Tíbet Kína,
Flag of China

Meira

TÍBET
KÍNA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Tíbet heitir Bodjul á tíbetsku.  Það er meðal fegurstu svæða jarðar og sveipað hulu dulúðar.  Landamæri Tíbets eru greinilega merkt á landakortum en þjóðirnar, sem þar eiga hlut að, hafa mjög mismunandi stjórnmálalegar skoðanir á þeim.  Tíbetar segja landið teygjast milli 28°-38°N og 79°-102°A samkvæmt sögulegri hefð.  Þetta landsvæði nær yfir u.þ.b. 3,2 milljónir km² og skiptist upprunalega í héruðin Ü-Tsang (Mið-Tíbet), Amdo og Kham.  Eftir að herir Kínverska alþýðulýðveldisins lögðu það undir sig var það innlimað í Kína árið 1951.  Mið-Tíbet var lýst sjálfstjórnarhérað árið 1965 og nefnt Xizang.

Vegna hinnar óvenjulegu legu Tíbets svo hátt yfir sjó (3000-5900 m) er landið oft kallað „Þak heimsins".  Vestan og norðan þessarar hæstu og stærstu hásléttu jarðar eru hér um bil óbyggðar steppur og eyðimerkur.  Byggðin er að mestu í tiltölulega frjósömum hádölum (3900 m.y.s.) suðurhlutans, í Tsangpo (Brahmaputra) milli Transhimalaja og Himalaja (Mt. Everest, 8848m; á landamærunum að Nepal).

Meðalhitinn í suðurhlutanum liggur á milli 25°C á sumrin og -15°C á veturna.  Á norðursléttunni, þar sem stórhríðir og sandstormar geisa oft vikum saman, getur hitastigið farið niður fyrir -50°C.  Í suðurhlutanum eru upptakakvíslar ánna Indus og þverár hennar Sutlej, Brahmaputra (Tsangpo á tíbetsku), Irawadi (Irrawaddy), Saluën (Salween) og Mekong (kínv. Lan Tsang).  Efri hluti Jangtsekiang myndar landamærin milli Tíbets og héraðsins Szetshuan (Sichuan).

Íbúafjöldi sjálfstjórnarsvæðisins Tíbet (Xizang) er u.þ.b. 3 milljónir (2 milljónir Tíbeta, 200.000 búsetukínverjar og 300.000 hermenn kínverska frelsishersins).  Aðalatvinnuvegur er kvikfjárrækt (jak-uxar, geitur, sauðfé, hestar, asnar o.fl.).  Fjórðungur íbúanna er hirðingjar.  Aðalafrakstur jarðrækt-ar er bygg (ræktað í allt að 4000 m hæð í norðurhlutanum), hveiti, ávextir, kartöflur og hýðisávextir.  Í suðausturhlutanum, þar sem er hlýrra, er að auki ræktaður sykurreyr og hrísgrjón.

Tíbetar halla sér að tíbetskri Buddhatrú, Lamatrú, sem er blanda af Buddha- og andatrú (trú á töfra; fjöldi klaustra).  Andlegur leiðtogi Tíbeta er Dalai Lama (Hafsjór þekkingar), sem síðast líkamnaðist í fjórtánda skipti í Tenzin Gyatso (f. 1935).  Hann flúði frá Tíbet árið 1959 og býr sem flóttamaður í indverska fjallaþorpinu Dharamsala í Nangra-héraði.

Á 7. öld e.Kr. var stofnað búddískt konungsríki í Tíbet, sem varð brátt hernaðarlega sterkt.  Á 9. og 10. öld varð Lamatrúin Buddhatrúnni yfirsterkari.  Leiðtogar nýja siðarins urðu jafnframt veraldlegir leiðtogar landsins.  Kínverskra áhrifa fór að gæta á 14. öld.  Árið 1642 stofnaði hinn fimmti Dalai Lama prestaveldisríki.  Á 18./19. öld uxu áhrif kínversku keisaranna.  Herleiðangur brezka liðsforingjans og landkönnuðar, Francis Edward Younghusband, braut sér leið til Lhasa á árunum 1903/04.  Tíbet var í raun heimastjórnarríki undir stjórn Lamapresta til ársins 1949.  Árið 1950 hernámu herir Kínverska alþýðulýðveldisins landið.  Kínverjar bældu niður uppreisn árið 1959 og tugir þúsunda Tíbeta ásamt Dalai Lama flúðu til Indlands og annarra nágranna-landa, sumir alla leið til Evrópu (m.a. til Sviss).  Hinn 9. september 1965 varð Mið-Tíbet að sjálfstjórnarhéraði í Kínverska alþýðulýðveldinu.  Kínverska menningarbyltingin náði líka til Tíbet á árunum 1966/67.  Rauðliðar bönnuðu allar trúariðkanir og eyðilögðu allflest menningarverðmæti, Lamaklaustur öðrum fremur.  Að loknum darraðardansinum stóðu aðeins 13 af 3800 klaustrum landsins eftir og óteljandi Tíbetar lágu í valnum.  Í kjölfar nýskipunar kínverskra valdhafa sjást augljósar framfarir í Tíbet, einkum í uppbyggingu samgangna og verzlunar, viðskipta og iðnaðar (vatnsorkuver, jarðolía, eðal-málmar, kol).  Árið 1980 kynntu kínverjar umbótaáætlanir fyrir Tíbet.  Aðalatriði þeirra voru endurreisn trúfrelsis og einkavæðing landbúnaðar.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM