinn með litlum dýragarði og vínkjallararnir.  Kolossivirkið, sem Jóhannesriddararnir byggðu 1210, umkringt aldingörðum, er 10 km vestan borgarinnar.  Rústir fornborgarinnar Kurion með baðhúsum (5.öld f.Kr.), leikhúsi (50-175 e.Kr.; sumarhátíðir með fornum og Shakespearuppfærslum), fallegum gólfmósaíkverkum og Apollohofi eru 20 km vestan Limassol.  Í bænum Episkopi, suðvestan borgarinnar, er skoðunarvert forngripasafn.  Það er líka mælt með ferðum til aldingarðanna í Phassuri, klaustranna Tróoditissa og Omodos og fallegu þorpanna Fini, Kilani, Platres, Prodromos og Tróodos í Tróodosfjöllum.

Paphos var höfuðborg Kýpur á rómverskum tímum og hafnarborg pílagríma, sem komu til að heimsækja helgidóm ástargyðjunnar Afródítu við þorpið Kuklia, 15 km suðaustan Paphos (rústir).  Nútímabærinn Ktima er 3 km frá fyrrum hafnarborgin Kato Paphos með borgarmúrum og upprunalegri höfn, sem Alexander mikli lét byggja.

Skammt frá höfninni eru frábærlega velvarðveitt *mósaíkgólf í húsi Dionysos.  Ofan hafnarinnar er miðaldahöll (1592).  Í biskupshöllinni er áhugavert forngripasafn og Býzanskt safn.  Ófjarri Paphos eru 100 ágætlega skreyttar konungagrafir.

Petra tu Romiu er 24 km suðaustan Paphos.  Samkvæmt áttundu Ódysseifskviðu steig Afródíta þar úr hafinu.

Mælt er með ferðum til klaustranna Chrysorrogiatissa, Agios Neophytos og Agia Moni, Sedrusdalsins, Fontana Amorosa og Afródítubaðanna við Polis við norðanverða Krysokuvíkina.

Kyrenia (Kerynia fyrrum) er mikilvægasti hafnarbærinn á norðurhluta Kýpur.  Þessi töfrandi bær er rómaður fyrir fagra legu sína við rætur Pentadaktylosfjalla.  Virkin (9-16.öld) við víkina austanverða eru áhrifamikil.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM