Tanzhe
Si (klaustur tjarnarinnar og villtu mórberjanna), eitt stærsta búddaklaustur
á Beijingsvæðinu, er 40 km vestan borgarinnar.
Núverandi mannvirki þess eru frá Ming- og Qing-tímunum en
samt á það sér rúmlega 1600 ára gamla sögu.
Dóttir Kublai Khan dvaldi þar mörg ár sem nunna.
Nokkur trjánna í húsagörðunum eru sögð vera yfir 1000 ára
gömul. Vegurinn til
klaustursins liggur fram hjá Jietai Si (Hofi prestvígslunnar).
Zhoudoudian
er fundarstaður Peking-mannsins' u.þ.b. 50 km suðvestan Beijing.
Dong
Ling (austurgrafsvæði Qing-ættarinnar) er 120 km austan borgarinnar. Sérstakt
leyfi þarf til þess að fá að heimsækja þessi svæði.
Grafreitir Qing-ættarinnar eru eitt tveggja slíkra svæða, sem
Mandshu-keisararnir völdu sér og ættingjum sínum.
Keisararnir Shunzhim Kangxi, Qianlong, Xianfeng og Tongzhe auk
Cixi og margra annarra keisaraekkna, hjákvenna og afkomenda voru
grafnir þar. Þrjár
grafir eru opnar til skoðunar. Vesturgrafasvæðið
er jafnan lokað.
**Ming-grafirnar
(Ming Shisan Ling = Þrettán Ming-grafir) eru í fjöllum girtum dal u.þ.b.
50 km norðan Beijing. Handan
ljóss marmarahliðs frá 1541 er 'Stóra rauða hliðið'.
Það var eitt sinn hluti múrs, sem lokaði dalnum til suðurs.
Þaðan liggur hinn 600 m langi, heilagi vegur til grafanna.
Hann er prýddur 36 *styttum vaktmanna, þjóðsagnavera og dýra
(ljóna, hrúta, kameldýra, fíla, nashyrninga, hesta, kynjadýra
o.fl.; frá upphafi 15.aldar).
Stórkostlegasta
gröfin, Chang Ling,
tilheyrir Yogle keisara (1403-1424).
Hún er umgirt múr. Lingen
Men (Hlið hinnar frábæru náðar) opnar leið að gulþektri Lingen
Dian (Höll hinnar frábæru náðar).
Óraskaður grafhaugur (1500 m hringferill) er aðeins fjær.
Ding Ling,
gröf Wanli keisara (1573-1620) og eiginkvenna hans tveggja er líka skoðunarverð.
Dýrgripir úr gröfunum eru til sýnis í sýningar-sal.
Gröfin sjálf með fimm samtengdum grafhýsum er opin til skoðunar.
Í aðalgrafhýsinu eru þrjú ölturu.
Fyrir framan þau er eitt altari með lágmyndum, fimm gul ílát
og 'Lampinn eilífi', skreyttur bláum drekum.
Í bakherberginu eru líkkisturnar og eftirlíkingum annarra
gripa, sem fundust upprunalega með þeim.
Hinar
grafirnar eru líka til sýnis en þær eru í verra ástandi.
Þar sem fáir sýna þeim áhuga, hafa þær yfir sér rólegan
og ekta fegurðarblæ, sem hinar velbúnu hafa ekki.
Á
Ming-reitnum stóð til að afmarka ferðamannasvæði.
Þar á að rísa safn fyrir mestu dýrgripi grafanna og sædýrasafn
úr gleri (Níudrekahöllin). Þar
var áætlað að gera kynjalandslag með veiðitjörnum, golfvelli,
skeiðvöll, skotbakka, hellaíbúðir og reisa hirðingjatjöld og
veitingahús.
**Kínverski
múrinn
('Wanli Chang Cheng' á kínversku = 10.000 mílnalangi múrinn; Jagan
Kerme á mongólsku) er u.þ.b. 80 km norðvestan Beijing.
Múrinn bugðast frá Gansu-héraði (Kansu) í vestri að
Shanhai-Guan-skarði í austri. Heildarlengd
hans er áætluð á milli 4000 og 6000 km og kínverskir vísindamenn
segja hann vera jafnvel 10.000 km langan. Múr var reistur snemma til varnar gegn árásum úr norðri,
allavega ekki síðar en á dögum Chou-ættarinnar á 3. öld f.Kr. Sumir kínverskir könnuðir segja, að múrar hafi risið þegar
á 7. öld f.Kr. Núverandi
múr, sem er að mestu úr múrsteinum var byggður í fyrsta lagi á
Ming-tímanum (14.-17.öld). Meðal-hæð
hans er 6-8 m, sums staðar allt að 16 m, og meðalbreidd efst er 6-7 m
með þakstöllum og vaktturnum. Í
Norður-Kína eru enn fleiri merki um aðra landamæramúra, sem eru víða
hér um bil vallgrónir. Einn þeirra, við Bada Ling, liggur næst Beijing.
Þar er hægt að fara í gegnum hlið og upp á 6,7 m háan múrinn.
Tientsin
(Tianjin á pinyin) er þriðja stærsta borg Kína (Shanghai og Beijing
eru stærri). Hún er í Hebei-héraði rúmlega 100 km suðaustan
Beijing á suðurbakka Hai Ho við mót Keisaraskurðarins.
Þar er stærsta manngerða höfn landsins og síðustu áratugi
hefur borgin orðið að einni mikilvægustu miðstöð iðnaðar og viðskipta
landsins. Frá 1860 til
stofnunar alþýðulýðveldisins bjuggu margir útlendingar í
borginni. Evrópski blærinn
er horfinn en samt standa enn þá byggingar frá þessum tíma.
Tientsin og Tanshan eyðilögðust í jarðskjálfta árið 1976.
Chengde
(Tshengteh) hét áður Jehol (vegna hvera á svæðinu).
Þar er óbrotin sumarhöll Qing-keisaranna.
Kangxi keisari lét reisa hana á árunum 1703-1790 sem sumaraðsetur
og nefndi hana Bihushanzhuang (Griðastaðurinn í fjöllunum fjarri
hitanum). Ming-keisararnir
dvöldu þar lengst af á heitasta tíma árs.
Umhverfis höllina eru fallegir lystigarðar og ár.
Eftir að Jiaqing keisari var lostinn eldingu þar árið 1820, féll
höllin í ónáð. Xianfeng keisari dó árið 1861 í Jehol en þangað hafði
hann flúið undan fransk-enska hegning-arleiðangrinum.
Mannvirkin eru að mestu í upprunalegri mynd og eru álitin hin
fegurstu sinnar tegundar í Kína.
Innan langra múranna eru margar hallir, þrjú hof og Wenjinge-bókasafnið
(1774) og utan múranna eru sjö hof, nokkur þeirra í tíbetskum stíl. Hið stærsta er Putuzongsheng Miao, sem Qianlong keisari lét
reisa með Potala í Lhasa að fyrirmynd.
Beidaihe
(Peitaiho) er þekktur sjóbaðstaður við Bohai-flóa, 300 km austan
Beijing. Útlendingar, sem
bjuggu í Beijing og Tientsin, sóttu til litla sjávarþorpsins, sem þar
var á 19. öld, á sumrin. Flest
einbýlishúsin og gisti-staðirnir eru nú ætlaðir kínversku forréttindafólki.
Þó á Alþjóðaklúbburinn þar rúmgott en fátæklega búið
hús, þar sem útlendingar geta dvalið.
Bað-strendurnar fyrir kínverja og útlendinga eru aðskildar.
Andstætt stóru borg-unum er andrúmsloftið þarna hressandi, rólegt
og heilsusamlegt.
Hægt er að fara í
dagsferð frá Beidaihe til Shanghai-Guan-skarðsins, þar sem
austurendi Kínverska múrsins er. |