Hongkong ýmislegt Kína,
Flag of Hong Kong

Flag of China

SKOÐUNARVERT

HONGKONG
ÝMISLEGT
.

.

Utanríkisrnt.

 

Borgríkið Hongkong (Hong Kong á ensku; Xiang Gang á kínversku á Pin-yin) er á strönd Suður-Kínahafs á 30 km breiðum óshólmum Perluár (Chukiang, Zhu Jiang), sem kvíslast um þá.  Nákvæm lega þess skammt sunnan krabbahvarfbaugs er 22°9' og 22'37N og 113°62' og 114°30'A.  Nyrzt liggur það að Kína (Kwantung- og Guangdong-héruðum) og syðst að Kínahafi. Nafnið Hongkong þýðir 'Hið ilmandi sund' og nær til allrar krúnunýlendunnar bæði eyja og meginlandsins.  Heildarflatarmálið er 1045 km².

Nýlendunni tilheyra Hongkongeyja með stjórnsýslumiðstöðinni Victoria (fyrrum sjálfstæð borg; nú nefnd Central Distict), 'Kowloonskagi' (Kaulun) með samnefndri borg, fyrrum sveitarhéraðið New Territories og flestar eyjar fyrir ströndum þess.  Hverju þessara svæða er síðan skipt í hreppa.

Hongkong er á mörkum hitabeltisins.  Sumrin eru heit og rök og vetur svalir, þurrir og sólríkir.  Vor og haust eru mjög stutt.  Mesta úrkoman er á vorin og sumrin og þá er mikið skúraveður.  Meðalhitamismunur dags og nætur er 5,5°C.  Hitastig á sumrin er á milli 25°C og 31°C.  Loftrakinn vor og sumar (u.þ.b. 90%) er mjög þjakandi.  Fellibyljir eru algengir frá maí til oktober.

Á veturna fer hitinn sjaldan niður fyrir 10°C en fer yfir 20°C á sólríkum dögum.  Þægilegasti tíminn fyrir ferðamenn er síðla hausts og snemmvetrar (okt./des.).  Þá er oft heiður himinn og sólskin.  Á vorin (febr./marz) er mikill loftraki og þokusamt.  Sumarið hefst í maí.

Við manntal árið 1851 bjuggu 32.983 manns í nýlendunni, þar af 31.463 kínverjar.  Árið 1931 var íbúafjöldinn orðinn 878.947 (859.425 kínverjar).  Straumur löglegra og ólöglegra innflytjenda frá Alþýðulýðveldinu Kína og öðrum kreppusvæðum Austur-Asíu ollu mikilli fjölgun íbúa (1949/50 rúmlega 5,3 milljónir).  Fjölgunin hefur haldið áfram síðan og nú búa á sjöundu milljón manna í Hongkong.  98% íbúanna eru kínverjar, flestir frá Kanton og Hakka.  Brezku íbúarnir eru u.þ.b 20.000 (utan herliðs); u.þb. 13.000 eru Bandaríkjamenn og 84.000 frá öðrum ríkjum (einkum frá brezka samveldinu).  U.þ.b. 70% íbúanna eru fæddir í Hongkong.  Opinber tungumál eru kínverska (kantóníska) og enska.

Þrátt fyrir efnahagslega velmegun borgríkisins er félagslega kerfið vanþróað.  Ríkið leggur lítið fé til mennta- og heilbrigðismála og til stuðnings við aldraða og atvinnulausa.  Þess vegna er hyldýpisgjá milli hinna sárafátæku og vellauðugu.  Flóttamenn eru þjakandi vandamál fyrir ríkið.  Aðfluttir án ríkisfangs ('Squatter People') búa í kofaskríflum í fátækrahverfum í bröttum hlíðum eða koma sér  fyrir meðal bátafólksins (Tanka; u.þ.b. 50.000).  Báta-fólkinu hefur fækkað um 20% síðan 1976 vegna aðgerða hins opinbera í hús-næðismálum.

Þjóðfélagið er athyglisverð og umburðalynd blanda fólks af ýmsum þjóðernum.  Kínverjar eru stoltir af hefðum sínum, siðum og menningarlegum uppruna.  Líkt og önnur þjóðerni, búa kínverjarnir saman í hverfum.  Þeir kalla útlendingana 'Gwailo' (útlendir djöflar).  Blönduð hjónabönd eru tiltölu-lega algeng og ágreiningur milli þjóðerna telst til undantekninga.

Víða í Hongkong eru trúarlegar byggingar allra trúarbragða, hof, kirkjur, moskur og synagógur.  Óhætt er að fullyrða að flest trúarbrögð heims finnist í borgríkinu.  Búddatrú og taóismi eru ríkjandi og rúmlega hálf milljón kristinna iðkar þar trú sína.  Búdda- og taóhof eru rúmlega 600.  Hin fjögur þúsund ára kínverska menning á sér djúpar rætur og hefur ekki látið á sjá, þrátt fyrir stöðugan straum fólks frá öðrum löndum Asíu, Evrópu og víðar að, og ræður ríkjum í nýlendunni.


SAGAN
Hongkongsvæðið var þegar hluti Kína fyrir fjögur þúsund árum og deildi örlögum Kínaveldis fram á 19.öld.

Á 18.öld hófu Bretar viðskipti sín frá portúgalska verzlunarstaðnum Macao til Perlufljóts, allt til Kanton.  Innfæddir takmörkuðu samneyti sitt við útlendingana við viðskiptasviðið, þar eð þeir töldu menningu sína æðri menningu útlendinganna.  Þeir fengu hvort sem er nægilegt silfur fyrir teið og hið eftirsótta silki.  Þegar verzlunarjöfnuðurinn fór að verða Bretum óhagstæð-ur, byrjuðu þeir að greiða með ópíum fyrir vöruna.  Portúgalir höfðu flutt það til Kína þegar á 17.- og 18.öld.  Aðeins lítill hluti þess var nýttur í læknis-fræðilegum tilgangi og obbinn af því fór til ólöglegrar neyzlu þar til keisarinn bannaði viðskipti með ópíum árið 1729.  Samt óx innflutingurinn, einkum eftir að Brezka Austur-Indíafélagið einokaði bengölsku ópíumuppskeruna árið 1773.  Bretar fluttu rúmlega 1000 kistur af ópíum til Hongkong árlega, þegar mest var.  Kínverski keisarinn endurnýjaði bann sitt við innflutningi ópíums árið 1796.  Samt seldu Bretar kínverjum rúmlega 26.000 kistur af ópíum árið 1836.  Ástandið varð mjög eldfimt.  Kínverjar kröfðust þess, að hætt yrði að flytja ópíum til landsins, en Bretar höfðu engan áhuga á því og vísuðu til réttar síns til frjálsra viðskipta.  Þessar deilur leiddu til fyrra ópíumstríðsins (1840-1842) og Hongkong varð að hluta brezk krúnunýlenda.

Hongkongeyja, sem var þegar í höndum Breta, féll þeim í skaut við friðarsamningana árið 1842.  Eftir síðari ópíumstyrjöldina 1856-1858, við friðarsamningana í Peking 1860, urðu kínverjar að láta Bretum eftir Kowloon-skaga og Stonecutter-eyju.

Það var ekki fyrr en árið 1898, að Bretar hófu aðgerðir til að tryggja sig betur í sessi gagnvart samkeppnislöndum sínum á ströndum Kína.  Þeir gerðu m.a. samning við kínverja um afnot og yfirráð 959 km² svæðis í og við New Territories.  Þannig varð Kowloon-skagi og flestar eyjar fyrir ströndum hans að brezku áhrifasvæði, sem kínverjar gátu fræðilega hvorki gert tilkall til né haft afskipti af.  Samkvæmt samningnum áttu Bretar aðeins tilkall til New Territories-svæðisins í 99 ár eða til ársins 1997.  Þar er meiri hluti hins blómstrandi iðnaðar Hongkong.

Frá fjórða áratugi 19.aldar til fimmta áratugar 20.aldar, að undanskildri japönsku hersetunni 1941-1945, var Hongkong aðalmiðstöð viðskipta Kína við hinn vestræna heim.  Kóreustríðið (1950-1953) og viðskiptabann Bandaríkjanna á vopn og hernaðartæki veiktu þessa stöðu borgríkisins.  Til að komast yfir þessa erfiðleika varð að draga úr iðnaðarframleiðslu nýlendunnar og auka fjármálaviðskiptin.

Á árunum 1966-1968 olli kínverska menningarbyltingin mikilli andúð á Bretum og öðrum útlendingum í Hongkong.

Í árslok 1984 komu kínverjar og Bretar sér saman um að krúnunýlendan öll félli undir óskert yfirráð kínverja hinn 1. júlí 1997 með þeirri sérstöðu, að þar verði sérstjórn næstu 50 árin á eftir, sem tryggði áframhaldandi og óbreyttan rekstur fyrirtækjanna þar.

Hægt er að
upplifa gamla tímann í Kína, þar sem eru sýndar "Mandarínmyndir", sem eru framleiddar í Hongkong og einnig kanton-ískar myndir.  Sjónvarp og útvarp bjóða reglulega upp á kínverskar óperur og hinar hefðbundnu og litríku hátíðir eru haldnar með miklum tilkostnaði ár hvert.

Hongkongbúar taka lítið eftir erlendum gestu í amstri hversdagsins, þótt fjöldi þeirra sé mikill.  Verzlun og viðskipti miðast við mikil umsvif og verzlanirnar eru fullar af öllum hugsanlegum vörum.  Sérstaklega áberandi er framboð listmuna og handavinnu.  Veitinghúsin framreiða beztu kínversku rétti heims.  Höfnin er troðfull af fraktskipum, lystisnekkjum, bátum, junkum og sampans.  Gestirnir hrífast af yfirþyrmandi lífsorku og krafti íbúanna.  Afslöppun er ekki efst á blaði þeirra og veldur því miður oft framkomu, sem skortir kurteisi og umburðarlyndi.

Hongkong er ein miðstöðva heimsviðskiptanna, fjármálastofnana- og fyrirtækja, samgangna, iðnaðar og annars atvinnurekstrar.  Upphaflega opnaði Hongkong Bretum aðgang að meginlandi Asíu og kínverjum möguleika til aukinna viðskipta við önnur lönd.  Örlögin færðu og færa mörgum auðæfi eða örbirgð og hafa kennt íbúunum að reyna að nýta sér tækifærin með sveigjan-leika og standa af sér óáran. Þessi sveigjanleiki einstaklinganna og hófsemi yfirvalda í lagasetningu varðandi viðskiptalífið hefur gert Hongkong aðlaðandi í hinum alþjóðlega viðskiptaheimi.

Íbúar Hongkong þurfa eins og aðrir að rétta úr kútnum og slappa af frá erli dagsins, þótt þeir geri það í minna mæli en Evrópubúar.  Þeir eiga enn þá rólega griðastaði í New Territories, þótt þeim hafi fækkað með aukinni iðn-væðingu um árabil.  Þangað snúa erlendir gestir sér líka, séu þeir ekki komnir til að verzla eða sinna öðrum erindum.

Gestir, sem eru á hraðferð og hafa mikið að gera á meðan á dvöl stendur, geta líka gert ýmislegt til tilbreytingar.

Hongkong er ekki lengur ódýr.  Hin síðustu ár hafa flestar vörur og þjónusta hækkað verulega, þótt það sé ekki enn þá orðið ósanngjarnt.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM