Peking Beijing skoðunarvert Kína,
Flag of China

NÁGR. BEIJING FJÆR BEIJING . .

PEKING - BEIJING
SKOÐUNARVERÐIR STAÐIR
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

**Tianan Men Guangchang (Tianan Men-torgið = Torg hliðs hins himneska friðar) í miðri borginni var gert árið 1651 og stækkað í rúmlega 40 ha árið 1958.  Á því fara fram alls konar fjöldasamkomur, einkum tengdar þjóðhátíðardegi kínverja, 1. oktober.  Torgið er u.þ.b. við miðjan norður-suður öxul borgarinnar.  Það nær nyrzt að ytri múrum gömlu Keisaraborgarinnar, hinu stórfenglega Hliði hins himneska friðar.  Núverandi steinhlið var byggt árið 1651 í stað eldra tréhliðs, sem brann.  Miðhliðið (5 alls) var ætlað keisar-anum einum, þegar hann heimsótti himnamusterið til að færa fórnir og biðja um góða uppskeru eða þegar hann yfirgaf höfuðborgina til ferðalaga um ríki sitt.

Allra syðst á Tianan Men-torginu er Qian Men (Fremra hlið; áður Zhengyang).  Það var eitt sinn hluti múrsins á milli Tatara- og Kínverjaborga en stendur nú stakt við breiða götuna, sem lá fyrrum meðfram honum til vesturs og austurs.  Vestan torgsins er Stóra þjóðarhöllin (1958) með stórum samkomusölum (10.000 sæti í þeim stærsta), leikhúsi og þjónustuherbergjum þjóðþingsins.

Árið 1958 var byggingu Kínverska sögu- og byltingarsafnsins lokið austanvert við torgið.  Í tveimur deildum er rakin saga Kína frá upphafi til Ópíumstríðsins (1839-1842) og sagan síðan þá til nútímans.

Á miðju torginu gnæfir Minnismerkið um hetjur þjóðarinnar (1958), 36 m hár einsteinungur með textum Maós á norðurhlið og Tshou En-lais á suður-hlið.  Á sökkli þess eru lágmyndir frá byltingunni.

Beint aftan við minnismerkið er grafhýsi Maós, þar sem smurður líkami hans liggur í glerkistu (CITS skipuleggur tvær heimsóknir í hverri viku).  Með-fram torginu sunnanverðu til austurs og vesturs liggur breiðgatan Xi Chang An Jie.

Sé farið um Hlið hins himneska friðar til norðurs er fyrst komið inn í garð, þar sem stríðsföngum Ming- og Qing-keisaranna var haldið, og síðan í gegnum Duan Men (Duan-hliðið) inn á ílangt torg, sem endar við Vu-hliðið, aðalinngang Forboðnu borgarinnar.  Vestan þessa torgs er Zhongshan Gongyuan (Sun-Yat-sen-garðurinn), skírður eftir stofnanda fyrsta kínverska lýðveldisins, sem tók sér nafnið Sun Zhongshan í Japan.  Þegar gengið er í gegnum garðinn ætti að gefa sértakan gaum að minnismerki Sun Yat-sen, fallegu laufskálunum og altari uppskeru og jarðar (15.öld).  Við austurhlið torgsins er Minzu Wengua Gong (menningarhöll verkamannanna) umkringd görðum.  Inni í henni er áamusteri Tai Miao.


**Forboðna borgin (Zijincheng), hin eiginlega keisarahöll (Gugong), sem er nú hallarsafn, nær yfir meira en 110 ha.  Umhverfis hana er 50 m breiður skurður fullur af vatni og 10,7 m hár múr.  Á dögum Yuan-ættarinnar stóð þar fyrsta höllin, sem Ming-keisarinn Yongle (1403-1424) lét endurnýja fullkomlega á árunum 1407-1420.

Wu Men (Miðdagshliðið) er krýnt fimm laufskálum með gulum þökum.  Það er suðurinngangurinn og hið stærsta hinna fjögurra hliða hallarsvæðisins.  Hliðið var byggt árið 1420 og endurnýjað árin 1647 og 1801.  Norðan Wu Men er stór steinlagður húsagarður, þar sem fimm marmarabrýr brúa Gull-vatnsána.  Báðum megin garðsins voru keisarabúðirnar undir þaki langra ganga.  Við hátíðleg tækifæri komu virðingarmenn þessa leið inn í Forboðnu borgina, hermenn um vesturhliðið og almennir embættismenn um austurhliðið.

Norðan við torgið opnast Taihe Men (Hlið hins mesta samhljóms) inn í fyrstu og stærstu hátíðarhöllina, Taihe Dian (Höll hámarkssamhljómsins), sem var upprunalega byggð árið1669 og endurnýjuð 1765.  Hin 64 m langa, 35 m breiða og 26,5 m háa höll var krýningarsalur og keisararnir notuðu hann við sérstök tækifæri.  Hún stendur uppi á þriggja þrepa marmarapalli.  Fyrir ofan marmarastéttina, sem er skreytt drekum og fönix, eru tákn orkunnar (bronz-skjaldbökur), langlífis (bronztrönur) og réttlætis og miskunnar keisaranna (sól-úr og keisaralegur kornmælir).

Á pallinum á bak við Taihe Dian er Zhonghe Dian, (Höll fullkomins samræmis), þar sem keisararnir gengust undir síðasta undirbúning opinberra athafna og skoðun nýrra kornuppskerna.  Bak við Zhonghe Dian er hin þriðja stóru hallanna, Baohe Dian (Höll varðveizlu samræmisins; endurnýjuð 1765), þar sem keisararnir tóku á móti ættafurstunum og veittu afburðanemendum viðurkenningar.  Hallirnar þrjár eru úr lökkuðum viði með gulum tígulsteinaþökum.

Norðan hátíðahallanna er Qiangqing Men (Hlið hins himneska hreinleika), sem opnar leið til inngarðs Forboðnu borgarinnar.  Þaðan liggur leið um hlið til hægri að Dong Liu Gong (austurhöllunum sex), sem voru að mestu leyti ætlaðar konum keisarafjölskyldnanna, og að Zhai Gong (Höll hófseminnar; Yongzheng keisari byggði hana árið 1731).  Þarna er líka Ningshou Gong (Höll friðar og langlífis), sem Qianlong keisari lét reisa sér til elliáranna.  Keisaraekkjan Cixi ætlaði að draga sig í hlé þar eftir að Guangxi keisari tók við krúnunni.  Í þessum hluta Forboðnu borgarinnar eru nú söfn keramíkmuna, málverka, bronzmuna og dýrgripa keisaranna.

Gangurinn vestan Qiangqing Men liggur að Yangxin Dian (Höll andans), sem var aðallega vinnustaður og fundarherbergi keisaranna, og að Xi Liu Gong (vesturhöllunum sex), þar sem íbúðir maka og ekkna keisaranna voru.

Í Changchun Gong (Höll hins eilífa vors) eru fallegar veggmyndir úr kínversku smásögunni "Draumur rauða herbergisins".  Þar bjó keisaraekkjan Cixi á valdatíma Tongzhe (1862-1875)

Norðan Qiangqing Men eru Hou San Gong (Bakhallirnar þrjár):  Qiangqing Gong (Höll hins himneska hreinleika), sem var svefnstaður Ming- og fyrstu Qing-keisaranna, en var notuð síðar fyrir veizlur og móttökur.  Árið 1922 fór þar fram hjónavígsla síðasta Qing-keisarans, Puyi;  Jiaotai Dian (Höll sameiningarinnar; 1420; endurnýjuð 1655) var upprunalega krýningar-salur og varðveizlustaður keisarainnsiglisins;  Í Kunning Gong (Höll jarð-neskrar rósemdar) bjuggu Ming-keysaraynjurnar.  Hliðarsalur í austurálmunni var brúðkaupsherbergi þriggja Qing-keisara.  Þar voru guðunum líka færðar fórnir.

Norðar, neðan Kunning Men (Hliðs jarðneskrar rósemdar) er keisara-garðurinn Yuhua Yuan, sem var gerður á Ming-tímanum og var ætlaður keisaranum og hirð hans.  Sé farið um tvö lítil hlið í norðurhluta hans, blasir við hið breiða 'Hlið guðlegs hugrekkis', Shenwu Men (1420).  Í því voru bjalla og bumbur, sem notaðar voru til að gefa tímamerki fyrir hirðina.

Bezta útsýnið yfir hallasvæðið er frá Kolahóllinn (Mei Shan eða Jing Shan = Kögunarhóll).  Hæðin er rétt norðan 'Hliðs hins guðlega hugrekkis'.  Hún varð til á 13. öld, þegar jarðvegi úr virkisgröfunum var hrúgað upp, og er hæsti staður lystigarðsins.  Tréð, sem síðasti Ming-keisarinn hengdi sig í árið 1644 eftir að Mandsúraherinn hafði lagt ríki hans undir sig, stendur enn þá.  Sagt er að keisarinn hafi falið kolabirgðir sínar í hólnum án þess að það sé staðfest.


Bei Hai Gongyuan (Garður Norðurvatns) er vestan Kolahólsins.  Hann hefur verið vinsælasti útivistarstaður Beijing um aldir.  Norðurvatn (Bei Hai) tengist öðrum tveimur vötnum norðvestan og vestan Forboðnu borgarinnar.  Svæðið í kringum hin vötnin tvö, Zhong Hai (Miðvatn) og Nan Hai (Suður-vatn), er lokað almenningi, því að þar búa margir stjórnmálaforingjar landsins.  Umhverfis vötnin eru fagrir garðar, víðitré standa á vatnsbökkunum og margir stígar liggja um garðana.

Upprunalega var Norðurvatnsgarðurinn gerður á 10. öld en endurskipu-lagður á tímum Qing-keisarans Qianlong (1736-1796).  Í kjölfar mikillar vinnu við lagfæringar í garðinum hafa mörg musteri verið opnuð almenningi.


Tuancheng (Kringlótta borgin), rétt við suðurinnganginn, er kjarni hins gamla Da Du (oft endurnýjað).  Múrarnir eru frá 1417, gömlu, hvítu völsku fururnar eru sagðar enn þá eldri.  Í laufskálunum eru haldnar listsýningar af og til.

Qiong Hua (Hortensíueyja) er í suðurhluta Norðurvatns.  Á henni gnæfir Baita, hvít dagóba (helgidómaskríni Búdda eða annarra heilagra búdda-manna), sem var byggð í tíbetskum stíl í tilefni heimsóknar Dalai Lama 1651 á rústum eldri hallar.  Á eyjunni eru fleiri hallir, paldrar og laufskálar.  Útsýni til Wulong Ting (Fimmdrekaskálans) á norðurbakka vatnsins er fallegt frá yfirbyggðum, bugðóttum gangstíg á norðanverðri eyjunni.

Í vesturhluta fyrrum Tararaborgarinnar, u.þ.b. 2 km vestan Norðurvatns, er Baita Si (Hof hvítu dagóbunnar) í tíbetskum stíl.  Hofið er frá dögum Yuan-ættarinnar og var endurnýjað fyrir skömmu.  Þar eru búddalíkneski, tíbetsk málverk, gamlar sútrur (búddahandrit; samtöl Búdda) og fleiri munir, sem uppgötvuðust við endurnýjunarvinnuna.


Í suðausturhluta 'Kínverjaborgarinnar' gömlu, 3,5 km suðaustan 'Hliðs hins himneska friðar' er **Tian Tan (Himinhofið: Himnaaltarið), sem Yongle keisari lét reisa árið 1420.  Árið 1753 var það endurnýjað og síðar var það oft lagað og fegrað.  Allt til árisins 1912 var það lokað almenningi, þar sem það var helgað dýrkun himinsins.  Keisarinn, sonur himinsins, var hinn eini, sem fékk að stíga þar niður fæti.  Múrinn umhverfis hofið er ávalur að norðanverðu og hornóttur að sunnan.  Bezt er að fara um Xitian Men (Vestra himinshliðið) að innri múrunum, sem eru í sama formi og hinn ytri.  Qinian Dian (Bænahöll fyrir góðri uppskeru) brann, þegar eldingu laust niður í hana árið 1889.  Hún var strax byggð upp aftur eftir gömlum teikningum (án nagla).  Hún er 37,5 m há og stendur á hringlaga grunni á þreföldum marmarapalli.  Yfir þremur skærbláum þökum hennar gnæfir gylltur kúpull.  Huangqiongqu (keisaralega himinhvolfið) er frá 1630 (endurnýjað 1753).  Það er 19,3 m hátt og á því hvílir gullkúluþak.

Huanqiu Tan (Altari himinhvolfsins) er umgirt ferhyrningslaga ytri- og kringlóttum innri múr.  Hljómburðurinn meðfram innri múrnum er slíkur, að leggi fólk eyra að honum, heyrir það jafnvel hljóðskraf hinum megin við hofið.

Vestanvert við og andspænis Tian Tan var eitt sinn mikilvægt hof, sem var helgað akuryrkju.  Það varð að víkja fyrir íþróttavelli og sundlaug.

Í suðvesturhluta miðborgarinnar er Fayuan Si (musteri lindar laganna), 3 km suðvestan 'Hliðs hins himneska friðar' í grennd við Qingzhen Si (Hof hreinleikans),  mosku, sem var stofnuð á Song-tímanum.  Musterið er frá tíma Tang-ættarinnar (oft endurnýjað) og er því hið elzta sinnar tegundar í borginni.  Inni í því eru búddalíkneski, tréskurðarverk og dýrmæt handrit (hægt að skoða).  Búddaskólinn er líka í musterinu.

Í fyrrum sendiráðahverfinu, austan Tianan-Men-torgs, sem boxarar (leynifélag hnefaréttar-byltingarmanna) réðust inn í árið 1900, voru erlend sendiráð til ársins 1949.  Þar standa einu húsin í evrópskum stíl, að hluta í góðu ástandi, þótt þau hafi margoft eyðilagzt.  Nokkur þeirra eru gestabúst-aðir ríkisstjórnarinnar.


Yonghe Gong eða Yung He Gung lamahofið í norðaustanverðri borg-inni, 5 km frá Tianan Men-torgi var fæðingarstaður og höll síðar verðandi Qing-keisarans, Yongzheng.  Höllin var upprunalega byggð árið 1694.  Sam-kvæmt hefðum var henni breytt að hluta í musteri eftir krýningu Yongzhengs árið 1723.  Sá hluti hallarinnar, sem var ætlaður keisaranum, brann til kaldra kola  árið 1725 en hofhlutinn slapp.  Hofið hefur verið miðstöð rannsókna lamafræða síðan 1744.  Þar búa og starfa enn þá nokkrir munkar.  Þetta lama-klaustur var lagfært og endurnýjað á árunum 1979-81.  Í sölunum fimm eru búddalíkneski og í hliðarskálum eru nokkrar sérstæðar, tíbetskar bronzstyttur og tankas.  Í gulþektri 'Höll hins eilífa samræmis' er stytta af stofnanda regl-unnar, Zongkapa.  Í skála 'Hinna tíuþúsund hamingja' er nærri 23 m hátt Maitreya-líkneski úr tíbetskum sandelviði (18.öld).

Konfúsíusarmusterið (Kong Miao), vestan við og andspænis lamahofinu er nú Höfuðborgarsafnið (m.a. forleifar).  Í inngarðinum eru steintöflur (nokkrar frá Yuan-tímanum) með nöfnum allra þeirra, sem stóðust opinber próf, sem voru haldin á þriggja ára fresti.  Hátíðir til heiðurs Konfúsíusi og lærisveinum hans eru haldnar í musterinu þrisvar á ári.

Trumbuturninn (Gu Lou; byggður 1272; núverandi mynd frá 1420) og Bjölluturninn (Zhong Lou) eða 'Hof stóru bjöllunnar' (Dazhong Si) eru meðal skoðunarverðra staða Beijing.  Þeir standameð 100 m millibili um miðbik norðanverðrar miðborgarinnar.  Í Trumbuturninum var barið á risatrumbu við vaktaskipti hverja nótt.  Þeir eru frá tímum Yuan-ættarinnar og voru endur-nýjaðir eftir bruna árið 1745.  Bjölluturninn tók nafn af rúmlega 46 tonna *bronsbjöllu, sem var steypt árið 1406 og er talið afreksverk í málmsteypu.  Á bjöllunni eru 220.000 tákn úr Lótus- og demanta sútra-handritum búddadómsins.  Í forgarði turnsins eru margar litlar bjöllur.

Dýragarðurinn við norðvesturjaðar borgarinnar er heimsóknar virði.  Þar var áður keisaralegur lystigarður á Ming-tímanum en dýragarður síðan á Qing-tímanum, frægur fyrir stóru bambusbirnina (panda).

Skammt vestan dýragarðsins er Zizhu Yuan (Garður purpurabambuss-ins.  Þar eru þrjár manngerðar tjarnir frá Yuan-tímanum.  Garðurinn er vinsæll útivistarstaður, einkum, þegar lótusblómin blómstra á sumrin.

Norðan dýragarðsins er
Wu Ta Si (Hof hinna fimm pagóda; 1473), eftirmynd demantahofsins í Norður-Indlandi.  Neðri hluti þess er skreyttur flötum lágmyndum og höggmyndum (dýr, blóm, sanskrítáletranir).

Aðrir skoðunarverðir staðir í Beijing eru ölturu sólarinnar (í austanv. borginni), tunglsins (í vestanv. borginni) og jarðarinnar (í norðanv. borginni), Lu-Xun-bókmenntasafnið, Hersafnið, Náttúrusögusafnið, Listasafnið og Menningarhöll þjóðarbrotanna.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM