Kína sagan,
Flag of China

Aðalsíða landsins

KÍNA
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Söguleg þýðing Kína og Indlands fyrir Austur-Asíu er sambærileg við þýðingu sögu Grikklands og Rómverja fyrir vestræn menningarsamfélög.  Þar er að finna grunn stjórnmálalegrar- og félagslegrar þróunar, rætur siðmenningar og fyrirmynd lista.  Sjálfstætt lífsmunstur þróaðist í Kína í aldatugi og hafði áhrif á nágrannasamfélög.  Þjóðir eins og Japanar, Víetnamar og Kóreumenn urðu stöðugt fyrir áhrifum frá Kína en héldu samt sérstöðu menningar sinnar.

Landssvæðið, sem Kína nær yfir, var byggt fólki fyrir 500.000 árum.  Leifar frummanna og verkfæra þeirra fundust suðvestan Beijing (Peking-maðurinn).  Fyrstu ritaðar heimildir kínverja eru frá dögum Shanghöfðingjaættarinnar, 1700-1025 f.Kr.  Þá réðu höfðingjarnir yfir borgum sínum og litlum svæðum umhverfis þær.  Gnægð bronsmuna frá þessum tíma gefur til kynna hátt menningarstig.

Öflugri þjóðflokkar neyddu Shangættina til að færa sig til vesturs.  Næsta valdaætt var Chou (1025-256 f.Kr.), sem reisti höfðuborg sína í grennd við núverandi Hsian (Vestur-Chou-ættin; 1025-771 f.Kr.).  Síðar var höfuðborgin flutt til Luoyang (Austur-Chouættin; 771-256 f.Kr.).  Á dögum Chou-ættarinnar þróuðust listir og siðmenning en vald stjórnendanna minnkaði.  Landið, sem var undir stjórn kínverja skiptist upp í mörg lítil kongungsríki.

Tímabilið milli 722 og 481 f.Kr. er oft kallað vor og haust meðal fræðimanna.  Þetta var tímabil Konfúsíuss, sem lifði á árunum 551-479 f.Kr., og menn lærðu að búa til járn.  Næsta tímabil, 481-221 f.Kr., þar til Chin-ættin komst til valda, var kallað Öld hinna stríðandi ríkja.

Chinættin komst á spjöld sögunnar, þótt hún sæti ekki lengi á valdastóli.  Hún markaði upphaf kínverska keisaradæmisins, því að hún sameinaði fleiri ólíkar þjóðir og þjóðflokka undir veldi sitt en dæmi voru um áður.  Nafnið Kína (China), sem vestrænar þjóðir nota yfir landið, er vafalítið dregið af nafni Chinættarinnar.  Á þessum tíma var lokið við byggingu múrsins mikla, sem varð eftirleiðis mesta og bezta vörn landsins gegn herskáum hirðingjum steppnanna í norðri.

Margar höfðingjaættir komust til valda á sama tímabili og hugmyndafræði Konfúsíusar ruddi sér til rúms.  Þá þróaðist stjórnarform, sem hélzt að verulegu leyti óbreytt fram á 20. öldina.  Fram að upphafi veldis mongóla (1280) skiptist á sameining og sundrung ríkinsins og oft stóð veldi og stjórn valdamanna skamma hríð.

Eftir að mongólar höfðu lagt undir sig Norður-Kína undir stjórn Djengis Khan árið 1211 tóku þeir Hangtshou árið 1276 undir forystu barnabarns hans, Kublai Khan, sem var fyrsti valdhafi Yuan-ættarinnar (1280-1368).  Höfuðborg þeirrar ættar var Dadu (Khanbaliq).  Hún var fyrsta borgin, sem var byggð, þar sem Beijing er nú.  Á dögum Kublai Khan fór Marco Polo í hina frægu Kínaferð sína.

Stjórn mongóla varð stöðugt veikari vegna innbyrðis deilna og erfiðleika í viðskiptum.  Eftir að þeir höfðu verið hraktir brott tók Mingættin (1368-1644) við völdum.  Hún var síðasta kínverska höfðingjaættin og höfuðborg hennar var Nanking, svo Beijing, sem varð áfram stjórnsetur landsins undir mandsjúrísku höfðingjaættinni Ching (1644-1912) og fram á þennan dag.

Menning blómstraði aftur undir stjórn Mingættarinnar, en Ching-ættin leiddi landið til hnignunar á síðari hluta 19. aldar og fyrst á 20. öld, þannig að við hruni lá.  Á seinni helmingi 19. aldar hófu erlend stórveldi, einkum Evrópuveldi, viðskipti við Kína og lögðu undir sig stór landssvæði sem áhrifasvæði.  Kristnir trúboðar komu í hópum til að stuðla að siðbót.  Stóra-Bretland lagði undir sig Hongkong og knúði fram opnun fimm hafna fyrir viðskipti sín í kjölfar fyrsta 'ópíumstríðsins' (1839-1842).  Kína varð að gefa enn frekar eftir í samningunum, sem gerðir voru við Frakka og Breta í Tientsin (1858), þ.á.m. að auka frelsi kaupmanna til viðskipta og taka við sendiherrum í Beijing.

Frá 1850 til 1864 skók Taipinguppreisnin landið.  Hún beindist gegn mandsjúrum en koðnaði niður, þegar Evrópumenn lögðu ríkjandi höfðingjaætt lið gegn uppreisnarmönnum.  Kínverjar urðu síðan fyrir mikilli niðurlægingu, er þeir biðu lægri hlut í kínversk-japanska stríðinu 1894-1895.  Þeir urðu að láta Japönum eftir stór landssvæði, þ.á.m. eyjuna Formósu (Taiwan).  Um aldamótin 1900 var Kína komið að hruni undir stjórn mandsjúra og undir járnhæl og áhrifum erlendra viðskiptahagsmuna.

Boxarauppreisnin árið 1900 beindist að því, að gera Kínverja óháða erlendum stórveldum.  Hún hófst að undirlagi Kantonmannsins Sun Yat-sen (1866-1925), andlegs leiðtoga og skipuleggjanda hennar.  Hann leiddi uppreisnina frá Wuchang 10. oktober 1911.

Eftir að Chingættin var hrakin frá völdum var Kína lýst lýðveldi hinn 1. janúar 1912.  Keisarastjórnin sagði af sér 12. febrúar 1912.  Fyrsti þjóðhöfðinginn var Sun Yat-sen.  Hann lét af völdum sama ár og fékk þau í hendur yfirmanni hersins, Yuan Shih-kai, til að stuðla að einingu milli suður- og norðurhluta landsins.  Það kom í ljós að þessi kostur var slæmur, því að Yuan leiddi land sitt fram á barm glötunarinnar.  Hann dó árið 1916.  Eftirmenn hans voru úr hernum og þeir stefndu að því að gera Kína að einvaldsríki á ný.  Flokkur Sun Yat-sen, Kuomintang, sem hann stofnaði árið 1912 barðist gegn þessari þróun.  Herstjórnin olli óróa meðal þjóðarinnar, einkum meðal stúdenta, og mótmæli voru tíð.  Fjórða maí-hreyfingin (1919) snérist gegn friðarráðstefnunni í Versölum, þar sem fulltrúar frá yfirráðasvæðum Þjóðverja og Japana í Kína sátu en engum frá hinu frjálsa Kína var boðin þátttaka.

Árið 1926 tókst Kuomintang undir forystu Tshiang Kai-shek (1887-1975) með aðstoð kommúnista að sameina Kína nokkurn veginn eftir tveggja ára herferð gegn Norðanmönnum.  Tshiang, leiðtogi KMT-stjórnarinnar á árunum 1926-1937, reyndi að koma á reglu í ríkinu.  Tengsl hans við Vestur-veldin veiktu stöðu hans meðal þjóðarinnar og þar að auki var stjórn hans spillt.  Hún útilokaði alla stjórnmálaflokka frá þátttöku í stjórn landsins, þar á meðal Kommúnistaflokkinn undir stjórn Mao Tse-tung (1893-1976).  Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að brjóta andstöðu kommúnista í Kiangsihéraði á bak aftur, tókst það ekki fram til 1934.  Fimmta tilraunin neyddi kommúnista til að fara í hina sögulegu 12500 km göngu, gönguna miklu, alla leið til Yenan í norðurhéraðinu Shensi.

Árin 1931/32 fengu Japanar yfirráð yfir Mandsjúríu, sem þeir nefndu Manchukuo.  Í kínversk-japanska stríðinu (1937-1945) gerðu Japanar allt til að auka áhrif sín á kínversku landi, einkum í norðurhlutanum og í strandhéruðunum.  Eftir bitrar innbyrðis deilur sameinuðust kommúnistar og Kuomintang gegn Japönum, sem hurfu þó ekki frá Kína fyrr en í lok síðari heimsstyrjaldarinnar.

Eftir frelsun Kína höfðu kommúnistar yfirhöndina yfir hinum marg-klofnu samtökum Kuomintang.  Þeir lýstu yfir stofnun Kínverska alþýðulýðveldisins með Beijing sem höfuðborg hinn 1. oktober 1949.  Tshiang Kai-shek og fylgismenn hans flúðu til Taiwan og lýsti yfir stofnun Lýðveldisins Kína nokkrum mánuðum síðar.  Stjórn hans gerði tilkall til alls Kína eins og stjórnin í Beijing gerði líka.

Strax eftir valdatökuna hófu kommúnistar iðnvæðingu landsins af fullum krafti.  Árið 1958 var unnið að því að færa viðskiptalíf landsins til nútímans á mettíma undir kjörorðunum „stóra stökkið fram á við”.  Landbúnaðurinn var endurskipulagður og samyrkjubú voru stofnuð.  Á árunum 1959-1961 urðu miklir afturkippir í þróuninni vegna náttúruhamfara og slakrar stjórnsýslu.  Enn hallaði undan fæti, þegar Sovjetmenn hættu allri aðstoð, bæði tæknilegri og viðskiptalegri.

Þegar landið fór að rétta úr kútnum á ný eftir allar þessar hremmingar, færði Menningarbyltingin (1966) kínverja aftur á byrjunarreitinn.  Hún var nokkurs konar hernaðaraðgerð gegn smáborgaralegum hugsunarhætti, sem Liu Shao-tshi var sagður bera ábyrgð á og hafði sundrað kínversku þjóðinni.  Hugsanir Maós voru settar á oddinn, rauðir varðliðar fóru eins og logi um akur og tortímdu öllu, sem minnti á smáborgarahátt og flestir meðlimir miðstjórnar KPCh urðu að víkja.  Frelsisherinn, sem var þegar ríkjandi afl í stjórnmálalífi landsins, færðist í aukana og réði loks öllu, sem hann vildi.  Í lok ársins 1968 stjórnaði byltingarráðið landinu.  Það byggðist á Kommúnistaflokknum, fjöldahreyfingum landsins og hernum.

Í apríl 1969 kaus 9. flokksþingið miðstjórn og þá hófst endurreisn ríkisins, flokksins og viðskiptalífsins.  Eftir að Lin Piao féll í ónáð 1971 og lézt og eftir inngöngu Kína í Sameinuðu þjóðirnar (í stað Taiwan, sem var ýtt út úr samtökunum) opnaðist landið til vesturs.  Nixon Bandaríkjaforseti heim-sótti Kína 1972.  Tilgangur heimsóknarinnar var margþættur en áherzla var lögð á að reyna að leysa Formósumálið (Taiwan).  Bandaríkjamenn opnuðu tengiskrifstofu í Beijing og kínverjar í Washington áður en sendiráð voru opnuð.  Forsætisráðherra Japans, Kakuei Tanaka, heimsótti Kína líka árið 1972 til að stuðla að því, að löndin tækju upp eðlilegt samband.  Fram til ársins 1975 slitu flest ríki opinberum samskiptum sínum við Kínverska lýð-veldið, Taiwan, og tóku í staðinn upp opinber viðskipti við Kínverska alþýðulýðveldið.

Tíunda þing Kommúnistaflokksins árið 1973 var helgað endurhæfingaráformum Lin Piao.  Árið eftir logaði landið í innanríkisdeilum um trúmál og endurvakningu hugmyndafræði Konfúsíusar.  Fjórða þjóðþingið, sem kom saman eftir tíu ára hlé árið 1975, samþykkti einfalda stjórnarskrá, byggða á hugmyndum Maós.  Í henni var losað um ýmis höft.  Stéttarfélög fengu verkfallsrétt, rýmkað var um rétt fólks til að tjá skoðanir sínar á stjórn landsins o.fl.

Að Tshou En-lai látnum (7. jan. 1976) tók Hua Kuo-feng við stjórnartaumunum og vinstri armur Kommúnistaflokksins komst til áhrifa um sinn.  Pólitískar árásir á Teng Hsiao-ping urðu heiftugri og komu skýrar upp á yfir-borðið.  Hann var leystur frá öllum ábyrgðarstöðum í flokknum og í stjórn landsins í apríl.  Þegar Maó lézt í september sama ár, varð Hua Kuo-feng líka flokksformaður.  Strax í kjölfarið var fjórmenningaklíkan með ekkju Maós, Tshiang Tshing, sett í fangelsi.

Í júlí 1977 var Teng Hsiao-ping lýstur endurhæfður og skipaður varaformaður flokksins, varaforsætisráðherra og formaður herforingjaráðsins.  Þessi nýja þróun náði inn á 11 flokkþingið.  Þar var öllum vinstri öfgamönn-um vikið úr áhrifastöðum flokksins.  Róttækar skoðanir byltingarinnar varð-andi uppeldi, iðnað, listir, vísindi og tækni voru endurskoðaðar og komizt var að niðurstöðu, sem hefði verið óhugsandi og bönnuð á tímum menningar-byltingarinnar sem endurskoðunarsinnuð og smáborgaraleg.  Nýju valdhafarnir lýstu því yfir, að stefnt væri að því að gera Kína að nútímakommúnistaríki fyrir næstu aldamót.  Maó var samt hátt skrifaður áfram.  Jarðneskar leifar hans lágu smurðar í risastóru grafhýsi við Tienan-Men-torg og Hua Kuo-feng, eftirmaður hans, lét gefa út níu binda verk hans.  Árið 1980 varð Hua að láta stjórnartaumana í hendur Tshao Tse-jong og ári síðar missti hann formannsembætti sitt í flokknum.  Hu Yao-bang tók við því.

Að loknum eins mánaðar réttarhöldum í máli fjórmenningaklíkunnar var kveðinn upp dómur árið 1981.  Tshiang og róttæki fræðimaðurinn Tshang Tshun-tshiao voru dæmd til dauða og aðrir ákærðir fengu langa fangelsisdóma en árið 1983 var dauðadómunum breytt í ævilangt fangelsi.  Meðal hinna ákærðu voru fjórir herforingjar, sem studdu Lin Piao í byltingartilraun sinni og nokkrir foringjar vinstri arms Kommúnistaflokksins, sem voru dæmdir fyrir andóf og andbyltingarstarfsemi.

Árin, sem Teng Hsiao-ping hélt um stjórnartaumana, voru tímabil stöðugleika.  Efnahagslegar umbætur opnuðu möguleika til stofnunar einkafyrirtækja, ollu framleiðsluaukningu í iðnaði og metuppskeru.  Maóistar héldu áfram andspyrnu sinni.  Haustið 1983 myndaðist hreyfing gegn spillingu í Kommúnistaflokknum og viðskiptalífinu.  Henni var líka beint gegn háværri gagnrýni á hugmyndafræði marz-lenín-maóista og hugsanlegri andlegri mengun.  Sumarið 1983 hófst barátta gegn glæpum.  Samkvæmt upplýsingum frá starfsfólki sendiráða í Kína voru nærri 10.000 manns líflátin fyrir afbrot og glæpi, þjófnað, smygl og morð, innan níu mánaða frá upphafi baráttunnar.

Í lok 1984 komust kínverjar og Bretar að samkomulagi um framtíð krúnunýlendunnar Hongkong eftir tveggja ára viðræður.  Kínverjar skyldu fá yfirráð yfir Hongkong hinn 1. júlí 1997 og þeir skuldbundu sig til að veita svæðinu strax heimastjórnarrétt, virða réttindi borgaranna og kapitalíska uppbyggingu viðskiptalífsins.

Heimsókn kínverska forsætisráðherrans, Tshao Tse-jang, í Þýzkalandi í júní 1985 vakti mikla athygli, einkum meðal fólks í viðskiptalífinu.  Hann tilkynnti jákvæðan viðskiptajöfnuð Kína eftir sex ára umbótatímabil og framhald stefnu stjórnar sinnar um að halda landinu opnu.

Í júlí 1985 undirrituðu Kína og Sovjetríkin viðskiptasamning, m.a. til að leggja áherzlu á vilja beggja ríkjanna til að koma á eðlilegu sambandi á milli þeirra til frambúðar.  Samkvæmt samkomulaginu áttu bæði ríkin að stuðla að auknum vöruviðskiptum á milli landanna fram til ársins 1990.

Í september 1985 drógu 131 framámenn í hernum og félagar í KPCh sig í hlé í kjölfar kynningar stefnu Teng Hsiao-ping um að setja yngri menn í opinber embætti.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM